Ferill 806. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2024  —  806. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Brynjari Níelssyni um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum.


     1.      Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?
    Þar sem ráðuneytið notar ekki verkbókhald liggur ekki fyrir hversu mikill tími hefur farið í að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum frá Alþingi. Svör við fyrirspurnum krefjast mjög mismikillar vinnu allt eftir eðli og umfangi fyrirspurnanna. Í mörgum tilvikum kalla fyrirspurnir einnig á umtalsverða vinnu hjá stofnunum ráðuneytisins. Heildarfjöldi fyrirspurna sem ráðuneytinu hefur borist frá Alþingi síðastliðin fimm ár eru 256 eða rúmlega 51 fyrirspurn að meðaltali á ári. Af þessum 256 fyrirspurnum var óskað eftir skriflegum svörum við 207 fyrirspurnum.

     2.      Hver er heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim?
    Ekki liggur fyrir hver heildarkostnaður ráðuneytisins er vegna skriflegra svara við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata eða hversu margar vinnustundir hafa farið í að svara þeim. Þegar þessar upplýsingar voru teknar saman hafði ráðuneytinu borist 44 fyrirspurnir til skriflegs svars frá Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi, þar af 21 frá þingflokki Pírata.

     3.      Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra?
    Af 21 fyrirspurn sem barst frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi voru 20 fyrirspurnir frá Birni Leví Gunnarssyni og ein frá Smára McCarthy. Fyrirspurnir Björns Levís eru því um 48% af fyrirspurnum til skriflegs svars á yfirstandandi löggjafarþingi en fyrirspurn Smára McCarthy rúmlega 2%.