Ferill 818. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2030  —  818. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Samkeppniseftirlitsins.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Samkeppniseftirlitið?
    Samkeppniseftirlitið er ríkisstofnun sem fer í umboði ráðherra með eftirlit á grundvelli samkeppnislaga, nr. 44/2005, og framkvæmd annarra stjórnsýsluverkefna svo sem nánar er kveðið á um í þeim lögum.
    Samkeppniseftirlitið fer auk þess með lögbundin verkefni samkvæmt eftirfarandi sérlögum:
    Lög um fjarskipti, nr. 81/2003.
    Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Lög um fjölmiðla, nr. 38/2011.
    Lög um opinber innkaup, nr. 120/2016.
    Raforkulög, nr. 65/2003.
    Upplýsingalög, nr. 140/2012.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Samkeppniseftirlitsins og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði er ekki deilt niður á hvert lögbundið verkefni í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks og þeim skipt niður í fjárveitingar til einstakra verkefna og ríkisaðila sem birtast í fylgiriti fjárlaga hverju sinni. Samkeppniseftirlitið heyrir undir málefnasvið 16 og málaflokk 16.10. Samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir að stofnunin hafi til ráðstöfunar 518 millj. kr. til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Skiptist fjárhæðin annars vegar í 504,7 millj. kr. framlag úr ríkissjóði og hins vegar 13,3 millj. kr. rekstrartekjur.