Ferill 836. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2035  —  836. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um ræstingarþjónustu.


     1.      Hvernig er ræstingu sinnt hjá þeim stofnunum sem eru á málefnasviði ráðherra? Óskað er sundurliðunar eftir stofnunum og að fram komi kostnaður árið 2019 þar sem þjónustan var aðkeypt og meðalfjöldi stöðugilda árið 2019 þar sem ræstingu er sinnt af starfsfólki á launaskrá.
    Allar stofnanir á málefnasviði ráðherra kaupa þjónustu við ræstingar en kostnaður árið 2019 var sem hér segir:

Kostnaður 2019
Ferðamálastofa 2.054.517
Hugverkastofa 2.322.873
Neytendastofa 2.560.965
Nýsköpunarmiðstöð 17.228.097
Orkustofnun 5.019.989
Samkeppniseftirlitið 3.024.202

     2.      Á hvaða hátt tryggir verkkaupi að ekki sé um félagsleg undirboð að ræða í þeim tilvikum þegar ræstingu er útvistað?
    Í samningum Hugverkastofu, Orkustofnunar og Samkeppniseftirlitsins við verksala er ákvæði um að upphæðir samnings breytist í samræmi við breytingar á kjarasamningum og að verksala beri að fylgja þeim. Ferðamálastofa, Neytendastofa og Nýsköpunarmiðstöð eru ekki með slík ákvæði í samningum en ráðuneytið hyggst beita sér fyrir því að það verði gert. Samkvæmt upplýsingum frá Nýsköpunarmiðstöð hefur stofnunin átt samtöl við þá einstaklinga sem sinna ræstingu til að ganga úr skugga um að kjör séu samkvæmt kjarasamningum.