Ferill 851. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2061  —  851. mál.
Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun?
    Húsnæðis- og mannvirkjastofnun starfar samkvæmt lögum nr. 137/2019, um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Í 2. gr. laganna kemur fram að stofnunin starfi að stjórnsýsluverkefnum á sviði húsnæðismála, mannvirkjamála, rafmagnsöryggismála og mála er varða byggingarvörur og brunavarnir. Um verkefni stofnunarinnar fer samkvæmt eftirfarandi lögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra:
          Lög um mannvirki, nr. 160/2010.
          Lög um húsnæðismál, nr. 44/1998.
          Lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016.
          Lög um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.
          Lög um byggingarvörur, nr. 114/2014.
          Lög um brunavarnir, nr. 75/2000.
          Lög um timbur og timburvöru, nr. 95/2016.
          Lög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, nr. 40/2015.
          Lög um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996.
          Efnalög, nr. 61/2013.
          Lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun, nr. 42/2009.
          Lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, nr. 146/1996.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Samkvæmt rekstraráætlun er gert ráð fyrir að stofnunin hafi til ráðstöfunar 2.387 millj. kr. til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Skiptist framlagið annars vegar í 798 millj. kr. framlag úr ríkissjóði og hins vegar 1495,5 millj. kr. framlag úr Húsnæðissjóði. Gert er ráð fyrir að 93,5 millj. kr. verði greidd með þjónustugjöldum og sértekjum.