Ferill 993. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 2066  —  993. mál.
Leiðréttur texti.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, með síðari breytingum (framlenging).

Frá atvinnuveganefnd.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Í stað dagsetningarinnar „31. júlí 2020“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 30. september 2020.
     b.      Lokamálsliður 2. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað dagsetningarinnar „1. september 2020“ í 1. málsl. 10. mgr. kemur: 1. nóvember 2020.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er samið í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, þess efnis að lögbundinn frestur seljenda pakkaferða til að sækja um lán úr Ferðaábyrgðasjóði verði framlengdur um tvo mánuði. Eftir sem áður þarf Ferðamálastofa að taka afstöðu til umsókna eigi síðar en 31. desember 2020 en það tímamark miðast við þær tímabundnu heimildir til ríkisaðstoðar sem veittar hafa verið af Eftirlitsstofnun EFTA og starfsemi sjóðsins grundvallast á.
    Þá er með frumvarpinu lagt til að það tímabil sem seljendur pakkaferða geta sótt um lán til Ferðaábyrgðasjóðs til að standa við endurgreiðslukröfur gagnvart neytendum samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun vegna afbókaðra og aflýstra pakkaferða verði framlengt um tvo mánuði. Samhliða er heimild ráðherra til að framlengja tímabilið með reglugerð felld brott.
    Ferðaábyrgðasjóði var komið á fót með lögum nr. 78/2020. Tilgangur sjóðsins er að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi seljenda pakkaferða og neytendur. Sjóðurinn veitir seljendum pakkaferða lán til að standa skil á endurgreiðslukröfum neytenda vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða þær verið afbókaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sökum kórónuveirufaraldursins. Í lögunum er miðað við ferðir sem áttu að koma til framkvæmda á tímabilinu 12. mars 2020 til og með 31. júlí 2020 en ráðherra er jafnframt heimilað að framlengja það tímabil með reglugerð. Í lögunum er einnig miðað við að umsóknir um lán skuli hafa borist Ferðamálastofu fyrir 1. september og að afstaða hafi verið tekin til allra umsókna eigi síðar en 31. desember 2020. Þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpi þessu er ætlað að bregðast við áhrifum af sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins sem ákveðnar voru með skömmum fyrirvara.
    Reglugerð nr. 800/2020, um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, var birt í Stjórnartíðindum 18. ágúst og tók gildi á miðnætti 19. ágúst. Reglugerðin mælir fyrir um að allir farþegar sem koma til Íslands frá löndum sem skilgreind eru sem áhættusvæði af sóttvarnalækni geti valið um að fara í 14 daga sóttkví við komuna eða fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli eða á öðrum landamærastöðvum og fara síðan í sóttkví þar til niðurstöður liggja fyrir úr seinni sýnatöku fimm dögum eftir komu til landsins. Frá 19. ágúst eru öll lönd og svæði heimsins skilgreind af sóttvarnalækni sem áhættusvæði og því tekur framangreind krafa til allra farþega sem koma hingað til lands erlendis frá.
    Ljóst er að reglugerð nr. 800/2020 er til þess fallin að hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu hér á landi og leiða til þess að pakkaferðum til og frá landinu verði aflýst eða þær afbókaðar þar sem reglugerðin hefur veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferða.
    Frumvarp þetta snertir hagsmuni bæði neytenda og seljenda pakkaferða sem eru með leyfi til ferðaskrifstofureksturs skv. 7. gr. laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018. Frumvarpið felur í sér tillögu um að seljendur pakkaferða geti sótt um lán úr Ferðaábyrgðasjóði vegna endurgreiðslukrafna neytenda vegna ferða sem er aflýst eða eru afbókaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra atvika. Með frumvarpinu er ekki tekin afstaða til einstakra ferða heldur er almenn heimild seljenda pakkaferða til að sækja um lán vegna slíkra ferða framlengd. Bráðabirgðaákvæði um Ferðaábyrgðasjóð felur ekki í sér mat á því hvenær endurgreiðsluskylda samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun er til staðar.
    Í fjáraukalögum fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 36/2020, sem samþykkt voru á Alþingi hinn 29. júní 2020 er fjármála- og efnahagsráðherra veitt heimild til að leggja fram allt að 4,5 milljarða kr. til Ferðaábyrgðasjóðs.
    Í lok ágústmánaðar höfðu borist 32 umsóknir um endurgreiðslur að fjárhæð tæpir 2,4 milljarðar kr. Að mati ráðuneytisins er því ljóst að framlenging tímabilsins ætti að rúmast innan þeirra fjárheimilda sem lagt var upp með að veittar yrðu úr sjóðnum, eða allt að 4,5 milljarðar kr., þegar litið er til þeirra umsókna sem þegar hafa borist sjóðnum og þeirrar staðreyndar að fram komnar umsóknir ná yfir það tímabil þegar áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á framkvæmd pakkaferða voru hvað mest. Fari svo að umsóknir um endurgreiðslur verði umfram þá fjárhæð þarf að mæta því með viðbótarfjárveitingu.