Ferill 972. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 2077  —  972. mál.
Viðbót.

2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar).

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.


    Fyrsti minni hluti vekur athygli á því að nefndinni var ætlaður allt of skammur tími til að fjalla um málið og veita álit sitt á þeim þáttum sem falla undir starfssvið nefndarinnar. Augljóst er að svo hraður málsmeðferðartími veitir nefndinni ekki heldur tækifæri til að bregðast við þeim álitaefnum sem nauðsynlegt er að finna lausn á, sér í lagi stöðu listafólks og flóknum ráðningarsamböndum. Í þessu samhengi telur 1. minni hluti ástæðu til þess að árétta mikilvægi þess að umsóknir til Vinnumálastofnunar hljóti skjóta afgreiðslu. Ljóst er að mikið álag hefur verið á starfsfólki stofnunarinnar en þá er enn meiri nauðsyn að tryggja stofnuninni þau stöðugildi sem þarf til að sinna þeim verkefnum. Þá bendir 1. minni hluti á að engar líkur eru á að atvinnuleysi minnki á næstu mánuðum, þvert á móti, og því sérstakt að ekki sé horft til aðgerða til lengri tíma í tillögum meiri hlutans. Auk þess hvort ekki sé ástæða til að skoða sérstaklega hvort réttur þeirra sem þiggja tekjutengdar bætur sé tryggður, t.d. ef þeir fá tímabundna vinnu. Þá er full ástæða til að leita leiða til að framlengja rétt þeirra sem missa bætur eftir 30 mánuði án atvinnu í ljósi þess ástands sem ríkir og blasir við næstu mánuði.
    Fyrsti minni hluti getur þó tekið undir ýmislegt í nefndaráliti meiri hlutans, eins og mikilvægi þess að tímabundinn réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta geti orðið allt að sex mánuðir og að ellilífeyrir komi ekki til lækkunar á hlutabótum. Þrátt fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til samkvæmt nefndaráliti meiri hlutans séu til bóta er það mat 1. minni hluta að þær breytingar gangi ekki nógu langt hvað varðar annars vegar réttindi foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem geta ekki sinnt störfum vegna lokunar skólastiga eða vegna þess að þjónusta liggur niðri vegna áhrifa faraldursins og hins vegar framlengingu á hlutabótaleiðinni.

Breyting á lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð fjallað um stöðu foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem geta ekki sinnt störfum vegna lokunar skólastiga eða vegna þess að þjónusta liggur niðri vegna áhrifa faraldursins, án þess að til komi sérstök tilmæli heilbrigðisyfirvalda. Fram kom að um 500 fjölskyldur eru í þeirri stöðu að geta ekki nýtt þá þjónustu sem börn þeirra þurfa vegna fötlunar sinnar og eiga lagalegan rétt á að nýta. Þá liggur fyrir að færri hafa nýtt sér þann rétt að sækja um tímabundnar greiðslur samkvæmt lögunum heldur en upphaflegt kostnaðarmat vegna laganna miðaði við. 1. minni hluti sér þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að skilyrði laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir verði útvíkkað og nái til foreldra í þessum tilvikum. Þá hefði verið betur fyrir nefndina að fjalla nánar um flókna stöðu sem fjölskyldufólk er í, svo sem um stöðu foreldra almennt vegna skerðingar á þjónustu og lokunar skólastiga sökum sóttvarnarráðstafana og foreldra þeirra barna sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, eins og bæld ónæmiskerfi, og er ráðlagt að sækja ekki þá þjónustu vegna hættu á smiti. Leggur 1. minni hluti því einnig til að hægt verði að greiða laun foreldra sem eru í slíkum aðstæðum.

Atvinnutengd starfsendurhæfing.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins verður heimilt að atvinnutengd starfsendurhæfing sem launamaður hefur stundað á þeim tíma sem hann telst óvinnufær svari til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, enda hafi hann sannanlega lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu.
    Í 9. gr. frumvarpsins er kveðið á um tímabundið átak stjórnvalda, Nám er tækifæri. Þannig er gert ráð fyrir að þeir sem hafa verið skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun og í virkri atvinnuleit í sex mánuði eða lengur eftir atvinnumissi fái tækifæri til að stunda nám sem fellur undir átakið, án þess að það hafi áhrif á rétt viðkomandi atvinnuleitanda til atvinnuleysistrygginga.
    Við meðferð málsins var bent á að meðaltími einstaklinga í atvinnutengdri starfsendurhæfingu er 13–14 mánuðir og á þessum tíma eigi sér stað mikil vinna með einstaklingnum sem krefst bæði tíma og virkrar þátttöku og mikil áhersla lögð á að efla starfsgetu og auka tengsl við vinnumarkaðinn. Að mati 1. minni hluta getur því staða atvinnuleitanda sem lokið hefur atvinnutengdri starfsendurhæfingu verið sambærileg þeim sem hefur verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu í a.m.k. sex mánuði. Sanngirnisrök hníga þess vegna að því að einstaklingar sem hafa lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu fái einnig tækifæri til að stunda nám sem fellur undir framangreint átak. 1. minni hluti leggur því til breytingar þess efnis á 9. gr. frumvarpsins.

Hámark ECTS-eininga.
    Með frumvarpinu er lögð til hækkun á leyfilegum fjölda ECTS-eininga, sem má stunda án þess að atvinnuleysistrygging skerðist, úr 10 í 12 ECTS-einingar. Að mati 1. minni hluta þarf að ganga mun lengra en það. Hækkun frumvarpsins virðist byggð á því að námsfólk á háskólastigi sé almennt í 6 eininga námskeiðum. Það er þó allur gangur á einingafjölda eftir fræðasviðum, deildum og námsleiðum. Sem dæmi má nefna að námskeið í grunnnámi við lagadeild Háskóla Íslands eru allt frá 5 ECTS-einingum upp í 18 ECTS-einingar og námskeið við íslensku- og menningardeild eru öll 10 ECTS-einingar. Þá miðast fullt nám við 30 ECTS-einingar og því veitir hækkunin stúdentum ekki meira svigrúm en fyrir 1–2 námskeiðum. 1. minni hluti leggur því til að hækka leyfilegan fjölda ECTS-eininga sem má stunda án þess að atvinnuleysistrygging skerðist úr 10 í allt að 22 ECTS-einingar.
    Fyrsti minni hluti vill jafnframt beina því til ráðherra að tryggja að rödd stúdenta heyrist við þá heildarendurskoðun sem nú er í vinnslu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Um 70% stúdenta vinna samhliða námi og í 86% tilvika er það til þess eins að geta framfleytt sér. Atvinnuleysistryggingasjóður er fjármagnaður með atvinnutryggingagjaldi sem greitt er af launum vinnandi fólks, þar á meðal stúdenta. Þrátt fyrir það er stúdentum ekki veittur réttur til atvinnuleysisbóta og þess öryggisnets sem þær veita þegar þörfin er mest.

Tímamark hlutabótaleiðar.
    Í frumvarpinu er lagt til að hlutabótaleiðin verði framlengd til 31. október 2020, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Samkvæmt nefndaráliti meiri hlutans er lögð til sú breyting að það tímabil verði framlengt til 31. desember 2020.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að óheppilegt væri að framlengja hlutabótaleiðina til skamms tíma í senn. Þess í stað þurfi að tryggja fyrirsjáanleika í þessum efnum. 1. minni hluti tekur undir það og leggur þess vegna til að tímabilið verði framlengt um sex mánuði eða til 28. febrúar 2021. Samhliða þeirri breytingu eru lagðar til breytingar á dagsetningum í 7. og 10. gr. frumvarpsins og ákvæðin tekin upp í heild til samræmis við þær skýringar sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans.
    Að framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. september 2020.

Anna Kolbrún Árnadóttir.