Ferill 972. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.

Þingskjal 2078  —  972. mál.

2. umræða.Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar).

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar (AKÁ).


     1.      Á eftir 1. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (2. gr.)
                      Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Heimilt er að greiða atvinnurekanda launakostnað ef launamaður hefur ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta vegna sóttvarnaráðstafana sem leiðir til skerðingar á þjónustu eða lokunar skóla barns í hans forsjá undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og það hafi ekki sætt sóttkví eða ef barn í hans forsjá undir 18 ára aldri er með undirliggjandi veikindi og má samkvæmt læknisvottorði ekki sækja skóla. Um greiðslur fer eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.
                  b.      (3. gr.)
                      Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Heimilt er að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingi launatap hafi hann ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta vegna sóttvarnaráðstafana sem leiðir til skerðingar á þjónustu eða lokunar skóla barns í hans forsjá undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og það hafi ekki sætt sóttkví eða ef barn í hans forsjá undir 18 ára aldri er með undirliggjandi veikindi og má samkvæmt læknisvottorði ekki sækja skóla. Um greiðslur fer eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.
     2.      2. tölul. b-liðar 6. gr. orðist svo: Í stað orðanna „að hámarki 10 ECTS-einingum“ kemur: allt að 22 ECTS-einingum.
     3.      7. gr. orðist svo:
                      Ákvæði til bráðabirgða XIV í lögunum orðast svo:
                      Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst uppfylla skilyrði f- og g-liðar 1. mgr. 18. gr., sbr. einnig 20. og 21. gr., um stöðvun rekstrar, hafi hann tilkynnt Skattinum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiðir til tímabundinnar stöðvunar á rekstri.
                      Taki sjálfstætt starfandi einstaklingur að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta skal hann tilkynna það til Vinnumálastofnunar enda á viðkomandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili sem verkefnið stendur yfir.
                      Skattinum er heimilt, að eigin frumkvæði, að miðla upplýsingum til Vinnumálastofnunar sem varða úrræðið sem kveðið er á um í þessu ákvæði, sbr. 4. mgr. 9. gr.
                      Ákvæði þetta gildir frá og með 1. september 2020 og fellur úr gildi 1. mars 2021.
     4.      8. gr. orðist svo:
                      Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst 2020“ í 2. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögunum kemur: 28. febrúar 2021.
     5.      Við a-lið 2. mgr. a-liðar 9. gr. bætist: eða hefur lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu, sbr. 4. mgr. 15. gr.
     6.      10. gr. orðist svo:
                      Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
                      Þrátt fyrir a-lið 5. gr. skal taka mið af vinnulaunum launamanns fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda áður en starfshlutfall launamanns var minnkað vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Að öðru leyti gildir a-liður 5. gr.
                      Þrátt fyrir b-lið 5. gr. skal við útreikning bóta vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi eftir að starfshlutfall hafði áður verið minnkað taka mið af vinnulaunum launamanns í samræmi við 1. mgr. enda hafi héraðsdómara borist krafa um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda innan tólf mánaða frá því að starfshlutfall launamanns var minnkað. Að öðru leyti gildir b-liður 5. gr.
                      Ákvæði þetta gildir frá og með 15. mars 2020 og fellur úr gildi 1. mars 2021.