Ferill 990. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2084  —  990. mál.
Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar.


     1.      Hversu oft hefur samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar fundað frá og með alþingiskosningum 2013?
    Samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar hefur komið saman til fundar þrisvar sinnum frá og með alþingiskosningum 2013.

     2.      Hvaða vandamál og verkefni kirkjunnar hefur nefndin helst fjallað um á því tímabili?
    Samkvæmt 1. gr. laga um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, nr. 12/1982, er tilgangur nefndarinnar að vinna að auknum skilningi í löggjafarstarfi á vandamálum og verkefnum kirkjunnar. Á fundum samstarfsnefndarinnar frá alþingiskosningum 2013 hefur einkum verið fjallað um fjárhagsleg samskipti þjóðkirkjunnar og ríkisins. Þá hefur samstarfsnefndin fjallað um stöðu friðaðra kirkna, hjálpar- og félagsstarf kirkjunnar og almennt um fyrirkomulag samskipta Alþingis og þjóðkirkjunnar.

     3.      Hvaða ályktanir og tillögur hefur nefndin sent frá sér á sama tímabili? Þess er óskað að fram komi efni hverrar ályktunar og tillögu, sem og hvort henni hafi verið beint til Alþingis eða einstakra nefnda þess eða kirkjuþings.
    Samkvæmt 1. gr. laga um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, nr. 12/1982, getur nefndin annars vegar sent ályktanir og tillögur til Alþingis eða einstakra nefnda þess, en hins vegar til kirkjuþings. Samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar hefur ekki sent frá sér ályktanir eða tillögur til ofangreindra aðila á því tímabili sem spurt er um. Starf samstarfsnefndarinnar hefur með árunum fremur þróast í átt til þess að vera vettvangur samtals og upplýsingagjafar fremur en vettvangur formlegrar ályktunar- eða tillögugerðar.