Ferill 959. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2102  —  959. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um ferðakostnað þingmanna.


     1.      Hvenær var 3.–6. gr. reglna um þingfararkostnað sem fjalla um ferðakostnað og ferðir þingmanna síðast breytt og með hvaða hætti?
    Reglum um þingfararkostnað var síðast breytt á fundi forsætisnefndar 29. apríl 2019. Þá voru 2. og 3. málsl. 10. mgr. 6. gr. felldir brott. Þessir málsliðir hljóða svo: „Í slíkum skilmálum [þ.e. um notkun bílaleigubíla] má ákveða að þingmaður endurgreiði allt að 5% af kostnaði vegna tilfallandi óskráðra einkaafnota. Önnur einkaafnot skal skrá og koma þau til frádráttar á reikningi.“ Skrifstofan lagði til að þetta ákvæði félli brott með vísan til þess að það væri mat hennar að einkaafnot þingmanna væru minni háttar og jafnframt væri innifalinn í leiguverði bifreiðanna 20.000 km akstur á ári. Bent var á að ef ekið væri umfram þann kílómetrafjölda sem innifalinn er í leiguverði yrði tekið á því sérstaklega.
    Á sama fundi forsætisnefndar voru jafnframt samþykktir skilmálar um notkun þingmanna á bílaleigubílum í samræmi við 1. málsl. 10. mgr. 6. gr. reglna um þingfararkostnað. Þessa skilmála undirrita þingmenn þegar þeir fá bílaleigubíl til afnota.

     2.      Hvenær var vinnureglum skrifstofu Alþingis um skráningu ferða og endurgreiðslu ferðakostnaðar skv. 3.–6. gr. reglna um þingfararkostnað síðast breytt og með hvaða hætti?
    Forsætisnefnd samþykkti breytingar á reglum um þingfararkostnað 22. febrúar 2018. Helstu efnisbreytingar voru þær að ákvæði um bílaleigubíla voru gerð skýrari, sett voru skýrari ákvæði um staðfestingargögn, sem eru grundvöllur endurgreiðslu, og sett ný ákvæði um það með hvaða skilmálum þingmenn geta notað bílaleigubíl. Á fundi forsætisnefndar 19. mars 2018 greindi skrifstofustjóri frá því að skrifstofan væri að vinna að gerð vinnureglna um ýmsa þætti við framkvæmd þingfararkostnaðarreglna í framhaldi af áðurgreindum breytingum. Reglurnar, sem nefndust Vinnureglur skrifstofunnar um skráningu ferða og endurgreiðslu ferðakostnaðar skv. 3.–6. gr. reglna um þingfararkostnað, voru lagðar fram til kynningar og ræddar á sumarfundi forsætisnefndar 13.–15. ágúst 2018. Um þetta efni höfðu ekki áður gilt sérstakar vinnureglur og því ekki um breytingu á eldri reglum að ræða.