Ferill 951. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2112  —  951. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um ráðningar einstaklinga með skerta starfsgetu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve margir einstaklingar með skerta starfsgetu, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, starfa í forsætisráðuneytinu?
     2.      Hefur stefna verið mótuð fyrir ráðuneytið um ráðningar einstaklinga með skerta starfsgetu?


    Einn starfsmaður með skerta starfsgetu starfar hjá ráðuneytinu og var hann ráðinn í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar sem ætluð eru einstaklingum með skerta starfsgetu en Vinnumálastofnun veitir ríkisstofnunum sértæka ráðgjöf og sinnir vinnumiðlun fyrir einstaklinga sem búa við skerta starfsgetu á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, sbr. lög nr. 38/2018, um breytingu á þeim lögum.
    Í mannauðsstefnu ráðuneyta Stjórnarráðsins er kveðið á um að allt starfsfólk skuli eiga sömu möguleika á að geta nýtt hæfileika sína í starfi og ekki sæta mismunun af nokkrum toga. Á það m.a. við um starfsfólk með skerta starfsgetu.
    Forsætisráðuneytið hefur átt fundi með kjara- og mannauðssýslu ríkisins um þessi málefni og mögulegar aðgerðir sem stuðlað gætu að aukinni atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu hjá hinu opinbera. Hefur kjara- og mannauðssýsla ríkisins m.a. hvatt stjórnendur ríkisstofnana til að huga að því þegar störf losna eða ný verða til hvort starfið geti hentað fólki með skerta starfsgetu og jafnframt bent á þau úrræði sem Vinnumálastofnun og Virk bjóða upp á. Þá var reglum um auglýsingar á lausum störfum hjá hinu opinbera breytt í nóvember 2019 til að liðka fyrir ráðningu einstaklinga með skerta starfsgetu í hlutastörf en ekki er skylt samkvæmt nýjum reglum að auglýsa slík störf ef þau teljast til vinnumarkaðsúrræða.