Ferill 979. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2130  —  979. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um rannsóknir á loðnu.


    Leitað var upplýsinga hjá Hafrannsóknastofnun og byggjast svörin á þeim upplýsingum.

     1.      Hversu miklum fjármunum varði Hafrannsóknastofnun árlega til loðnurannsókna á árunum 2015–2020?
    Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar beinast æ meira að vistkerfum fremur en einstökum tegundum og eru rannsóknirnar skipulagðar á þann veg. Því er nokkrum annmörkum háð að svara spurningum um kostnað vegna rannsókna á einstakri tegund. Þá eru rannsóknaleiðangrar oft margþættir þar sem ýmsum ólíkum rannsóknum er sinnt með það að markmiði að tryggja sem besta notkun þess fjármagns sem stofnun hefur yfir að ráða.
    Sem dæmi fara stofnmælingar botnfiska fram í þremur leiðöngrum ásamt rannsóknum á öðrum þáttum vistkerfisins. Erfitt er að áætla þar kostnað á hverja tegund. Auk þess fara fram rannsóknir á þeim í öðrum leiðöngrum eins og rannsóknaleiðöngrum á rækju og á lífríki strandsjávar.
    Í rannsóknaleiðöngrum vegna uppsjávarfiska eru einnig víðtækar vistfræðirannsóknir auk mælinga á umhverfisþáttum sjávar.
    Sama gildir um skrif sérfræðinga stofnunarinnar á ritrýndum greinum. Þær taka oft á mörgum tegundum, vistkerfum, ráðgjöf eða rannsóknaraðferðum og því erfitt að flokka skrifin eftir tegundum. Reynt er að gera það eins og kostur er.
    Fjármunir Hafrannsóknastofnunar sem fóru til loðnurannsókna á árunum 2015–2020:

Ár 2015 2016 2017 2018 2019 2020
Milljónir kr. 271,8 341,4 356,7 433,2 411,0 427,4
Ath. Inniheldur ekki samrekstur og stjórnun

     2.      Hvaða verkefni sem lúta að rannsóknum á loðnu hafa verið unnin á þessu árabili og hve miklir fjármunir voru veittir í hvert verkefni?
    Verkefni sem lúta að rannsóknum á loðnu á árunum 2015–2020 og fjármunir (milljónir kr.) sem fóru í hvert þeirra (ath. samlegðarkostnaður við einstök verkefni ekki talinn með):
          Rannsóknir á loðnu (stofnmat, ráðgjöf og líffræði) – mörg fjölbreytt verkefni, veigamestu eru haust- og vetrarmælingar á loðnu.
          Útbreiðsla, uppruni og afdrif loðnulirfa.
          Fæðuvistfræði loðnu.
          eCAP (erfðafræðileg könnun á loðnudreifingu).

Verkefni 2015 2016 2017 2018 2019 2020
Rannsóknir á loðnu (stofnmat, ráðgjöf og líffræði) 271,8 341,4 310,7 374,2 343,0 408,0
Útbreiðsla, uppruni og afdrif loðnulirfa 24,0 46,0 45,0 12,0
eCAP 8,0 9,0 2,4
Fæðuvistfræði loðnu 22,0 5,0 14,0 5,0
Samtals 271,8 341,4 356,7 433,2 411,0 427,4

     3.      Hversu margar ritrýndar greinar um loðnu eftir sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar hafa birst í alþjóðlegum vísindaritum á framangreindu árabili, hver er titill greinanna og hvar birtust þær?
    Listi yfir ritrýndar greinar um loðnu eftir sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á árunum 2015–2020 (alls 1):
Höfundar Heiti greinar Heiti tímarits Ár
Singh, W; Bardarson, B; Jonsson, ST; Elvarsson, B; Pampoulie, C When logbooks show the path: Analyzing the route and timing of capelin (Mallotus villosus) migration over a quarter century using catch data FISHERIES RESEARCH 2020