Ferill 774. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2144  —  774. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um NPA-samninga.


     1.      Hversu margir NPA-samningar eru nú í gildi?
    Í árslok 2019 voru 87 samningar í gildi. Gengið er út frá því að þeir verði allir endurnýjaðir fyrir árið 2020.

     2.      Hversu margir NPA-samningar hafa verið samþykktir af sveitarfélögum en bíða mótframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga?
         Í samræmi við verklag sem viðhaft hefur verið á undanförnum árum mun félagsmálaráðuneytið í samvinnu við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga óska eftir umsóknum frá sveitarfélögum um 25% framlag í heildarsamninga vegna NPA. Frestur sveitarfélaga til að endurnýja eldri samninga vegna ársins 2020 er 15. október 2020.
    Umsóknarfrestur vegna nýrra umsókna á árinu 2020 er 15. nóvember næstkomandi. Félagsmálaráðuneytið hefur upplýsingar um að nokkur fjöldi umsókna hafi verið í samþykktarferli hjá sveitarfélögunum. Endanlegur fjöldi nýrra samninga og upphæð mótframlags vegna þeirra fyrir árið 2020 mun liggja fyrir í byrjun desember næstkomandi.

     3.      Hvenær má vænta þess að samningar sem bíða mótframlags, sbr. 2. tölul., verði fullfjármagnaðir?
    Sbr. svar við 2. tölul. er umsóknarfrestur vegna nýrra umsókna á árinu 2020 15. nóvember næstkomandi. Endanlegur fjöldi nýrra samninga og upphæð mótframlags vegna þeirra fyrir árið 2020 mun liggja fyrir í byrjun desember næstkomandi.

     4.      Hversu marga samninga hyggst ríkið fullfjármagna með framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í ár og árið 2021?
    Í ár er gert ráð fyrir fjármögnun allra gildandi samninga að teknu tilliti til launahækkana á árinu 2020 og kostnaði vegna aukinnar stuðningsþarfar. Ástæðu þess má rekja til viðbótarfjárveitingar á yfirstandandi ári, 157 millj. kr. fjárveiting var samþykkt í fjáraukalögum 2020 11. maí sl. Fjöldi nýrra samninga 2020 ræðst af fjárheimildum ráðuneytisins þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar á gildandi samningum og hversu mikið stuðningsþörf notenda með NPA-samninga hefur aukist á árinu 2020 sem væntanlega kallar á aukið framlag. Sbr. svar við 2. tölul. er frestur sveitarfélaga til að endurnýja eldri samninga vegna ársins 2020 15. október 2020. Upplýsingar um heildarkostnað ársins 2020 vegna gildandi samninga og þannig fjölda mögulegra nýrra samninga munu því væntanlega liggja fyrir í framhaldi af því. Félagsmálaráðuneytið óskaði eftir auknum fjárheimildum fyrir næsta ár vegna NPA og þegar ljóst verður hvort aukin fjárveiting fæst samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2021 verður mögulegt að svara því hversu marga samninga verður hægt að fjármagna á því ári.