Ferill 124. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2148  —  124. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um athugasemdir ráðuneytis við lögfræðilegar álitsgerðir.


     1.      Hvert var efni erindisbréfs sérfræðinga sem kvaddir voru til af hálfu ráðuneytisins til að rita álitsgerðir um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/ EFTA vegna þriðja orkupakka ESB?
    Lögfræðingum sem kvaddir voru til af hálfu utanríkisráðuneytisins annars vegar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hins vegar var falið að gera álitsgerðir um stjórnskipuleg álitamál tengd framsali valdheimilda vegna þriðja orkupakka ESB. Einkum var skoðunarefnið að meta hvort framsal valdheimilda í tengslum við upptöku gerðanna í EES-samninginn og innleiðing þeirra í landsrétt rúmaðist innan marka íslensku stjórnarskrárinnar. Í einstökum álitsgerðum lögfræðinga voru efnistök nánar skilgreind og afmörkuð í inngangi.
    Ekki var gert formlegt erindisbréf til þeirra lögfræðinga sem leitað var til, enda ekki um opinbera starfsmenn að ræða.

     2.      Hvert var efni athugasemda ráðuneytisins við drög að álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar sem getið er um í álitsgerð þeirra, dags. 19. mars 2019, sbr. 6. kafla, bls. 39 og áfram?
    Í þessu tiltekna máli óskuðu höfundar álitsgerðarinnar sérstaklega eftir athugasemdum utanríkisráðuneytisins við skjalið. Athugasemdir ráðuneytisins lutu að því að bent var á misræmi milli þeirra draga að álitsgerð sem borin var undir ráðuneytið, og fyrri fordæma og álitsgerða, afgreiðslu Alþingis á fyrri tilfellum, upptöku þeirra í EES-samninginn og gildistöku ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, í öðrum málum þar sem reynt hafði á túlkun stjórnarskrár vegna upptöku gerða í EES-samninginn og framsal valdheimilda.

     3.      Voru af hálfu ráðuneytisins gerðar athugasemdir við drög að álitsgerðum fleiri lögfræðinga sem leitað var til um álit á umræddu máli? Hverjar voru þær athugasemdir ef við á?
    Þegar fengnir eru utanaðkomandi álitsgjafar getur tíðkast að álitsbeiðandi fái lokadrög skjals til yfirlestrar, til að fá tækifæri til að benda á staðreyndavillur og þannig háttar, áður en lokaútgáfa er gerð. Í þessu máli voru ekki gerðar teljandi athugasemdir við aðrar álitsgerðir í málinu.

     4.      Telur ráðherra koma til greina að birta opinberlega bréfaskipti milli ráðuneytisins og lögfræðilegra ráðunauta þess sem leitað var til um lögfræðilegar álitsgerðir vegna þriðja orkupakka ESB?
    Allar álitsgerðir lögfræðinga sem fengnir voru til ráðgjafar voru birtar í endanlegri mynd við meðferð þingmálsins og eru þær fylgiskjöl með tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn) (149. löggjafarþing 2018–2019, þskj. 1237, 777. mál). Ekki er tilefni til að birta vinnuskjöl eða bréfaskipti sem áttu sér stað í aðdraganda á milli ráðuneytisins og lögfræðinganna.

     5.      Hvaða áhrif telur ráðherra það geta haft á stöðu sérfræðinga sem óháðra ráðunauta þegar verkbeiðandi hefur gert athugasemdir við drög að álitsgerðum sérfræðinga sem kvaddir hafa verið til að rita álitsgerð um tiltekið málefni líkt og lýst er í 2. tölul. hér að framan?
    Lögfræðingar sem vinna sérfræðiálit eða lögfræðilega álitsgerð fyrir ráðuneyti setja sína greiningu og lögfræðilega mat fram á sína ábyrgð á grundvelli heiðurs síns sem fræðimenn eða sérfræðingar. Athugasemdir og ábendingar sem ráðuneyti hefur komið á framfæri varðandi misræmi, fordæmi eða niðurstöður sem gætu nýst við lokafrágang álitsgerðar og til að sem fyllst greining fáist á málum, eru í öllum tilvikum viðbótarupplýsingar og -efni sem viðkomandi lögfræðingur metur hvort tekið verði tillit til í lokaútgáfu álitsgerðar.

    Alls fóru um 12 vinnustundir í að taka þetta svar saman.