Ferill 809. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 2151  —  809. mál.
Leiðréttur texti.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Brynjari Níelssyni um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum.


     1.      Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?
    Það fer eftir efni og umfangi fyrirspurna hverju sinni hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að svara hverri og einni. Ekki er því hægt að svara því almennt hversu margir starfsmenn koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum. Þó er ljóst að í öllum tilvikum koma fleiri en einn starfsmaður að því að undirbúa svör og í flestum tilvikum er það samstarfsverkefni margra starfsmanna.
    Í utanríkisráðuneytinu hefur verið haldið að nokkru leyti utan um áætlaðar vinnustundir við svörun fyrirspurna þingmanna frá árinu 2017 og gefur það innsýn í þá vinnu sem almennt fer í að svara fyrirspurnum á ársgrundvelli. Á árinu 2017 var varið alls um 55 klukkustundum til þessara verkefna og á árinu 2018 alls um 58 klukkustundum. Alls var 218 klukkustundum varið til vinnslu svara við fyrirspurnum til skriflegs svars á 149. löggjafarþingi, þar af 130 klukkustundum vegna einnar fyrirspurnar. Loks hefur alls 121 klukkustund farið í að svara fyrirspurnum þingmanna sem beint hefur verið til ráðuneytisins á yfirstandandi löggjafarþingi.

     2.      Hver er heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim?
    Svarað hefur verið fjórum fyrirspurnum þingmanna í þingflokki Pírata til ráðuneytisins á yfirstandandi löggjafarþingi og tók alls 19 vinnustundir að svara þeim. Ekki liggur fyrir hver heildarkostnaður ráðuneytisins er við þá vinnu.

     3.      Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra?
    Samtals hafa 19 fyrirspurnir til skriflegs svars borist ráðherra á yfirstandandi löggjafarþingi. Af þeim eru fjórar frá þingmönnum í þingflokki Pírata eða um 21%.

    Alls fóru 3 vinnustundir í að taka þetta svar saman.