Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 25  —  25. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (hækkun lífeyris).

Flm.: Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Helga Vala Helgadóttir.


1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. skulu bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., hækka í samræmi við hækkanir lágmarkstekjutryggingar samkvæmt lífskjarasamningi 2019– 2022. Hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris (grunnlífeyris) og ellilífeyris skal vera afturvirk frá 1. apríl 2019 í samræmi við hækkun lágmarkstekjutryggingar samkvæmt samningnum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpið var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi (844. mál) og er nú endurflutt að mestu óbreytt. Þó er lagt til að sú hækkun sem mælt er fyrir um í frumvarpinu verði afturvirk frá 1. apríl 2019, til samræmis við hækkun lágmarkstekjutryggingar samkvæmt lífskjarasamningi.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lágmarkstekjutryggingar í samræmi við kjarasamninga og verði 368 þús. kr. árið 2022. Greiðslurnar fari stighækkandi fram til 2022 með hliðstæðum hætti og lægstu laun samkvæmt kjarasamningum. Markmið þessa frumvarps er að aldraðir og öryrkjar fái mannsæmandi greiðslur til framfærslu.
    Ljóst er að stór hópur aldraðra og öryrkja býr við fátækt. Tæplega fjórðungur öryrkja býr við skort á efnislegum gæðum samkvæmt nýjustu rannsóknum Hagstofu Íslands og eru öryrkjar sá hópur sem verst stendur þegar þátttakendur eru greindir eftir atvinnustöðu. Frá árinu 1998 hefur kjaragliðnun öryrkja numið 59,4% samkvæmt tölum sem unnar hafa verið fyrir málefnahóp Öryrkjabandalags Íslands um kjaramál.
    Staðan er nú þannig að þúsundir lífeyrisþega ná ekki framfærsluviðmiðum og fá þar af leiðandi sérstaka uppbót til framfærslu.
    Til grundvallar þeim hækkunum sem lagðar eru til í frumvarpinu liggja hækkanir samkvæmt kjarasamningi milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 3. apríl 2019 sem ætlað er að gilda til ársloka 2022. Í samningnum er miðað við stighækkandi laun á samningstímanum og að lágmarkstekjutrygging verði 368 þús. kr. á mánuði árið 2022. Hækkun samkvæmt frumvarpi þessu verði á örorku- og endurhæfingarlífeyri (grunnlífeyri) og ellilífeyri án heimilisuppbótar.
    Samkvæmt kjarasamningum voru lágmarkslaun hækkuð í 317 þús. kr. á mánuði 1. apríl 2019 og eiga að hækka um 51 þús. kr. til viðbótar til ársins 2022. Boðuð hækkun lífeyris almannatrygginga í fjármálaáætlun er langt frá því að ná fyrrgreindum markmiðum. Framfærsluviðmið án heimilisuppbótar þeirra sem fá örorku- og endurhæfingarlífeyri er 255.834 kr. á mánuði.
    Lagt er til að upphæðin þróist með eftirfarandi hætti:
    Frá 1. apríl 2019: 317.000 kr. á mánuði.
    Frá 1. apríl 2020: 335.000 kr. á mánuði.
    Frá 1. janúar 2021: 351.000 kr. á mánuði.
    Frá 1. janúar 2022: 368.000 kr. á mánuði.
    Samhliða breytingum sem lagðar eru til þarf að draga úr vægi tekjuskerðingar vegna sérstakrar uppbótar á lífeyri sem kveðið er á um í lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Einnig þarf að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna miðað við launaþróun á því tímabili sem upphæðin hefur staðið óbreytt. Gert er ráð fyrir að breytingar á fjárhæðum til samræmis við frumvarpið verði birtar í reglugerðum.