Ferill 52. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 52  —  52. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um árangurstengingu kolefnisgjalds.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á kolefnisgjaldi á þá leið að gjaldið hækki eða lækki í samræmi við árangur við að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamningnum árið á undan álagningu þess og markmið við að ná kolefnishlutlausu Íslandi fyrir 2040. Samhliða því verði fyrirkomulag á birtingu upplýsinga vegna losunarbókhalds kannað. Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en á vorþingi 2021.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 150. löggjafarþingi (75. mál) sem og 149. löggjafarþingi (380. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú lagt fram að nýju með uppfærðri greinargerð. Með tillögu þessari er lagt til að ráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, um að kolefnisgjald hækki eða lækki með hliðsjón af því hvernig gengið hefur að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamningnum árið á undan og markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, t.d. með því að miða við línulega minnkun á útlosun á ári.
    Til að tryggja enn betur árangur af þessari aðgerð er lagt til að gjaldið hækki að veldisvexti ef mjög illa gengur að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamningnum og markmiðinu um kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040, en að sama skapi lækki gjaldið töluvert ef góður árangur næst við minnkun útblásturs.
    Við meðferð málsins á 149. löggjafarþingi benti Umhverfisstofnun á að rauntölur um losun birtast ekki fyrr en tveimur árum síðar. Umhverfisstofnun tiltók jafnframt að hún framreiknar áætlaða losun miðað við þær stefnur og aðgerðir sem eru í gildi hverju sinni. Þegar tillagan var lögð fram á 150. löggjafarþingi kom fram í umsögn Umhverfisstofnunar að stofnanir og veitendur grunngagna hafi átt í erfiðleikum með að skila gögnum til Umhverfisstofnunar á þeim tíma sem tilgreindur er í reglugerð um gagnasöfnun og upplýsingagjöf stofnana vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti, nr. 520/2017. Þessi seinkun skila, á réttum gögnum á viðeigandi formi, væri helsta fyrirstaðan við að flýta birtingu á losunartölum. Þegar Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018– 2030 hafi verið kynnt á samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-124/2018) hafi stofnunin þess vegna lagt til að stofnaður yrði sjóður fyrir árlega úthlutun til samstarfsstofnana vegna sértækra verkefna hjá þeim til að auðvelda stofnunum að standa skil á gögnum til Umhverfisstofnunar vegna losunarbókhaldsins. Flutningsmenn taka undir mikilvægi þess að rauntölur séu aðgengilegar fyrr. Flutningsmenn leggja því til að samhliða verði kannaðar leiðir til að auðvelda stofnunum að skila gögnum á tilgreindum tíma til að styðja við markmið þingsályktunartillögu þessarar.
    Flutningsmenn leggja auk þess áherslu á að kolefnisgjaldið verði notað í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, m.a. til að styðja við og styrkja þá aðila sem losa mest til þess að draga úr losun. Bent er á að markmið hækkunarinnar er að kostnaður vegna losunar skili sér til þeirra sem losa og því verði aðrar opinberar álögur ekki lækkaðar vegna hækkunar kolefnisgjalds.
    Hnattræn hlýnun jarðar sökum kolefnisútblásturs af mannavöldum er stærsta ógn sem steðjar að mannkyni. Álagningu kolefnisgjalds hefur verið beitt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og er ein þeirra aðferða sem hefur bein áhrif á fjárhagslega afkomu fyrirtækja og einstaklinga.
    Hugmyndin að þessu þingmáli og þróun þess átti sér stað á LÝSU – rokkhátíð samtalsins, sem haldin var á Akureyri haustið 2018, þar sem almenningi gafst tækifæri til að koma með tillögur og hugmyndir að aðgerðum í loftslagsmálum.