Ferill 53. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 53  —  53. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.


Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu, sbr. þingsályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, nr. 1/137, sem samþykkt var 16. júlí 2009.
    Forsætisráðherra skipi þriggja manna nefnd, að höfðu samráði við þingflokka, til að stýra undirbúningsvinnunni í samstarfi við einstök ráðuneyti. Hlutverk nefndarinnar verði að meta hvernig og hvenær hefja skuli formlegar aðildarviðræður að nýju og undirbúa tillögu til þingsályktunar þar að lútandi, sem að fengnu samþykki Alþingis yrði borin undir þjóðaratkvæði til endanlegrar staðfestingar.
    Þjóðaratkvæðagreiðsla um endurupptöku viðræðna fari fram eigi síðar en í janúar 2022.

Greinargerð.

    Markmiðið með tillögu þessari er að uppfylla vilja Alþingis sem lýst var með þingsályktun nr. 1/137, sem samþykkt var 16. júlí 2009, en Alþingi hefur ekki ályktað á annan veg síðan. Til viðbótar ályktun þeirri verði forsætisráðherra falið að skipa nefnd sem stýri undirbúningsvinnu í samstarfi við einstök ráðuneyti og skili tillögu til þingsályktunar um endurupptöku aðildarviðræðna sem borin verði undir þjóðaratkvæði til endanlegrar staðfestingar. Að mati flutningsmanna tillögunnar hefði átt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í upphafi þess ferlis árið 2009.
    Í ljósi nýrra og breyttra aðstæðna og til þess að styrkja efnislegan undirbúning málsins er jafnframt rétt að nefndin hefji störf með því að kalla til sérfræðinga og skili í kjölfarið skýrslu um mat á þýðingu fjölþjóðasamvinnu fyrir Ísland á komandi árum. Tilgangurinn er að styrkja fullveldi landsins, efla stjórnmálaleg tengsl, treysta varnir, örva viðskipti, bæta efnahag og tryggja framgang markmiða Íslands í loftslagsmálum.
    Ísland hefur nú í rúman aldarfjórðung verið aðili að innri markaði Evrópusambandsins með aðildinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Innri markaðurinn er kjarninn í starfi Evrópusambandsins. Aðild EFTA-þjóðanna að honum felur því í raun í sér aukaaðild að sambandinu.
    Evrópsk löggjöf mótar réttarreglur á flestum sviðum í búskap þjóðarinnar. Viðbótarskrefið til fullrar aðildar yrði því minna en það sem stigið var á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Eigi að síður yrði verulegur pólitískur, lýðræðislegur og efnahagslegur ávinningur af því að njóta fullra réttinda og sitja við borðið með þeim ríkjum sem næst okkur standa, eins og Ísland gerir í Atlantshafsbandalaginu.
    Afleiðingar kórónuveirufaraldursins hafa gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum. Ísland þarf af þeim sökum að nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt. Aukin alþjóðleg samvinna er óhjákvæmileg í þeim tilgangi. Loftslagsmálin kalla einnig á að ný skref verði stigin á þessu sviði. Lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu er nærtækasti og áhrifaríkasti kosturinn í þessu efni.

Gjaldmiðilsmál eru brýnasta verkefnið.
    Ljóst er að undirbúningur málsins og viðræðurnar sjálfar munu taka talsverðan tíma. Af þeim sökum er enn ríkari ástæða til að hefjast strax handa. Efnahagsleg rök standa til þess að hraða ákvörðunum svo sem kostur er. Um leið er mikilvægt að þær séu undirbúnar af mikilli kostgæfni. Þjóðaratkvæðagreiðsla getur fyrst farið fram að lokinni almennri og vel upplýstri umræðu.
    Breytingar í gjaldmiðilsmálum eru brýnasta verkefnið eins og málum er komið. Flutningsmenn hafa því samhliða þessari tillögu lagt fram tillögu til þingsályktunar um viðræður við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir (45. mál), sem leitt gæti til þess að íslenska krónan yrði svo fljótt sem verða má fasttengd evru með raunhæfum hætti.
    Náist skjótur árangur í gjaldmiðilssamstarfinu skapast svigrúm til þess að undirbúa vandlega ákvarðanir um lokaskref til fullrar aðildar að Evrópusambandinu.

Bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna.
    Alþingi samþykkti með ályktun nr. 1/137, 16. júlí 2009, að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Tæpu ári eftir ríkisstjórnarskipti 2013 lagði utanríkisráðherra fram tillögu til þingsályktunar um að draga umsóknina til baka. Hana dagaði uppi á Alþingi og hlaut ekki afgreiðslu. Alþingi hefur því ekki ályktað á annan veg síðan.
    Tillaga utanríkisráðherra frá 2014 mætti harðri andstöðu í þjóðfélaginu. Alls skrifuðu 53.555 Íslendingar undir áskorun þar sem þess var krafist að fram færi þjóðaratkvæði um það hvort halda ætti áfram viðræðum.
    Vorið 2015 skrifaði utanríkisráðherra bréf til formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins. Þar sagði að ríkisstjórnin hefði ekki áform um að hefja aðildarviðræður að nýju og ekki bæri af þeim sökum að líta á Ísland sem umsóknarríki.
    Við myndun ríkisstjórnar 2016 var kveðið á um það í stjórnarsáttmála að Alþingi gæti fyrir lok þess kjörtímabils samþykkt að efna til leiðbeinandi þjóðaratkvæðis um framhald aðildarviðræðna.
    Sú ríka krafa, sem fram kom með undirskriftasöfnuninni 2014, að þjóðin fengi að greiða atkvæði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, verður ekki virt að vettugi.
    Í ljósi þess hversu langur tími er liðinn frá samþykkt þingsályktunarinnar 2009 leggja flutningsmenn til þá málsmeðferð að Alþingi samþykki, að loknum nauðsynlegum undirbúningi, nýja tillögu um framhald aðildarviðræðna. Gildi hennar verði eigi að síður háð samþykki þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu. Þar yrði um að ræða bindandi þjóðaratkvæði.
    Gildistaka endanlegs aðildarsamnings yrði síðan á ný háð samþykki Alþingis og þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Aðild Íslands að fjölþjóðasamstarfi.
    Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur Ísland verið þátttakandi í margvíslegu fjölþjóðlegu samstarfi. Tilgangurinn hefur verið sá að styrkja stöðu landsins í samfélagi þjóðanna í menningarlegum efnum, stjórnmálalegu tilliti, að því er varðar varnir og öryggi og svo að því er tekur til efnahags og viðskipta. Óumdeilt er að þetta fjölþætta samstarf hefur styrkt fullveldi landsins og bætt efnahag þess.
    Árið 1944 gerðist Ísland aðili að Bretton Woods-samkomulaginu um fjölþjóðlegt gjaldmiðlasamstarf. Aðild að Sameinuðu þjóðunum kom í kjölfarið. Síðan gerðist Ísland eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins og tók Ísland þátt í stofnun Norðurlandaráðs. Ísland fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1953 og var stofnaðili að Mannréttindadómstól Evrópu sex árum síðar. Ísland tók einnig þátt í Almenna samkomulaginu um tolla og viðskipti (GATT) í lok sjöunda áratugar síðustu aldar og er aðili að Alþjóðaviðskiptastofnunni (WTO). Í byrjun áttunda áratugarins kom aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu. Síðan aðild að innri markaði Evrópusambandsins með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í byrjun tíunda áratugarins. Í framhaldi af því kom þátttaka í Schengen-samstarfi Evrópusambandsins árið 2001.
    Öll þessi skref voru á sinn hátt svar við breyttum aðstæðum. Þau sýna að við aðstæður þess tíma var talið skynsamlegast að leita skjóls og tryggja hagsmuni landsins í fjölþjóðlegu samstarfi af ýmsu tagi. Allt þetta samstarf hefur þróast og breyst í tímans rás. Pólitískt og efnahagslegt vægi aðildar að einstökum samtökum hefur í sumum tilvikum aukist en minnkað í öðrum.
    Vegna stærðar sinnar verða áhrif Íslands á alþjóðavettvangi alltaf takmörkuð. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu, Fríverslunarsamtökum Evrópu og Norðurlandaráði hefur á hinn bóginn sýnt að áhrif Íslands eru meiri þegar það á sæti við borðið.
    Með aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins hefur verið tekin upp evrópsk löggjöf sem er ráðandi á öllum sviðum þjóðarbúskaparins. Flutningsmenn telja að það myndi styrkja stöðu landsins í Evrópu og auka áhrif þess að taka einnig sæti við borðið í Evrópusambandinu.
    Að auki má annars vegar benda á þá staðreynd að loftslagsmálin eru nú eitt helsta hagsmunamál Íslands hvort heldur er litið til efnahags eða öryggis. Ólíklegt má telja að árangur náist í loftslagsmálum án fjölþjóðlegs samstarfs og mikilvægt að leita svara við því hvernig Ísland getur tekist á við loftslagsmálin í fjölþjóðlegu samstarfi.
    Hins vegar er staðreyndin sú að í heimi alþjóðavæðingar hafa fjölþjóðafyrirtæki vaxið svo hratt að ítök þeirra og áhrif ógna á marga lund fullveldi þjóða, stórra sem smárra. Evrópusambandið hefur náð lengra en önnur fjölþjóðasamtök til þess að rétta hlut þjóðríkjanna gagnvart fyrirtækjasamsteypum á heimsvísu.

Tvær meginleiðir eru færar fyrir Ísland.
    Ótvírætt er að hraðar breytingar á heimsmyndinni og ný viðfangsefni kalla á að Ísland stígi ný skref fram á við í alþjóðlegu samstarfi eftir kyrrstöðu í rúman aldarfjórðung. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur aldrei liðið svo langur tími á milli mikilvægra nýrra skrefa í samvinnu Íslands við aðrar þjóðir.
    Tvær meginleiðir eru færar fyrir Ísland á þessum krossgötum. Önnur er að mestu byggð á tvíhliða samstarfi og samningum. Hin er framhald á því fjölþjóðasamstafi sem við eigum nú í Evrópusambandinu, Atlantshafsbandalaginu og Norðurlandaráði.
    Fyrri kosturinn myndi væntanlega leiða til þess að tekið yrði upp þéttara samband við Bretland og Bandaríkin og þeim fylgt eftir í gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. Þeir eru jafnan mun grynnri og umfangsminni en löggjöfin sem mótar innri markað Evrópu. Ef kosið yrði að fara þá leið með því að yfirgefa innri markaðinn eins og Bretar væri það gífurlega stórt skref, sem myndi hafa grundvallarbreytingar í för með sér.
    Reynslan hefur ótvírætt sýnt að smáríki eru veikari í tvíhliða samstarfi en fjölþjóðasamstarfi. Icesave-deilan er til marks um það. Án regluverks Evrópusambandsins og EFTA-dómstólnum hefðu Bretar og Hollendingar staðið betur að vígi gagnvart Íslandi.
    Seinni kosturinn er að stíga skref áfram á grundvelli þeirrar aukaaðildar að Evrópusambandinu sem segja má að innri markaðurinn og aðildin að Schengen feli í sér, að fullri aðild með sæti við borðið og þeim áhrifum sem það veitir. Það yrði minna skref en stigið var með aðildinni að innri markaðnum með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Flutningsmenn telja engan vafa leika á því að seinni kosturinn sé vænlegri til þess að verja og treysta íslenska hagsmuni.