Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 84  —  83. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, með síðari breytingum (atkvæðagreiðslur).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Autt atkvæði skal meta ógilt og telst það ekki til heildarfjölda greiddra atkvæða.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Autt atkvæði skal meta ógilt og telst það ekki til heildarfjölda greiddra atkvæða.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Autt atkvæði skal meta ógilt og telst það ekki til heildarfjölda greiddra atkvæða.

3. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Autt atkvæði skal meta ógilt og telst það ekki til heildarfjölda greiddra atkvæða.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þessa efnis var áður lagt fyrir Alþingi á 150. löggjafarþingi (965. mál) og er hér lagt fram í breyttri mynd. Með frumvarpinu er lagt til að við atkvæðagreiðslu um gildi kjarasamnings teljist autt atkvæði ógilt. Til að atkvæði teljist gilt og til heildarfjölda greiddra atkvæða verður sá er atkvæði greiðir að taka afstöðu til þess hvort kjarasamningur skuli felldur eða samþykktur. Með frumvarpinu er einnig lagt til að hið sama skuli gilda við annars vegar atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar og hins vegar við atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara. Sá sem greiðir atkvæði verður því annars vegar að taka afstöðu til þess hvort boða skuli til vinnustöðvunar eða ekki og hins vegar að taka afstöðu til þess hvort miðlunartillaga sáttasemjara skuli felld eða samþykkt svo að atkvæði teljist gilt og til heildarfjölda greiddra atkvæða.
    Tilefni frumvarpsins er dómur Félagsdóms frá 24. júní 2020 í máli nr. 6/2020 er varðar gildi samkomulags um breytingar og framlengingu á kjarasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs. Í því máli laut ágreiningur aðila að því hvort við talningu atkvæða um gildi kjarasamnings bæri að telja með auð atkvæði þegar heildarfjöldi atkvæða var tilgreindur og hvort líta bæri svo á að samningurinn hefði verið samþykktur eða felldur við atkvæðagreiðsluna. Í málinu lá fyrir að 564 greiddu atkvæði um samninginn, þar af 265 með samningnum, 278 gegn honum og 21 félagsmaður á kjörskrá skilaði inn auðu atkvæði. Var niðurstaða dómsins sú að kjarasamningurinn hefði ekki verið felldur með meiri hluta greiddra atkvæða, svo sem áskilið er í 3. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, þrátt fyrir að fleiri félagsmenn hafi greitt atkvæði með því að fella samninginn en greiddu atkvæði með samþykkt hans.
    Í dómi Félagsdóms kemur fram að í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, sé ekki að finna sams konar fyrirmæli og eru í 3. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur og engin önnur sjónarmið eigi við um slíkar atkvæðagreiðslur um gildi kjarasamninga opinberra starfsmanna. Taldi dómurinn að þau sjónarmið sem liggja til grundvallar því ákvæði eigi jafnt við um atkvæðagreiðslu um gildi kjarasamnings opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði og þar af leiðandi yrði þeim ákvæðum beitt með lögjöfnun. Byggist niðurstaða dómsins því á túlkun á ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Er því ljóst að ákvæðið á við um atkvæðagreiðslur um gildi kjarasamninga, hvort sem er á almennum eða opinberum vinnumarkaði, og því enn brýnni ástæða til að skýra það ákvæði eins og lagt er til með frumvarpi þessu.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að taka af öll tvímæli um niðurstöðu atkvæðagreiðslu um gildi kjarasamnings, atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar og atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og gera slíkar atkvæðagreiðslur sambærilegar öðrum atkvæðagreiðslum, t.d. alþingiskosningum þar sem auð atkvæði eru metin ógild, sbr. a-lið 100. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.