Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 115  —  114. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (söluhagnaður af íbúðar- og frístundahúsnæði).

Flm.: Óli Björn Kárason, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir.


1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laganna orðast svo: Af íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði sem skattaðili á og notar til eigin þarfa skal hvorki reikna tekjur né gjöld.

2. gr.

    7. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. mgr. 17. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „íbúðarhúsnæði“ í 1. málsl. kemur: og frístundahúsnæði.
     b.      Á eftir orðinu „íbúðarhúsnæðis“ í 3. málsl. kemur: og frístundahúsnæðis.
     c.      Fyrirsögn á undan greininni orðast svo: Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði.

4. gr.

    Á eftir orðinu „íbúðarhúsnæði“ í 23. gr. laganna kemur: eða frístundahúsnæði.

5. gr.

    Orðin „15. og“ í 4. tölul. 28. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.

Greinargerð.

    Frumvarp sama efnis var áður lagt fram á 144., 145., 146., 147. og 149. löggjafarþingi (84. mál) og er nú endurflutt með breytingum. Upphaflega var aðeins um rúmmálsreglu að ræða en nú er verið að stíga skrefið enn lengra og tryggja að sömu reglur gildi um söluhagnað af íbúðarhúsnæði og söluhagnað af frístundahúsum og að sá söluhagnaður skerði ekki greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Að þessu leyti er um nýtt og mun umfangsmeira frumvarp að ræða.
    Um langa hríð hefur bróðurpartur eignamyndunar landsmanna átt sér stað við kaup og eignarhald á íbúðarhúsnæði og á síðustu áratugum á hið sama við um frístundahús. Að starfsævinni lokinni er algengt að einstaklingar minnki við sig húsnæði og innleysi sparifé með sölu húseigna. Því fé sem er innleyst á þennan hátt er oft ætlað að standa undir rekstri heimilis viðkomandi þegar líður á ævikvöldið. Það er því ekki að undra að rúmmálsreglan hefur komið nokkuð illa niður á eldri borgurum sem eru sestir í helgan stein og njóta ekki lengur atvinnutekna. Hið sama á við um sölu frístundahúsa, en söluhagnaður af þeim er að fullu skattskyldur. Með frumvarpi þessu er skattskyldan felld niður og meðferð söluhagnaðar af frístundahúsi og lóðum og lóðarréttindum sem því fylgja verður sú sama og af íbúðarhúsnæði.
    Verði frumvarpið að lögum ræðst skattskylda söluhagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis og frístundahúsa aðeins af tíma eignarhalds, þ.e. hvort það hafi varað í tvö ár eða skemur en ekki jafnframt af ákveðnum stærðarmörkum.
    Markmið frumvarpsins er að einfalda lög um tekjuskatt, skattframkvæmd og að koma til móts við áðurnefnda stöðu eldra fólks.
    Í 17. gr. laga um tekjuskatt er ákvæði um söluhagnað af íbúðarhúsnæði. Söluhagnaður er mismunur á söluverði og stofnverði að teknu tilliti til fyrninga og áður fengins söluhagnaðar. Stofnverð er kostnaðarverð eigna.
    Meginreglan er sú að ef maður hefur átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár telst hagnaður af sölu þess til skattskyldra tekna á söluári. Ef maður hefur átt hið selda húsnæði í tvö ár eða lengur telst hagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna. Ákvæðið á aðeins við um sölu íbúðarhúsnæðis í eigu manna.
    Enn fremur er kveðið á um undanþágu sem í frumvarpi þessu er lögð til að falli brott. Með öðrum orðum er það þannig að ef íbúðarhúsnæði fer yfir tiltekin stærðarmörk er sala íbúðarhúsnæðis skattskyld óháð eignarhaldstíma. Stærðarmörkin eru 600 m3 ef um einstakling er að ræða og 1.200 m3 í tilviki hjóna og er þá söluhagnaður skattskyldur af þeim hluta húsnæðis sem er umfram þessi mörk. Þessi svonefnda rúmmálsregla á þó aðeins við þegar íbúðarhúsnæði er selt sem ekki hefur verið til eigin nota.
    Framangreind rúmmálsregla á rót sína að rekja til 4. tölul. 3. gr. laga nr. 7/1972, um tekjuskatt og eignarskatt. Frumvarp það sem síðar varð að téðum lögum var á sínum tíma lagt fram með það fyrir augum að dreifa skattbyrðinni á réttlátari hátt en tíðkast hafði. Fyrir gildistöku rúmmálsreglunnar miðaðist skattfrelsi aðeins við eignarhaldstíma og jókst eftir því sem hann var lengri þar til fullu skattfrelsi var náð. Má gera ráð fyrir að rúmmálsreglunni hafi einkum verið ætlað að jafna stöðu þeirra eignaminni og þeirra sem meira áttu.
    Söluhagnaður af frístundahúsnæði er meðhöndlaður eins og aðrar fjármagnstekjur sem greiða þarf fjármagnstekjuskatt af. Þar sem fjármagnstekjur hafa áhrif á réttindi hjá Tryggingastofnun er lagt til að sömu reglur gildi um sölu á frístundahúsnæði og sölu á íbúðarhúsnæði. Til að frumvarpið nái markmiði sínu og að ekki komi til skerðingar á ellilífeyri og örorkulífeyri eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt í 1. og 5. gr. frumvarpsins.