Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 132  —  131. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um framleiðslu innrennslisvökva til notkunar í lækningaskyni.


Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að kanna hagkvæmni þess að hefja að nýju framleiðslu innrennslisvökva og innrennslislyfja til heilbrigðisþjónustu hér á landi. Sérstaklega verði metið öryggi, kostnaður og umhverfisþættir slíkrar framleiðslu. Ráðherra skili Alþingi skýrslu eigi síðar en 1. maí 2021.

Greinargerð.

    Sambærileg þingsályktunartillaga var flutt á 140. löggjafarþingi og 139. löggjafarþingi. Tillagan var flutt að nýju nokkuð breytt á 150. löggjafarþingi (166. mál) og er nú endurflutt efnislega óbreytt frá síðustu framlagningu.
    Árið 2002 var framleiðslu innrennslisvökva hjá Lyfjaverslun Íslands hætt. Fram til þess höfðu slíkir vökvar að mestu leyti verið framleiddir innan lands. Flóknari og sjaldgæfari lyfjasamsetningar voru hins vegar framleiddar erlendis og fluttar inn.
    Í nóvember 2005 var birt skýrsla starfshóps á vegum Landspítala – háskólasjúkrahúss (sjá fskj.), „Álit starfshóps til undirbúnings framleiðslu innrennslislyfja á Landspítala – háskólasjúkrahúsi“. Í niðurstöðum hópsins kom m.a. fram að árlega væri þörf á u.þ.b. 230.000 lítrum, þegar saman væru taldir innrennslis-, skol- og leysivökvar, hjá heilbrigðisstofnunum ríkisins. Þá væri ótalin þörf á um 120.000 lítrum af skilunarvökva sem einnig eru fluttir inn. Í skýrslunni er þörfin á aukinni framleiðslu tiltekinna vökva jafnframt talin vera allt að 1.000.000 lítrar vegna mögulegra áfalla. Þrátt fyrir að þessar tölur séu 15 ára gamlar má ætla að vökvaþörfin sé enn svipuð, eða jafnvel meiri vegna fólksfjölgunar og hækkandi aldurs þjóðarinnar.
    Birgðahald vegna vökva yfir 300.000 lítrum er töluvert, einkum ef gera á ráð fyrir áföllum sem gætu tímabundið aukið þörf, t.d. faraldrar á borð við inflúensu. Yfirstandandi heimsfaraldur kórónuveiru hefur sýnt að staðan getur breyst mjög hratt og birgðahald, jafnvel þróaðra ríkja á búnaði og vörum sé víða of lítið. Þá hefur einnig komið í ljós að ríki hafa ekki gert sér nægilega vel grein fyrir þeim möguleika að aðfluttar vörur þryti vegna hratt vaxandi eftirspurnar á heimsvísu. Í því sambandi má nefna sýnatökupinna vegna heimsfaraldursins sem um skeið voru illfáanlegir hér á landi. Á hitt er einnig að líta að aðföng geta orðið erfið, t.d. vegna náttúruhamfara á borð við eldgos og þá er mikilvægt að hafa innlenda framleiðslugetu. Þá hefur innflutningur sem þessi umtalsvert sótspor, enda er um rúmlega 300 tonn af vökva á ári að ræða.
    Í framangreindri skýrslu er talið að með innlendri framleiðslu á hluta þess magns sem um ræðir mundu skapast 16 störf, þar af mörg sem krefjast sérhæfðrar kunnáttu. Eðli máls samkvæmt hlytist af stofnkostnaður vegna uppbyggingar en lagt er fyrir ráðherra að kanna kostnaðaráhrif.
    Markmið tillögunnar er að ráðherra láti kanna hvort innlend framleiðsla yrði hagkvæm, að teknu tilliti til allra framangreindra þátta, þ.e. öryggis, kostnaðar og umhverfissjónarmiða. Gert er ráð fyrir að ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið eigi síðar en vorið 2021.


Fylgiskjal.

Álit starfshóps til undirbúnings framleiðslu innrennslislyfja
á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

(Nóvember 2005.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.