Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 140  —  139. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um aukna skógrækt til kolefnisbindingar.


Flm.: Karl Gauti Hjaltason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Gunnarsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að gera áætlun um að fjórfalda árlega nýskógrækt á næstu fimm árum, úr þremur milljónum gróðursettra plantna í 12 milljónir. Áætlunin verði unnin í samstarfi stjórnvalda, bænda, Skógræktarinnar, skógræktarfélaga, atvinnulífs og almennings og miði að því að margfalda bindingu kolefnis í skógum, skapa ný störf í dreifðum byggðum og auka til langs tíma verðmætasköpun, atvinnutækifæri og landgæði á landsbyggðinni. Ráðherra leggi áætlunina fyrir Alþingi fyrir 1. mars 2021.

Greinargerð.

    Ræktun nýrra skóga, nýskógrækt, er ein mikilvægasta og skilvirkasta náttúrulega aðgerðin sem heimsbyggðin hefur tiltæka í baráttunni við loftslagsvandann. Víða um heim er unnið að því að meta mögulegt framlag ræktunar nýrra skóga á skóglausu landi til þess að takast á við breytingar í loftslagi. Nýskógrækt hér á landi dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rofnu landi og bindur kolefni í trjám og jarðvegi, um leið og hún skapar ný störf og verðmæti, eflir lýðheilsu og bætir lífríki og líffræðilega framleiðni vistkerfa. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að vinna áætlun sem miði að því að settur verði kraftur í nýskógrækt, sérstaklega til kolefnisbindingar, þannig að frá og með árinu 2025 verði árlega gróðursettar 12 milljónir trjáplantna í stað þriggja milljóna.
    Áætlun þessi verði unnin í samstarfi stjórnvalda við Skógræktina, skógræktarfélög, bændur, atvinnulíf og almenning. Hún miði að því að stórauka kolefnisbindingu með skógrækt og skapa ný, fjölbreytt og varanleg „græn“ atvinnutækifæri í sveitum landsins.
    Markmið áætlunarinnar verði:
          að auka kolefnisbindingu skóga á Íslandi,
          að efla íslenska skógrækt,
          að fjórfalda árlega gróðursetningu til skógræktar á næstu fimm árum,
          að skapa græn störf um allt land, bæði til skamms tíma og til framtíðar.
    Mikils samdráttar gætir í efnahagslífinu um þessar mundir samfara vaxandi atvinnuleysi. Þessi framvinda bitnar ekki síst á dreifðum byggðum landsins sem undanfarin ár hafa notið góðs af ört vaxandi ferðaþjónustu. Kröftug innspýting í hagkerfið er því brýn og ekki sakar ef hún er um leið „græn“ þannig að hún uppfylli markmið um sjálfbærni og loftslagslausnir. Auðvelt er að auka skógrækt í einu skóglausasta og strjálbýlasta landi Evrópu. Skógurinn bindur kolefni og afurðir nytjaskóga verða að verðmætu lífrænu hráefni og síðar að verðmætu timbri og smíðavið. Verkefni við ræktun, umhirðu og nýtingu skóga skapa atvinnu og binda kolefni – sem er í raun söluvara sem skapast strax – á meðan timburauðlindin verður að mestu til áratugum síðar. Skógrækt er því áhugaverð blanda af skammtíma- og langtímafjárfestingu í atvinnutækifærum, auk þess að geta um leið átt drjúgan þátt í að gera Ísland kolefnishlutlaust í fyrirsjáanlegri framtíð. Skógræktin skapar einnig skjól og eykur verðmæti og framleiðni lands. Ræktun skóga á landi þar sem á sér stað gróður- og jarðvegshnignun er eitt beittasta vopnið gegn uppblæstri og jarðvegsrofi og eflir um leið líffræðilega fjölbreytni. Skógur veitir meira skjól sem gefur aukna möguleika á ræktun í landbúnaði; skjólið tryggir og eykur afurðir af t.d. túnrækt, kornrækt eða matjurtarækt og eykur með því fæðuöryggi. Búpeningi líður betur í skjóli en á berangri, auk þess sem kostnaður við viðhald bygginga lækkar vegna skógarskjólsins.
    Nýskógrækt með sjálfbærum skógarnytjum fellur vel að alþjóðlegum samningum sem Íslendingar eru aðilar að og styður við flest ef ekki öll sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. 1 Traustar upplýsingar úr rannsóknum og vöktun á kolefnisbindingu skóga á Íslandi sýna að árlega bindast að meðaltali um 10 tonn af koltvísýringi í hverjum hektara af íslenskum, ræktuðum skógi. Sú binding er að sjálfsögðu breytileg, t.d. eftir staðháttum eða eftir því hve hraðvaxta trjátegundir skógarins eru á hverjum stað og þarf það að staðfesta í hverju tilviki fyrir sig. Skógur bindur engu að síður umtalsvert meira kolefni á flatarmálseiningu en skóglaust land, og unnið er að því að þróa vottunarkerfi fyrir kolefnisbindingu með skógrækt á Íslandi sem mætir alþjóðlegum kröfum sem til slíkra verkefna eru gerðar. Meira en nóg landrými er hér fyrir hendi til skógræktar, án þess að fórna þurfi öðrum verðmætum eða ræktarlandi. Íslendingar eru í þeirri óvenjulegu stöðu að nær öllum skógum landsins var eytt og á eftir fylgdi stórfelld jarðvegseyðing og hnignun landgæða. Við landnám var um þriðjungur landsins þakinn birkiskógum og kjarri, en nú vex birki ekki á nema um 1,5% landsins og ræktaðir skógar þekja 0,5% landsins.

Hvað felur fjórföldun nýskógræktar í sér í framtíðinni?
          Árið 2025 hefur árleg gróðursetning verið fjórfölduð, úr 3 milljónum trjáa á ári í 12 milljónir.
          Árið 2032 binda íslenskir skógar 587.000 tonn CO2-ígilda á ári og flatarmál nýskógræktar verður 75.000 ha.
          Árið 2040 verður árleg binding í skógi 886.000 tonn CO2-ígilda og flatarmál nýskógræktar 112.000 ha.
          Mun meiri samdráttur verður í nettólosun Íslands á CO2-ígildum en yrði með óbreyttri skógrækt.
          Íslendingar verða sjálfbærir um timbur árið 2060 miðað við núverandi innflutning á timbri.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nægt land er tilbúið til ræktunar, t.d. samningslönd um 650 bænda í tengslum við skógrækt á lögbýlum um land allt og víðfeðm, beitarfriðuð uppgræðslulönd Landgræðslunnar. Ýmis verkefni á vegum ríkisins, sveitarfélaga og félagasamtaka í skógrækt eru starfrækt, svo sem Landgræðsluskógar og Hekluskógar og samstarf Skógræktarinnar við Landgræðsluna og sveitarfélög um nýskógrækt á Hafnarsandi (Þorláksskógar), á Hólasandi og víðar. Allir innviðir eru til staðar svo auka megi nýskógrækt, svo sem gróðrarstöðvar, fagfólk, sérfræðingar í rannsóknum og nauðsynlegur tækjabúnaður.
    Kostnaður við aukna nýskógrækt árin 2022–2032 er áætlaður á núvirði 15 milljarðar kr. Er það aðeins brot af samfélagskostnaði sem Íslendingar og íslensk fyrirtæki gætu þurft að greiða með einum eða öðrum hætti náist ekki að standa við Parísarsamkomulagið.
    Í grein Arnórs Snorrasonar og Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur 2 er lýst spálíkani sem er grunnurinn að spám um kolefnisbindingu sem að framan er lýst. Líkanið byggist á raunmælingum úr ræktuðum íslenskum skógum. Þær raunmælingar hafa verið metnar aðferðafræðilega af sérfræðingum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og samþykktar.
    Eftirfarandi tafla úr grein Arnórs og Sigríðar Júlíu sýnir árlega meðalbindingu í tonnum CO2 á hektara eftir mismunandi lotulengd (ævilengd skógar frá gróðursetningu að fellingu), grósku og trjátegund.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Áætlað er að blandaður skógur með jöfnu hlutfalli af birki, ösp og barrtrjám bindi að meðaltali 10 tonn CO2 á hektara og ári á landinu; í trjánum sjálfum, lífrænu efni í skógarbotni og jarðvegi. Ef ætti að rækta 25 þúsund ferkílómetra af slíkum skógi á Íslandi myndi sá skógur binda 2.500.000 ha * 10 t CO2/ha/ár eða 25 milljónir tonna af CO2 árlega. Til samanburðar er losun Íslendinga á CO2 nú árlega 4,7 milljónir tonna 3 (í þeirri tölu er reyndar ekki losun vegna flugsamgangna né losun vegna landnýtingar). Skógi vaxinn fjórðungur Íslands gæti bundið kolefni á við 5,3 íslensk hagkerfi.

Ávinningur verður margþættur og umtalsverður.
    Ef miðað er við nýlegt verðlag á hverju losunartonni innan EU-ETS (Viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir), 25 evrur, 4 myndi 25 þúsund ferkílómetra skógur skapa verðmæti sem næmi árlega 25 milljónir tonna x 25 evrur = 625 milljónir evra = 96,6 milljarðar kr. Víðáttumikill skógur af þessari stærðargráðu myndi í leiðinni stöðva jarðvegseyðingu (uppblástur og vatnsrof á jarðvegi) sem verið hefur alvarlegasta, staðbundna umhverfisvandamál frá upphafi landnáms. Skógur á fjórðungi landsins myndi breyta veðráttunni, draga úr áhrifum vinda, færa okkur stilltara veður og þar með væntanlega aukna útiveru og um leið bætta lýðheilsu. Þegar fram liðu stundir myndi sá skógur skapa margs konar efnisleg verðmæti (svo sem timbur, trjákurl og aðrar viðarafurðir). Viðarverð á heimsmarkaði hefur farið stöðugt hækkandi undanfarna öld og ekkert bendir til að dragi úr eftirspurninni í fyrirsjáanlegri framtíð.
    Í þessari þingsályktunartillögu er markið ekki sett svo hátt að ætlunin sé að binda kolefni á við rúmlega fimm íslensk hagkerfi og uppskera um leið ávinninginn af slíku stórverkefni. En þetta sýnir eigi að síður hvað kynni að vera raunhæft. Ef markið væri sett lægra, og áformað að kolefnisjafna aðeins þá 4,7 milljarða CO2-ígilda sem landið losar nú árlega með skógrækt eingöngu, þyrfti aðeins að rækta blandaðan skóg á 4,7% landsins. Slík ræktun þarf ekki að ógna landbúnaði og annarri landnýtingu ef hún er skipulögð með réttum hætti. Með Landsáætlun í skógrækt og landshlutaáætlunum sem nú eru í vinnslu ætti slíkt að vera hægt. Ef ná ætti sama markmiði eingöngu með ræktun birkiskóga þyrfti að græða 15% landsins birkiskógi.
    Fram undan eru tækifæri til að ná verulegum árangri í loftslagsmálum og byggja upp auðlind til hagsbóta fyrir land og þjóð í framtíðinni. Ræktun skóga hefur í för með sér margþættan ávinning, allt frá því að bæta ræktunarskilyrði fyrir akurrækt yfir í að skapa framtíðarviðarauðlind fyrir komandi kynslóðir landsmanna. Loftslagsávinningurinn er þó líklega stærsti ávinningurinn til langs tíma. Með skógrækt er hægt að ná þessum markmiðum og fleirum án þess að þurfa að leggja í mikinn kostnað. Á erfiðum tímum er tilhneigingin oft sú að halda að sér höndum og reyna að þrauka en á slíkum tímum þarf að horfa til framtíðar og byggja upp. Fátt eykur bjartsýni fólks eins mikið og gróðursetning trjáa. Nýtum það lag og blásum til grænnar sóknar – og ræktum skóga.
    Flutningsmenn leggja því til að ráðherra verði falið að gera áætlun um þetta efni og kynna hana Alþingi fyrir 1. mars 2021.
1     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. www.un.is/heimsmarkmidin/
2     Arnór Snorrason og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir. 2017. Áhrif fjórföldunar nýskógræktar á Íslandi á losun og bindingu gróðurhúslofttegunda. Ársrit Skógræktarinnar, bls. 56–60.
     www.skogur.is/static/files/utgafa/Arsrit_2017_vef.pdf
3     Losun Íslands www.ust.is/loft/losun-grodurhusalofttegunda/losun-islands/
4     markets.businessinsider.com/commodities/co2-european-emission-allowances