Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 158  —  157. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum.


Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Ásmundur Friðriksson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson.


    Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að skipa starfshóp sem geri aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum. Áætlunin verði gerð í nánu samstarfi við hagsmunaaðila. Starfshópurinn skili tillögum til ráðherra eigi síðar en haustið 2021. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins á haustþingi 2021.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 150. löggjafarþingi (425 mál.) Á undanförnum árum hefur umræða um aldursfordóma aukist og þeirri skoðun vaxið fylgi að þeir séu raunverulegt samfélagsmein sem skaði hagsmuni eldra fólks og liti umræðu um það. Fordómar gegn eldra fólki birtast í ýmsum myndum; eldra fólk er „fyrir“ á spítölum, „fyllir dýr pláss“, „kostar óhemju í þjónustu“, „íþyngir félagsþjónustu sveitarfélaga“, „kann ekki að keyra“, „skilur ekki nútímann“, „fylgist ekki með“ og þannig mætti lengi telja.
    Minna fer fyrir umræðu um þann félagsauð sem eldra fólk býr yfir og um verðmæti þeirrar þekkingar og reynslu sem eldra fólk hefur. Hætt er við að slíkur auður hafni í glatkistunni ef viðbrögð við því sem eldra fólk hefur fram að færa eru neikvæð. Í fjölmiðlaumræðu er mest áhersla lögð á eldra fólk sem yfirvofandi vandamál og þiggjendur þjónustu, og umræðan í samfélaginu gengur út á að leysa vandamál eldra fólks. Slík umræða og fordómar geta leitt til slíks kvíða meðal eldra fólks að það missi kjarkinn til að krefjast réttar síns og viðeigandi þjónustu. Þó er það vel þekkt staðreynd að fólk nýtir sér heilbrigðisþjónustu að jafnaði mest síðustu þrjá mánuði ævinnar. Sá kostnaður lækkar með lengri lífdögum, þ.e. ef þjónustan er t.d. sótt á níunda áratug ævinnar fremur en sjöunda. Því er mjög ómálefnalegt að agnúast út í fólk fyrir að „valda kostnaði“ í heilbrigðiskerfinu þegar það er í raun að sækja þann rétt sem það á til jafns við aðra þjóðfélagsþegna. Að auki er rétt að hafa í huga að eldra fólk er mjög fjölbreyttur hópur og aðeins lítill hluti þess veikburða og hrumur. Mun fleiri eru við ágæta heilsu og líður vel. Sú ranghugmynd að flestir aldraðir séu veikir og lasburða er beinlínis skaðleg.
    Eðli málsins samkvæmt eru þeir sem nýta sér heilbrigðisþjónustu, einkum á sjúkrahúsum, að jafnaði eldri en þeir sem nýta sér hana ekki. Annað væri óeðlilegt og til marks um að okkur hefði mistekist hrapallega sem samfélagi að tryggja almennt heilbrigði. Hins vegar er oft látið að því liggja að eldra fólk „stífli pláss“ á spítölum þótt fyrir liggi að um sé að ræða hóp á mikilli hreyfingu en ekki alltaf sama fólkið þó að fjöldi þeirra sem þurfa spítalavist sé ávallt nokkur.
    Þessar staðreyndir breyta því þó að sjálfsögðu ekki að mikilvægt er að þróa áfram þjónustu heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustunnar á öllum stigum, þ.m.t. það sem oft er talað um sem stofnanaþjónustu við eldra fólk, svo sem á hjúkrunarheimilum.
    Enn er gert ráð fyrir að fólk hætti almennt á vinnumarkaði við 70 ára aldur, óháð því hvort það vill það sjálft og óháð því hvort það er fært um að vinna áfram það starf sem það hefur unnið áður. Reynsla og þekking fólks sem lýkur störfum með þeim hætti glatast hins vegar að miklu leyti og þar með umtalsverður mannauður. Að mörgu leyti væri eðlilegra að gera fólki kleift að ljúka störfum á sínum eigin forsendum og þá fremur eftir því hvort það getur unnið starfið eða hefur vilja til þess. Sú aðferð að takmarka atvinnuþátttöku eldra fólks með þeim hætti sem gert er nú er í raun aldursfordómar og veldur fólki oft miklu hugarangri. Einnig er vel þekkt að upp koma ýmiss konar geðræn vandamál við starfslok eins og kvíði og jafnvel þunglyndi sem ætla mætti að yrðu minna áberandi ef fólk gæti hætt á eigin forsendum.
    Tilgangur tillögu þessarar er að fela ráðherra að gera heildstætt mat á öldrunarfordómum og leita leiða til að draga úr þeim eða eyða. Lagt er til að eftirfarandi verði gert:
     1.      Lagaumhverfi verði yfirfarið og metið hvort lög mismuna aldurshópum að því er varðar réttindi og skyldur umfram það sem mætti telja eðlilegt vegna þroska og getu.
     2.      Metið verði hvort tilefni er til að fella brott aldurstengdar viðmiðanir í lögum þar sem það á við, svo sem þegar átt er við starfsréttindi, rétt til atvinnu, rétt til lífeyristöku og rétt á tiltekinni þjónustu.
     3.      Metið verði hvort frekar skal miðað við hæfni í lögum (menntun, reynslu og getu) eða önnur málefnalegri viðmið en aldur.
    Mikilvægt er að unnið verði að aðgerðaáætluninni í nánu samstarfi við hagsmunaaðila, svo sem hagsmunasamtök eldra fólks, aðila vinnumarkaðarins og aðra þá sem má ætla að hafi yfirsýn yfir málið vegna sérþekkingar eða reynslu. Þar má sérstaklega nefna fræðimenn sem hafa skrifað um málið, öldrunarfræðinga, heilbrigðisstarfsfólk með sérmenntun á sviði öldrunarfræða, félagsráðgjafa og fleiri. Við skipan starfshóps verði litið sérstaklega til fyrrgreindra þátta.
    Gera má ráð fyrir að einhver kostnaður hljótist af vinnu starfshópsins sem verður aðallega innan ráðuneytisins í fyrstu. Niðurstöður hópsins gætu mögulega breytt kostnaðarlíkönum hins opinbera og mætti ætla að mat á því væri eitt af hlutverkum slíks starfshóps.