Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 159  —  158. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um gerð stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa.


Flm.: Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Andrés Ingi Jónsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Halldóra Mogensen, Líneik Anna Sævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp til að móta stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dómsmálaráðherra. Við skipan í starfshópinn verði tryggt að helstu hagsmunaaðilar eigi sæti í hópnum.
    Mótuð verði stefna um móttöku skemmtiferðaskipa þar sem tekið verði á fjárhagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum áhrifum skipanna. Jafnframt fjalli starfshópurinn sérstaklega um þætti eins og landtöku utan hafna, kröfur um mengunarvarnir og um öryggismál. Enn fremur geri starfshópurinn úttekt á lagaumhverfi og skilgreini reglur þar um.
    Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. maí 2021. Ráðherra kynni stefnu, sem byggð er á tillögum starfshópsins, fyrir Alþingi eigi síðar en 1. nóvember 2021 og leggi jafnframt til nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 150. löggjafarþingi (372. mál).
    Ör vöxtur hefur orðið í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin ár en einna hraðastur hefur vöxturinn verið í umferð skemmtiferðaskipa og þjónustu við þau. Rekstur skemmtiferðaskipa er margbrotinn. Flestir farþegar koma á stórum skemmtiferðaskipum og eru í skemmtisiglingu. Annar stór hluti þessarar greinar eru fræðsluferðir á framandi slóðir undir leiðsögn fræðimanna á smærri skemmtiferðaskipum eða á svokölluðum leiðangursskipum. Alls taka 22 hafnir víðs vegar á landinu á móti skemmtiferðaskipum. Langstærstar eru Sundahöfn, Akureyrarhöfn og Ísafjarðarhöfn. Á vefsíðunni Mælaborði ferðaþjónustunnar sem Stjórnstöð ferðamála heldur úti kemur fram að undanfarin ár hafi komum skemmtiferðaskipa til landsins fjölgað mikið því að skipakomur voru 284 árið 2014 en 725 árið 2018. Árið 2019 voru 864 skipakomur skráðar. 1
    Þeir sem þjónusta skemmtiferðaskip hafa kallað eftir regluverki og stefnumótun varðandi komur þeirra hingað. Enn sem komið er hefur engin heildstæð opinber stefna verið mótuð um móttöku slíkra skipa hér á landi. Örfá sveitarfélög hafa mótað sér einhverja stefnu í þessum efnum, enda geta heimsóknir skemmtiferðaskipa haft umtalsverð áhrif á móttökusvæðin. Engu að síður getur álag vegna skemmtiferðaskipa haft áhrif langt út fyrir einstök sveitarfélög. Þó að skemmtiferðaskip komi í höfn í einu sveitarfélagi eru algengustu áfangastaðir í skipulögðum dagsferðum frá skipunum fyrir utan hafnarbæina sjálfa og getur því orðið mikið álag á þeim stöðum á skömmum tíma. Flutningsmenn telja augljóst að þörf sé á skýrari umgjörð í þessum efnum því að komum skemmtiferðaskipa fylgja ýmsar áskoranir sem mikilvægt er að bregðast við sem fyrst. Með opinberri stefnumótun gæfist tækifæri til að hafa frekari áhrif á uppbyggingu þessarar greinar.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipi starfshóp til að móta stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dómsmálaráðherra. Þá er lagt til að við skipan starfshópsins verði tryggt að helstu hagsmunaaðilar eigi sæti í hópnum enda um að ræða málefnasvið sem teygir anga sína víða. Þannig verði gætt að því að fulltrúar helstu hagsmunaaðila, eins og Hafnasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka ferðaþjónustunnar, Cruise Iceland, Umhverfisstofnunar, Samgöngustofu, umhverfisverndarsamtaka og Landhelgisgæslunnar eigi sæti í starfshópnum.
    Stefnumótunin skuli taka á fjárhagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum áhrifum skipanna. Þá fjalli starfshópurinn sérstaklega um þætti eins og landtöku utan hafna og hvort takmarka þurfi heimildir skemmtiferðaskipa til slíks; kröfur um mengunarvarnir, bæði þegar skip liggja við bryggju og meðan þau sigla innan landhelginnar, m.a. með hliðsjón af markmiðum um kolefnishlutleysi, og hvaða umhverfiskröfur þurfi að gera til skemmtiferðaskipa sem sigla við strendur Íslands; og jafnframt um öryggismál og neyðaráætlanir í tengslum við siglingar skemmtiferðaskipa kringum landið. Þá þarf að svara þeirri spurningu hvort takmarka eigi komur skemmtiferðaskipa til landsins, sérstaklega með tilliti til loftmengunar og kolefnisfótspors þessa ferðamáta.
    Enn fremur verði starfshópnum falið að gera úttekt á lagaumhverfinu og skilgreina reglur þar um en nauðsynlegt er að lagaumhverfið sé skýrt og ábyrgð verði skilgreind.
    Í stefnunni verði m.a. nánar fjallað um eftirfarandi þætti:
     Fjárhagsleg áhrif: Unnin verði greining á fjárhagslegum áhrifum skemmtiferðaskipa sem koma til landsins. Sérstaklega verði fjallað um tekjur og kostnað hafnaryfirvalda vegna skipanna.
     Landtaka skemmtiferðaskipa utan hafna: Í ljósi aukinnar ásóknar svokallaðra leiðangursskipa er mikilvægt að móta reglur um landtöku þeirra utan hafna. Nú um stundir er engin tilkynningarskylda fyrir hendi og regluverk óskýrt. Þá hefur ekkert eftirlit verið með því hvar þau taka land. Dæmi um slíkt er landtaka skemmtiferðaskipa við friðlandið á Hornströndum þar sem engin heilsársbúseta hefur verið frá því um miðja síðustu öld og hefur svæðið allt verið friðað frá árinu 1975. Umhverfisstofnun hefur nú unnið stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið en þar er landtaka skemmtiferðaskipa takmörkuð.
     Mengun frá skemmtiferðaskipum: Setja þarf skýrar reglur um varnir gegn mengun frá skemmtiferðaskipum auk þess sem koma þarf þeim kröfum sem gerðar eru á framfæri við skipstjóra og eigendur þeirra skipa sem heimsækja landið. Evrópsku samtökin Transport & Environment gáfu út skýrslu um mengun skemmtiferðaskipa í Evrópu í júní 2019. 2 Í skýrslunni kemur fram að þau 203 skemmtiferðaskip sem sigldu um sérefnahagslögsögu innan Evrópu árið 2017 (þar af sigldu 72 þeirra til Íslands) hafi losað um 62 kílótonn af brennisteinsdíoxíði ( SO2), 155 kílótonn af köfnunarefnisdíoxíði ( NO2), 10 kílótonn af svifryki (PM) og meira en 10 megatonn af koltvísýringi ( CO2). Umræðan um umhverfisleg og samfélagsleg áhrif skemmtiferðaskipa er á engan hátt bundin við Ísland. Þannig ákváðu Norðmenn nýlega að setja mun strangari kröfur um útblástur og klóaklosun skemmtiferðaskipa í þeim fjörðum Noregs sem eru á heimsminjaskrá. 3 Á Möltu, eins og á Íslandi, er verið að skoða leiðir til að tengja skemmtiferðaskip við rafmagn þegar þau liggja við bryggju til að vinna á hratt vaxandi loftmengun sem talið er að skemmtiferðaskip valdi. Einnig er nauðsynlegt að horfa til þess að kolefnisfótspor skemmtiferðaskipa er umtalsvert og er mikilvægt að skoða sérstaklega hvort ástæða er til að takmarka komur skemmtiferðaskipa til landsins vegna þess eða gera strangari kröfur um mengunarvarnir.
     Öryggismál: Öryggismál skemmtiferðaskipa við Íslandsstrendur verði skoðuð sérstaklega, t.d. að því er snertir áhættu af mengunarslysum, sjúkdómum og slysum. Kortlagt verði hvaða úrræði eru til í ljósi fjölgunar skemmtiferðaskipa bæði við Ísland og á norðurslóðum.
     Reynsla annarra þjóða: Mikilvægt er að horfa til reynslu annarra þjóða í þessu samhengi og hvort tilefni er til að aðlaga íslensk lög lögum annarra þjóða þar sem sett hafa verið strangari skilyrði um skemmtiferðaskip, sérstaklega um umhverfisþætti og takmarkanir í tengslum við þá.
    Um þessar mundir er hægagangur eða jafnvel algjört frost í ferðaþjónustu um allan heim. Því eru fá skemmtiferðaskip sem koma hingað til lands og ekki fyrirséð að komum þeirra fjölgi á ný fyrr en böndum hefur verið komið á útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru. Nú er því kjörið tækifæri til að nýta tímann í að móta sýn til framtíðar og marka skýra stefnu um það hvernig taka skuli á móti skemmtiferðaskipum.
    Lagt er til að starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. maí 2021. Ráðherra kynni stefnu, sem byggð verði á tillögum starfshópsins, fyrir Alþingi eigi síðar en 1. nóvember 2021 og leggi jafnframt til nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf.

1     www.maelabordferdathjonustunnar.is/is/farthegar/skemmtiferdaskip (skoðað 4. nóvember 2019).
2     www.transportenvironment.org/sites/te/files/publications/One%20Corporation%20to%20Pollute%20Them%20All_English.pdf
3     www.stortinget.no/no/Saker-og-publikasjoner/Vedtak/Vedtak/Sak/?p=69170