Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 164 — 163. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um endurskoðun regluverks um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa.
Flm.: Ólafur Ísleifsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Helgi Hrafn Gunnarsson.
Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar lög og reglur sem gilda um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofa og vinnslu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra. Starfshópurinn leggi sérstaka áherslu á réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði hvað varðar vinnslu slíkra upplýsinga og geri tillögur um úrbætur til að bæta stöðu neytenda á þessu sviði.
Dómsmálaráðherra skipi formann starfshópsins án tilnefningar en fjármála- og efnahagsráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Hagsmunasamtök heimilanna og Neytendasamtökin tilnefni hvert sinn fulltrúa í starfshópinn. Starfshópurinn hafi samráð við Persónuvernd, Neytendastofu, Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið, önnur félagasamtök og stofnanir sem málefnið kann að snerta.
Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. júní 2021. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.
Greinargerð.
Við setningu nýrra laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, var lögfest ákvæði sambærilegt því sem var í þágildandi lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust en nýmæli var að vísa sérstaklega til vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram við gerð lánshæfismats og taka fram að sú vinnsla þyrfti að byggjast á leyfi Persónuverndar. Ítarlega útfærslu á reglum um starfsemina er að finna í reglugerð um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, nr. 246/2001. Samkvæmt reglugerðinni er starfsemin leyfisskyld og getur Persónuvernd bundið slíkt starfsleyfi þeim skilmálum sem hún telur vera nauðsynlega hverju sinni. Það hefur t.d. verið gert með útgáfu starfsleyfis til ákveðins tíma í senn, með skilyrðum sem hafa svo jafnan sætt endurskoðun við endurnýjun þess leyfis hverju sinni. Með setningu nýrra persónuverndarlaga var reglugerðin þó ekki tekin til sérstakrar endurskoðunar. Engu að síður kemur fram í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/2018 að endurskoðun reglugerðarinnar sé tímabær. Nauðsyn þess að endurskoða og skýra reglur um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofa hefur komið glögglega fram í kjölfar fjármálahrunsins 2008 í tengslum við álitaefni sem hafa vaknað um lögmæti krafna með hliðsjón af reglum á sviði neytendaverndar. Ekki síst í tengslum við svokölluð smálán með ólöglega háum lánskostnaði sem hafa verið innheimt af hörku, m.a. með því að nota vanskilaskráningu sem hótun og ógn gagnvart neytendum.
Með þingsályktunartillögu þessari er því lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að skipa starfshóp sem skuli taka til endurskoðunar þau lög og reglur sem gilda um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofa og vinnslu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra, með sérstakri áherslu á réttindi neytenda. Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að neytendaverndarsamtök hafi aðkomu að slíkri vinnu til að tryggja hagsmuni neytenda og þeim verði falið að tilnefna fulltrúa í hópinn. Enn fremur er lagt til að starfshópurinn hafi samráð um tillögur og nánari útfærslur þeirra við félagasamtök og stofnanir sem málefnið snertir, svo sem samtök launþega og fjármálafyrirtækja, eftirlitsstofnanir, önnur ráðuneyti o.fl.