Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 201  —  200. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, nr. 50/2020 (afgreiðsla umsókna).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (ÓBK, JSV, BHar, BN, ÓGunn, SDG, WÞÞ).


1. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skattinum er heimilt að afgreiða umsóknir sem berast að liðnum fresti skv. 1. málsl. enda séu önnur skilyrði laga þessara uppfyllt.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda afturvirkt frá gildistöku laga nr. 50/2020.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lögð til ein breyting á lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, nr. 50/2020. Skv. 1. mgr. 7. gr. laganna ber atvinnurekendum að skila umsókn um stuðning mánaðarlega til Skattsins, fyrir næstliðið launatímabil og eigi síðar en 20. hvers mánaðar. Við framkvæmd laganna hefur komið í ljós að þessi tímafrestur hefur reynst óþarflega knappur. Ábendingar hafa komið fram um að atvinnurekendur, sem uppfylla að öðru leyti skilyrði laganna, hafi ekki náð að skila inn umsóknum í tæka tíð vegna hins skamma skilafrests. Með hliðsjón af markmiði laganna um að tryggja atvinnurekendum sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap stuðning vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða sem honum tengjast er lagt til að atvinnurekendum verði veitt ríkara svigrúm við skil á umsóknum. Lagt er til að Skattinum verði heimilað að afgreiða umsóknir sem hafa borist að liðnum umsóknarfresti skv. 1. mgr. 7. gr. enda uppfylli umsækjandi að öðru leyti öll skilyrði laganna fyrir stuðningi. Atvinnurekendum, sem uppfylla skilyrði til greiðslu stuðnings en náðu af einhverjum sökum ekki að skila inn umsókn innan núgildandi frests, gæfist þannig kostur á að fá afgreiðslu á umsókn sinni. Til að tryggja að lagabreytingin nýtist sem skyldi er lagt til að breytingin gildi afturvirkt frá og með gildistöku laga nr. 50/2020. Um ívilnandi breytingu er að ræða sem ekki er talin hafa áhrif á upphaflegt mat á áhrifum aðgerðarinnar á ríkissjóð.