Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 206  —  205. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á þinglýsingalögum, nr. 39/1978 (greiðslufrestun).

Frá dómsmálaráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða III í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „vöxtum og afborgunum, í allt að níu mánuði, frá og með 16. mars 2020 til og með 1. janúar 2021“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: vöxtum og/eða afborgunum, í allt að 18 mánuði, frá og með 16. mars 2020 til og með 1. maí 2021.
     b.      Í stað dagsetningarinnar „16. mars“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 16. maí.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Hinn 30. mars 2020 samþykkti Alþingi frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, þskj. 1206 – 683. mál, sbr. lög nr. 25/2020. Var þar m.a. samþykkt ákvæði til bráðabirgða við þinglýsingalög sem veitti viðauka við veðbréf sem kveður á um frestun greiðslna á skuldum einstaklinga eða fyrirtækja í allt að níu mánuði sömu réttaráhrif og ef honum væri þinglýst og hann samþykktur af síðari veðhöfum. Var þessi heimild veitt vegna þess ástands sem skapaðist vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og gilti vegna viðauka sem gerðir voru frá og með 16. mars 2020 til og með 1. september 2020. Þá var gert að skilyrði að viðaukanum yrði þinglýst fyrir 16. mars 2021 og að frumrit veðbréfsins yrði áritað um skilmálabreytinguna.
    Hinn 30. júní 2020 samþykkti Alþingi frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og þinglýsingalögum, þskj. 1976 – 960. mál, sbr. lög nr. 82/2020. Með frumvarpinu var framangreindu tímamarki ákvæðis til bráðabirgða við þinglýsingalög, nr. 39/1978, breytt þannig að kröfuhafar hefðu frest til 1. janúar 2021 í staðinn fyrir 1. september 2020 til að ganga frá umræddum viðauka við veðbréf.
    Með frumvarpi þessu eru annars vegar lagðar til breytingar á orðalagi ákvæðanna þannig að ljóst sé að viðaukar um greiðsluhlé að hluta, t.d. frestun afborgana en ekki vaxta, falli einnig undir ákvæðið og hins vegar er tímabil greiðslufrestunar í viðauka lengt úr níu mánuðum í 18, frestur kröfuhafa til að ganga frá viðaukum við veðbréf framlengdur til 1. maí 2021 og frestur til að þinglýsa viðauka lengdur til 16. maí 2021.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni setningar framangreindra laga nr. 25/2020 og 82/2020 má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar frá 10. mars 2020 um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru. Hefur þess verið óskað af hálfu Samtaka fjármálafyrirtækja að umrædd heimild verði framlengd.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Svo sem segir í köflum 1 og 2 að framan er með frumvarpinu lagt til að kröfuhafar fái frest til að þinglýsa viðaukum við veðbréf sem veita skuldara greiðslufrest á afborgunum og/eða vöxtum til allt að 18 mánaða fram til 16. maí 2021. Heimildin var áður bundin við að greiðslufrestur væri vegna afborgana og vaxta til allt að níu mánaða og að kröfuhafar skyldu þinglýsa viðaukanum fyrir 16. mars 2021.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að yfirlýsing um samþykki síðari veðhafa sem öll stærstu fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir voru aðilar að og undirrituð var 25. maí 2020 verði endurnýjuð. Þannig liggi í raun fyrir samþykki flestra þeirra sem almennt eiga veðrétt í fasteignum. Í þeim tilvikum sem um er að ræða síðari veðhafa sem ekki eru aðilar að yfirlýsingunni þarf að leita sérstaklega eftir samþykki þeirra til skilmálabreytingarinnar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var kynnt fyrir sýslumönnum, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Landssamtökum lífeyrissjóða. Í ljósi þess að mikið ríður á að framlengja þær bráðabirgðaheimildir sem frumvarpið fjallar um voru drög að frumvarpinu ekki kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja að kröfuhafar geti gengið frá viðaukum við veðbréf rafrænt og að þeir fái aukið svigrúm til að ganga frá þinglýsingu þeirra. Er þá horft til þess að unnt verði að þinglýsa viðaukunum með rafrænni færslu þegar rafrænar þinglýsingar verða að veruleika.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hvorki gert ráð fyrir því að það hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð né sveitarfélög. Frumvarpið er unnið samkvæmt beiðni þeirra kröfuhafa sem það varðar og veldur þeim ekki auknum kostnaði. Þá er hvorki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti né stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Eins og áður hefur komið fram er kveðið á um að þeir frestir sem kröfuhöfum eru veittir til þess að ganga frá skilmálabreytingum og þinglýsa þeim verði lengdir. Jafnframt er lagt til að sá tími sem greiðslufrestur er veittur samkvæmt viðaukanum verði lengdur. Verður þannig heimilt að fresta greiðslum að hluta eða í heild, hvort sem það eru vextir eða afborganir eða hvort tveggja, í allt að 18 mánuði í stað níu. Heimilt verði að ganga frá slíkum viðauka til og með 1. maí 2021 í stað 1. mars 2021. Ekki þarf almennt að afla samþykkis síðari veðhafa með sérstakri áritun á viðaukann eða þinglýsa honum án tafar til þess að hann öðlist réttarvernd. Í stað sérstakrar áritunar um samþykki síðari veðhafa á viðaukann undirrita kröfuhafar sérstaka sameiginlega yfirlýsingu sem felur í sér samþykki þeirra sem síðari veðhafa vegna skilmálabreytinga sem gerðar eru með heimild í þessu ákvæði. Er yfirlýsingin órjúfanlegur hluti viðaukans og skal henni þinglýst sérstaklega. Þannig er ljóst að ef til staðar eru síðari veðhafar sem ekki eru aðilar að áðurnefndri sameiginlegu yfirlýsingu ber að fá samþykki þeirra sérstaklega til skilmálabreytingarinnar.
    Eins og áður hefur komið fram er lagt til að frestur kröfuhafa til að þinglýsa viðauka verði framlengdur til og með 16. maí 2021. Þar sem um er að ræða undanþágu frá þeirri meginreglu að réttarvernd þinglýsingar sé tengd afhendingu skjals til þinglýsingar og í ljósi mikilvægis þess að veðbækur hafi að geyma áreiðanlegar upplýsingar um áhvílandi veðréttindi, er mikilvægt að þinglýsingu viðauka verði ekki frestað umfram það sem talið er nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna í samfélaginu. Þannig verði unnt að tryggja grandvísi þriðja aðila til lengri tíma litið. Þar til frestinum lýkur munu veðbókarvottorð og veðbandayfirlit hafa að geyma fyrirvara um að skilmálum veðbréfa kunni að hafa verið breytt á grundvelli bráðabirgðaákvæðis laganna.
    Gert er ráð fyrir að í viðauka megi einungis kveða á um frestun greiðslna. Með því er átt við að ákvæðið eigi við um viðauka sem kveður á um frestun greiðslna og tengd atriði sem af frestun greiðslna leiðir, t.d. lengingu láns, niðurfellda og/eða nýja gjalddaga eða vaxtagjalddaga, höfuðstólsfærslu samningsvaxta, skilyrði fyrir frestun greiðslna svo sem bann við arðgreiðslum, greiðslu lögbundins þinglýsingargjalds, greiðslu kostnaðar við gerð viðaukans og áritun á frumrit veðskuldabréfs. Ákvæðið á þannig ekki við um viðauka sem mælir fyrir um atriði sem eru með öllu ótengd frestun greiðslna, t.d. hækkun á vöxtum.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.