Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 208  —  207. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019 (andvana fædd börn, kerfiskennitölur og heildarafhending þjóðskrár).

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um andvana fædd börn sem fæðast eftir 22. viku meðgöngu.

2. gr.

    2. mgr. 24. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 2. málsl. 3. mgr. 11. gr. um miðlun kerfiskennitalna gildi þann 1. maí 2021, ákvæði 2. mgr. 12. gr. um bann við heildarafhendingu þjóðskrár tekur gildi 1. júní 2022 og 4. mgr. 12. gr. um heimild Þjóðskrár Íslands til að takmarka og hafna afhendingu á upplýsingum tekur þegar gildi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að beiðni og í samvinnu við Þjóðskrá Íslands.
    Tiltölulega skammt er frá því að ný heildarlög um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, tóku gildi. Við gildistöku laganna kom í ljós að láðst hafði að setja lagastoð undir skráningu andvana fæddra barna. Þá hefur Þjóðskrá Íslands þurft að forgangsraða verkefnum við uppfærslur á þjóðskrá þar sem ýmis ný löggjöf hefur kallað á slíkar breytingar. Því hefur þeim breytingum á þjóðskrá sem lög um skráningu einstaklinga gera ráð fyrir seinkað.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í lögum um skráningu einstaklinga er að finna ákvæði um kerfiskennitölur. Samkvæmt ákvæðinu geta útlendingar vegna sérstakra hagsmuna hér á landi fengið útgefna kerfiskennitölu. Þessir einstaklingar uppfylla ekki skilyrði til að fá hefðbundna kennitölu og því er brugðið á það ráð að úthluta þeim kerfiskennitölum Þessar kerfiskennitölur eru notaðar af opinberum stofnunum t.d. ef þessir einstaklingar þurfa að greiða skatt, nýta læknisþjónustu o.fl. án þess að einstaklingarnir öðlist réttindi hér á landi.
    Það hefur tíðkast að skrá börn sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu í utangarðsskrá sem er forveri kerfiskennitöluskrár. Við samningu frumvarps um skráningu einstaklinga láðist að gera ráð fyrir þessu og því er lagt til með frumvarpi þessu að bætt verði úr. Nauðsynlegt er fyrir heilbrigðisvísindi að þessi börn séu skráð en auk þess öðlast foreldrar barna sem andast eftir 22. viku meðgöngu tiltekin réttindi, svo sem til fæðingarorlofs, sbr. 12. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.
    Í lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, er kveðið á um að gildistöku 2. málsl. 3. mgr. 11. gr. laganna um miðlun kerfiskennitalna og aðgreiningu kerfiskennitalna frá hefðbundnum kennitölum verði frestað til 1. janúar 2021. Sama gildir um 2. mgr. 12. gr. laganna um bann við heildarafhendingu þjóðskrár og 4. mgr. sömu greinar þar sem Þjóðskrá Íslands er heimilað að hafna eða takmarka afhendingu upplýsinga úr þjóðskrá. Ástæða þess að gildistöku nefndra ákvæða var frestað var tæknilegs eðlis, þ.e. kerfi Þjóðskrár Íslands ráða ekki við breytingarnar. Undanfarin misseri hafa ýmis lög tekið gildi sem hafa kallað á breytingar á kerfi Þjóðskrár Íslands, einkum þjóðskrána sjálfa. Þjóðskráin er komin til ára sinna en nú standa yfir miklar endurbætur á henni svo skráin uppfylli kröfur samtímans. Þannig tóku ný lög um lögheimili og aðsetur gildi nýverið sem og ný löggjöf um kynrænt sjálfræði. Viðbrögð við þessum lagabálkum hafa verið í forgangi hjá Þjóðskrá Íslands og breytingar sem fylgja öðrum lagabálkum sem á eftir hafa komið, svo sem lögum um skráningu einstaklinga, eru aftar á forgangslista. Kerfi þjóðskrár verða tilbúin um næstu áramót er varðar kerfiskennitölur en rétt þykir að veita stofnunum ríkisins og atvinnulífinu frest til að aðlaga kerfi sín að breyttri kerfiskennitölu til 1. maí 2021. Kerfi þjóðskrár eru tilbúin fyrir þá aðgerð að takmarka eða hafna afhendingu á upplýsingum úr þjóðskrá eins og kemur fram í 4. mgr. 12. gr. laganna og því óhætt að koma því ákvæði til framkvæmda strax. Kerfi þjóðskrár munu hins vegar ekki verða tilbúin fyrir bann við heildarafhendingu þjóðskrár fyrr en 1. júní 2022. Með vísan til framangreinds er nauðsynlegt að fresta gildistöku tveggja ákvæða laga um skráningu einstaklinga frekar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði inn í lög um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, heimild til að gefa út kerfiskennitölur fyrir andvana fædd börn sem fæðast eftir 22. viku meðgöngu. Þá er lagt til að gildistöku 2. mgr. 24. gr. laganna verði breytt þannig að aðgreiningu kerfiskennitalna frá hefðbundnum kennitölum verði frestað til 1. maí 2021 og banni við heildarafhendingu þjóðskrár verði frestað til 1. júní 2022. Loks er gert ráð fyrir að 4. mgr. 12. gr. laga um skráningu einstaklinga taki gildi strax í stað 1. janúar 2021.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér smávægilegar breytingar á lögum um skráningu einstaklinga og kallar ekki á skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Þá tengist það ekki alþjóðlegum skuldbindingum Íslands sem í gildi eru.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir Þjóðskrá Íslands, stofnanir ríkisins og atvinnulífið.
    Áform um lagasetningu voru sett í innra samráð í Stjórnarráðinu og í kjölfarið sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 1.–7. september 2020, mál nr. S-167/2020. Engar athugasemdir bárust. Drög að frumvarpinu voru sett í opið samráð á sama vettvangi 10.–20. september 2020, mál nr. S-185/2020, og barst ein umsögn við frumvarpið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sambandið gerði ekki athugasemdir við frumvarpið sjálft heldur lagði til frekari breytingar á lögum um skráningu einstaklinga. Ráðuneytið gat ekki fallist á að breyta lögum um skráningu einstaklinga frekar að svo stöddu.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Frumvarpið mun veita atvinnulífinu og opinberum stofnunum svigrúm til að aðlaga sig að breytingum sem fyrirhugaðar eru á miðlun kennitalna annars vegar og aðgreiningu kerfiskennitalna og hefðbundinna kennitalna hins vegar.
    Þá mun frumvarpið auðvelda stjórnvöldum að halda utan um fjölda barna sem látast þegar komið fram yfir 22. viku meðgöngu og réttindi foreldra í því samhengi.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að Þjóðskrá Íslands verði heimilt að gefa út kerfiskennitölur fyrir andvana fædd börn sem fæðast eftir 22. viku meðgöngu. Til frekari skýringa vísast til kafla 2 hér að framan.

Um 2. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að réttaráhrifum 3. mgr. 11. gr. laganna verði frestað til 1. maí 2021. Þá er gert ráð fyrir að 2. mgr. 12. gr. laganna, sem taka átti gildi 1. janúar 2021, verði frestað til 1. júní 2022 en 4. mgr. 12. gr. laganna, sem taka átti gildi þann 1. janúar 2021, taki þegar gildi.
    Þjóðskrá Íslands hefur unnið að því undanfarið að koma á nýrri kerfiskennitölu og setti stofnunin með atbeina ráðuneytisins þrjár útfærslur í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda sumarið 2020, mál nr. S-128/2020. Samkvæmt lögum um skráningu einstaklinga er gert ráð fyrir að ný útfærsla kerfiskennitölu verði tilbúin um áramótin 2020–2021. Í samráðinu og í samskiptum Þjóðskrár Íslands við hagsmunaaðila eftir samráðið kom fram að tíminn fram að áramótum væri of stuttur og því þyrfti atvinnulífið og stofnanir meira svigrúm til að aðlagast nýjum kerfiskennitölum. Fyrirséð er að kerfi Þjóðskrár Íslands verði tilbúin um áramótin næstkomandi en rétt þykir að veita atvinnulífinu og stofnunum ríkisins frekara svigrúm til að aðlagast nýjum kerfiskennitölum.
    Er varðar bann við heildarafhendingu þjóðskrár sjálfrar þá er ljóst að kerfi Þjóðskrár Íslands verða ekki tilbúin fyrir áramótin 2020–2021 og því nauðsynlegt að fresta gildistöku til 1. júní 2022.
    Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.