Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 211  —  210. mál.




Beiðni um skýrslu


frá félags- og barnamálaráðherra um aðgengi hreyfihamlaðra að mannvirkjum.

Frá Vilhjálmi Árnasyni, Ásmundi Friðrikssyni, Óla Birni Kárasyni, Njáli Trausta Friðbertssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Oddnýju G. Harðardóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Guðmundi Inga Kristinssyni, Sigurði Páli Jónssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Halldóru Mogensen, Helga Hrafni Gunnarssyni, Andrési Inga Jónssyni, Ólafi Þór Gunnarssyni, Ingu Sæland, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Ólafi Ísleifssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Steinunni Þóru Árnadóttur og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félags- og barnamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um aðgengismál hreyfihamlaðra. Í skýrslunni verði fjallað um eftirfarandi:
     a.      Hvaða lög og reglur gilda um aðgengi hreyfihamlaðra að mannvirkjum?
     b.      Gilda sérstakar reglur um aðgengi hreyfihamlaðra að opinberum byggingum?
     c.      Á hvaða grundvelli er heimilt að veita undanþágur á kröfum um aðgengi fyrir hreyfihamlaða í nýbyggingum?
     d.      Í hversu mörgum tilfellum hafa byggingarfulltrúar landsins veitt eigendum fasteigna frest til að setja upp lyftu á grundvelli stöðuúttekta á undanförnum 10 árum?
     e.      Hvernig er eftirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar háttað gagnvart byggingarfulltrúum?
     f.      Hvernig er eftirfylgni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á niðurstöðu athugunar gagnvart byggingarfulltrúum háttað?
     g.      Hvaða starfsleyfi eru tengd skyldunni til að tryggja fullnægjandi aðgengi hreyfihamlaðra að mannvirkjum?

Greinargerð.

    Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti haustið 2016, er kveðið á um að fatlað fólk skuli njóta allra mannréttinda og mannfrelsis að fullu til jafns við aðra. Aðildarríkjum samningsins er því skylt að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgang að hinu efnislega umhverfi og ryðja úr vegi hindrunum sem hefta aðgengi, og ná m.a. til bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan. Gott aðgengi er því lykillinn að því að hreyfihamlaðir geti verið fullgildir þátttakendur í samfélaginu.
    Í hverju sveitarfélagi skal starfa byggingarfulltrúi sem hefur það hlutverk að gefa út byggingarleyfi. Hann getur krafist tilskilinna gagna og ber að sjá til þess að uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða um leyfisveitinguna. Yfirferð hans takmarkast við skoðunarskýrslur en beiting réttar- og þvingunarúrræða er í höndum byggingarfulltrúa á hverjum stað. Misbrestur virðist þó vera á því að byggingarfulltrúar óski eftir greinargerð hönnuðar samkvæmt byggingarreglugerð því að ekki er hægt að gefa út lokaúttektarvottorð vegna mannvirkis fyrr en þáttum sem varða aðgengi er lokið. Þá er rétt að benda á að hönnuður ber ábyrgð á að hönnun hans sé faglega unnin og að mannvirkið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar. Mannvirki geti því ekki talist fullgert og tilbúið til lokaúttektar ef það uppfyllir ekki framangreind skilyrði sem hér hafa verið rakin.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að ráðist verði í greiningu á aðgengismálum hreyfihamlaðra. Jafnframt telja þeir mikilvægt að athugað verði hvort íslensk löggjöf tryggir með fullnægjandi hætti aðgengi fyrir alla, hvort fólki er mismunað að því er varðar aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðingar eða veikinda og hvort það geti með öruggum hætti komist inn í mannvirki og út úr þeim, jafnvel við óvenjulegar aðstæður.