Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 215  —  214. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um rafvæðingu styttri flugferða.


Flm.: Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Andrés Ingi Jónsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að móta stefnu um rafvæðingu þeirra flugferða sem eru styttri en 90 mínútur fyrir árið 2040 og að hefja rannsóknir og undirbúning þegar í stað. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvindu málsins fyrir árslok 2021.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 150. löggjafarþingi (395. mál). Undanfarið hafa umhverfisáhrif vegna flugferða verið í umræðunni, enda er losun frá flugstarfsemi stór þáttur í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda og fer vaxandi. Í því samhengi hefur rafvæðing flugs verið til umræðu og áskoranir sem því fylgja.
    Avinor, þjónustufyrirtæki í rekstri flugvalla og flugleiðsögu í Noregi, stefnir að því í samstarfi við flugrekendur og framleiðendur þar í landi að rafvæða allar flugferðir sem eru styttri en 90 mínútur fyrir árið 2040. Sambærileg verkefni eru farin af stað m.a. í Svíþjóð, Skotlandi, Hollandi, Púertó Ríkó og á Havaíeyjum og Nýja Sjálandi. Á næstu árum er búist við að þær rafmagnsflugvélar sem koma á markaðinn verði fyrst um sinn tveggja til tíu manna vélar. Í Noregi og Svíþjóð er jafnframt stefnt að því að í kringum 2025 verði byrjað að nota smærri rafmagns- eða tvinnflugvélar í reglubundnu áætlunarflugi fyrir allt að 19 manns. Nordic Innovation, stofnun sem heyrir undir Norðurlandaráð, hefur styrkt sameiginlegt verkefni Swedavia, Finavia og Avinor um 4 milljónir sænskra króna til þess að þróa staðla fyrir rafmagnsflugvélar rétt eins og Svíar gerðu með því að þróa staðla fyrir farsíma (NMT, GSM). Þannig stefna Norðurlöndin að því að verða í forystu á þessu sviði.
    Áætlunarflug innan lands er mikilvægur hlekkur í almenningssamgöngum auk þess sem það er þýðingarmikill samgöngumáti. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia ohf. er sætanýting í flugferðum Air Iceland Connect til Egilsstaða og Akureyrar um 80%. Isavia ohf. rekur flugvelli og flugleiðsögukerfi ríkisins samkvæmt lögum um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., nr. 76/2008. Flugvellirnir eru reknir í tveimur flugvallakerfum, annars vegar innanlandskerfi og hins vegar millilandaflug sem fer að mestu leyti um Keflavíkurflugvöll. Flugvellir í innanlandskerfinu eru tólf talsins og fer bæði millilanda- og innanlandsflug um nokkra þeirra. Flugtími í áætlunarflugi innan lands er oftast skemmri en klukkustund. Þá er flugtími til Færeyja um 85 mínútur og gæti því komið til skoðunar hvort sú flugleið verði rafvædd.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að vinna að því að allar flugferðir sem styttri eru en 90 mínútur verði rafvæddar fyrir árið 2040. Það flug sem helst kemur til álita er innan lands, almanna- og kennsluflug. Þá hafi ráðherra samráð við helstu hagsmunaaðila, svo sem við framleiðendur og flugrekendur, en einna helst Isavia ohf. Í því samhengi verði einnig leitast fyrir um samstarf við Avinor.
    Í drögum að grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi hér á landi er stefnt að því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að rafmagns- og tvinn-flugvélar verði nýttar í innanlandsflugi. Jafnframt skuli stjórnvöld stuðla að samtali milli framleiðenda og flugrekenda með það að markmiði að Ísland verði notað til prófana á þessari nýju tækni. Þá felur samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 í sér flugstefnu þar sem fram kemur að Ísland eigi að verða í fremsta flokki í umhverfismálum tengdum flugi og flugrekstri. Þá segir þar að stefna eigi að hvötum til orkuskipta í flugi þegar fullnægjandi tækni hefur verið þróuð. Að mati flutningsmanna er þingsályktunartillaga þessi í samræmi við framangreint.