Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 226  —  224. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.1. gr.

    2. mgr. 58. gr. laganna orðast svo:
    Enginn framleiðandi getur fengið hærri heildarframlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða en sem nemur 10% af heildarframlögum vegna annarra beingreiðslna en vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku. Hámarkið er reiknað af hverjum beingreiðsluflokki fyrir sig. Hámarksstuðningur beingreiðslna vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku á hvern framleiðenda er 17,5% af heildarframlögum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Megintilgangurinn með því er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Bændasamtök Íslands og Samband garðyrkjubænda skrifuðu undir 14. maí 2020. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 19. febrúar 2016 (garðyrkjusamningsins) og var undirritað með meðal annars fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum. Markmið samkomulagsins er meðal annars að stuðla að framþróun og nýsköpun í garðyrkju með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum. Við næstu endurskoðun samningsins árið 2023 er markmiðið að framleiðsla á íslensku grænmeti hafi aukist um 25%. Auknir fjármunir verða lagðir í garðyrkjusamninginn sem nema 200 millj. kr. á ári og munu þeir nýtast meðal annars til beingreiðslna vegna raforkukaupa, aðgerða í loftslagsmálum, þróunarverkefna og til fjölbreyttari ræktunar á grænmeti hér á landi.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar í samræmi við ofangreint samkomulag þar sem stefnt er að því að fyrirkomulag niðurgreiðslu flutnings- og dreifingarkostnaðar rafmagns verði einfaldað. Ylræktendum verði þannig tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar. Meginmarkmið breytingarinnar er að stuðla að hagfelldari starfsskilyrðum greinarinnar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 19. febrúar 2016, skv. 8. gr. samningsins. Samkvæmt samningnum skyldi við endurskoðun hans árið 2019 meðal annars skoða hvernig markmiðum um allt að 95% niðurgreiðslu vegna flutnings raforku hafi gengið eftir. Var talið mikilvægt að einfalda ferli á niðurgreiðslum vegna lýsingar til hagsbóta fyrir framleiðendur garðyrkjuafurða.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til samræmis við samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða sem var undirritað þann 14. maí 2020. Lagt er til að 2. mgr. 58. gr. laganna verði breytt þannig að hún kveði á um beingreiðslur vegna dreifingar- og flutningskostnaðar vegna raforku í stað niðurgreiðslu. Þá verði kveðið á um að hámarksgreiðslur til hvers framleiðenda af heildarframlagi vegna þeirra beingreiðslna verði 17,5%.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til sérstakrar athugunar á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst starfsumhverfi framleiðenda garðyrkjuafurða. Meginefni þess er að framkvæma nauðsynlegar lagabreytingar til að samkomulag frá 14. maí 2020 geti tekið gildi. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 19. febrúar 2016 en kveðið er á um að samningurinn skuli endurskoðaður í tvígang. Að samkomulaginu koma atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið auk Bændasamtaka Íslands og Sambands garðyrkjubænda. Með vísan til ofangreinds hefur því frumvarpið nokkuð langan aðdraganda og er samningsatriði milli þeirra sem það snertir einna helst. Þá var frumvarpið sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 4.–18. september 2020, mál nr. S-177/2020. Engar athugasemdir bárust vegna frumvarpsdraganna.

6. Mat á áhrifum.
    Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða sem skrifað var undir þann 14. maí 2020. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 19. febrúar 2016. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til samræmis við ofangreint samkomulag þar sem stefnt er að því að fyrirkomulag niðurgreiðslu flutnings- og dreifingarkostnaðar rafmagns verði einfaldað. Ylræktendum verði þannig tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu á kostnaði. Þá verða hámarksgreiðslur á hvern framleiðanda hækkaðar úr 15% í 17,5%. Framangreindar breytingar hafa áhrif á starfsumhverfi framleiðenda garðyrkjuafurða en með breytingunni er stefnt að því að framfylgja markmiði undirritaðs samkomulags, dags. 14. maí 2020, um að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Um er að ræða tæknilegar breytingar samkvæmt samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, sem skrifað var undir þann 14. maí 2020, sem hafa ekki fjárhagsáhrif einar og sér.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Til samræmis við þær breytingar sem koma fram í samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, dags. 14. maí 2020, er lagt til að 2. mgr. 58. gr. laganna verði breytt þannig að í fyrsta lagi verði kveðið á um beingreiðslur vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku í stað niðurgreiðslu á kostnaði. Er þetta talið til einföldunar á framkvæmd. Skilyrði fyrir greiðslum verða nánar útfærð í reglugerð en samkvæmt samkomulagi, dags. 14. maí 2020, eru skilyrðin þau að orkukaupin séu vegna atvinnustarfsemi, að niðurgreidd raforka sé sérmæld og fari einungis til lýsingar plantna í gróðurhúsi, að framleiðsla sé ætluð til sölu og að ársnotkun til lýsingar sé meiri en 100 megavattsstundir á ári. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun annast umsýslu greiðslnanna.
    Þá er kveðið á um að hámarksgreiðslur beingreiðslna vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku á hvern framleiðenda verði 17,5%. Er markmið þessarar breytingar að koma til móts við þá framleiðendur sem hyggjast auka við framleiðslu sína en eitt af markmiðum fyrrgreinds samkomulags er að framleiðsla á íslensku grænmeti hafi aukist um 25% árið 2023.
    Eru framangreindar breytingar taldar stuðla að hagfelldari starfsskilyrðum greinarinnar í heild sinni.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.