Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 227  —  225. mál.
Breyttur texti.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um úttekt á starfsemi Skattsins við framkvæmd tollalaga.

Frá Bergþóri Ólasyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Birgi Þórarinssyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Karli Gauta Hjaltasyni, Ólafi Ísleifssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Sigurði Páli Jónssyni og Þorsteini Sæmundssyni.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um starfsemi Skattsins við framkvæmd tollalaga, sbr. 6. gr. a sömu laga. Greint verði frá verklagi stofnunarinnar við tollflokkun og eftirlit með tollskýrslum og innflutningstölum að því er snertir gögn frá útflutningslandi og skráningu tollnúmera. Óskað er eftir því að við endurskoðun samkvæmt framangreindu verði eftirfarandi þættir kannaðir sérstaklega:
     1.      Tollafgreiðsla landbúnaðarvara með áherslu á innflutt kjöt, unnar kjötvörur, ost, smjör, afurðir sem innihalda ost og mjólkurfitu, mjólkurdrykki, grænmeti og blóm, einkum með hliðsjón af þeim afurðum sem framleiddar eru hér á landi.
     2.      Þróun á umfangi innflutnings landbúnaðarvara og á innfluttu magni í tengdum eða líkum vöruflokkum.
     3.      Samanburður á tölum um útflutning búvara frá löndum ESB og Noregi og innlendum tölum um innflutning frá sömu löndum.
     4.      Athugun á því hvort tollnúmerum á sviði landbúnaðarvara og skilgreiningu vara sem undir hvert númer falla hafi verið breytt frá stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) árið 1995 og hvort tollskrárnúmerum fyrir vörur í fyrrnefndum tollskrárköflum ber saman við tollskrárnúmer og tollflokkun Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO).

Greinargerð.

    Með skýrslubeiðni þessari er óskað eftir því að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um verklag Skattsins við framkvæmd og eftirlit samkvæmt tollalögum og tollsamningum á málefnasviði landbúnaðarvara.
    Undanfarið hafa komið fram upplýsingar um misræmi í innflutningstölum á kjöti ef bornar eru saman upplýsingar frá Hagstofunni annars vegar og útflutningstölur Evrópusambandsins hins vegar.
    Hvort sem þarna er um að ræða kerfisbundin brot á reglum eða mistök innflytjenda kjötvara við tollskráningu innfluttra kjötvara er ljóst að þetta veikir samkeppnisstöðu íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Að minnsta kosti virðist framkvæmd eftirlits tollyfirvalda vera ómarkviss.
    Komið hefur fram dæmi um að héraðssaksóknari gefi út ákæru fyrir tollalagabrot og peningaþvætti vegna rangrar skráningar tollnúmera við kjötinnflutning. Í málinu var því haldið fram að um misskilning hefði verið að ræða og frosnir nautaframpartar verið skráðir sem kjöt á beini. Þessir tveir vöruflokkar falla undir misháa tollprósentu og eru meðhöndlaðir með ólíkum hætti samkvæmt gildandi reglum og milliríkjasamningum. Í þessu samhengi væri áhugavert að sjá hvort hlutfallsleg aukning hafi orðið á innflutningi á kjöti á beini miðað við innflutning á sambærilegri vöru sem fellur í tollflokka sem sæta meiri takmörkunum eða meiri álögur hafa verið lagðar á. Af sama meiði eru sjónarmið sem snúa að skráningu, t.d. á innfluttri sojamjólk og hnetumjólk, en í hvorugri vörunni er dýramjólk að finna.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði starfshóp 24. september 2020 til að skoða hvort misræmi væri að finna milli magns í útflutningstölum úr gagnagrunni Evrópusambandsins og í innflutningstölum Hagstofu Íslands vegna ákveðinna tegunda landbúnaðarvara, þ.e. nautakjöts, svínakjöts, kjúklingakjöts og mjólkurafurða. Starfshópurinn er skipaður fulltrúa frá Hagstofu Íslands, fulltrúa frá Skattinum og einum fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem jafnframt er formaður hópsins.
    Flutningsmenn telja að þrátt fyrir skipun starfshópsins sé nauðsynlegt að fela ríkisendurskoðanda, sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með og stuðla að umbótum á fjármálastjórn ríkisins og nýtingu almannafjár, að taka saman skýrslu um málið með hliðsjón af 6. gr. a laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Í greininni er kveðið á um eftirlit með tekjum ríkisins sem felur m.a. í sér að fylgjast með innheimtu opinberra gjalda.
    Flutningsmenn binda vonir við að skýrsla ríkisendurskoðanda muni varpa ljósi á hvað veldur misræmi samkvæmt framansögðu og á það hvort þar er á ferðinni kerfisbundið tollasvindl eða mistök innflutningsaðila.