Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 228  —  226. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um viðhald og varðveislu gamalla báta.


Flm.: Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að stofnaður verði sjóður sem hafi það hlutverk að halda við og varðveita gömul skip og báta. Sjóðurinn njóti árlegra framlaga af fjárlögum auk þess sem stuðlað verði að þátttöku starfsgreina sjávarútvegsins í verkefninu. Sjóðurinn starfi á grundvelli áætlana sem gerðar verði til fimm ára í senn og reglur um úthlutanir til verkefna, varðveislugildi o.fl. komi fram í samþykktum sjóðsins. Forsætisráðherra flytji Alþingi tíðindi af framgangi ályktunarinnar fyrir lok vorþings 2021.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 150. löggjafarþingi (308. mál).
    Þingmál hafa áður verið lögð fram með það að markmiði að marka sérstakan tekjustofn svo tryggja megi varðveislu og viðhald eldri skipa og báta. Þingsályktunartillögur þessa efnis voru lagðar fram á 140. og 141. löggjafarþingi en náðu ekki fram að ganga.
    Á 125. þingi, veturinn 1999–2000, lögðu fimm þingmenn allra flokka, sem þá áttu sæti á Alþingi, fram frumvarp til laga um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins fengi það viðbótarhlutverk að veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Afgreiðsla málsins varð sú að frumvarpinu var breytt í meðferð sjávarútvegsnefndar í nýja þingsályktunartillögu sem nefndin flutti um varðveislu báta og skipa. Tillagan var samþykkt á sama þingi með 49 samhljóða atkvæðum. Með þingsályktuninni var ríkisstjórn falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins, tæki m.a. þátt í. Engar tillögur eða reglur í samræmi við staðfesta ákvörðun Alþingis hafa hvorki fyrr né síðar litið dagsins ljós.
    Það var svo á 131. þingi, veturinn 2004–2005, að þáverandi sjávarútvegsráðherra flutti frumvarp um breytingu á lögum um fyrrnefndan Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem miðaði að því að leggja sjóðinn niður. Eignum umfram skuldir skyldi ráðstafað til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna eingöngu. Minni hluti sjávarútvegsnefndar lagði til með breytingartillögu, að eignir umfram tilgreinda upphæð færu til ríkissjóðs og yrði ráðstafað til varðveislu gamalla báta og skipa. Það væri enda í samræmi við vilja Alþingis frá árinu 2000 og þá þingsályktun sem þar var samþykkt samhljóða.
    Fullir tveir áratugir hafa því liðið án þess að stjórnvöldum hafi tekist að koma vernd og varðveislu gamalla báta og skipa í örugga höfn þrátt fyrir talsverða viðleitni þingheims. Óþarft er að rekja að bátar, skip og sjósókn er einn grundvallarþátturinn í íslenskri atvinnu- og menningarsögu. Sambærileg vernd er mikið áhersluatriði meðal nágrannaþjóðanna og miklu kostað til. Þar eru þau almennu og viðteknu viðhorf ríkjandi að varðveita skuli söguna og menningararfinn af metnaði. Hér á landi er það Þjóðminjasafn Íslands sem samkvæmt lögum er „höfuðsafn á sviði menningarminja“. Því ber „að stuðla sem best að varðveislu íslenskra menningarminja og miðla sögu þjóðarinnar“. Þessu hlutverki sinnir Þjóðminjasafnið með metnaðarfullum hætti en af miklum vanefnum. Aðstæður eru á þann veg að safninu er tæplega fjárhagslega kleift að tryggja varðveislu eigin fábreytta bátakosts.
    Söfnin í kringum landið, sem sinna mörgum og mismunandi verkefnum til varðveislu á minjum og menningu, hafa leitast við að standa vaktina að því marki sem fjármagn og aðstæður leyfa. Einn þáttur starfsins er varðveisla gamalla skipa, þ.e. stærri og minni skipa sem hafa sögulegt gildi en bátar í eigu þeirra eru um 190 talsins. Þetta eru bátar af ýmsum gerðum og flestir súðbyrðingar. Þeir uppfylla allir þá skilgreiningu að teljast forngripir en bátar eldri en frá árinu 1950 eru forngripir skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/2012, um menningarminjar. Á skipaskrá eru nú skip og bátar sem náð hafa þessum virðulega aldri um 15 talsins.
    Tíminn er ekki sérlega hliðhollur vörsluaðilum á þessu sviði. Taka má sem dæmi að skektur, fjórrónar og minni, eru nánast ekki lengur til í haffæru ástandi. Um aldamótin 1900 voru á annað þúsund þannig skektur í landinu sem höfðu jafnvel svæðisbundin sérkenni eftir aðstæðum. Þetta var eitt mikilvægasta verkfærið til bjargræðis öldum saman. Enn og aftur er niðurstaðan sú sama, að íslensk lagaumgjörð sem lýtur að varðveislu á dýrmætri arfleifð Íslendinga sem er verndun gamalla báta er því miður í skötulíki svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
    Bregðast þarf við og koma upp varðveislukerfi, t.d. sambærilegu því sem viðhaft er hjá húsafriðunarsjóði við mat mannvirkja. Þar er stuðst við kerfi þar sem hver varðveisluþáttur fær einkunn og mat lagt á varðveislugildi samkvæmt heildarniðurstöðu.
    Það er ástæða til að hvetja stjórnvöld til að halda vöku sinni gagnvart atvinnusögu og alþýðumenningu þjóðarinnar. Birtingarmynd andvaraleysis er skýr í þeim árangurslitlu tilraunum sem gerðar hafa verið til að skapa fjárhagslegan grundvöll fyrir varðveislu báta með opinberu fjármagni.
    Því er þess nú enn freistað að leggja fyrir Alþingi tillögu þessa efnis og höfða til þess og minna á að ekki er langt síðan Íslendingar fögnuðu 100 ára afmæli fullveldis. Það væri verðugt verkefni að minnast þess með því að gera að veruleika formlega og trausta umgjörð um þennan þátt í sögu lands og þjóðar. Lagt er því til að ríkisstjórninni verði falið að beita sér fyrir stofnun sjóðs sem hafi það hlutverk að úthluta fé til verkefna sem varða viðhald og varðveislu gamalla báta og skipa. Markmiðið verði að til verði safn báta sem endurspegli með verðugum hætti einn mikilvægasta þátt íslenskrar atvinnusögu. Flutningsmenn sjá fyrir sér að sjóðurinn njóti árlegra framlaga af fjárlögum auk þess sem stuðlað verði að þátttöku starfsgreina sjávarútvegsins í verkefninu. Þá verði gerðar áætlanir til fimm ára í senn sem sjóðurinn starfi eftir, á grundvelli samþykkta sjóðsins, þar sem fram komi reglur um varðveislugildi, úthlutanir til verkefna o.fl. Nánari ákvarðanir, til að mynda um skipan stjórnar sjóðsins og hýsingu hans, verði á hendi ríkisstjórnar. Mælst er til þess að forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar, flytji Alþingi munnlega skýrslu fyrir lok vorþings 2021 eða svo fljótt sem auðið er þar sem fram komi hvernig málin varðandi stofnun sjóðsins standi.
    Einsýnt er að sjóðurinn starfi í nánu samstarfi við söfn sem varða málaflokkinn. Hér á eftir er listi yfir söfn sem flokkast sem sjóminjasöfn og teljast væntanlegir þátttakendur í verkefnum sem sjóðurinn stæði að:
          B yggðasafnið Görðum: Safnið er stofnað árið 1959 og er starfssvæði þess Akranes og Hvalfjarðarsveit. Markmið sjóminjadeildar safnsins er að safna, skrá, varðveita, rannsaka og sýna minjar sem tengjast sjó og sjómennsku frá byggðarlaginu.
          Sjóminjasafn Austurlands, Eskifirði: Í safninu er að finna muni sem tilheyra sjósókn og vinnslu sjávarafla. Einnig eru þar verslunarminjar og hlutir sem tilheyra ýmsum greinum iðnaðar og lækninga frá fyrri tíð. Sjóminjasafnið er í gömlu verslunarhúsi, Gömlu búð, sem var byggt 1816. Hilmar Bjarnason átti mikinn þátt í uppbyggingu safnsins.
          Sjóminjasafnið á Eyrarbakka: Í safninu eru munir frá Eyrarbakka með áherslu á sjósókn. Stærsti og merkasti gripurinn er áraskipið Farsæll, sem Steinn Guðmundsson á Eyrarbakka smíðaði 1915.
          Byggðasafn Garðskaga: Bátar, líkön, veiðarfæri, siglingatæki og annað sem tilheyrir siglingum, sjósókn og verkun sjávarafla. Á safninu eru 60 vélar af ýmsum gerðum, mest litlar bátavélar. Elst er Scandia-glóðarhausvél frá 1920.
          Byggðasafnið á Hnjóti: Markmið safnsins er að varðveita og miðla fróðleik um horfin vinnubrögð til sjós og lands með megináherslu á Vestfirði og Breiðafjörð. Í safninu er fjöldi muna sem tengjast nytjum hlunninda, árabátaútgerð og fyrstu árum vélvæðingar í sjávarútvegi.
          Sjóminjasafnið á Húsavík: Markmið Sjóminjasafnsins er að safna, skrásetja, varðveita og sýna muni, myndir og gögn sem tengjast sjósókn og sjávarnytjum við Skjálfanda og á nærliggjandi svæðum. Tilgangurinn er að fólk skilji betur hvernig forfeðurnir lifðu af því sem sjórinn gaf og hversu stóran þátt sjávarnytjar áttu í því að tryggja afkomu fólks fyrr og síðar.
          Byggðasafn Vestfjarða: Í Neðstakaupstað á Ísafirði stendur elsta húsaþyrping landsins. Þetta eru fjögur hús sem öll voru byggð af dönskum einokunarkaupmönnum á 18. öld. Í yngsta húsinu, Turnhúsi, hefur Byggðasafn Vestfjarða sett upp sýningu á sjóminjum þar sem sjá má fjölda gripa sem tengjast fiskveiðum og fiskvinnslu frá öndverðu til okkar daga.
          Tækniminjasafn Austurlands, Seyðisfirði: Safn um innreið nútímans áratugina kringum 1900. Munir, myndir og gögn sem lýsa vélvæðingu bátaflotans, sögu útgerðar, verslunar, lækninga og skipasmíða. Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar frá 1907 er fyrsta vélsmiðjan á Austurlandi og leiðandi í vélvæðingu fiskiskipaflotans.
          Síldarminjasafn Íslands, Siglufirði: Safnið er eitt stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins og fjallar um þann kafla Íslandssögunnar sem oft hefur verið nefndur síldarævintýrið, þegar síldin var einn helsti örlagavaldur þjóðarinnar.
          Víkin – Sjóminjasafnið í Reykjavík er alhliða sjóminjasafn á besta stað við höfnina. Stærsta sýning safnsins er Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár. Smærri sýningar eru settar upp tímabundið. Safnið gengst fyrir dagskrám á hátíð hafsins, safnanótt, menningarnótt o.s.frv. Við safnið er varðskipið Óðinn varðveitt, ásamt sögu gæslu og björgunar við Ísland.
          Sjóminjasafnið í Sjóminjagarðinum á Hellissandi: Þar eru varðveitt tvö áraskip, áttæringarnir Bliki og Ólafur Skagfjörð, og fjöldi annarra safngripa um útgerð á Snæfellsnesi og við Breiðafjörð.
          Bátasafn Breiðafjarðar, Reykhólum: Safnið hefur á síðustu árum dregið saman á þriðja tug gamalla báta úr Breiðafjarðareyjum og héruðum í kring og bjargað flestum þeirra frá eyðileggingu. Sumir eru varðveittir í misjöfnu ásigkomulagi, gert er við aðra og enn aðrir eru endurbyggðir. Starfið er í fullum gangi og þess vegna er safnið lifandi vinnustaður ekki síður en sýningarstaður. Upphafsmaður bátasafnsins var Aðalsteinn Aðalsteinsson, báta- og bryggjusmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði.
          Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna, Reykjum í Hrútafirði: Þar eru hákarlaveiðum við Húnaflóa gerð góð skil. Safnið er að hluta til byggt utan um hákarlaskipið Ófeig sem smíðaður var 1875 eingöngu úr rekaviði. Ófeigur er 11,9 m á lengd og 3,3 m á breidd. Hann bar 55 tunnur lifrar. Hákarlavertíðin stóð síðari hluta vetrar og var Ófeigur notaður til hákarlaveiða til ársins 1915, alls 33 vertíðir. Frá 1915 til 1933 var hann hafður til viðarflutninga.