Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 236  —  233. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, með síðari breytingum.

Flm.: Birgir Þórarinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Atvinnurekendum er skylt að veita stéttarfélögum og trúnaðarmönnum stéttarfélaga aðgang að ráðningarsamningum, launaseðlum og tímaskriftum og upplýsa um launakjör launamanns eða hóps launamanna enda sé grunur um að atvinnurekandi hafi vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi greitt launamanni laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði, sbr. 1. gr.
    Stéttarfélögum og trúnaðarmönnum stéttarfélaga er heimilt að tilkynna Vinnumálastofnun að grunur sé um að atvinnurekandi hafi vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi greitt launamanni laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði, sbr. 1. gr., og skulu afhenda stofnuninni gögn því til stuðnings.
    Atvinnurekandi skal láta Vinnumálastofnun í té þær upplýsingar og gögn sem stofnunin telur nauðsynlegar til að meta hvort atvinnurekandi hafi vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi greitt launamanni laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði, sbr. 1. gr., svo sem ráðningarsamninga, launaseðla og vinnutímaskýrslur.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Vinnumálastofnun getur lagt stjórnvaldssekt á atvinnurekanda sem vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi greiðir launamanni laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði, sbr. 1. gr. Sektir skv. 1. málsl. geta numið frá 50 þús. kr. til 5 millj. kr. Við ákvörðun um fjárhæð sektar skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brots, hversu lengi það hefur staðið yfir og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt atvinnurekanda skriflega á sannanlegan hátt og skal henni fylgja skriflegur rökstuðningur.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
    Ákvörðun um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
    Heimilt er að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina og skal ráðuneytið kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að því barst mál til úrskurðar.
    Heimild Vinnumálastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar 5 ár eru liðin frá því að ætluð háttsemi atvinnurekanda skv. 3.–5. mgr. 2. gr. átti sér stað.
    Að öðru leyti fer um ákvarðanir Vinnumálastofnunar um stjórnvaldssektir samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

3. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi stéttarfélag eða trúnaðarmaður, eftir því sem við á, skulu fara með persónuupplýsingar, þ.m.t. viðkvæmar persónuupplýsingar, í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem fram koma í þeim gögnum sem fyrrnefndir aðilar fá afrit af á grundvelli laga þessara, í samræmi við ákvæði þeirra laga, svo sem hvað varðar vinnslu og varðveislu upplýsinganna.
    Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla annarra upplýsinga en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar við töku ákvörðunar skv. 3. gr. Starfsmenn Vinnumálastofnunar eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga hvað varðar upplýsingar um mál sem stofnunin hefur til meðferðar á grundvelli laga þessara og helst þagnarskylda þeirra eftir að þeir hætta störfum hjá stofnuninni.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.

Greinargerð.

    Markmið frumvarps þessa er að sporna við kjarasamningsbrotum á vinnumarkaði en samkvæmt nýlegri rannsókn Alþýðusambands Íslands hefur fjöldi þeirra mála er snúa að launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum síðustu ár aukist og þau orðið alvarlegri. Slík brot snúa einkum að hópum sem þekkja síður réttindi sín á vinnumarkaði, svo sem erlendu starfsfólki, og ungu og tekjulágu fólki. 1 Engin viðurlög eru við slíkum brotum. Í skýrslu samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði, frá janúar 2019, var lagt til að lögfestar yrðu opinberar valdheimildir til að grípa inn í þegar alvarleg kjarabrot eru leidd í ljós og bent á að slíkar heimildir hefðu almenn varnaðaráhrif gegn kjarabrotum. 2
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að Vinnumálastofnun verði veitt heimild til að leggja stjórnvaldssekt á atvinnurekanda teljist hann hafa vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi greitt launamanni laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði. Einnig er lagt til að aukið verði við 2. gr. sömu laga ákvæðum er kveði á um að stéttarfélög og trúnaðarmenn þeirra hafi fullnægjandi heimild til að kalla eftir upplýsingum um launakjör frá atvinnurekendum. Slíkt er nauðsynlegt svo unnt sé að staðreyna hvort kjarasamningum er framfylgt af hálfu atvinnurekanda. Stéttarfélögum og trúnaðarmönnum er einnig veitt heimild til að tilkynna Vinnumálastofnun um ætlaða háttsemi og leggja fram gögn því til stuðnings.
    Jafnframt verði bætt við lögin ákvæðum er veita Vinnumálastofnun viðeigandi úrræði til að rannsaka mál til hlítar, auk þess sem hnykkt er á persónuverndarsjónarmiðum við meðferð gagna þótt skýrt sé að lög um persónuvernd nái yfir þau, og bætt við ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna Vinnumálastofnunar.
    Flutningsmenn telja brýnt að í lögum sé kveðið á um úrræði af þessu tagi til að ekki sé til staðar hvati til að greiða laun undir lágmarkskjörum án þess að viðurlög liggi við þeirri háttsemi. Úrræðið snýr einungis að því að sporna við kjarasamningsbrotum á vinnumarkaði og er óháð rétti launamanns til að sækja rétt sinn gagnvart atvinnurekanda með stuðningi síns stéttarfélags og eftir atvikum fyrir dómstólum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að stéttarfélögum og trúnaðarmönnum þeirra verði veitt fullnægjandi heimild til að kalla eftir upplýsingum um launakjör launafólks frá atvinnurekendum vakni grunur um að atvinnurekandi hafi vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi greitt launamanni laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði. Lögfesting slíkrar heimildar er nauðsynleg til að unnt sé að staðreyna hvort kjarasamningum er framfylgt af hálfu atvinnurekanda. Samhliða er lagt til að opinberri stofnun, Vinnumálastofnun, verði falið að sekta þá atvinnurekendur sem verða uppvísir að slíkri háttsemi og því er hér einnig lagt til að lögfest verði heimild Vinnumálastofnunar til að afla viðeigandi gagna svo að uppfyllt sé rannsóknarskylda stofnunarinnar áður en tekin er ákvörðun um hvort leggja á stjórnsýslusekt á atvinnurekanda.

Um 2. gr.

    Lagt er til að Vinnumálastofnun verði falið það hlutverk að leggja stjórnvaldssektir á atvinnurekendur sem vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi hafa greitt launamanni laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði, sbr. 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, með síðari breytingum. Í ákvæðinu er rakið hvernig fara skuli um framkvæmd þegar leggja skal stjórnsýslusekt á atvinnurekanda. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins. Um málsmeðferðina fari því eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með síðari breytingum. Atvinnurekandi getur hins vegar skotið ákvörðun Vinnumálastofnunar um stjórnvaldssekt beint til dómstóla kjósi hann að kæra ekki til ráðuneytisins. Ákvörðun um stjórnvaldssekt er stjórnsýsluákvörðun og því mikilvægt að gætt sé að ákvæðum stjórnsýslulaga við alla málsmeðferð.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til nýtt ákvæði er snýr að persónuverndarsjónarmiðum í því skyni að auka á meðvitund um meginreglur persónuverndar. Ákvæði laga um persónuvernd gilda þó eðli málsins samkvæmt um vinnslu persónuupplýsinga ef hún er ekki sérstaklega undanþegin samkvæmt lögum. Einnig er gert skýrt að heimild Vinnumálastofnunar til gagnaöflunar snýr aðeins að þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að stofnunin geti tekið ákvörðun um stjórnvaldssekt. Jafnframt er hnykkt á skyldu starfsmanna stofnunarinnar til að halda trúnað um mál nema lög bjóði annað, og að sá trúnaður haldist eftir að störfum þar lýkur.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.
1     www.asi.is/media/315797/islenskur_vinnumarkadur_2019_brotastarfsemi_130819_2.pdf
2     www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=c6a38acb-2567-11e9-942f-005056bc530c