Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 238  —  8. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum (fjarfundir nefnda).

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur, Stíg Stefánsson og Þórhall Vilhjálmsson frá skrifstofu Alþingis.
    Ákvæði þingskapa gera ráð fyrir að alþingismönnum sé skylt að mæta á nefndarfundi, sbr. 1. mgr. 17. gr., og hefur ákvæðið verið skilið svo að nefndarmaður teljist mættur á nefndarfund ef hann er á staðnum. Í kórónuveirufaraldrinum sem nú gengur yfir hafa tvisvar sinnum verið veitt tímabundin afbrigði frá ákvæðum um mætingarskyldu nefndarmanna og um ályktunarbærni nefndarfunda. Var það gert til að skapa alþingismönnum skilyrði til að sinna nefndastörfum þrátt fyrir samkomubann og fjarlægðartakmarkanir. Sú reynsla sem fengist hefur af störfum fastanefnda Alþingis hefur orðið tilefni til þess að festa í sessi í þingsköpum heimild fyrir alþingismenn til að taka þátt í nefndastörfum með fjarfundarbúnaði við tilteknar aðstæður. Nefndarmaður sem nýtir sér heimildina mun því geta tekið þátt í ályktunarbærum nefndarfundi og greitt atkvæði um mál, haft tillögurétt og komið að öðrum ákvörðunum þingnefndar.
    Frumvarpið felur ekki í sér að fallið verði frá þeirri meginreglu að nefndarmenn skuli vera staddir á fundarstað. Þeim verði þó heimilt við tilteknar aðstæður að taka þátt í fundi með fjarfundarbúnaði. Hér getur verið um að ræða heilsufarsástæður sem varða þingmanninn sjálfan, sóttvarnarástæður, veikindi barna eða annarra aðstandenda, röskun á samgöngum eða óreglulega fundi nefnda. Ekki ber þó að líta á þessa heimild sem hvatningu til þátttöku á fundi ef nefndarmaður er veikur eða ef veikindi eru í fjölskyldu hans. Slík ákvörðun er á valdi og á ábyrgð hvers þingmanns.
    Að mati meiri hlutans felur frumvarpið í sér mikilvægt skref í átt að bættum starfsskilyrðum þingmanna. Auk þess hafa gestir í öllum tilfellum val á milli fjar- og staðfunda. Meiri hlutinn leggur því mikla áherslu á að Alþingi tryggi að til sé góður tæknibúnaður til fjarfunda og að haldið verði áfram að efla getu þingsins í þessum efnum með því að uppfæra hugbúnað og tæknikost. Þá þarf að tryggja nauðsynlega tækniþekkingu á búnaðinum og viðhalda þekkingu þingmanna á því hvernig best er að haga fjarfundum. Til þess að heimildin nýtist jafnt þingmönnum og gestum er mikilvægt að til sé góð aðstaða til fjarfunda í öllum fundarherbergjum þingsins.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 21. október 2020.

Jón Þór Ólafsson,
form.
Þorsteinn Sæmundsson,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Óli Björn Kárason. Þórunn Egilsdóttir.