Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 242  —  58. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um þjónustu við heyrnar- og sjónskerta.


     1.      Telur ráðherra að mögulegt sé að sameina þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu svo að hægt sé að samræma reglur um niðurgreiðslu á hjálpartækjum og veita öllum sambærilega þjónustu?
    Í 1. gr. laga um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, nr. 42/2007, er kveðið á um að starfrækja skuli Heyrnar- og talmeinastöð og í 1. gr. laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008, er kveðið á um að starfrækja skuli þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Til þess að sameina þjónustu umræddra stofnana þyrfti að breyta gildandi lögum um stofnanirnar.
    Sameining á þjónustu umræddra stofnana er ekki nauðsynleg forsenda þess að samræma þær reglur sem gilda um niðurgreiðslu eða greiðsluþátttöku ríkisins vegna viðeigandi hjálpartækja. Stefna núverandi ríkisstjórnar er að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara.

     2.      Hver er rökstuðningurinn fyrir því að hafa þessar tvær einingar aðskildar?
    Mikil og víðtæk vinna átti sér stað á árunum 2013 og 2014 á vegum þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra og heilbrigðisráðherra í þá veru að sameina Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Við vinnuna voru lögð fram rök með því að sameina stofnanir. Afrakstur þeirrar vinnu var m.a. frumvarp til laga sem þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra lagði fram á 144. löggjafarþingi um sérhæfða þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem lagt var til að starfrækja skyldi sérhæfða þjónustumiðstöð sem annast myndi ráðgjöf, greiningu, meðferð, hæfingu og endurhæfingu á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu. Frumvarpið náði ekki fram að ganga.