Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 252  —  238. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.


Flm.: Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að endurskoða lög og reglugerðir sem gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær. Endurskoðun verði lokið og tillaga um aðgerðaáætlun kynnt Alþingi eigi síðar en í lok árs 2021.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 150. löggjafarþingi (310. mál) og er nú endurflutt nær óbreytt. Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli umhverfis- og auðlindaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að endurskoða lög og reglugerðir sem gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda regluverkið og umsóknarferli í tengslum við þær. Tillagan er því í samræmi við stjórnarsáttmála þar sem kemur fram að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings.

Smávirkjanir og umhverfismat.
    Smávirkjanir, þ.e. virkjanir með uppsett rafafl 200 kW til 10 MW, eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Framkvæmdum er í 1. viðauka við lögin skipt í flokka A, B og C með hliðsjón af því mati sem skal fara fram. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, skv. 5. gr. laganna. Hins vegar skulu, skv. 1. mgr. 6. gr. laganna, framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B og flokki C í fyrrgreindum 1. viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum ef sýnt er að þeim geti fylgt umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar framkvæmdanna. Smávirkjanir geta fallið undir flokk B (uppsett rafafl 0,2–10 MW) eða flokk C (uppsett rafafl undir 0,2 MW). Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um hvort virkjanir í flokki B skuli háðar fullu mati á umhverfisáhrifum og framkvæmdaraðila ber því að senda inn greinargerð um fyrirhugaða framkvæmd til stofnunarinnar sem sker úr um það. Skipulagsmál virkjana í flokki C heyra undir viðkomandi sveitarfélag. Framkvæmdir í flokki C kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og er því metið í hverju tilviki hvort gera þurfi mat á umhverfisáhrifum (1. og 2. viðauki laga nr. 106/2000).
    Í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum eru tilgreindar fjölmargar viðmiðanir sem líta ber til við mat á framkvæmdum í flokki B og flokki C, sbr. skilgreiningar í 1. viðauka. Áhrif framkvæmdar ber t.d. að skoða með tilliti til umfangs umhverfisáhrifa, þ.e. stærðar svæðis eða fjölda fólks sem mun líklega verða fyrir áhrifum af framkvæmdinni. Einnig eru taldir þættir eins og fjölbreytileiki áhrifa, óafturkræf áhrif og samlegðaráhrif með áhrifum annarra framkvæmda. Þær kröfur sem gerðar eru til smávirkjana sem falla í flokk C eru íþyngjandi fyrir t.d. bændur sem vilja virkja bæjarlækinn. Því er vert að athuga hvort ekki þyrfti að hækka viðmiðun flokksins og einfalda þannig leyfisveitingaferlið. Í dag er ferlið þannig að hinn venjulegi bóndi hefur ekki bolmagn í að klára það vegna kostnaðar og flækjustigs.
    Reynslan sýnir að kröfur leyfisveitenda vegna framkvæmda í flokki B og flokki C hafa þróast í átt að fullu umhverfismati. Ferlið við leyfisveitingar fyrir smávirkjanir er því kostnaðarsamt, þungt og tímafrekt og ekki í samræmi við framkvæmdir að sama umfangi í öðrum geirum, eins og t.d. í landbúnaði og ferðaþjónustu. Það getur tekið tvö til þrjú ár að fá leyfi til að byggja litla eða meðalstóra virkjun. Lánastofnanir veita sjaldnast lán fyrr en fyrirhuguð virkjun er komin með öll tilskilin leyfi. Undirbúningskostnaður er því oft mjög stór hindrun fyrir framkvæmdaraðilann. Dæmi eru um að einstaklingar hafi lagt út í háan kostnað til að afla leyfa fyrir smávirkjanir áður en niðurstaða liggur fyrir um hvort leyfi fáist fyrir framkvæmdinni. Bændur sem vilja byggja litla virkjun heima á bænum þurfa því að uppfylla sömu skilyrði og um stórvirkjun væri að ræða með tilheyrandi kostnaði. Smávirkjanir eru t.d. settar undir sama hatt og stórar virkjanir þegar kemur að kröfum um öryggisstjórnunarkerfi sem þýðir að þær bera hlutfallslega hærri kostnað af þeim. Auk þess rennur sá ábati sem smávirkjanir skapa raforkukerfinu, með því að létta af því álagi vegna lækkaðrar úttektar frá Landsneti, að mestu til dreifiveitna og Landsnets. Reglugerð um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005, segir m.a. til um skiptingu þess ábata sem smávirkjanir skapa raforkukerfinu og er ljóst að endurskoða þarf reglugerðina með tilliti til smávirkjananna.

Smávirkjanir eru nauðsynlegar fyrir raforkuöryggi.
    Smávirkjanir eru umhverfisvænir orkugjafar þar sem þær að stuðla að minni útblæstri óæskilegra efna sem hafa áhrif á hitastig jarðar. Mannvirki og náttúrurask eru oft að fullu afturkræfar framkvæmdir. Þá er ekki verið að sökkva stórum landsvæðum undir lón eins og með stórvirkjunum. Smávirkjanir tengjast raforkukerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir. Með þeim er því verið er að nýta, styrkja og bæta rekstur þess raforkukerfis sem nú þegar hefur verið byggt upp af samfélaginu.
    Orkustofnun hóf í lok árs 2016 smávirkjanaverkefni með það að markmiði að efla raforkuframleiðslu úti á landi og auka þannig orkuöryggi. Með smávirkjunum er hægt að styrkja raforkuframleiðslu í einstökum landshlutum og byggja upp smærri atvinnustarfsemi á þeim svæðum. Stofnunin birti nýlega sjö skýrslur um möguleika á smærri vatnsaflsvirkjunum víða um land. Í skýrslunni Smávirkjanir, hugmyndir að smávirkjunum á grundvelli gagna frá Veðurstofu Íslands árið 2018 kemur fram að hugmyndin að smávirkjanaverkefninu megi rekja til alvarlegrar stöðu í raforkuöryggismálum. Lítið sé um álitlega virkjunarkosti í þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar og endurbætur á flutningskerfi raforku á milli landshluta hafi gengið erfiðlega. Uppbygging smávirkjana sé því mikilvæg til að halda í við aukna eftirspurn eftir rafmagni vegna fólksfjölgunar á Íslandi og geti verið liður í að anna eftirspurn eftir aukinni raforku á allra næstu árum. Smávirkjanir séu ekki síst mikilvægar út frá byggðasjónarmiði, sérstaklega á þeim svæðum þar sem flutningskerfið ræður ekki við frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi. Ávinningurinn af uppsetningu þeirra skilar sér í auknum tekjustraumi til landeiganda/bænda og sveitarfélaga og styrkir með því grundvöllinn fyrir búsetu víða um land.
    Með því að auðvelda ferlið við uppbyggingu smávirkjana er einnig verið að vinna í samræmi við Stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024 sem Alþingi samþykkti sem þingsályktun vorið 2018 (480. mál 148. löggjafarþings). Eitt verkefnismarkmiða aðgerðaáætlunar byggðaáætlunarinnar er samkvæmt kafla B.3 eftirfarandi: „Að kanna og styðja möguleika á aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni með smávirkjunum og efla þar með orkuöryggi á landsvísu.“

Norsk fyrirmynd.
    Norðmenn hafa náð góðum árangri á sviði smávirkjana en þar hefur ein stofnun, Norges vassdrags- og energidirektorat (NVE), umsjón með leyfisveitingum. NVE hefur kortlagt mögulega virkjunarkosti en norsk stjórnvöld lögðu til fjármagn, svo að hægt væri að kortleggja alla virkjunarkosti í vatnsafli og nota reiknilíkön svipuð þeim sem Vatnaskil og Veðurstofan hafa yfir að ráða hér á landi til að spá fyrir um rennsli í vatnsföllum. Fyrirtæki hafa sprottið upp sem taka að sér að sjá um undirbúning fyrir byggingu virkjunar, fjármögnun, hönnun og leyfi og gera langtímasamninga við bændur um tekjur af virkjununum. Í skýrslu Orkustofnunar um smávirkjanir í Noregi, sem gefin var út í ágúst sl., kemur fram að NVE setur almenn skilyrði fyrir leyfunum, t.d. um lágmarksvatnsmagn á yfirfalli. Einnig eru settar fram skilgreiningar um hæsta og lægsta yfirborð á inntakslónum og hvar staðsetja skal laxastiga. Jafnframt er skilgreint hvernig staðið skal að því að stöðva virkjun og síðan keyra upp aftur. Allar upplýsingar um leyfin eru opinberar og ekki má byrja að byggja fyrr en NVE hefur veitt leyfi fyrir framkvæmdinni.

Niðurlag.
    Líkt og rakið hefur verið hér að framan er ferlið frá hugmynd að smávirkjun til tengingar við raforkukerfið kostnaðarsamt og tímafrekt. Flutningsmenn telja því mikilvægt að fram fari endurskoðun á lögum og regluverki í tengslum við leyfisveitingar til uppbyggingar smávirkjana og benda á að t.d. mætti horfa til Noregs í því sambandi.