Ferill 201. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 253  —  201. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020 (framhald á lokunarstyrkjum).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur og Harald Steinþórsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Kristján Gunnarsson frá Skattinum, Ólaf Stephensen og Guðnýju Hjaltadóttur frá Félagi atvinnurekenda, Jóhannes Þór Skúlason frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu og Hrefnu Björk Sverrisdóttur, Jóhann Örn Þórarinsson, Birgi Örn Birgisson og Emil Helga Lárusson frá Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, HHB&W ehf., Samkeppniseftirlitinu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði og Skattinum.
    Með frumvarpinu er lagt til framhald á lokunarstyrkjum til þeirra rekstraraðila sem sæta þurfa lokunum eða því að láta af starfsemi eða þjónustu frá 18. september 2020. Lagt er til að úrræðið gildi fram á mitt ár 2021 og gert er ráð fyrir að taka þurfi það til endurskoðunar fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2021 með tilliti til aðstæðna og framgangs heimsfaraldursins.

Umfjöllun nefndarinnar.
Lokun líkamsræktarstöðva.
    Meginskilyrði til að rekstraraðili geti átt rétt á lokunarstyrk er að honum hafi verið gert að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu tímabundið samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, sbr. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020. Með reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 957/2020, sem tók gildi 5. október 2020, var rekstraraðilum líkamsræktarstöðva gert skylt að hafa húsnæði sitt lokað almenningi. Hinn 20. október tók gildi reglugerð nr. 1015/2020 þar sem fram kom að starfsemi heilsuræktarstöðva væri óheimil en þó mætti bjóða upp á skipulagða hóptíma með skráðum þátttakendum að fjöldatakmörkunum og nánari skilyrðum uppfylltum. Reglugerð nr. 1051/2020 tók síðan gildi 31. október 2020. Með henni var undanþága fyrir hóptíma líkamsræktarstöðva felld úr gildi og þeim gert að loka.
    Líkamsræktarstöðvar sem svo kusu gátu þannig í 11 daga haldið úti takmarkaðri starfsemi í formi hóptíma. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið sem varð að lögum nr. 38/2020 var því velt upp hvernig hátta skyldi um rekstraraðila sem hefur meira en eina tegund starfsemi og er gert að loka eða stöðva hluta starfsemi sinnar en ekki allri. Með vísan til þess sem þar kom fram, sem og þess að starfsemi heilsuræktarstöðva var að meginreglu óheimil á gildistíma reglugerðar nr. 1015/2020, telur nefndin ljóst að líkamsræktarstöðvar uppfylli skilyrði 1. tölul. 4. gr. laganna á gildistíma reglugerðarinnar og eigi rétt á lokunarstyrk fyrir þann tíma að öðrum skilyrðum uppfylltum.
Gildissvið lokunarstyrkja.
    Við umfjöllun málsins komu fram tillögur til breytinga á frumvarpinu með það markmið að lokunarstyrkir næðu til fleiri aðila, svo sem veitingageirans, sem orðið hafa fyrir tekjufalli sökum kórónuveirufaraldursins og sóttvarnaraðgerða stjórnvalda án þess þó að hafa verið gert að loka. Samhliða umfjöllun nefndarinnar um framhald á lokunarstyrkjum fjallaði nefndin um frumvarp til laga um tekjufallsstyrki (212. mál). Nefndin leggur til breytingar á því frumvarpi sem m.a. er ætlað að bregðast við framangreindum sjónarmiðum. Vísast um þetta að öðru leyti til umfjöllunar nefndarinnar um 212. mál.

Breytingartillaga nefndarinnar.
    Nefndin leggur til breytingar sem eru m.a. til komnar vegna ábendinga í umsögn Skattsins. Breytingarnar eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að þessu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „var“ og „voru“ í 2. gr. komi: er; og: eru.
     2.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðanna „tímabili lokunar“ í 1. málsl. 1. efnismgr. komi: lokunartímabili.
                  b.      Í stað orðanna „á lokunartímabilinu“ í 2. málsl. 1. efnismgr. komi: í upphafi lokunartímabils.
     3.      Í stað orðsins „laganna“ í b-lið 5. gr. komi: laga þessara.
     4.      2. málsl. 8. gr. orðist svo: Ákvæði b-liðar 5. gr. gildir afturvirkt frá gildistöku laga nr. 38/2020.

Alþingi, 3. nóvember 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Smári McCarthy. Willum Þór Þórsson.