Ferill 169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 256  —  169. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um fjölda sjúkrarýma á Landspítala.


    Rétt er að vekja athygli á því að í fyrirsögn fyrirspurnarinnar er vísað til alls Landspítala en 1., 3. og 5. liður lúta eingöngu að Landspítala við Hringbraut. Svörin við þeim miðast því eingöngu við húsnæði Landspítalans við Hringbraut.

     1.      Hve mörg sjúkrarými eru á Landspítalanum við Hringbraut?
    Það eru 253 sólarhringssjúkrarými við Hringbraut. Einnig eru þar nokkrar dag- og göngudeildir. Sjá nánar í svari við 3. lið.

     2.      Hve margir hafa dvalið í sjúkrarýmum á Landspítalanum á síðastliðnum tveimur árum vegna þess að ekki er hægt að útskrifa þá sökum plássleysis á öðrum stofnunum og hversu lengi hafa þeir þurft að dvelja þar af þeim sökum?
    Árið 2019 biðu alls 210 einstaklingar á legudeildum spítalans í að meðaltali 96 daga (miðgildi 67 dagar) hver eftir útskriftarúrræði. Svipaður fjöldi beið á Vífilsstöðum, en þar var meðalbiðtíminn 153 dagar (miðgildi 138 dagar). Auk þess fóru 82 einstaklingar í biðrými á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Akranesi eftir að hafa legið að meðaltali í 44 daga (miðgildi 35 dagar) á Landspítala.
    Það sem af er árs 2020 (miðað við 23. okt. 2020) hafa alls 226 beðið á legudeildum spítalans í að meðaltali 86 daga (miðgildi 62 dagar) hver. Á Vífilsstöðum hafa 239 einstaklingar beðið eftir hjúkrunarrými, en þar var meðalbiðtíminn 132 dagar (miðgildi 117 dagar). Auk þess hafa 36 einstaklingar flust í biðrými á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Akranesi eftir að hafa legið að meðaltali í 57 daga (miðgildi 52 dagar) á Landspítala. Sjá eftirfarandi töflu:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     3.      Eru til mismunandi tegundir sjúkrarýma á Landspítalanum við Hringbraut? Ef svo er, hvaða tegundir sjúkrarýma eru í notkun og hve mörg eru í notkun af hverri tegund?
    Í eftirfarandi töflu má sjá að á Landspítala við Hringbraut eru sjúkrarými skurðlækninga alls 32, gjörgæslu alls 7, krabbameinsþjónustu alls 28, lyflækninga alls 49, kvenna- og barnaþjónustu alls 79 og geðþjónustu alls 58 eða samtals 253.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hvað er áætlað að rekstur sjúkrarýmis kosti á dag?
    Rekstraráætlun spítalans er ekki greind/sundurliðuð eftir einstökum rýmum og því liggur ekki fyrir hver rekstur eins rýmis er á ársgrunni og ekki víst að slík tala mundi gefa rétta mynd. Hér er gefinn upp meðalkostnaður við eina sólarhringslegu á bráðalegudeild Landspítala (legudeildum lyf- og skurðlækninga og móttökudeildum geðþjónustu við Hringbraut) byggt á gögnum frá 2020 úr kostnaðarkerfi spítalans þar sem reynt er að nálgast heildarkostnað þjónustu í hverri legu. Tölur eru því háðar rekstri og þeirri starfsemi eins og hún hefur verið það sem af er árinu 2020:

Meðalkostnaður við sólarhringslegu 2020

Bráðalegudeildir lyflækninga (án A2)
141.000 kr.
Bráðalyflækningadeild A2 194.000 kr.
Bráðalegudeildir skurðlækninga 166.000 kr.
Bráðaöldrunarlækningadeild 90.000 kr.
Móttökudeildir geðþjónustu 110.000 kr.

    Innifalið í uppgefnum kostnaðartölum er kostnaður hjúkrunarþjónustu á viðkomandi legudeildum, kostnaður læknisþjónustu við inniliggjandi sjúklinga á þeim deildum, annar rekstrarkostnaður legudeilda (hjúkrunarvörur og lyf) og fæðiskostnaður sjúklinga. Undanskilinn er sameiginlegur kostnaður á sviði og kostnaður stoðþjónustu sem og allur meðferðarkostnaður annar en lyfjakostnaður, svo sem kostnaður skurðaðgerða, rannsókna, viðtalsmeðferða o.fl. Ef bera á þessa tölu saman við rekstur rýma á öðrum stofnunum þarf að gæta að því að um sömu/svipaða kostnaðarliði sé að ræða.

     5.      Hve mörg verða sjúkrarýmin á nýjum Landspítala við Hringbraut?
    Eins og staðan er í dag er gert ráð fyrir 210 legurýmum í nýja meðferðarkjarnanum auk 23 gjörgæslurýma. Það eru alls 243 sjúkrarými. Auk þess verða áfram opin sjúkrarými við Hringbraut í eldri byggingum spítalans, svo sem í geðdeildarhúsi, kvennadeildarbyggingu, Barnaspítala og í núverandi aðalbyggingu.

     6.      Hvernig munu sjúkrarýmin á nýjum Landspítala skiptast í tegundir og hver verður fjöldi hverrar tegundar?
    Í nýja meðferðarkjarnanum verða legurými/sjúkrarými bæði fyrir bráðveika og fyrir skipulagða meðferð/skurðaðagerðir, gjörgæslurými auk bráðamóttöku. Nú stendur yfir endurskoðun á því hvernig legurýmin/sjúkrarýmin skiptast milli sérgreina/þjónustuflokka. Endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir í dag og gæti fjöldi og tegund sjúkrarýma því breyst.