Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 257  —  239. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.


Flm.: Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Helga Vala Helgadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Guðmundur Andri Thorsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Logi Einarsson, Guðjón S. Brjánsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að tryggja að einstaklingar sem ferðast hingað til lands í því skyni að gangast undir þungunarrof fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Þetta verði bundið því skilyrði að viðkomandi megi ekki gangast undir þungunarrof vegna lögbundinna hindrana í heimalandinu og uppfylli skilyrði í lögum um þungunarrof, nr. 43/2019. Þá þurfi viðkomandi að geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu.

Greinargerð.

    Nýlokið er heildarendurskoðun á lögum um þungunarrof, nr. 43/2019, en yfirlýst markmið þeirra er „að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu“. Ísland er þar að auki aðili að fjölmörgum alþjóðasamningum, m.a. samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningnum), og kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem m.a. er kveðið á um rétt kvenna til heilbrigðisþjónustu.
    Með hliðsjón af því er markmið þessarar þingsályktunartillögu að tryggja að einstaklingum, sem hafa erlent ríkisfang og hafa ekki dvalið hér á landi til lengri tíma en geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu, séu veitt þau réttindi sem lög nr. 43/2019 tryggja hér á landi og gera þannig handhöfum evrópska sjúkratryggingakortsins kleift að undirgangast þungunarrof sem annars væri þeim ekki aðgengilegt. Með því væri verndaður réttur þeirra sem ekki geta notið sjálfsforræðis yfir eigin líkama, í ljósi laga eða niðurstöðu dóma í heimalandi þeirra.
    Nauðsynlegt er að heilbrigðisráðherra tryggi aðgengi handhafa evrópska sjúkratryggingakortsins að þungunarrofi hérlendis, að fyrrgreindum skilyrðum uppfylltum, og að þannig sé tekin afgerandi staða með kvenréttindum í Evrópu. Aðgengi að þungunarrofi er ekki jafnt innan Evrópska efnahagssvæðisins, til að mynda má ekki framkvæma þungunarrof á Möltu nema líf konunnar sé í hættu. Hinn 22. október 2020 ákvarðaði stjórnlagadómstóll Póllands að herða enn frekar lög um þungunarrof og taka fyrir að þungunarrof væri framkvæmt væri fóstrið ekki lífvænlegt, en það hefur hingað til hefur verið ástæða um 98% löglegra þungunarrofa í Póllandi.
    Þar sem einungis tvö lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins, Malta og Pólland, uppfylla skilyrðið sem lagt er til í þingsályktunartillögu þessari, er ekki talið að þetta hafi íþyngjandi afleiðingar fyrir ríkissjóð. Þó að það væri óskandi að geta tekið á móti fleiri konum eða einstaklingum sem ekki hafa þessi réttindi í heimalandi sínu eru flutningsmenn frumvarpsins meðvitaðir um það bakslag sem er í sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir líkama sínum í Evrópu en í krafti evrópskrar samvinnu á vettvangi heilbrigðisþjónustu á Íslandi er hægara um vik að tryggja konum og einstaklingum með evrópska sjúkratryggingakortið þá sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu sem felst í þungunarrofi.
    Aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu á meðgöngu eru grundvallarmannréttindi. Með því að tryggja aðgengi erlendra borgara, sem annars hafa ekki löglegan rétt til þessarar þjónustu, tæki Ísland afgerandi stöðu með réttindum þeirra, ekki bara hérlendis heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi.