Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 260  —  212. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.Breytingartillaga


við frumvarp til laga um tekjufallsstyrki.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


     1.      Orðið „litla“ í 2. gr. falli brott.
     2.      Við 3. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „launagreiðendaskrá“ í 1. tölul. komi: eða gerði grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í skattframtali 2020.
                  b.      Við bætist nýr töluliður, sem verði 5. tölul., svohljóðandi: Stöðugildi: Starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð.
     3.      Við 4. gr.
                  a.      1. tölul. orðist svo: Tekjur hans á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 voru a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og tekjufallið má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans bornar saman við tekjur hans fyrstu sjö heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. Hafi hann starfað skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok mars 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 214 daga viðmiðunartekjur. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil skv. 1.–3. málsl. Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður lokunarstyrkur skv. 1.–2. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er heimilt að draga hann frá tekjum á því tímabili við útreikning tekjufalls samkvæmt þessu ákvæði að því marki sem hann hefur verið tekjufærður innan tímabilsins 1. apríl til 31. október.
                  b.      2.–3. tölul. falli brott.
     4.      Í stað 1.–2. mgr. 5. gr. komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Fjárhæð tekjufallsstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020. Tekjufallsstyrkur getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli rekstraraðila skv. 1. tölul. 4. gr. Tekjufallsstyrkur fyrir hvern almanaksmánuð á tímabilinu 1. apríl til 31. október getur jafnframt aldrei orðið hærri en:
                  a.      400 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi hjá rekstraraðila á tímabilinu og ekki hærri en 2 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 1. tölul. 4. gr. á bilinu 40– 70%.
                  b.      500 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi hjá rekstraraðila á tímabilinu og ekki hærri en 2,5 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 1. tölul. 4. gr. meira en 70%.
             Í stað þess að telja til rekstrarkostnaðar reiknað endurgjald fyrir tímabilið 1. apríl til 31. október 2020 er rekstraraðila heimilt að reikna til rekstrarkostnaðar á því tímabili fjárhæð sem nemur 7/ 12 af gjaldfærðu reiknuðu endurgjaldi í skattframtali 2020. Hafi rekstraraðili fengið atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. apríl til 31. október 2020 dragast þær frá þannig reiknuðum rekstrarkostnaði.
             Hafi rekstraraðili hlotið stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti samkvæmt lögum nr. 50/2020 á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 skal hann draga fjárhæð þess stuðnings frá rekstrarkostnaði skv. 1. málsl. 1. mgr.
     5.      10. gr. orðist svo, ásamt fyrirsögn:

             Hámarksstuðningur við tengda aðila.

                 Heildarfjárhæð tekjufallsstyrkja til tengdra rekstraraðila getur að hámarki numið 120 millj. kr., að meðtöldum stuðningi samkvæmt lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020, og lokunarstyrkjum fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020.
                 Sé um að ræða fyrirtæki sem taldist í erfiðleikum 31. desember 2019, önnur en lítil fyrirtæki sem ekki hafa hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð, getur heildarfjárhæð tekjufallsstyrkja til tengdra rekstraraðila þó að hámarki numið 30 millj. kr. Skal slík aðstoð samrýmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samninginn.
     6.      Á eftir 10. gr. komi ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

             Birting upplýsinga.

                 Skatturinn skal birta opinberlega upplýsingar um hvaða lögaðilum hefur verið ákvarðaður tekjufallsstyrkur samkvæmt lögum þessum. Birta skal upplýsingar um alla styrkþega og fjárhæð styrkja nemi þeir jafnvirði 100 þúsund evra eða meira.
     7.      Í stað orðanna „Við 5. gr. laganna bætist“ í 1. mgr. 14. gr. komi: Á undan lokamálsgrein 5. gr. kemur.
     8.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir 4. og 5. gr. laga þessara er heimilt að veita rekstraraðila sem hóf störf á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst 2020 tekjufallsstyrk fyrir tímabilið 1. september til 31. október 2020 enda nemi tekjufall hans á því tímabili að lágmarki 40% miðað við tekjur hans frá því hann hóf starfsemi fram til 1. september 2020 umreiknaðar í 61 dags viðmiðunartekjur.
                 Fjárhæð tekjufallsstyrks skv. 1. mgr. skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. september til 31. október 2020. Tekjufallsstyrkur skv. 1. mgr. getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli samkvæmt ákvæðinu. Tekjufallsstyrkur fyrir hvorn mánuð um sig getur jafnframt aldrei orðið hærri en:
                  a.      400 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi hjá rekstraraðila á tímabilinu og ekki hærri en 2 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 1. mgr. á bilinu 40–70%.
                  b.      500 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi hjá rekstraraðila á tímabilinu og ekki hærri en 2,5 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 1. mgr. meira en 70%.
             Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður lokunarstyrkur samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á tímabilinu 1. september til 31. október 2020 er heimilt að draga hann frá tekjum á því tímabili við útreikning tekjufalls skv. 1. mgr. að því marki sem hann hefur verið tekjufærður innan tímabilsins.
             Hafi rekstraraðili hlotið stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti samkvæmt lögum nr. 50/2020 á tímabilinu 1. september til 31. október 2020 skal hann draga fjárhæð þess stuðnings frá rekstrarkostnaði skv. 1. mgr.