Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 261  —  241. mál.
Flutningsmenn.
Frumvarp til laga


um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (kynferðisbrot).

Flm.: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Páll Magnússon, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 1. mgr. 210. gr. a laganna:
     a.      Á eftir orðunum ,,aflar sér eða öðrum“ kemur: dreifir.
     b.      Í stað orðanna „2 árum“ kemur: 6 árum.

2. gr.

    Á eftir 210. gr. b laganna kemur ný grein, 210. gr. c, svohljóðandi:
    Nú hefur sá sem dæmdur er sekur um brot á 210. gr. a eða 210. gr. b áður sætt refsingu samkvæmt þeim greinum og má þá hækka refsingu allt að helmingi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

Tilefni lagasetningar.
    Markmiðið með frumvarpi þessu er að bregðast við aukinni útbreiðslu barnaníðsefnis og umfangi slíkra mála sem koma til kasta lögreglu, ákæruvalds og dómstóla. Samhliða framþróun tækninnar hefur orðið mun auðveldara en áður að verða sér úti um barnaníðsefni á netinu sem og að dreifa því, svo sem ljósmyndir, kvikmyndir, myndskeið eða annað sambærilegt efni sem sýnir börn og ungmenni á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Með auknu aðgengi og útbreiðslu barnaníðsefnis eru slík brot nú umfangsmeiri, skipulagðari og eftir atvikum grófari en áður. Framleiðsla og dreifing barnaníðsefnis er í ákveðnum tilvikum skipulögð glæpastarfsemi, með mikilli fjárhagslegri veltu, þar sem brotið er kynferðislega gegn börnum með skipulögðum hætti. Þessi þróun er alþjóðleg og Ísland er þar ekki undanskilið.
    Veruleiki þessarar brotastarfsemi hefur jafnframt tekið nokkrum breytingum með almennri notkun snjallsíma þannig að gerendur sem brjóta kynferðislega gegn barni eiga auðveldara með en áður að taka um leið ljósmyndir eða myndskeið af brotinu. Það á einnig við þegar kynferðisbrot er framið gegn barni af hálfu nákomins, t.d. inni á heimili barns. Þannig hafa gerendur í slíkum málum framleitt barnaníðsefni til eigin nota og í kjölfarið hefur myndunum og myndskeiðunum svo í einhverjum tilvikum verið deilt með öðrum og dreift á netinu.
    Sérstök spjallsvæði á netinu hafa einnig auðveldað samskipti og um leið aðgengi að barnaníðsefni. Á slíkum svæðum hafa menn ekki aðeins deilt barnaníðsefni með öðrum heldur jafnframt getað lagt á ráðin um það að brotið verði með tilteknum hætti gegn barni til þess að horfa síðan á þegar brot er framið gegn barninu eða síðar. Slíkt efni getur í kjölfarið náð mikilli útbreiðslu. Brot gegn viðkomandi barni felst þá annars vegar í því að beita barnið kynferðislegu ofbeldi og hins vegar í því að efni sem sýnir brotið er aðgengilegt öðrum brotamönnum á netinu. Sem fyrr eru það börn í viðkvæmri stöðu sem eru í mestri hættu gagnvart brotum af þessu tagi og börn í ákveðnum löndum og svæðum þar sem iðnaður sem þessi þrífst. Umfangsmikil mál sem varða vörslu á barnaníðsefni eru nú til rannsóknar hjá lögreglu hérlendis. Þegar dómar fyrir brot gegn 210. gr. a almennra hegningarlaga eru rýndir má sjá að þegar um stórfelld brot hefur verið að ræða hafa sakborningar verið með tugi þúsunda mynda í vörslum sínum. Þykja refsingar fyrir vörslur barnaníðsefnis ekki alltaf hafa verið í samræmi við alvarleika brota.

Efni frumvarpsins.
    Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að orðinu „dreifir“ verði bætt við 1. málsl. 1. mgr. 210. gr. a laganna. Núgildandi orðalag ákvæðisins greinir að refsivert er að afla sér eða öðrum barnaníðsefnis. Orðalag 2. mgr. 210. gr. tilgreinir sérstaklega að refsivert sé að „dreifa á annan hátt“.
    Aukin útbreiðsla barnaníðsefnis felst ekki síst í því að menn dreifa slíku efni til mikils fjölda manna á spjallsvæðum eða með öðrum hætti á netinu, jafnvel til ótilgreinds fjölda manna. Í því ljósi er talin ástæða til að tilgreina orðið „dreifir“ sérstaklega í ákvæðinu nú, enda þótt sú háttsemi að afla öðrum barnaníðsefnis sé nú þegar refsiverð. Er slík breyting til þess fallin að styrkja refsivernd enn frekar að þessu leyti og með því verði brugðist skýrlega við nýrri birtingarmyndum þessara brota.
    Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að refsihámark fyrir brot gegn ákvæði 210. gr. a verði 6 ár ef brot er stórfellt. Markmiðið með því að hækka refsihámarkið er að refsingar fyrir stórfelld brot gegn þessu ákvæði séu í samræmi við eðli og alvarleika brotanna. Með hærra refsihámarki fyrir stórfelld brot mun ákvæðið skýrlega bera með sér þá afstöðu löggjafans að menn sem skoða barnaníðsefni, hafa það í vörslum sínum eða afla sér eða öðrum, eiga veigamikinn þátt í því að barnaníðsefni er framleitt. Barnaníðsefni verður eingöngu til vegna þess að eftirspurn eftir slíku ofbeldi gegn börnum og ungmennum er fyrir hendi. Mikilvægt er sömuleiðis að hafa í huga að við framleiðslu barnaníðsefnis er framið brot gegn því barni eða þeim börnum sem sjá má á ljósmyndunum, í kvikmyndunum, á myndskeiðunum eða öðru efni og að því leyti ekki unnt að líta svo á að neytendur þeirra séu alfarið undanskildir þeim brotum. Þess háttar brot þurfa því að varða refsingum sem gefa skýrlega til kynna að „neytendur“ slíks efnis eru órofa þáttur í þeim brotum sem framin eru gegn börnum við framleiðslu barnaníðsefnis. Með því að hækka refsihámark fyrir stórfelld brot gegn ákvæðinu er markmiðið jafnframt að fæla menn frá slíkum afbrotum og auka þannig vernd barna gegn alvarlegum brotum. Afstaða löggjafans til þess hve alvarlegum augum tiltekin refsiverð brot eru litin endurspeglast í refsiramma laganna. Ætla má að hækkun refsihámarks verði lögreglu þannig hvatning til að setja enn frekari kraft í frumkvæðisvinnu á þessu sviði. Þá er markmiðið jafnframt að fylgja þeirri þróun sem hefur átt sér stað í norrænni löggjöf og nánar er fjallað um síðar í greinargerðinni, m.a. við mat á því hvort brot telst stórfellt.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði sérstakt ítrekunarákvæði. Sé maður dæmdur fyrir brot gegn ákvæðum 210. gr. a eða 210. gr. b má samkvæmt því hækka refsingu allt að helmingi hennar, sé brot ítrekað, að gættum reglum 71. gr. laganna. Það ákvæði þjónar þeim tilgangi að tekið verði fastar á þeim sakborningum sem hafa áður verið dæmdir fyrir svo alvarleg brot.

Dómaframkvæmd fyrir brot gegn ákvæði 210. gr. a.
    Þegar dómar fyrir brot gegn 210. gr. a eru rýndir má sjá að þegar um stórfelld brot hefur verið að ræða hafa sakborningar verið með tugi þúsunda mynda í vörslum sínum. Dómar hafa fallið þar sem þetta hefur verið reyndin, að einn maður hefur haft í vörslum sínum tugi þúsunda ljósmynda og/eða myndskeiða sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt og þar sem samtímis er brotið kynferðislega gegn börnum.
    Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 366/2015 var ákærði til að mynda sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum 34.714 ljósmyndir og 585 hreyfimyndir. Var hann dæmdur í 15 mánaða fangelsi, en þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 240/2015 var ákærði sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum 45.236 myndir og 155 hreyfimyndir. Honum var gert að sæta fangelsi í 2 ár og 8 mánuði. Við ákvörðun refsingar hafði þýðingu að ákærði hafði áður sætt refsingu fyrir brot gegn börnum og þá voru dæmdar upp eftirstöðvar 420 daga fangelsisrefsingar sem hann átti eftir að afplána. Dómur hans var því að hluta til vegna refsingar sem hann hafði þá þegar hlotið en átti eftir að afplána. Ekki er því unnt að segja nákvæmlega til um hvert hlutfall refsingar var fyrir vörslur á barnaníðsefninu af heildarrefsingu. Dómar sem þessir bera hins vegar glögglega með sér að þegar til þess kemur að enn umfangsmeiri brot af þessum tagi koma upp muni 2 ára refsihámark ekki duga til, sé ætlunin að refsing sé í samræmi við alvarleika brotsins.

Norrænn réttur.
    Hliðstæð ákvæði í norrænum hegningarlögum hafa sætt endurskoðun með það að markmiði að löggjöf nái betur fram markmiðum sínum og varnaðaráhrifum. Ákvæðin eru ekki byggð upp með sama hætti alls staðar og því ekki unnt að bera þau saman frá orði til orðs. Markmiðin að baki eru hins vegar öll hin sömu. Annars staðar á Norðurlöndum er refsihámarkið hærra en hérlendis, allt að 6 árum fyrir stórfelld brot. Með því að hækka refsihámarkið fyrir stórfelld brot gegn 210. gr. a yrði réttarþróun annars staðar á Norðurlöndunum fylgt að þessu leyti.
    Í Danmörku er fjallað um framleiðslu barnaníðsefnis í 226. gr. dönsku hegningarlaganna (d. straffeloven) en um dreifingu, vörslur, greiðslu fyrir aðgang að barnaníðsefni og að skoða slíkt efni á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni í 235. gr. laganna. Ákvæðunum var síðast breytt árið 2013. Brot gegn fyrrnefnda ákvæðinu varðar sekt eða fangelsi í allt að sex ár. Dreifing barnaníðsefnis varðar sekt eða fangelsi allt að tveimur árum en sex árum ef slíkt brot er stórfellt (d. under særligt skærpende omstændigheder). Við mat á því hvort brot teljist stórfellt skal litið til þess hvort lífi barns hafi verið stefnt í hættu, hvort barn hafi verið beitt grófu ofbeldi eða orðið fyrir alvarlegum skaða eða hvort barnaníðsefni er dreift með skipulögðum hætti.
    Í finnsku hegningarlögunum (s. strafflag) er framleiðsla og dreifing barnaníðsefnis refsiverð skv. 18. gr. (17. kf.) laganna og varðar brot gegn greininni sekt eða fangelsi í allt að tvö ár. Árið 2004 var lögfest sérstök grein, 18. gr. a (17. kf.), um grófa dreifingu á barnaníðsefni og er refsiramminn fyrir brot gegn þeirri grein fangelsi frá fjórum mánuðum í allt að sex ár. Hefur refsiramminn verið óbreyttur frá því greinin var lögfest.
    Í 311. gr. norsku hegningarlaganna (n. straffeloven) er kveðið á um refsinæmi m.a. framleiðslu, dreifingar og vörslu barnaníðsefnis í einu og sama ákvæðinu. Varða brot gegn því ákvæði sekt eða fangelsi í allt að þrjú ár. Hámarksrefsing var hækkuð úr tveggja ára fangelsi með breytingalögum árið 2003.
    Sami háttur er hafður á í Svíþjóð þar sem kveðið á um refsinæmi m.a. framleiðslu, dreifingar og vörslu barnaníðsefnis í einu ákvæði, þ.e. 10. gr. a (16. kf.) sænsku hegningarlaganna (s. brottsbalk). Brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi í allt að tvö ár en smávægileg brot varða sektum eða fangelsi í allt að sex mánuði. Hins vegar varða stórfelld brot fangelsi frá sex mánuðum í allt að sex ár. Við mat á því hvort brot er stórfellt skal samkvæmt ákvæðinu horft til magns og grófleika barnaníðsefnis, þar á meðal aldurs barna og eðlis brota gegn börnum við framleiðslu efnis, hvort brotamaður fái greitt fyrir framningu brots og hvort brotið sé liður í skipulagðri brotastarfsemi. Refsiheimild og skilgreining vegna stórfelldra brota kom fyrst inn í sænsku hegningarlögin með breytingum á ákvæðinu árið 1998 og var þá refsihámarkið fjögurra ára fangelsi. Refsihámarkið var hækkað í allt að sex ára fangelsi árið 2005.

Mat á alvarleika brots og atriði sem litið skal til við ákvörðun refsingar.
    Við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn 210. gr. a almennra hegningarlaga og við mat á því hvort brot gegn greininni teljist stórfellt þykir rétt að miða við sömu atriði og lögð eru til grundvallar í danskri og sænskri refsilöggjöf. Litið skal til magns og grófleika barnaníðsefnisins, eðlis og alvarleika þeirra brota sem framin eru gegn börnum við framleiðslu efnis og afleiðinga sem þau brot hafa í för með sér fyrir brotaþola. Í því samhengi skal litið til aldurs þeirra barna sem brotið er gegn við framleiðslu efnis, hvort lífi og heilsu þeirra hafi verið ógnað og hversu sársaukafullt, meiðandi eða niðrandi efnið er. Þá horfi það einnig til refsiþyngingar ef brotið er skipulagt, þar á meðal sem liður í skipulagðri brotastarfsemi. Matið verði heildstætt um alvarleika máls.
    Sem fyrr greinir er lagt til í 2. gr. frumvarpsins að lögfest verði sérstök refsihækkunarheimild við ítrekun brots og skal því litið til þess við ákvörðun refsingar hvort sakborningur hafi áður sætt refsingu skv. 210. gr. a eða 210. gr. b.