Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 295  —  266. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

Frá dómsmálaráðherra.



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.
    Með Schengen-upplýsingakerfinu á Íslandi er átt við rafrænt gagnasafn sem starfrækt er hér á landi og tengt sameiginlegu upplýsingakerfi á Schengen-svæðinu.

2. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Andlitsmynd: Stafræn mynd af andliti sem er í upplausn og gæðum sem þykja fullnægjandi til að hana megi nota til sjálfvirkrar lífkennaauðkenningar.
     2.      Brottvísun: Ákvörðun stjórnvalds um að útlendingi sem dvelst hérlendis skuli vísað úr landi til heimalands eða annars ríkis þar sem hann getur sýnt fram á löglega heimild til dvalar og honum getur verið bönnuð endurkoma í tiltekinn tíma eða að fullu og öllu, sbr. lög um útlendinga.
     3.      DNA-snið: Bókstafs- eða talnakóði sem sýnir eiginleikasafn til kennslagreiningar í sýni úr þeim hluta mannlegs DNA sem kóðar ekki og greining hefur verið gerð á, einkum hina sérstöku sameindabyggingu á ýmsum DNA-gensetum.
     4.      Dvalarleyfi:
                  a.      Öll dvalarleyfi sem gefin eru út af Schengen-ríki á samræmdu formi.
                  b.      Öll önnur skjöl sem gefin eru út af Schengen-ríki til útlendinga, sem hvorki eru borgarar ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu né ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, og heimila dvöl á eða endurkomu á yfirráðasvæði þess að undanskildum bráðabirgðaleyfum sem gefin eru út á meðan fyrsta umsókn um dvalarleyfi skv. a-lið eða umsókn um alþjóðlega vernd er til meðferðar.
     5.      Endurkomubann: Fylgir ákvörðun um brottvísun og er ákvörðun eða úrlausn stjórnvalds eða dómstóls, sem bannar komu til eða dvöl á yfirráðasvæði Schengen-ríkja í tiltekinn tíma.
     6.      Fingrafaragögn: Gögn um fingraför og lófaför sem gera kleift að gera nákvæman og óyggjandi samanburð varðandi deili á einstaklingi.
     7.      Flagg: Yfirlýsing um óvirkni skráningar hér á landi sem setja má gagnvart skráningu annars ríkis vegna handtöku, týndra einstaklinga, einstaklinga í viðkvæmri stöðu og eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar.
     8.      Frávísun: Ákvörðun stjórnvalds um að vísa útlendingi frá landinu til heimalands eða annars ríkis þar sem hann getur sýnt fram á löglega heimild til dvalar, sbr. lög um útlendinga.
     9.      Hryðjuverk: Brot skv. 100. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
     10.      Langtímavegabréfsáritun: Vegabréfsáritun skv. 21. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016.
     11.      Lífkennaupplýsingar: Persónuupplýsingar sem fást með sérstakri tæknivinnslu og tengjast líkamlegum eða lífeðlisfræðilegum eiginleikum einstaklings og gera kleift að greina eða staðfesta deili á einstaklingi með ótvíræðum hætti, svo sem ljósmyndir, andlitsmyndir, fingrafaragögn og DNA-snið.
     12.      Ríkisborgari þriðja ríkis: Útlendingur sem er ekki íslenskur ríkisborgari eða borgari ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu.
     13.      Schengen-ríki: Ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu, sbr. lög um útlendinga.
     14.      Sjálfviljug brottför: Einstaklingur sem sætir ákvörðun um frávísun eða brottvísun fer frá landinu sjálfviljugur, án fylgdar og framkvæmdar lögreglu og Útlendingastofnunar.
     15.      Smellur: Samsvörun sem hefur verið staðfest af notanda, eða þar til bærum yfirvöldum til samræmis við gildandi landslög þegar viðkomandi samsvörun byggist á samanburði lífkennaupplýsinga og frekari aðgerða er óskað. Samsvörun fæst þegar leit í kerfinu hefur leitt í ljós skráningu annars Schengen-ríkis í kerfið og gögn varðandi skráninguna samsvara að hluta eða öllu leyti leitargögnum.
     16.      Skráning: Röð gagna sem færð eru í upplýsingakerfið og gera lögbærum yfirvöldum kleift að bera kennsl á einstakling eða hlut með það að markmiði að grípa til sértækra aðgerða.
     17.      Skráningarríki: Schengen-ríki sem færir skráningu í upplýsingakerfið.
     18.      Viðbótargögn: Gögn sem eru vistuð í upplýsingakerfinu og tengjast skráningum í því, sem skulu vera aðgengileg lögbærum yfirvöldum fyrirvaralaust þegar einstaklingur, sem gögn hafa verið skráð um í kerfið, finnst í kjölfar leitar í kerfinu.
     19.      Viðbótarupplýsingar: Upplýsingar sem ekki teljast hluti af skráningargögnum en sem tengjast skráningum í upplýsingakerfinu og sem skipst verður á fyrir milligöngu SIRENE-skrifstofa:
                  a.      í því skyni að gera ríkislögreglustjóra kleift að hafa samráð við og upplýsa önnur Schengen-ríki þegar skráning er færð inn,
                  b.      þegar smellur hefur fengist svo unnt sé að grípa til viðeigandi aðgerða,
                  c.      þegar ekki er unnt að grípa til þeirra aðgerða sem mælt er fyrir um,
                  d.      í tengslum við gæði gagna í upplýsingakerfinu,
                  e.      í tengslum við samrýmanleika og forgang skráninga,
                  f.      í tengslum við rétt til aðgangs að upplýsingum í kerfinu.

3. gr.

Ábyrgð á upplýsingakerfinu.

    Ríkislögreglustjóri rekur og ber ábyrgð á upplýsingakerfinu. Hann hefur umsjón með skráningu í það og sendingu annarra gagna í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Við skráningu í kerfið skal þess gætt að upplýsingar séu réttar og áreiðanlegar og að fullnægt sé skilyrðum laganna fyrir skráningu.
    Ríkislögreglustjóri hefur umsjón með því að kerfið sé fullnýtt til uppflettinga og skráninga í samræmi við ákvæði laganna.
    Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd skráninga í reglugerð.

4. gr.

Starfsemi upplýsingakerfisins.

    Ríkislögreglustjóri og sá sem á hans vegum annast tölvuþjónustu skulu skipulega og kerfisbundið tryggja öryggi upplýsingakerfisins þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að því eða geti haft áhrif á skráningu í það. Á sama hátt skal ríkislögreglustjóri tryggja að kerfið starfi greiðlega og án truflana og að það sé aðgengilegt þeim sem við það starfa, bæði þeim stjórnvöldum sem eru beinlínutengd kerfinu og þeim stjórnvöldum sem hafa aðgang að skráðum upplýsingum í kerfinu samkvæmt beiðni þegar þau sinna ákveðnum verkefnum.

5. gr.

Starfsemi SIRENE-skrifstofu.

    Ríkislögreglustjóri skal starfrækja miðlæga upplýsinga- og þjónustumiðstöð, SIRENE-skrifstofu. SIRENE-skrifstofan skal meðal annars annast sendingu viðbótarupplýsinga til annarra SIRENE-skrifstofa, miðla viðbótarupplýsingum í tengslum við smelli, greiða fyrir aðgerðum á grundvelli skráninga um einstaklinga eða hluti í kjölfar smella, samhæfa og sannprófa gæði upplýsinga sem skráðar eru í upplýsingakerfið og annast miðlun upplýsinga innan lands til lögbærra yfirvalda samkvæmt lögum þessum.
    SIRENE-skrifstofan skal starfa allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.
    Tryggja skal að allar nauðsynlegar viðbótarupplýsingar séu aðgengilegar og sendar á skilvirkan og öruggan hátt. Beiðni um viðbótarupplýsingar skal svarað svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 12 klukkustundum frá móttöku hennar, nema beiðni varði hryðjuverk, skráningu einstaklinga til handtöku og afhendingar eða framsals, eða skráningu barns skv. a-lið 3. mgr. 10. gr., en í slíkum tilvikum skal beiðni svarað án tafar.
    SIRENE-skrifstofan skal útbúa og gera aðgengilegar fyrir lögbær yfirvöld nauðsynlegar upplýsingar um kerfið, þar á meðal notkunarleiðbeiningar, og annast menntun og þjálfun notenda kerfisins.

6. gr.

Markmið með skráningu í upplýsingakerfið.

    Skráning í upplýsingakerfið skal miða að því að tryggja öryggi á Íslandi og Schengen-svæðinu í heild, þar með talið almannaöryggi, allsherjarreglu og öryggi ríkisins. Í upplýsingakerfið skal aðeins skrá upplýsingar sem um getur í lögum þessum enda sé skráning þeirra nauðsynleg með hliðsjón af tilgangi skráningar og nægjanlega brýnt tilefni er til skráningar.

II. KAFLI

Skráning einstaklinga í upplýsingakerfið.

7. gr.

Skráning upplýsinga um einstaklinga.

    Í upplýsingakerfið má skrá eftirfarandi upplýsingar um einstaklinga:
     a.      kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti,
     b.      sérstök varanleg líkamleg einkenni,
     c.      fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár,
     d.      kyn,
     e.      ríkisfang eða ríkisföng,
     f.      hvort viðkomandi er vopnaður, ofbeldishneigður eða á flótta,
     g.      hvort viðkomandi telst í sjálfsvígshættu,
     h.      hvort af viðkomandi stafar lýðheilsuógn,
     i.      hvort viðkomandi hefur tengsl við hryðjuverk eða hryðjuverkasamtök,
     j.      ástæðu fyrir skráningu,
     k.      yfirvald sem biður um skráninguna,
     l.      tilvísun til ákvörðunar sem varð tilefni skráningar,
     m.      aðgerðir sem farið er fram á,
     n.      tengingu við aðrar skráningar í upplýsingakerfinu í samræmi við 40. gr.,
     o.      tegund afbrots,
     p.      kennitölu eða einkvæmt auðkenni viðkomandi ef um er að ræða Íslending, borgara ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu,
     q.      á hvaða grundvelli skráning skv. 10. gr. er gerð,
     r.      tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu,
     s.      ljósmyndir og andlitsmyndir,
     t.      fingrafaragögn og
     u.      afrit af persónuskilríkjum viðkomandi, í lit ef mögulegt.
    Skilyrði fyrir skráningu upplýsinga um einstakling í upplýsingakerfið er að mál sé til meðferðar hjá íslenskum yfirvöldum sem gefur tilefni til skráningar. Þá skal ganga úr skugga um að grundvöllur skráningar í upplýsingakerfið sé fullnægjandi og í samræmi við ákvæði laga þessara. Hið sama á við þegar skráning er framlengd. Ef einstaklingur er eftirlýstur vegna hryðjuverka telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar. Í undantekningartilvikum, með vísan til almannaöryggis og allsherjarreglu, er þó heimilt að víkja frá skráningu ef líklegt þykir að skráning hindri eða hafi áhrif á rannsókn eða saksókn málsins.
    Upplýsingar um einstakling verða ekki skráðar í kerfið nema eftirfarandi lágmarksupplýsingar liggi fyrir: nafn, fæðingardagur og fæðingarár, ástæða fyrir skráningu og aðgerðir sem farið er fram á. Aðrar upplýsingar sem taldar er upp í 1. mgr. skal skrá í kerfið ef þær liggja fyrir. Upplýsingar um sérstök varanleg líkamleg einkenni skal þó einungis skrá ef nauðsyn þykir til að bera kennsl á viðkomandi.
    Heimilt er að skrá einungis fingrafaragögn einstaklings í kerfið skv. 15. gr.
    Áður en upplýsingar um einstakling skv. 1. mgr. eru skráðar í kerfið skal ganga úr skugga um að ekki sé þegar til staðar skráning í kerfinu varðandi sama einstakling. Í þeim tilgangi skal kanna fingrafaragögn ef þau liggja fyrir.
    Einungis er heimilt að skrá eina skráningu varðandi hvern einstakling í kerfið. Heimilt er þó, þegar nauðsyn þykir, að bæta við nýrri skráningu varðandi sama einstakling, svo lengi sem sú skráning er ekki ósamrýmanleg skráningu um viðkomandi einstakling sem þegar er í kerfinu. Sé ný skráning ósamrýmanleg þeirri sem þegar er í kerfinu ber SIRENE-skrifstofunni að hafa samráð við skráningarríki með skiptum á viðbótarupplýsingum til að ná samkomulagi áður en ný skráning fer fram, nema mikilvægir þjóðarhagsmunir séu í húfi.
    Skráning um ríkisborgara þriðja ríkis sem nýtur réttarins til frjálsrar farar samkvæmt tilskipun nr. 2004/38/EB skal taka mið af réttindum hans skv. XI. kafla laga um útlendinga, nr. 80/2016.
    Um skráningu upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun gilda ákvæði III. kafla.
    Um skráningu upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl gilda ákvæði IV. kafla.

8. gr.

Flöggun skráningar.

    Ef aðgerð sem grípa ber til á grundvelli skráningar skv. 9., 10. og 13. gr. er talin andstæð landslögum, alþjóðlegum skuldbindingum eða grundvallarþjóðarhagsmunum, má SIRENE-skrifstofan óska eftir því að flagg verði sett gagnvart viðkomandi skráningu í þeim tilgangi að aðgerð sem gripið verður til á grundvelli skráningar fari ekki fram á yfirráðasvæði Íslands. Ef um er að ræða skráningu skv. 9. gr. getur skráningarríki þó, þrátt fyrir flöggun SIRENE-skrifstofu, óskað þess að upplýsinga verði aflað um dvalarstað viðkomandi einstaklings er skráning varðar.
    Þegar skráðar eru upplýsingar um einstakling skv. 9. gr. skal sjálfkrafa tilkynna nýja skráningu með sendingu viðbótarupplýsinga til þess að gera Schengen-ríki kleift að óska eftir flöggun gagnvart slíkri skráningu.
    Ef um er að ræða sérstaklega áríðandi og alvarlegt tilvik getur skráningarríki farið þess á leit við SIRENE-skrifstofuna að hún dragi flagg til baka og aðgerð verði framkvæmd. Ef SIRENE-skrifstofan sér það sér fært skal hún gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að unnt sé að framkvæma aðgerðina sem beðið var um án tafar.
    Þegar skráning varðar handtöku og afhendingu einstaklings til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar og ríkissaksóknari hefur synjað um að framkvæma hana, skal fara fram á það við skráningarríkið að það bæti flaggi við skráninguna sem kemur í veg fyrir að skráningunni verði fylgt eftir með handtöku. SIRENE-skrifstofan getur einnig farið fram á að flaggi verði bætt við skráninguna ef lögregla eða saksóknari hefur látið viðkomandi lausan í afhendingarferlinu.
    Að fyrirmælum ríkissaksóknara getur SIRENE-skrifstofan einnig krafist þess, annaðhvort á grundvelli almennra fyrirmæla eða í einstöku tilviki, að skráningarríkið setji flagg gagnvart skráningu vegna handtöku með afhendingu í huga ef augljóst er að synja verður um framkvæmd handtökuskipunarinnar.

9. gr.

Skráning um einstaklinga vegna eftirlýsingar til handtöku og afhendingar eða framsals.

    Heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið vegna beiðni um að eftirlýstur einstaklingur verði handtekinn og afhentur á grundvelli handtökuskipunar eða framseldur. Slíkar skráningar skulu gerðar á grundvelli beiðni lögreglu nema um sé að ræða evrópska eða norræna handtökuskipun, sbr. lög um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar.
    Skráning vegna eftirlýsingar til handtöku og afhendingar skal tengd viðbótargögnum með afriti af upphaflegri handtökuskipun. Heimilt er að tengja afrit af fleiri en einni handtökuskipun í kerfið. Öðrum upplýsingum sem tengjast evrópskri eða norrænni handtökuskipun, sbr. lög um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, skal miðlað sem viðbótarupplýsingum.
    Að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum, í tengslum við yfirstandandi aðgerð, er SIRENE-skrifstofunni heimilt að gera skráningu í kerfinu tímabundið óaðgengilega ábyrgum yfirvöldum í öðrum löndum sem taka þátt í aðgerð ef:
     a.      tilgangi aðgerða verður ekki náð með öðrum hætti,
     b.      samþykkis hefur verið aflað fyrir fram frá ríkissaksóknara hér á landi,
     c.      öllum þátttökuríkjum í aðgerð hefur verið tilkynnt um ákvörðunina með miðlun viðbótargagna.
    Skráning skal að jafnaði ekki vera óaðgengileg lengur en í 48 klukkustundir. Ef nauðsyn þykir er heimilt að framlengja þann tíma um aðrar 48 klukkustundir.
    Heimilt er að skrá og tengja eftirfarandi hluti við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1. og 2. mgr., ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi: vélknúin ökutæki, eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, báta, gáma, loftför, skotvopn og óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða eru fölsuð. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.
    Eftirfarandi upplýsingum skal miðlað til annarra Schengen-ríkja með viðbótarupplýsingum í tengslum við skráningu vegna eftirlýsingar til handtöku og framsals:
     a.      yfirvaldi sem gaf út beiðni um handtöku,
     b.      hvort fyrir liggi handtökuskipun eða fullnustuhæfur dómur um afplánun fangelsisrefsingar,
     c.      eðli og heimfærslu afbrots til refsilaga,
     d.      lýsingu á málsatvikum, þar á meðal staður, stund og hlutur viðkomandi í afbrotinu,
     e.      afleiðingar afbrots eins og mögulegt er og
     f.      öllum öðrum gagnlegum eða nauðsynlegum upplýsingum til að geta gripið til aðgerða á grundvelli skráningar.
    Þegar handtaka eftirlýsts einstaklings til afhendingar eða framsals getur ekki farið fram hér á landi, annaðhvort vegna ástæðna sem greinir í 8. gr. um flöggun eða vegna þess að rannsókn máls er ekki lokið, ber SIRENE-skrifstofunni að miðla upplýsingum um dvalarstað viðkomandi.

10. gr.

Skráning um horfna einstaklinga eða viðkvæma einstaklinga sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist.

    Heimilt er, á grundvelli ákvörðunar þar til bærra yfirvalda, að skrá upplýsingar um horfna einstaklinga.
    Heimilt er, á grundvelli ákvörðunar þar til bærra yfirvalda, að skrá upplýsingar um horfna einstaklinga sem þarf að vernda vegna eigin öryggis eða annarra.
    Heimilt er einnig, í eftirfarandi tilvikum, á grundvelli ákvörðunar þar til bærra yfirvalda, að skrá upplýsingar um börn og viðkvæma einstaklinga í kerfið sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist:
     a.      börn sem eiga á hættu að vera numin á brott af foreldri, fjölskyldumeðlim eða forráðamanni,
     b.      börn sem eru í augljósri hættu á að vera flutt á brott eða fari frá landinu og verði fórnarlömb mansals, þvinguð í hjónaband, fórnarlömb limlestingar á kynfærum kvenna eða annars konar kynbundins ofbeldis, verði fórnarlömb eða þátttakendur í hryðjuverkum, aðilar að vopnuðum átökum eða þátttakendur í fjandsamlegum aðgerðum og
     c.      viðkvæma einstaklinga sem náð hafa lögaldri, öryggis þeirra sjálfra vegna, sakir raunverulegrar og augljósrar hættu á að viðkomandi verði numinn á brott eða fari frá landinu og verði fórnarlamb mansals eða kynbundins ofbeldis.
    Við skráningu í kerfið skv. 1.–3. mgr. þarf að koma skýrt fram á hvaða grundvelli skráning er gerð, sbr. q-lið 1. mgr. 7. gr.
    Skráningar skv. 3. mgr. ber að yfirfara reglulega og endurmeta þörfina á að halda þeim í kerfinu, sbr. 45. gr.
    Heimilt er að skrá og tengja eftirfarandi hluti við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1.–3. mgr., ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi: vélknúin ökutæki, eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, báta, gáma, loftför og óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða eru fölsuð. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.

11. gr.

Aðgerðir á grundvelli skráningar um horfna einstaklinga eða viðkvæma einstaklinga sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist.

    Ef einstaklingur sem skráður hefur verið í upplýsingakerfið á grundvelli 10. gr. er staðsettur hér á landi ber að miðla upplýsingum um viðkomandi til skráningarríkisins. Upplýsingum um staðsetningu verður ekki miðlað til annarra en þar til bærra yfirvalda, án samþykkis viðkomandi, ef hann er skráður horfinn í kerfinu og hefur náð 18 ára aldri. Í slíkum tilvikum er þó heimilt að greina þeim, sem tilkynnti um hvarfið, frá því að skráningu hafi verið eytt vegna þess að viðkomandi hafi fundist.
    Ef vernda þarf einstakling skv. 2. eða 3. mgr. 10. gr., skal hafa samráð við þar til bær yfirvöld hér á landi og í ríkinu sem skráði viðkomandi í kerfið til að ákvarða til hvaða aðgerða verður gripið. Samráð skal haft með miðlun viðbótarupplýsinga. Til samræmis við gildandi lög er heimilt að færa viðkomandi á öruggan stað til að koma í veg fyrir að hann ferðist.
    Sé um að ræða barn undir 18 ára aldri skal ávallt hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ákvarðanir um aðgerðir er varða barn skal taka í samráði við barnaverndaryfirvöld og innan 12 klukkustunda frá því barnið var staðsett.

12. gr.

Skráning um einstaklinga vegna rannsóknar og meðferðar sakamáls.

    Heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið vegna eftirgrennslanar um búsetu eða dvalarstað:
     a.      vitnis,
     b.      sakbornings sem hefur verið ákærður og færa þarf fyrir dóm,
     c.      sakbornings sem birta á dóm í sakamáli eða önnur skjöl í tengslum við meðferð sakamáls eða
     d.      einstaklings sem boða á til afplánunar fangelsisrefsingar.
    Heimilt er að skrá og tengja eftirfarandi hluti við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1. mgr., ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi: vélknúin ökutæki, eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, báta, gáma, loftför og óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða eru fölsuð. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.
    Upplýsingar sem óskað er eftir á grundvelli 1. mgr. skulu veittar skráningarríki, sem um þær biður, með miðlun viðbótarupplýsinga.

13. gr.

Skráning um einstaklinga vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar.

    Heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga í kerfið til að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn, sbr. 14. gr., í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, koma upp um, rannsaka eða sækja til saka fyrir refsiverð brot, framfylgja ákvörðun um refsingu og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi í einum eða fleiri eftirfarandi aðstæðum:
     a.      þegar skýr vísbending er um að viðkomandi fremji eða muni fremja einhver þau brot sem um getur í 3. mgr. 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016,
     b.      þegar skráðar upplýsingar eru nauðsynlegar til þess að framfylgja úrskurði um refsivist eða öryggisráðstöfun gagnvart einstaklingi sem hefur verið sakfelldur fyrir einhver þau brot sem um getur í 3. mgr. 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016,
     c.      þegar heildarmat á einstaklingi, einkum á grundvelli fyrri refsiverðra brota, gefur ástæðu til að ætla að viðkomandi muni fremja þau brot sem um getur í 3. mgr. 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016.
    Í þágu þjóðaröryggis er heimilt að skrá upplýsingar um einstaklinga í kerfið til að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn, sbr. 14. gr., að beiðni lögreglu, þegar ótvíræð vísbending er um að skráning sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir að alvarleg ógn stafi af viðkomandi eða til þess að koma í veg fyrir alvarlegar ógnir við innra eða ytra þjóðaröryggi. Tilkynna ber öðrum Schengen-ríkjum um skráninguna.
    Heimilt er að skrá og tengja eftirfarandi hluti, sem um getur í 35. gr., við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1. og 2. mgr. ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi eða tilvikunum sem um ræðir í a–c-lið 1. mgr.: vélknúin ökutæki, eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, báta, gáma, loftför, skotvopn, skilríki sem um getur í h- og i-lið 1. mgr. 35. gr. og aðra greiðslumiðla en reiðufé. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.

14. gr.

Aðgerðir á grundvelli skráningar um einstaklinga vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar.

    Til að bregðast við skráningu vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta af einstaklingi, leit eða líkamsrannsóknar skal safna og miðla eftirfarandi upplýsingum með viðbótarupplýsingum eftir því sem unnt er:
     a.      að viðkomandi eða einhver þeirra hluta sem greinir í 3. mgr. 13. gr. hafi fundist,
     b.      stað, tímasetningu og tilefni eftirlits eða afskipta,
     c.      ferðaleið og áfangastaður,
     d.      samferðamenn viðkomandi eða farþegar ökutækis, báts eða loftfars, eða samferðamenn handhafa óútfylltra skilríkja eða útgefinna persónuskilríkja, sem leiða má líkur að tengist viðkomandi,
     e.      auðkenni og lýsingar á viðkomandi sem notast við óútfyllt skilríki eða útgefin persónuskilríki sem skráð eru í kerfið,
     f.      hlutina sem um getur í 1. mgr. 35. gr.,
     g.      hlutina sem viðkomandi er með meðferðis, þar á meðal ferðaskilríki og
     h.      kringumstæður þess að viðkomandi eða hlutirnir skv. a- og f-lið fundust.
    Heimilt er að óska frekari upplýsinga en þeirra sem greinir í 1. mgr., en persónuupplýsingar má einungis fara fram á þegar nauðsyn krefur vegna viðkomandi skráningar og þess afbrots sem er grundvöllur skráningar. Vinnsla persónuupplýsinga skal ávallt vera samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
    Um skráningu upplýsinga skv. 1. og 2. mgr. fer samkvæmt íslenskum lögum.
    Við framkvæmd eftirlits með leynd ber að afla allra gagna sem mögulegt er við venjubundna starfsemi lögreglu og upptalin eru í 1. mgr., þó einungis þannig að eftirlitið haldist með leynd og viðkomandi verði ekki var við eftirlitið. Um framkvæmd eftirlits með leynd fer að öðru leyti eftir gildandi lögum.
    Við framkvæmd beinna afskipta skal afla upplýsinga eða beina spurningum til viðkomandi, á grundvelli 1. og 2. mgr., sem tengd eru skráningu ríkis í upplýsingakerfið. Um framkvæmd beinna afskipta lögreglu fer eftir gildandi lögum.
    Við framkvæmd leitar er heimilt að leita á einstaklingum, í ökutækjum, bátum, loftförum, gámum og hlutum sem viðkomandi er með meðferðis. Um framkvæmd leitar og líkamsrannsóknar fer eftir gildandi lögum.

15. gr.

Skráning um óþekkta eftirlýsta einstaklinga til að bera kennsl á þá.

    Heimilt er að skrá í upplýsingakerfið heil fingraför eða lófaför eða hluta fingrafara og lófafara óþekktra eftirlýstra einstaklinga sem fundist hafa á vettvangi hryðjuverka eða annarra alvarlegra afbrota sem eru til rannsóknar. Slík fingrafaragögn skulu þó einungis skráð ef sterkar líkur eru á að þau tilheyri þeim sem framdi brotið og ekki er hægt að staðfesta auðkenni viðkomandi með leit í innlendum og alþjóðlegum gagnagrunnum.

16. gr.

Aðgerðir á grundvelli skráningar um eftirlýsta óþekkta einstaklinga til að bera kennsl á þá.

    Ef smellur fæst á grundvelli upplýsinga sem skráðar eru skv. 15. gr. skal auðkenni viðkomandi staðfest til samræmis við lög um meðferð sakamála. Upplýsingum um auðkenni og dvalarstað viðkomandi skal miðlað til skráningarríkisins með viðbótarupplýsingum.

17. gr.

Að greina á milli tveggja einstaklinga með svipuð auðkenni.

    Komi í ljós við nýja skráningu um einstakling í kerfið að fyrir er skráning um einstakling sem svarar til sömu lýsingar, skal SIRENE-skrifstofan, með miðlun viðbótarupplýsinga, hafa samband við hitt skráningarríkið innan 12 klukkustunda til að sannreyna hvort um er að ræða tvær skráningar vegna sama einstaklings.
    Ef niðurstaða er sú eftir athugun skv. 1. mgr. að um sama einstakling er að ræða í báðum tilvikum, skal beita málsmeðferð skv. 6. mgr. 7. gr. Leiði athugun skv. 1. mgr. í ljós að um er að ræða tvo mismunandi einstaklinga skal bæta við skráningu nauðsynlegum upplýsingum til að koma í veg fyrir að röng kennsl séu borin á fólk.

18. gr.

Viðbótargögn til að bregðast við misnotkun auðkenna.

    Sé hætta á að upp geti komið ruglingur vegna einstaklings sem skráður er í kerfið og annars einstaklings sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað, má samkvæmt samþykki þess síðarnefnda bæta við skráningu hans til að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar þess að röng kennsl séu borin á fólk. Þeim einstaklingi er ávallt heimilt að afturkalla samþykki sitt varðandi vinnslu persónuupplýsinga sinna.
    Einungis er heimilt að nota upplýsingar um einstakling sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað í eftirfarandi tilgangi:
     a.      til að greina á milli þess einstaklings sem orðið hefur fyrir því að auðkenni hans var misnotað og þess sem skráður er í upplýsingakerfið,
     b.      til að gera einstaklingi sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað kleift að sanna á sér deili og að auðkenni viðkomandi hafi verið misnotað.
    Heimilt er að skrá eftirfarandi upplýsingar í kerfið um einstaklinga sem hafa orðið fyrir því að auðkenni þeirra var misnotað, að fengnu samþykki viðkomandi sbr. 1. mgr.:
     a.      kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti sem mögulega eru skráð sér,
     b.      sérstök varanleg líkamleg einkenni,
     c.      fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár,
     d.      kyn,
     e.      ljósmyndir og andlitsmyndir,
     f.      fingraför, lófaför eða hvort tveggja,
     g.      ríkisfang eða ríkisföng,
     h.      tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu,
     i.      heimilisfang viðkomandi og
     j.      nafn föður og móður viðkomandi.

III. KAFLI

Skráning vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis.

19. gr.

Skráning vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis.

    Til að tryggja að ákvörðun um brottvísun eða frávísun hafi verið framfylgt ber að skrá í upplýsingakerfið upplýsingar um ríkisborgara þriðja ríkis sem sætt hefur slíkri ákvörðun. Upplýsingar vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun skulu skráðar í kerfið án tafar eftir töku hennar.
    Heimilt er að víkja frá skráningu í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. ef:
     a.      Viðkomandi er í haldi og bíður framkvæmdar ákvörðunar. Ef viðkomandi er sleppt án framkvæmdar skal skrá upplýsingar vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar í upplýsingakerfið.
     b.      Ákvörðun um brottvísun eða frávísun er tekin á ytri landamærum og kemur þegar til framkvæmda.
    Ef veittur er frestur til sjálfviljugrar brottfarar í tengslum við ákvörðun um brottvísun eða frávísun skal fresturinn skráður í upplýsingakerfið þegar í stað. Hvers konar framlenging á frestinum skal einnig skráð í kerfið án tafar.
    Allar upplýsingar um frestun réttaráhrifa eða frestun framkvæmdar ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, þar á meðal nýting kæruleiða, skulu skráðar í upplýsingakerfið í tengslum við skráningu skv. 1. mgr.

20. gr.

Skráning upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun.

    Í upplýsingakerfið má skrá eftirfarandi upplýsingar um ríkisborgara þriðja ríkis sem skráður er í kerfið á grundvelli 19. gr.:
     a.      kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti,
     b.      fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár,
     c.      kyn,
     d.      ríkisfang eða ríkisföng,
     e.      hvort viðkomandi er vopnaður, ofbeldishneigður eða á flótta,
     f.      hvort viðkomandi telst í sjálfsvígshættu,
     g.      hvort af viðkomandi stafar lýðheilsuógn,
     h.      hvort viðkomandi hefur tengsl við hryðjuverk eða hryðjuverkasamtök,
     i.      ástæðu fyrir skráningu,
     j.      yfirvald sem biður um skráninguna,
     k.      tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar,
     l.      aðgerðir sem farið er fram á,
     m.      tengingu við aðrar skráningar í upplýsingakerfinu í samræmi við 40. gr.,
     n.      hvort ákvörðun um brottvísun eða frávísun er tekin í tengslum við ríkisborgara þriðja ríkis sem ógnar allsherjarreglu, almannaöryggi eða þjóðaröryggi,
     o.      tegund afbrots,
     p.      tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu,
     q.      ljósmyndir og andlitsmyndir,
     r.      fingrafaragögn,
     s.      afrit af persónuskilríkjum viðkomandi, í lit ef mögulegt,
     t.      síðasta dag sjálfviljugrar brottfarar ef við á,
     u.      hvort réttaráhrifum hefur verið frestað, framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun hefur verið frestað eða ákvörðun kærð og
     v.      hvort ákvörðuninni fylgir endurkomubann, sem er grundvöllur skráningar vegna synjunar um komu og dvöl inn á Schengen-svæðið, skv. b-lið 1. mgr. 28. gr.
    Áður en skráning í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. fer fram skal ákvarða hvort grundvöllur skráningar er fullnægjandi og í samræmi við ákvæði laga þessara. Hið sama á við þegar skráning er framlengd. Ef grundvöllur ákvörðunar um brottvísun eða frávísun er tengd hryðjuverkum telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar. Í undantekningartilvikum, með vísan til almannaöryggis og allsherjarreglu, er þó heimilt að víkja frá skráningu ef líklegt þykir að skráning hindri eða hafi áhrif á rannsókn eða saksókn málsins.
    Upplýsingar um einstakling verða ekki skráðar í kerfið skv. 1. mgr. nema eftirfarandi lágmarksupplýsingar liggi fyrir: nafn, fæðingardagur og fæðingarár, ástæða fyrir skráningu, tilvísun til ákvörðunar sem varð tilefni skráningar, aðgerðir sem farið er fram á, síðasti dagur sjálfviljugrar brottfarar þar sem við á og hvort ákvörðun fylgir endurkomubann. Aðrar upplýsingar sem taldar eru upp í 1. mgr. skal skrá í kerfið ef þær liggja fyrir.
    Áður en upplýsingar um einstakling eru skráðar í kerfið skv. 1. mgr. skal ganga úr skugga um að ekki sé þegar til staðar skráning í kerfinu varðandi sama einstakling. Í þeim tilgangi skal kanna fingrafaragögn ef þau liggja fyrir.
    Einungis er heimilt að skrá eina skráningu varðandi hvern einstakling í kerfið. Heimilt er þó, þegar nauðsyn þykir, að bæta við nýrri skráningu varðandi sama einstakling, svo lengi sem sú skráning er ekki ósamrýmanleg skráningu um viðkomandi einstakling sem þegar er í kerfinu. Sé ný skráning ósamrýmanleg þeirri sem þegar er í kerfinu ber SIRENE-skrifstofunni að hafa samráð við skráningarríki með skiptum á viðbótarupplýsingum, til að ná samkomulagi áður en skráning fer fram, nema mikilvægir þjóðarhagsmunir séu í húfi.

21. gr.

Smellur á ytri landamærum við brottför og staðfesting á för af Schengen-svæðinu.

    Eftirfarandi upplýsingum skal miðla sem viðbótarupplýsingum til skráningarríkis ef smellur fæst á skráningu vegna brottvísunar eða frávísunar ríkisborgara þriðja ríkis sem yfirgefur Schengen-svæðið um ytri landamæri Íslands:
     a.      að viðkomandi einstaklingur hefur verið auðkenndur,
     b.      staðsetning og tímasetning eftirlits,
     c.      að viðkomandi hafi yfirgefið Schengen-svæðið og
     d.      hvort viðkomandi hafi sætt framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, ef við á.
    Ef ríkisborgari þriðja ríkis sem skráður er í upplýsingakerfið hér á landi vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun fer frá Íslandi um ytri landamæri skal staðfesting þess efnis send Útlendingastofnun og ríkislögreglustjóra.
    Skráningarríki skal eyða skráningu vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar eftir móttöku staðfestingar skv. 1. og 2. mgr. Þar sem við á skal færa inn skráningu vegna synjunar um komu og dvöl, til samræmis við b-lið 1. mgr. 28. gr.

22. gr.

Ákvörðun um brottvísun eða frávísun ekki framfylgt.

    Ef smellur fæst á skráningu vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis ber að hafa samband við skráningarríki þegar í stað til að ákvarða til hvaða aðgerða skuli grípa.

23. gr.

Smellur á ytri landamærum við komu.

    Ef smellur fæst á skráningu vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis sem er að koma inn á Schengen-svæðið um ytri landamæri Íslands skal tilkynna skráningarríki um það með miðlun viðbótarupplýsinga þegar í stað. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun um brottvísun fylgir endurkomubann ber skráningarríkinu að eyða skráningu vegna brottvísunar þegar í stað og færa inn skráningu vegna synjunar um komu og dvöl, til samræmis við b-lið 1. mgr. 28. gr. Ef endurkomubann fylgir ekki ákvörðun um brottvísun eða skráning í kerfinu varðar ákvörðun um frávísun skal tilkynna skráningarríkinu um komu viðkomandi svo umrætt ríki geti eytt skráningunni úr kerfinu án tafar.
    Ákvörðun um komu viðkomandi hingað til lands skal tekin af lögreglu til samræmis við reglugerð um för yfir landamæri.

24. gr.

Fyrirframsamráð áður en dvalarleyfi eða langtímavegbréfsáritun er veitt eða framlengd.

    Ef fyrirhugað er að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ríkisborgara þriðja ríkis, en viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið skv. 20. gr. ásamt endurkomubanni, skal hafa samráð við skráningarríki áður en ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er tekin.
    Bregðast skal við slíkri beiðni innan 10 daga frá því hún berst, en berist svar við samráðsbeiðni ekki innan 10 daga ber að líta svo á að skráningarríkið hreyfi ekki andmælum við því að viðkomandi verði veitt eða framlengt verði dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Við ákvarðanatöku skal taka til greina ástæður þess að viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið, þar á meðal hvort viðkomandi er ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.
    Tilkynna ber skráningarríki um ákvörðun eftir að hún hefur verið tekin. Endanlegt ákvörðunarvald um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er hjá ríkinu sem metur slíka ákvörðun. Ef tilkynnt er um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber skráningarríki að eyða skráningu í kerfinu vegna brottvísunar.
    Ef fyrirhugað er að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ríkisborgara þriðja ríkis sem er skráður í upplýsingakerfið skv. 20. gr. án endurkomubanns, skal tilkynna skráningarríki um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun án tafar og ber skráningarríki þá að eyða skráningu í kerfinu vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar.

25. gr.

Fyrirframsamráð áður en ríkisborgari þriðja ríkis er skráður í upplýsingakerfið vegna brottvísunar eða frávísunar.

    Ef ákvörðun hefur verið tekin um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis og til stendur að skrá upplýsingar vegna ákvörðunarinnar í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. 20. gr., en viðkomandi er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem er útgefin af öðru Schengen-ríki, ber að tilkynna ríkinu sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun um ákvörðun um skráningu, þar á meðal um ástæður skráningar. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.
    Með vísan til tilkynningar skv. 1. mgr. ber að meta hvort ástæða er til að afturkalla dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Meðal þess sem taka skal til greina við matið eru ástæður þess að til stendur að skrá viðkomandi í upplýsingakerfið og hvort viðkomandi telst ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Tilkynna skal ríkinu sem hyggst skrá einstakling í kerfið um ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar innan 14 daga frá tilkynningu um fyrirhugaða skráningu. Ef ákvörðun liggur ekki fyrir innan 14 daga er heimilt að fara fram á framlengingu í allt að 12 daga. Beiðni um framlengingu skal rökstudd.
    Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun skal ekki skrá viðkomandi í kerfið vegna brottvísunar eða frávísunar.

26. gr.

Samráð eftir á þegar ríkisborgari þriðja ríkis hefur verið skráður í upplýsingakerfið vegna brottvísunar eða frávísunar.

    Ef í ljós kemur að ríki hefur skráð ríkisborgara þriðja ríkis í upplýsingakerfið vegna brottvísunar eða frávísunar, sem annað Schengen-ríki hefur veitt dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun, ber ríkjunum að hafa samráð samkvæmt ákvæðum 25. gr. Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber skráningarríkinu að eyða skráningu í upplýsingakerfinu vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.

27. gr.

Samráð í kjölfar smells vegna skráningar ríkisborgara þriðja ríkis sem er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar.

    Ef smellur fæst á skráningu ríkisborgara þriðja ríkis vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, en viðkomandi er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem útgefin er af öðru Schengen-ríki, ber ríkinu sem fékk smell að hafa samráð við ríkið sem veitti dvalarleyfið eða langtímavegabréfsáritun, og hefja málsmeðferð um samráð til samræmis við 25. gr. Ríkinu sem veitti dvalarleyfið eða langtímavegabréfsáritunina ber að tilkynna ríkinu sem fékk smell um niðurstöðu að samráði loknu.

IV. KAFLI

Skráning vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið.

28. gr.

Skilyrði fyrir skráningu vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið.

    Í upplýsingakerfið ber að skrá upplýsingar um ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl ef annað eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:
     a.      ákvörðun hefur verið tekin, á grundvelli persónubundins mats í hverju tilviki fyrir sig, til samræmis við lög um útlendinga, um að synja eigi ríkisborgara þriðja ríkis um komu og dvöl inn á Schengen-svæðið vegna þess að viðkomandi telst ógn við allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðasamskipti ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu eða
     b.      endurkomubann hefur fylgt ákvörðun um brottvísun sem hefur verið tekin til samræmis við ákvæði laga um útlendinga.
    Þau tilvik sem greinir í a-lið 1. mgr. eiga við ef:
     a.      viðkomandi hefur verið sakfelldur í aðildarríki fyrir afbrot sem varðar frjálsræðissviptingu í eitt ár eða meira,
     b.      rökstuddur grunur er fyrir því að viðkomandi hafi framið alvarlegt afbrot, hryðjuverk eða haldgóðar vísbendingar eru um að viðkomandi hafi ásetning til að fremja slík afbrot á Schengen-svæðinu eða
     c.      viðkomandi hefur gerst brotlegur eða gert tilraun til að brjóta gildandi lög um komu og dvöl á Schengen-svæðinu.
    Skráning upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis skv. 1. mgr. skal taka gildi í kerfinu um leið og viðkomandi hefur yfirgefið landið eða eins fljótt og auðið er eftir að ríkislögreglustjóri hefur fengið skýrar vísbendingar þess efnis að viðkomandi hafi yfirgefið landið.

29. gr.

Skráning upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl inn á Schengen-svæðið.

    Í upplýsingakerfið má skrá eftirfarandi upplýsingar um ríkisborgara þriðja ríkis sem skráður er í kerfið á grundvelli 28. gr.:
     a.      kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti,
     b.      sérstök varanleg líkamleg einkenni,
     c.      fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár,
     d.      kyn,
     e.      ríkisfang eða ríkisföng,
     f.      hvort viðkomandi er vopnaður, ofbeldishneigður eða á flótta,
     g.      hvort viðkomandi telst í sjálfsvígshættu,
     h.      hvort af viðkomandi stafar lýðheilsuógn,
     i.      hvort viðkomandi hefur tengsl við hryðjuverk eða hryðjuverkasamtök,
     j.      ástæðu fyrir skráningu,
     k.      yfirvald sem biður um skráninguna,
     l.      tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar,
     m.      aðgerðir sem farið er fram á,
     n.      tengingu við aðrar skráningar í upplýsingakerfinu í samræmi við 40. gr.,
     o.      hvort viðkomandi er fjölskyldumeðlimur borgara ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða annarra einstaklinga sem njóta réttarins til frjálsrar farar,
     p.      á hvaða grundvelli synjun um komu og dvöl er byggð,
     q.      tegund afbrots,
     r.      tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu,
     s.      ljósmyndir og andlitsmyndir,
     t.      fingrafaragögn og
     u.      afrit af persónuskilríkjum viðkomandi, í lit ef mögulegt.
    Áður en skráning skv. 1. mgr. í upplýsingakerfið fer fram skal ákvarða hvort grundvöllur skráningar er fullnægjandi og til samræmis við ákvæði laga þessara. Hið sama á við þegar skráning er framlengd. Ef grundvöllur synjunar um komu og dvöl skv. a-lið 1. mgr. 28. gr. er tengdur hryðjuverkum telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar. Í undantekningartilvikum, með vísan til almannaöryggis og allsherjarreglu, er þó heimilt að víkja frá skráningu ef líklegt þykir að skráning hindri eða hafi með öðrum hætti áhrif á rannsókn eða saksókn málsins.
    Upplýsingar um einstakling verða ekki skráðar í kerfið skv. 1. mgr. nema eftirfarandi lágmarksupplýsingar liggi fyrir: nafn, fæðingardagur og fæðingarár, ástæða fyrir skráningu, tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar, aðgerðir sem farið er fram á og á hvaða grundvelli synjun um komu og dvöl er byggð. Aðrar upplýsingar sem taldar er upp í 1. mgr. skal skrá í kerfið, ef þær liggja fyrir. Upplýsingar um sérstök varanleg líkamleg einkenni skal þó einungis skrá ef nauðsyn þykir til að bera kennsl á viðkomandi ríkisborgara þriðja ríkis.
    Áður en upplýsingar um einstakling eru skráðar í kerfið skv. 1. mgr. skal ganga úr skugga um að ekki sé þegar til staðar skráning í kerfinu varðandi sama einstakling. Í þeim tilgangi skal kanna fingrafaragögn ef þau liggja fyrir.
    Einungis er heimilt að skrá eina skráningu varðandi hvern einstakling í kerfið. Heimilt er þó, þegar nauðsyn þykir, að bæta við nýrri skráningu varðandi sama einstakling, svo lengi sem sú skráning er ekki ósamrýmanleg skráningu um viðkomandi einstakling sem þegar er í kerfinu. Sé ný skráning ósamrýmanleg þeirri sem þegar er í kerfinu ber SIRENE-skrifstofunni að hafa samráð við skráningarríki með skiptum á viðbótarupplýsingum, til að ná samkomulagi áður en skráning fer fram, nema mikilvægir þjóðarhagsmunir séu í húfi.

30. gr.

Skilyrði fyrir skráningu um ríkisborgara þriðja ríkis sem nýtur réttarins til frjálsrar farar á Schengen-svæðinu.

    Skráning um ríkisborgara þriðja ríkis sem nýtur réttarins til frjálsrar farar samkvæmt tilskipun nr. 2004/38/EB skal taka mið af réttindum hans skv. XI. kafla laga um útlendinga, nr. 80/2016.
    Ef smellur fæst á skráningu skv. 28. gr. vegna ríkisborgara þriðja ríkis sem nýtur réttarins til frjálsrar farar skal SIRENE-skrifstofan þegar í stað hafa samband við skráningarríki með miðlun viðbótarupplýsinga til að komast að samkomulagi um aðgerðir sem grípa á til.

31. gr.

Fyrirframsamráð áður en dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er veitt eða framlengd.

    Ef fyrirhugað er að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ríkisborgara þriðja ríkis, en viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið skv. 29. gr., skal samráð haft við skráningarríki áður en ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er tekin.
    Bregðast skal við slíkri beiðni innan 10 daga frá því hún berst, en berist svar við samráðsbeiðni ekki innan 10 daga ber að líta svo á að skráningarríkið hreyfi ekki andmælum við því að viðkomandi dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun verði veitt eða framlengd. Við ákvarðanatöku skal taka til greina ástæður þess að viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið, þar á meðal hvort viðkomandi er ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.
    Tilkynna ber skráningarríki um ákvörðun eftir að hún hefur verið tekin. Endanlegt ákvörðunarvald um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er hjá ríkinu sem metur slíka ákvörðun. Ef tilkynnt er um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber skráningarríki að eyða skráningu í kerfinu vegna synjunar um komu og dvöl viðkomandi inn á Schengen-svæðið.

32. gr.

Fyrirframsamráð áður en ríkisborgari þriðja ríkis er skráður í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl.

    Ef ákvörðun hefur verið tekin um að synja ríkisborgara þriðja ríkis um komu og dvöl eins og kveðið er á um í 1. mgr. 28. gr. og til stendur að skrá upplýsingar um viðkomandi í upplýsingakerfið vegna hennar, en viðkomandi er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem útgefin er af öðru Schengen-ríki, ber að tilkynna ríkinu sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun um ákvörðun um skráningu, þar á meðal um ástæður skráningar. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.
    Með vísan til tilkynningar skv. 1. mgr. ber að meta hvort ástæða er til að afturkalla dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Meðal þess sem taka skal til greina við matið eru ástæður þess að til stendur að skrá viðkomandi í upplýsingakerfið og hvort viðkomandi telst ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Tilkynna skal ríkinu sem hyggst skrá ríkisborgara þriðja ríkis í kerfið um ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar innan 14 daga frá tilkynningu um fyrirhugaða skráningu. Ef ákvörðun liggur ekki fyrir innan 14 daga er heimilt að fara fram á framlengingu í allt að 12 daga. Beiðni um framlengingu skal rökstudd.
    Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun skal ekki skrá viðkomandi í kerfið vegna synjunar um komu og dvöl.

33. gr.

Samráð eftir á þegar ríkisborgari þriðja ríkis hefur verið skráður í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl.

    Ef í ljós kemur að ríki hefur skráð ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl í upplýsingakerfið sem annað Schengen-ríki hefur veitt dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber ríkjunum að hafa samráð samkvæmt ákvæðum 32. gr. Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber hinu ríkinu að eyða skráningu í upplýsingakerfinu vegna synjunar um komu og dvöl án tafar. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.

34. gr.

Samráð í kjölfar smells vegna skráningar ríkisborgara þriðja ríkis sem er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar.

    Ef smellur fæst á skráningu ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl inn á Schengen-svæðið, sem er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem gefin er út í öðru Schengen-ríki, ber að hafa samráð við ríkið sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun og skráningarríkið eftir atvikum. Um málsmeðferð fer eftir 32. gr. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.

V. KAFLI

Skráning hluta í upplýsingakerfið.

35. gr.

Skráning um hluti vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar.

    Upplýsingar um eftirfarandi hluti skal skrá í kerfið vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar:
     a.      vélknúin ökutæki,
     b.      eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg,
     c.      hjólhýsi,
     d.      báta,
     e.      gáma,
     f.      loftför,
     g.      skotvopn,
     h.      óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða líkja eftir slíkum skilríkjum en eru fölsuð,
     i.      persónuskilríki svo sem vegabréf, kennivottorð, dvalarleyfi, ferðaskilríki og ökuskírteini sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið, verið ógilt eða líkja eftir slíkum skilríkjum en eru fölsuð,
     j.      aðra greiðslumiðla en reiðufé.

36. gr.

Skráning um hluti vegna haldlagningar eða sem sönnunargögn í sakamáli.

    Upplýsingar um eftirfarandi hluti sem leitað er í þeim tilgangi að leggja á þá hald eða nota sem sönnunargagn í sakamáli skal skrá í kerfið:
     a.      vélknúin ökutæki,
     b.      eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg,
     c.      hjólhýsi,
     d.      búnað til iðnaðar,
     e.      báta,
     f.      bátsvélar,
     g.      gáma,
     h.      loftför,
     i.      hreyfla loftfara,
     j.      skotvopn,
     k.      óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða líkja eftir slíkum skilríkjum en eru fölsuð,
     l.      persónuskilríki svo sem vegabréf, kennivottorð, dvalarleyfi, ferðaskilríki og ökuskírteini sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið, verið ógilt eða líkja eftir slíkum skilríkjum en eru fölsuð,
     m.      skráningarskírteini ökutækja og númeraplötur ökutækja sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið, verið ógilt eða líkja eftir slíku skjali eða númeraplötu en eru fölsuð,
     n.      skráða peningaseðla og falska peningaseðla,
     o.      hluti tengda upplýsingatækni,
     p.      íhlutir vélknúinna ökutækja sem hægt er að bera kennsl á,
     q.      íhlutir búnaðar til iðnaðar sem hægt er að bera kennsl á,
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð og skilgreina aðra verðmæta hluti en taldir eru upp í 1. mgr. sem hægt er að bera kennsl á og skal skrá í upplýsingakerfið.
    Ef upplýsingar eru fyrirliggjandi við skráningu skv. k-, l- og m-lið 1. mgr., hvort um er að ræða stolin, ólöglega seld, horfin, ógild eða fölsuð skilríki eða skjöl, ber að greina frá því í skráningunni.
    Ef hlutur er eftirlýstur vegna hryðjuverka telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar.

37. gr.

Aðgerðir á grundvelli skráninga um hluti.

    Ef við leit kemur í ljós að fyrir hendi er skráning á fundnum hlut skal hann, til samræmis við landslög, gerður upptækur og ríkinu sem skráði hlutinn í kerfið tilkynnt um fundinn með miðlun viðbótarupplýsinga svo hægt sé að komast að samkomulagi um frekari aðgerðir sem grípa ber til. Í þessum tilgangi er einnig heimilt að miðla persónuupplýsingum til samræmis við lög þessi.
    Um leit samkvæmt 1. mgr. og frekari aðgerðir fer eftir íslenskum lögum.

VI. KAFLI

Sérreglur um skráningu lífkennaupplýsinga.

38. gr.

Skráning ljósmynda, andlitsmynda, fingrafaragagna og DNA-sniða.

    Aðeins skal skrá ljósmyndir, andlitsmyndir og fingrafaragögn í upplýsingakerfið sem uppfylla lágmarksstaðla um gæði gagna og tækniforskriftir. Fyrir skráningu gagnanna skal fara fram gæðakönnun til þess að ganga úr skugga um hvort lágmarksstöðlum um gæði gagna og tækniforskriftum sé fylgt.
    Fingrafaragögn sem skráð eru í upplýsingakerfið mega samanstanda af einu til tíu flötum fingraförum og einu til tíu rúlluðum fingraförum. Einnig má skrá allt að tvö lófaför.
    Aðeins er heimilt að bæta DNA-sniði við skráningu í upplýsingakerfinu skv. 2. mgr. 10. gr. og að undanfarinni gæðakönnun til að ganga úr skugga um að lágmarksstöðlum um gæði gagna og tækniforskriftum hafi verið fylgt og einungis þegar ljósmyndir, andlitsmyndir eða fingrafaragögn eru ekki til staðar eða ekki viðeigandi til auðkenningar. Heimilt er að bæta DNA-sniði eldri ættingja í beinan legg, afkomenda eða systkina einstaklings við skráningu ef skyldmennið veitir samþykki fyrir. DNA-snið sem bætt er við skráningu skal einungis innihalda lágmarksupplýsingar nauðsynlegar til að bera kennsl á týndan einstakling.

39. gr.

Notkun ljósmynda, andlitsmynda, fingrafaragagna og DNA-sniða til auðkenningar eða leitar.

    Ef skráning inniheldur ljósmyndir, andlitsmyndir, fingrafaragögn og DNA-snið skal nota slíkar upplýsingar til að staðfesta auðkenni einstaklings sem fundist hefur við leit í upplýsingakerfinu.
    Til þess að bera kennsl á einstakling er í öllum tilvikum heimilt að leita í fingrafaragögnum í upplýsingakerfinu. Þó skal leita í fingrafaragögnum til þess að bera kennsl á einstakling þegar ekki er hægt að staðfesta hver hann er með öðrum hætti.
    Heimilt er að leita í fingrafaragögnum í upplýsingakerfinu sem skráð hafa verið skv. 9., 10., 13., 15., 19. og 28. gr. með heilum fingraförum eða lófaförum eða hluta fingrafara eða lófafara og fundist hafa á vettvangi hryðjuverka eða annarra alvarlegra afbrota sem eru til rannsóknar og sterkar líkur eru á því að fingrafaragögnin tilheyri þeim sem framdi brotið. Samtímis skal fara fram leit í fingrafaragrunni lögreglunnar hér á landi.
    Heimilt er að nota ljósmyndir og andlitsmyndir sem bætt hefur verið við skráningu í upplýsingakerfinu til að bera kennsl á einstaklinga við för yfir landamæri.

VII. KAFLI

Tenging skráninga í upplýsingakerfinu og viðbótarupplýsingar.

40. gr.

Tenging skráninga í upplýsingakerfinu.

    Heimilt er að tengja saman skráningar sem Schengen-ríki hefur fært inn í upplýsingakerfið. Með slíkri tengingu er komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga. Tengja skal saman skráningar þegar þess er þörf vegna starfseminnar.
    Myndun tengingar hefur ekki áhrif á þá tilteknu aðgerð sem mælt er fyrir um að gripið skuli til á grundvelli hverrar og einnar hinna tengdu skráninga eða varðveislutímabil hverrar tengdrar skráningar.
    Myndun tengingar hefur ekki áhrif á réttinn til aðgangs samkvæmt lögum þessum. Yfirvöld, sem ekki hafa rétt til aðgangs að tilteknum tegundum skráninga, skulu ekki geta séð tengingu við skráningu sem þau hafa ekki aðgang að.
    Ef tenging tveggja eða fleiri skráninga af hálfu annars ríkis er talin andstæð íslenskum lögum eða alþjóðlegum skuldbindingum Íslands er heimilt að loka fyrir aðgang að tengingu innanlands eða aðgangi þar til bærra yfirvalda sem staðsett eru utan yfirráðasvæðis Íslands.

41. gr.

Miðlun og notkun viðbótarupplýsinga.

    SIRENE-skrifstofan veitir þar til bærum yfirvöldum í öðru Schengen-ríki nauðsynlegar viðbótarupplýsingar í tengslum við skráningu í upplýsingakerfið, sem og þegar hlutir eða einstaklingar, sem skráðir hafa verið í kerfið, finnast. Beiðni um viðbótarupplýsingar ber að svara svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 12 klukkustundum frá því hún berst, sbr. 3. mgr. 5. gr. Viðbótarupplýsingar verða ekki nýttar í öðrum tilgangi en þær voru sendar nema samþykkis um annað sé aflað fyrir fram frá ríkinu sem sendi gögnin.
    Ef ekki er unnt að framkvæma umbeðna aðgerð eftir smell í kerfinu ber að tilkynna skráningarríki þegar í stað um slíkt með miðlun viðbótarupplýsinga.

VIII. KAFLI

Aðgangur að upplýsingakerfinu, endurskoðun og eyðing skráninga.

42. gr.

Beinlínuaðgangur að upplýsingakerfinu.

    Eftirtalin stjórnvöld skulu vera beinlínutengd við upplýsingakerfið til að sinna þessum verkefnum:
     a.      ríkissaksóknari og héraðssaksóknari við meðferð sakamála,
     b.      lögreglan við landamæraeftirlit og aðra löggæslu, þar á meðal við framkvæmd öryggiseftirlits á ríkisborgara þriðja ríkis sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi,
     c.      Landhelgisgæslan við löggæslu á hafi,
     d.      Útlendingastofnun við afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritun, þ.m.t. við ógildingu, afturköllun eða framlengingu vegabréfsáritana, við afgreiðslu landgöngu- eða dvalarleyfa, vegna ákvarðana um frávísanir og brottvísanir og til að sinna öðrum skyldum samkvæmt lögum um útlendinga að því marki sem nauðsynlegt er til að bregðast við upplýsingum sem skráðar eru á grundvelli laga þessara,
     e.      utanríkisráðuneytið við afgreiðslu og útgáfu vegabréfsáritana,
     f.      Samgöngustofa við:
                  1.      Skráningu ökutækja í þeim tilgangi að kanna hvort ökutæki sem óskað er skráningar á hafi verið stolið, selt ólöglega eða horfið. Aðgangurinn takmarkast þó við upplýsingar um ökutæki á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr., eftirvagna á grundvelli b-liðar 1. mgr. 36. gr., hjólhýsi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr., skráningarskírteini ökutækja og númeraplötur ökutækja á grundvelli m-liðar 1. mgr. 36. gr. og íhluti vélknúinna ökutækja á grundvelli p-liðar 1. mgr. 36. gr.
                  2.      Skráningu og við að tryggja umferðarstjórnun báta, bátsvéla, loftfara og hreyfla loftfara í þeim tilgangi að kanna hvort framangreindum hlutum hafi verið stolið, þeir seldir ólöglega, horfið eða þeirra leitað sem sönnunargagna í sakamáli. Aðgangurinn takmarkast við upplýsingar um báta, bátsvélar, loftför og hreyfla loftfara.
     g.      Tollgæslan við tollgæslu, eftirlit á landamærum og þegar hún annast eða aðstoðar við löggæslu.
    Við skráningu skotvopna og veitingu skotvopnaleyfa skal lögreglan einnig hafa aðgang að upplýsingum skráðum á grundvelli 9., 13. og 36. gr., í þeim tilgangi að kanna hvort að einstaklingur sem sækir um skotvopnaleyfi sé eftirlýstur til handtöku og afhendingar eða framsals, skráður í kerfið svo að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn eða hvort skotvopnsins sem óskað er skráningar á eða óskað er leyfis fyrir er leitað í þeim tilgangi að leggja á það hald eða nota sem sönnunargagn í sakamáli.
    Til að starfa við upplýsingakerfið skv. 1. og 2. mgr. verður viðkomandi starfsmaður að fá sérstaka heimild ríkislögreglustjóra, enda fullnægi hann hæfis- og öryggiskröfum sem skilgreindar eru í reglugerð. Viðkomandi starfsmaður skal einungis hafa þann aðgang að kerfinu sem honum er nauðsynlegur til að gegna starfi sínu.

43. gr.

Aðgangur að upplýsingakerfinu eftir beiðni.

    Ráðuneytið skal eftir beiðni hafa aðgang að upplýsingum úr upplýsingakerfinu að því marki sem því er nauðsynlegt við beitingu heimilda sem æðra stjórnvald.

44. gr.

Þagnarskylda.

    Hverjum sem í starfi sínu fær vitneskju um atriði sem skráð eru í upplýsingakerfið er skylt að gæta þess að skráðar upplýsingar berist ekki til óviðkomandi. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Þagnarskylda nær einnig til verktaka en heimilt er að fela verktaka ákveðin afmörkuð verkefni tengd Schengen-upplýsingakerfinu. Ríkislögreglustjóri hefur eftirlit með því að verktaki starfi til samræmis við ákvæði laga þessara, þar á meðal varðandi öryggi, þagnarskyldu og persónuvernd.

45. gr.

Vistunartími og endurskoðun skráninga um einstaklinga.

    Upplýsingar um einstaklinga sem skráðar eru í upplýsingakerfið skal ekki geyma lengur en þörf krefur með hliðsjón af tilgangi skráningar. Það stjórnvald sem biður um skráningu eða skráir í upplýsingakerfið er ábyrgt fyrir því að uppfæra, afturkalla eða endurnýja skráningu, allt eftir því sem við á hverju sinni.
    Endurmeta skal nauðsyn skráningar einstaklinga skv. II. kafla sem hér segir:
     a.      upplýsingar skv. 9. gr. og 1. og 2. mgr. 10. gr. innan fimm ára frá skráningu,
     b.      upplýsingar skv. 12. og 15. gr. innan þriggja ára frá skráningu og
     c.      upplýsingar skv. 3. mgr. 10. gr. og 13. gr. innan eins árs frá skráningu.
    Endurmeta skal nauðsyn skráningar skv. III. og IV. kafla innan þriggja ára frá skráningu. Ef ákvörðun sem skráning er byggð á kveður á um lengri gildistíma en þrjú ár skal endurskoða skráninguna innan fimm ára.
    Þegar tekin er ákvörðun um að skráningu upplýsinga skuli geyma í upplýsingakerfinu gildir 2. og 3. mgr. um endurmat skráningar á ný. Skrásetja skal allar ákvarðanir um framlengingu skráninga skv. 2. og 3. mgr. sjálfvirkt og halda tölfræði um hversu margar skráningar hafa verið framlengdar.
    Skráningum sem ekki er tekin ákvörðun um að framlengja skal sjálfkrafa eytt úr upplýsingakerfinu að tímanum liðnum sem greinir í 2., 3. og 4. mgr.
    Um leið og ljóst þykir að skráning um einstakling hefur þjónað tilgangi sínum og ætti því að eyða skal tilkynna stjórnvaldinu sem óskaði eftir skráningu um það þegar í stað. Umrætt stjórnvald hefur 15 daga frá móttöku tilkynningarinnar til að svara því að skráningunni hafi verið eða muni verða eytt eða greina frá ástæðum fyrir því að skráningin verði varðveitt. Ef ekkert svar berst innan 15 daga tímabilsins skal SIRENE-skrifstofan eyða skráningunni. SIRENE-skrifstofan skal tilkynna Persónuvernd um hvers kyns endurtekin vandamál sem hún rekst á þegar hún aðhefst samkvæmt þessari málsgrein.

46. gr.

Vistunartími og endurskoðun skráninga um hluti.

    Upplýsingar um hluti sem skráðar eru í upplýsingakerfið skal ekki geyma lengur en þörf krefur með hliðsjón af tilgangi skráningar. Það stjórnvald sem skráir eða biður um skráningu í upplýsingakerfið er ábyrgt fyrir því að uppfæra, afturkalla eða endurnýja skráningu, allt eftir því sem við á hverju sinni.
    Endurmeta skal nauðsyn skráningar um hluti í upplýsingakerfið sem skráðir eru skv. 35. og 36. gr. innan tíu ára frá skráningu.
    Upplýsingar um hluti sem skráðir eru í kerfið á grundvelli 9., 10., 12. og 13. gr. og tengjast skráningu um einstaklinga skal yfirfara og endurmeta skv. 45. gr. Slíkar skráningar má einungis geyma í kerfinu jafn lengi og skráningu um einstaklinginn.
    Þegar tekin er ákvörðun um að skráningu upplýsinga skuli geyma í upplýsingakerfinu gildir 2. mgr. um endurmat skráningar á ný.

47. gr.

Eyðing skráningar.

    Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 9. gr. skal eytt þegar búið er að afhenda eða framselja viðkomandi til lögbærra yfirvalda í skráningarríki eða ef ákvörðun sem er grundvöllur skráningar hefur verið afturkölluð af viðkomandi yfirvaldi.
    Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 1. og 2. mgr. 10. gr. skal eytt ef aðgerð á grundvelli skráningar hefur átt sér stað þar sem viðkomandi hefur fundist, verndarráðstafanir hafa verið gerðar eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis. Þó er heimilt að halda skráningu í upplýsingakerfinu um einstakling sem hefur verið vistaður á stofnun af þar til bæru yfirvaldi, þar til viðkomandi hefur verið sendur aftur til heimalands.
    Upplýsingum um börn sem skráð eru í kerfið skv. a- og b-lið 3. mgr. 10. gr. skal eytt ef lausn fæst í máli viðkomandi barns eða ef ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
    Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. c-lið 3. mgr. 10. gr. skal eytt ef verndarráðstafanir hafa verið gerðar eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
    Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 12. gr. skal eytt þegar búið er að miðla upplýsingum um dvalarstað viðkomandi til lögbærra yfirvalda í skráningarríki eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis. Ef ekki er hægt að bregðast við upplýsingum um dvalarstað viðkomandi ber SIRENE-skrifstofunni að tilkynna skráningarríki um það með það að markmiði að leysa vandann.
    Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 13. gr. skal eytt ef ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
    Upplýsingum um einstaklinga sem skráðar eru í kerfið skv. 15. gr. skal eytt ef búið er að staðfesta auðkenni viðkomandi eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
    Þar sem ekki er sérstaklega kveðið á um annað í III. kafla skal upplýsingum sem skráðar eru í kerfið skv. 19. gr. eytt þegar ákvörðun, sem var grundvöllur skráningar, hefur verið afturkölluð eða ógilt af þar til bæru yfirvaldi eða þar sem við á í framhaldi af samráðsferli sem kveðið er á um í 21.–27. gr. Hið sama á við ef viðkomandi ríkisborgari þriðja ríkis getur sýnt fram á að hann hafi yfirgefið Schengen-svæðið til samræmis við umrædda ákvörðun um brottvísun eða frávísun. Skráningu vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis sem hlotið hefur ríkisborgararétt Schengen-ríkis, ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, skal eytt um leið og upplýsingar um ríkisborgararéttinn berast skráningarríki.
    Upplýsingum vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið skv. 28. gr. skal eytt þegar ákvörðun sem var grundvöllur skráningar hefur verið afturkölluð eða ógilt af þar til bæru yfirvaldi eða þar sem við á í framhaldi af samráðsferli sem kveðið er á um í 30.–34 gr. Skráningu vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið sem hlotið hefur ríkisborgararétt Schengen-ríkis, ríkis sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu eða ríkis sem fellur undir stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, skal eytt um leið og upplýsingar um ríkisborgararéttinn berast skráningarríki.
    Upplýsingum um hluti sem skráðir eru í kerfið skv. 36. gr. skal eytt ef hlutur hefur verið gerður upptækur, önnur sambærileg aðgerð hefur átt sér stað eftir skipti á nauðsynlegum viðbótarupplýsingum, eða viðkomandi hlutur er orðinn viðfangsefni annars sakamáls, eða ákvörðun um að eyða skráningu hefur verið tekin hjá lögbæru yfirvaldi skráningarríkis.
    Í þeim tilvikum þegar upplýsingar um hlut eru skráðar í kerfið og tengdar skráningu um einstakling skal upplýsingum um hlut eytt á sama tíma og upplýsingum um einstakling er eytt.
    Upplýsingum samkvæmt ákvæði þessu skal einnig eytt þegar skráning rennur út til samræmis við 45. gr.

IX. KAFLI

Vinnsla persónuupplýsinga og persónuvernd.

48. gr.

Skráning og vinnsla persónuupplýsinga.

    Um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi á grundvelli laga þessara gilda lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Um aðra skráningu og vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli laga þessara fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

49. gr.

Nýting skráðra upplýsinga.

    Upplýsingar sem skráðar eru í upplýsingakerfið verða ekki nýttar á annan veg en leiðir af tilgangi skráningar samkvæmt ákvæðum laga þessara. Þá verður aðgangur að kerfinu ekki veittur öðrum en þeim sem greinir í 42. gr. til að sinna þeim verkefnum sem þar eru skilgreind.
    Upplýsingar úr kerfinu verða ekki afritaðar nema í tæknilegum tilgangi og þá einungis ef afrit er nauðsynlegt svo að stjórnvöld sem eru beinlínutengd kerfinu samkvæmt lögunum geti leitað í afritinu. Afrit skal ekki geymt lengur en í 48 klukkustundir. Óheimilt er að afrita upplýsingar sem annað ríki skráði í kerfið og færa inn í önnur íslensk tölvukerfi. Halda skal skrá um öll afrit sem tekin eru af kerfinu og afhenda Persónuvernd óski stofnunin eftir því.
    Takmarkanir skv. 2. mgr. hafa þó ekki áhrif á rétt stjórnvalda til að vista í upplýsingakerfum sínum upplýsingar úr kerfinu vegna eigin skráninga eða skráninga sem tengjast aðgerðum sem gripið hefur verið til hér á landi.
    Í neyðartilvikum, og einungis ef kerfið hefur legið niðri í meira en 24 klukkustundir, er heimilt fyrir stjórnvöld sem gefa út vegabréfsáritanir að leita í afriti af kerfinu.
    Með samþykki ríkis sem skráð hefur upplýsingar verður vikið frá 1. mgr. og þær nýttar í öðrum tilgangi en þær voru skráðar samkvæmt lögum þessum, þegar þannig stendur á:
     a.      til að koma í veg fyrir alvarlega og bráða ógn við almannaöryggi og allsherjarreglu,
     b.      mikilvægir öryggishagsmunir ríkisins mæla með því,
     c.      til að koma í veg fyrir alvarleg afbrot.
    Notkun upplýsinga úr kerfinu sem ekki er í samræmi við 1.–5. mgr. er óheimil og varðar refsingu skv. 136. eða 139. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

50. gr.

Gæði skráðra upplýsinga í kerfinu.

    Tryggja ber að upplýsingar séu áreiðanlegar, skráðar, uppfærðar og geymdar í upplýsingakerfinu á lögmætan hátt.
    Einungis skráningarríki hefur heimild til að breyta, bæta við, leiðrétta, uppfæra eða eyða upplýsingum sem það hefur skráð í kerfið.
    Þegar skráðar hafa verið í upplýsingakerfið rangar, villandi eða ófullkomnar upplýsingar eða ef skráðar hafa verið upplýsingar án tilskilinnar heimildar skal SIRENE-skrifstofan eftir beiðni eða að eigin frumkvæði sjá til þess að þær verði leiðréttar, þær afmáðar eða við þær aukið. Hafi slíkum upplýsingum verið miðlað eða þær notaðar ber ríkislögreglustjóra eða, eftir atvikum, öðrum ábyrgum stjórnvöldum, eftir því sem frekast er unnt að hindra að það hafi áhrif á hagsmuni hins skráða.
    Nú hafa upplýsingar sem um ræðir í 2. mgr. verið skráðar í upplýsingakerfið af öðru ríki og skal þá SIRENE-skrifstofan tilkynna umræddu ríki, eins fljótt og auðið er með miðlun viðbótarupplýsinga og eigi síðar en tveimur dögum eftir að upplýsingar berast til vitundar ríkislögreglustjóra, um annmarka með ósk um viðeigandi breytingar.
    Þegar ríkislögreglustjóra berst beiðni skv. 2. mgr. skal án tafar og eigi síðar en innan tveggja daga taka afstöðu til hennar.
    Sendi SIRENE-skrifstofan beiðni um leiðréttingu, afmáningu eða viðauka til annars Schengen-ríkis sem ekki bregst við eða fellst á beiðni innan tveggja mánaða ber ríkislögreglustjóra að leggja málið fyrir Persónuvernd og Evrópsku persónuverndarstofnunina.

51. gr.

Réttur til aðgangs að skráðum upplýsingum, leiðrétting á ónákvæmum upplýsingum og eyðing upplýsinga sem vistaðar eru ólöglega.

    Einstaklingar sem skráðir eru í upplýsingakerfið njóta réttar skv. III. kafla laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og IV. kafla laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019.
    Nú óskar einstaklingur eftir vitneskju um upplýsingar um sig sem skráðar eru af öðru ríki og skal þá gefa umræddu skráningarríki kost á að gera athugasemdir áður en fallist er á þá beiðni.
    Um takmarkanir á rétti hins skráða til að fá vitneskju skv. 1. mgr. gilda ákvæði III. kafla laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og IV. kafla laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Um kærurétt hins skráða vegna synjunar gilda sömu lög.
    Halda ber skrá um efnislegar og lagalegar ástæður þess að ákvörðun er tekin um að veita hinum skráða ekki aðgang að skráðum upplýsingum um sig skv. 3. mgr. og skal SIRENE-skrifstofan afhenda skrána til Persónuverndar óski stofnunin eftir því.
    Ef kvörtun berst frá einstaklingi þess eðlis að viðkomandi sé ekki rétt viðfang skráningar skal miðla upplýsingum um kvörtun til annarra Schengen-ríkja í formi viðbótarupplýsinga. Reynist kvörtun einstaklings á rökum reist og viðkomandi hefur verið ranglega skráður í kerfið ber að upplýsa viðkomandi um niðurstöðuna og rétt hans samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
    Beiðni skv. 51. gr. skal beint til ríkislögreglustjóra sem skal án ástæðulauss dráttar taka afstöðu til hennar. Ákvörðun ríkislögreglustjóra skal vera rökstudd að því marki sem það er unnt án þess að greint verði frá nokkru sem leynt á að fara. Slíkri ákvörðun má skjóta til Persónuverndar skv. 54. gr.

52. gr.

Tilgangur og varðveisla viðbótarupplýsinga.

    SIRENE-skrifstofan skal geyma tilvísanir í ákvarðanir sem eru grundvöllur skráningar í upplýsingakerfið í þeim tilgangi að styrkja miðlun viðbótarupplýsinga.
    Persónuupplýsingar sem geymdar eru hjá SIRENE-skrifstofunni í tengslum við upplýsingaskipti skal ekki varðveita lengur en nauðsynlegt er vegna tilgangs þeirra og skal þeim eytt eigi síðar en einu ári eftir að viðkomandi skráningu hefur verið eytt úr upplýsingakerfinu.
    Takmarkanir skv. 2. mgr. hafa þó ekki áhrif á rétt stjórnvalda til að vista í upplýsingakerfum sínum upplýsingar úr kerfinu vegna eigin skráninga eða skráninga sem tengjast aðgerðum sem gripið hefur verið til hér á landi.

53. gr.

Miðlun persónuupplýsinga til þriðja aðila.

    Óheimilt er að miðla upplýsingum sem skráðar eru í upplýsingakerfið og viðbótarupplýsingum til þriðja ríkis eða alþjóðlegra stofnana.
    Heimilt er þó að miðla upplýsingum um kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn, tökuheiti, fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár, kyn, ríkisfang eða ríkisföng, tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu, ljósmyndir, andlitsmyndir, fingrafaragögn og afrit af persónuskilríkjum viðkomandi, í lit ef mögulegt, sem skráðar hafa verið í kerfið skv. 1. mgr. 19. gr. í tengslum við ákvörðun um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis og tengdum viðbótarupplýsingum til þriðja ríkis. Slík miðlun fer þó einungis fram að fengnu samþykki skráningarríkis og í þeim tilgangi að bera kennsl á og gefa út persónuskilríki eða ferðaskilríki fyrir ríkisborgara þriðja ríkis sem dvelur ólöglega á Schengen-svæðinu í því skyni að framkvæma ákvörðun um brottvísun eða frávísun. Þá skal upplýsa viðkomandi ríkisborgara þriðja ríkis um að persónuupplýsingum hans og viðbótarupplýsingum kunni að vera deilt með yfirvöldum þriðja ríkis.
    Miðlun upplýsinga til þriðja ríkis skv. 2. mgr. skal ekki hafa áhrif á rétt ríkisborgara þriðja ríkis sem umsækjandi um alþjóðlega vernd.
    Ekki skal miðla upplýsingum til þriðja ríkis skv. 2. mgr. ef ákvörðun um brottvísun eða frávísun kemst ekki til framkvæmda að svo stöddu eða hefur verið frestað tímabundið, þar á meðal vegna kæru ákvörðunarinnar, með vísan til þess að slík brottvísun eða frávísun myndi brjóta í bága við meginregluna um að vísa einstaklingi ekki aftur þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu.

54. gr.

Kæruheimild.

    Ákvarðanir ríkislögreglustjóra sem teknar eru á grundvelli 50. og 51. gr. má bera undir úrskurð Persónuverndar.

55. gr.

Réttur til skaðabóta.

    Nú verður maður fyrir tjóni og það verður rakið til skráningar eða notkunar á upplýsingum úr upplýsingakerfinu sem andstæð er reglum um kerfið og á hann þá rétt á skaðabótum úr ríkissjóði. Bæta skal bæði fjártjón og miska.
    Greiða á bætur þótt upplýsingar hafi verið skráðar í öðru ríki ef þær hafa verið notaðar hér á landi. Bætur skal greiða án tillits til sakar, en þær má þó fella niður eða lækka ef tjónþoli hefur sjálfur stuðlað að því að upplýsingar væru skráðar eða notaðar.

56. gr.

Eftirlit Persónuverndar.

    Persónuvernd skal hafa eftirlit með því að skráning og meðferð persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu sé í samræmi við lög þessi, lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Persónuvernd skal einnig hafa eftirlit með því að öryggi upplýsingakerfisins sé tryggt þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að því eða geti haft áhrif á skráningu í það.
    Persónuvernd hefur aðgang að skráðum upplýsingum og öðrum nauðsynlegum gögnum til að sinna eftirliti með upplýsingakerfinu skv. 1. mgr.
    Nú gerir Persónuvernd athugasemdir við starfrækslu upplýsingakerfisins og skal hún þá koma þeim og fyrirmælum um úrbætur á framfæri við ríkislögreglustjóra og ráðuneytið. Telji Persónuvernd meðferð persónuupplýsinga í andstöðu við ákvæði laga þessara getur stofnunin mælt fyrir um að skráningu upplýsinga verði hætt eða sæti skilyrðum. Ríkislögreglustjóra ber að fara að athugasemdum og fyrirmælum Persónuverndar um úrbætur innan þess frests sem Persónuvernd ákveður.

X. KAFLI

Reglugerðarheimild og gildistaka.

57. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um:
     a.      framkvæmd skráninga, sbr. 3. gr.,
     b.      öryggisþætti upplýsingakerfisins og innra eftirlit með því, sbr. 4. gr. og
     c.      hæfis- og öryggiskröfur sem starfsmenn verða að fullnægja til að starfa við upplýsingakerfið, sbr. 42. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar með talið til að skilgreina aðra verðmæta hluti, sbr. 36. gr.

58. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi lög um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu, sem samið er í dómsmálaráðuneytinu, er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum til að innleiða þrjár gerðir Evrópusambandsins: reglugerð (ESB) 2018/1860, (ESB) 2018/1861 og (ESB) 2018/1862 um Schengen-upplýsingakerfið. Gerðirnar voru birtar í stjórnartíðindum ESB hinn 28. nóvember 2018 og koma í stað þriggja annarra gerða sem áður mynduðu lagagrunn Schengen-upplýsingakerfisins en falla nú úr gildi. Innleiðing gerðanna er liður í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands sem þátttakanda í Schengen-samstarfinu.
    Hér á landi eru í gildi lög um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000, en rétt þykir að leggja fram frumvarp til nýrra laga í stað frumvarps til breytinga á gildandi lögum enda eru breytingarnar sem lagt er til að verði innleiddar með frumvarpi þessu umfangsmiklar. Þá ber að taka tillit til þess að Schengen-upplýsingakerfið fjallar um persónuupplýsingar og ákvarðanir er varða réttindi einstaklinga sem ber að kveða skýrt á um í lögum. Skráning einstaklinga í upplýsingakerfið getur talist nokkuð íþyngjandi og því nauðsynlegt að kveðið sé skýrt á um hana í lögum. Gildandi lög eru frá árinu 2000 og eru því komin nokkuð til ára sinna, ekki hvað síst ef horft er til þess að þau varða tölvukerfi, þótt þau hafi tekið einhverjum breytingum síðan. Frá gildistöku laganna hafa ekki einungis verið gerðar viðamiklar breytingar á Schengen-upplýsingakerfinu, sem m.a. fela í sér tæknilegar uppfærslur, heldur einnig öðrum reglum sem varða einstaklinga, svo sem lögum um meðferð sakamála og reglum um persónuvernd sem nýverið sættu miklum og löngu tímabærum endurbótum.
    Áform um framlagningu frumvarpsins koma fram í þingmálaskrá 151. löggjafarþings.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Líkt og að framan greinir er með frumvarpi þessu lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum til að innleiða þrjár gerðir Evrópusambandsins: reglugerð (ESB) 2018/1860, (ESB) 2018/1861 og (ESB) 2018/1862. Gerðirnar fela í sér nokkuð umfangsmiklar efnislegar breytingar á reglunum um Schengen-upplýsingakerfið og krefjast þannig lagabreytinga. Þær eru mun ítarlegri um einstaka þætti upplýsingakerfisins, notkun þess og vinnslu og við bætast nýjar upplýsingar sem skrá má í kerfið. Innleiðing gerðanna þriggja er liður í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands sem þátttakanda í Schengen-samstarfinu. Þar sem um er að ræða þrjár reglugerðir af vettvangi Schengen-samstarfsins er svigrúmið við innleiðingu takmarkað, enda nauðsynlegt að innleiða efnislega alla þætti reglugerðanna. Frumvarpið leggur þannig einungis til nauðsynlegar breytingar á lögum svo innleiðing teljist fullnægjandi.
    Þess ber að geta að þrátt fyrir að lagagrunnur Schengen-upplýsingakerfisins samanstandi af þremur gerðum er kerfið starfrækt sem eitt upplýsingakerfi sem tengir saman SIRENE-skrifstofur allra þátttökuríkja Schengen-samstarfsins og tryggir greið skipti á viðbótarupplýsingum meðal lögregluyfirvalda í þátttökuríkjunum. SIRENE stendur fyrir Supplementary Information Request at the National Entries, en á Íslandi er SIRENE-skrifstofan starfrækt hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, sbr. 2. gr. núgildandi laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.
    Breytingarnar á Schengen-upplýsingakerfinu, sem gerðirnar þrjár fela í sér, ber að skoða með hliðsjón af öðrum stórum verkefnum á vettvangi Schengen-samstarfsins, nánar tiltekið tveggja reglugerða um rekstrarsamhæfingu upplýsingakerfa á Evrópuvísu á vettvangi dóms- og innanríkismála (reglugerð (ESB) 2019/817 og reglugerð (ESB) 2019/818), reglugerða um þróun og starfsemi komu- og brottfararkerfis fyrir Schengen-svæðið (reglugerð (ESB) 2017/2225 og reglugerð (ESB) 2017/2226) og reglugerða um evrópskt kerfi um ferðaheimild (reglugerð (ESB) 2018/1240 og reglugerð (ESB) 2018/1241). Til viðbótar standa fyrir dyrum breytingar á reglugerð um upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir og á reglugerð um fingrafaragrunn fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd (Eurodac) en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær þær breytingar komast til framkvæmda. Loks ber að nefna nýja stofnreglugerð eu-LISA, reglugerð (ESB) 2018/1726 um starfsemi Evrópustofnunarinnar um rekstur stórra upplýsingatæknikerfa á svæði frelsis, öryggis og réttlætis, en stofnunin annast rekstur miðlæga hluta Schengen-upplýsingakerfisins, vegabréfsáritanakerfisins, fingrafaragrunns fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd auk þess sem stofnunin mun annast rekstur miðlæga hluta væntanlegs komu- og brottfararkerfis og kerfis um ferðaheimild til Schengen-svæðisins.
    Af framangreindu má ráða að miklar breytingar eru í bígerð á vettvangi Schengen-samstarfsins er kemur að tæknimálum og upplýsingakerfum. Meginmarkmið breytinganna er að auka öryggi á Schengen-svæðinu, en breytingarnar á Schengen-upplýsingakerfinu sem frumvarp þetta fjallar um eru einn mikilvægasti þátturinn í því. Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir þeim breytingum er varða tæknimál og í hverju þær felast.
    Í fyrsta lagi ber að nefna tvær gerðir um rekstrarsamhæfingu upplýsingakerfa á Evrópuvísu, á vettvangi dóms- og innanríkismála, sem birtar voru í stjórnartíðindum ESB hinn 20. maí 2019, reglugerð (ESB) 2019/817 varðandi upplýsingakerfi á vettvangi landamæra og útgáfu vegabréfsáritana og reglugerð (ESB) 2019/818 um upplýsingakerfi á vettvangi lögreglu- og dómsmálasamvinnu. Gerðirnar tvær miða að því að mæta þörfum notenda upplýsingakerfanna, þar á meðal Schengen-upplýsingakerfisins, að í kerfin séu skráðar áreiðanlegar og skýrar upplýsingar en um leið að gætt sé ítrustu persónuverndar við skráningu og notkun kerfanna. Gerðirnar fela þannig ekki í sér róttækar eða umfangsmiklar breytingar á upplýsingakerfunum sjálfum, einungis augljósa úrbót á kerfunum sem nú þegar eru til staðar og í mótun og eru í raun einungis til þess gerðar að einfalda umhverfi þeirra og gera kerfin notendavænni þannig að þau séu notuð með skilvirkari og nútímalegri hætti.
    Í öðru lagi voru hinn 30. nóvember 2017 birtar í stjórnartíðindum ESB tvær reglugerðir um þróun og starfsemi komu- og brottfararkerfis fyrir Schengen-svæðið, nánar tiltekið reglugerð (ESB) 2017/2225 og reglugerð (ESB) 2017/2226. Kerfið verður sett upp á öllum ytri landamærastöðvum Schengen-svæðisins og heldur rafræna skráningu um komur og brottfarir ríkisborgara þriðju ríkja á svæðið, nánar tiltekið útlendinga sem ekki eru EES- eða EFTA-borgarar. Kerfið kemur til með að nútímavæða og einfalda landamæraeftirlit. Eitt meginmarkmið komu- og brottfararkerfisins er að auka öryggi á Schengen-svæðinu öllu en með kerfinu, sem kemur í stað stimpla landamæravarða um komur og brottfarir, næst samhæfð yfirsýn allra Schengen-ríkjanna yfir þá sem dvelja á Schengen-svæðinu fram yfir heimilaða dvöl. Upphaflegar hugmyndir um að setja á fót komu- og brottfararkerfi á Schengen-svæðinu má rekja aftur til ársins 2008. Á sama tíma voru settar fram hugmyndir um evrópskt kerfi um ferðaheimild, sem urðu að veruleika árið 2018, nánar tiltekið með reglugerðum (ESB) 2018/1240 og (ESB) 2018/1241, sem birtar voru í stjórnartíðindum ESB 12. september 2018. Kerfið um ferðaheimild er svipað því sem til dæmis Bandaríkjamenn hafa starfrækt undanfarin ár, hið svokallaða ESTA-kerfi. Evrópska kerfið mun virka þannig að áður en ríkisborgari þriðja ríkis, sem er undanþeginn skyldu um vegabréfsáritun, leggur af stað í ferðalag til Schengen-svæðisins sækir hann um heimild til ferðalagsins á netinu. Sett verður á fót vefur þar sem einstaklingur skráir inn ákveðnar upplýsingar um sig, sendir í miðlægan grunn og jákvætt eða neikvætt svar um heimild til ferðalags berst innan nokkurra mínútna. Heimildin kemur þó ekki í stað landamæraeftirlits sem allir einstaklingar sem ferðast um ytri landamæri Schengen-svæðisins sæta eftir sem áður. Kerfinu er þó ætlað að nútímavæða og einfalda landamæraeftirlit og koma í veg fyrir að ríkisborgari þriðja ríkis leggi af stað í ferðalag til Schengen-svæðisins en fái svo ekki heimild til landgöngu. Tæknileg útfærsla beggja framangreindra kerfa, komu- og brottfararkerfisins annars vegar og evrópska kerfisins um ferðaheimild hins vegar, eru nú í mótun en fyrirhugað er að kerfin verði tekin í gagnið árið 2022.
    Í þriðja lagi ber að nefna breytingu á reglugerð um upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir sem nú er í vinnslu á vettvangi Schengen-samstarfsins. Sú breyting er fyrst og fremst miðuð við nauðsynlegar breytingar vegna rekstrarsamhæfingar upplýsingakerfa en til viðbótar eru aðrar minniháttar breytingar á kerfinu fyrirhugaðar til að nútímavæða það og gera það notendavænna.
    Breytingarnar á Schengen-upplýsingakerfinu, sem lagt er til að verði innleiddar með frumvarpi þessu, eru þannig mikilvægur hluti af stærri mynd í upplýsingatæknimálum sem hafa verið til umræðu og í undirbúningi um langt skeið og munu komast til framkvæmda á næstu misserum.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Almennt um Schengen-upplýsingakerfið og markmið þess.
    Starfræksla Schengen-upplýsingakerfisins hefur löngum þótt einn af mikilvægustu þáttum Schengen-samstarfsins. Með Schengen-upplýsingakerfinu er átt við rafrænt gagnasafn upplýsinga frá þátttökuríkjunum til notkunar á öllu Schengen-svæðinu. Markmið Schengen-upplýsingakerfisins er að tryggja öryggi á Schengen-svæðinu, þar á meðal almannaöryggi og allsherjarreglu, en kerfið treystir eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og greiðir fyrir samvinnu lögregluyfirvalda ríkjanna til að koma í veg fyrir og uppræta brotastarfsemi. Með Schengen-upplýsingakerfinu miðla notendur upplýsingum á skilvirkan og öruggan hátt milli ríkjanna, en það er mikilvægt til að unnt sé að fylgja greiðlega þeim reglum sem gilda um frjálsa för fólks á Schengen-svæðinu.
    Schengen-upplýsingakerfið greinist annars vegar í staðbundinn hluta kerfisins (N.SIS), sem starfræktur er í hverju þátttökuríkjanna, og hins vegar miðlægan hluta þess (C.SIS) sem staðsettur er í Frakklandi. Allir staðbundnir hlutar upplýsingakerfisins í hverju og einu þátttökuríki tengjast miðlæga hluta kerfisins. Í gildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið, nr. 16/2000, og frumvarpi þessu til breytingar á umræddum lögum, er að finna reglur um starfrækslu staðbundna hluta Schengen-upplýsingakerfisins hér á landi.
    Schengen-upplýsingakerfið hefur verið starfrækt á Íslandi frá árinu 2001, en þá hóf Ísland þátttöku í Schengen-samstarfinu. Önnur kynslóð upplýsingakerfisins, SIS II, var gangsett árið 2013, en með henni var kerfið nútímavætt, fjölgað var tegundum upplýsinga sem hægt var að skrá inn í upplýsingakerfið auk þess sem innleidd var nýjung sem fól í sér heimild til að tengja skráningar í kerfinu og með því komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga, sbr. 8. gr. a í lögum nr. 16/2000. Gerðirnar þrjár sem hér er lagt til að verði innleiddar varða í fyrsta lagi notkun Schengen-upplýsingakerfisins við brottvísun og frávísun ríkisborgara þriðja ríkis í ólögmætri dvöl á Schengen-svæðinu (reglugerð (ESB) 2018/1860), í öðru lagi notkun upplýsingakerfisins við landamæraeftirlit (reglugerð (ESB) 2018/1861) og í þriðja lagi notkun upplýsingakerfisins við lögreglu- og dómsmálasamvinnu í sakamálum (reglugerð (ESB) 2018/1862). Gerðirnar eru settar fram í þremur reglugerðum vegna mismunandi lagastoðar fyrir útlendingamál, landamæramál og lögreglumál í stofnsáttmála ESB. Mörg ákvæði gerðanna þriggja eru þar af leiðandi samhljóða og óþarfi að tíunda í mismunandi löggjöf hér á landi, lög um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi nægja. Markmið gerðanna þriggja er tvíþætt. Annars vegar að mæta tillögum að úrbótum á Schengen-upplýsingakerfinu sem lagðar voru fram í kjölfar úttekta framkvæmdastjórnar ESB á starfsemi kerfisins árið 2016 og stuðla þannig að styrkingu á lögreglusamvinnu, landamæraeftirliti og útlendingaeftirliti á Schengen-svæðinu. Tillögurnar að úrbótum fólu fyrst og fremst í sér tæknilegar breytingar á miðlæga hluta kerfisins til að auka öryggi þess og auknar heimildir til skráningar á nýjum tegundum upplýsinga í kerfið. Hins vegar er markmið gerðanna að innleiða niðurstöður nefndar háttsettra embættismanna um upplýsingakerfi á Evrópuvísu á vettvangi dóms- og innanríkismála og rekstrarsamhæfingu upplýsingakerfanna. Umrædd nefnd var sett á fót árið 2015 og skilaði lokaskýrslu í maí 2017. Þar kemur fram að ein helsta áskorun Schengen-upplýsingakerfisins er gæði upplýsinga í kerfinu, enda getur Schengen-upplýsingakerfið, sem og önnur upplýsingakerfi, einungis verið eins gott og upplýsingarnar sem skráðar eru í kerfið. Markmiðið er því að styrkja gæði upplýsinga og leggja ríkari áherslu á gæðin með skýrri lagasetningu, en liður í síðarnefndu markmiði eru nýjar reglur um persónuvernd við vinnslu persónuupplýsinga og innleiðing þeirra við starfrækslu Schengen-upplýsingakerfisins.

3.2. Meginatriði frumvarpsins.
    Í gerðunum þremur sem hér er lagt til að verði innleiddar er kveðið á um starfsemi Schengen-upplýsingakerfisins og notkun þess ásamt því sem ábyrgð á kerfinu er skilgreind. Með ábyrgð er átt við ábyrgð hvers og eins ríkis til að tryggja stöðuga og óhindraða starfsemi kerfisins allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, bæði á landsvísu og tengingu við miðlæga hluta kerfisins, m.a. með öryggisafriti af kerfinu eða viðbótartengingu sem notast megi við ef samband rofnar, sbr. 4. gr. reglugerða (ESB) 2018/1861 og (ESB) 2018/1862. Í frumvarpinu felst gagnkvæmni að því leyti að þær heimildir og skyldur sem eru lagðar á íslensk yfirvöld, SIRENE-skrifstofu og þeirra sem fara með framkvæmd þess, eru einnig lagðar á hliðstæð yfirvöld í öðrum Schengen-ríkjum samkvæmt Schengen-gerðunum og öfugt.
    Lögð er ríkari áhersla á gæði upplýsinga í kerfinu og ábyrgð stjórnvalda til að tryggja að upplýsingar sem skráðar eru í kerfið séu áreiðanlegar og löglega skráðar. Þá er kveðið skýrt á um hvaða tegundir upplýsinga skrá má í kerfið, í hvaða tilgangi upplýsingarnar eru skráðar og flett upp auk þess sem grunnviðmið um skráningu eru sett. Það er nýmæli að skrá eigi ákvarðanir um frávísanir og brottvísanir í upplýsingakerfið. Ein gerðanna þriggja, reglugerð (ESB) 2018/1860, kveður á um notkun Schengen-upplýsingakerfisins við endursendingu, þ.e. við brottvísun og frávísun ríkisborgara þriðja ríkis í ólögmætri dvöl á Schengen-svæðinu. Skyldubundin skráning allra Schengen-ríkjanna á ákvörðunum um brottvísanir og frávísanir er liður í aðgerðum til að auka öryggi á Schengen-svæðinu. Skyldan er til þess fallin að auka skilvirkni, samhæfingu og heildarsamkvæmni meðal Schengen-ríkjanna um framkvæmd slíkra ákvarðana og endurkomubanna. Fleiri nýmæli má einnig finna í frumvarpinu og eykur það þannig starfsemi upplýsingakerfisins til muna. Fleiri tegundir upplýsinga verða skráðar í kerfið eftir gildistöku laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum og er eitt af markmiðum með því að fullnýta uppflettingar og skráningar í kerfið, því án þess fást ekki smellir.
    Enn fremur er kveðið á um skýrar reglur varðandi eyðingu upplýsinga úr kerfinu, hvaða stjórnvöld hafa heimild til aðgangs að upplýsingum í kerfinu og til hvaða verkefna. Jafnframt er kveðið á um notkun lífkennaupplýsinga um leið og persónuverndar er gætt til hins ítrasta. Ítarlegri leiðbeiningar fyrir notendur kerfisins eru svo settar fram í handbók um Schengen-upplýsingakerfið (e. SIRENE manual), þar á meðal um skipti á viðbótarupplýsingum og leiðbeiningar um aðgerðir lögreglu í kjölfar þess að smellur verður vegna skráningar í kerfið.
    Með því að fjölga tegundum upplýsinga sem skráðar eru í kerfið fjölgar skráningum almennt í kerfinu og þannig verkefnum notenda. Til að tryggja stöðuga og óhindraða starfsemi kerfisins allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, er nauðsynlegt að tryggja fullnægjandi fjölda starfsmanna hverju sinni og fullnægjandi og reglulega þjálfun starfsfólks sem vinnur með kerfið, tungumálakunnáttu, þekkingu á gildandi lögum og reglum um kerfið, persónuvernd og upplýsingagæði hverju sinni. Einnig ber að tryggja að Persónuvernd geti sinnt lögbundinni eftirlitsskyldu sinni með notkun Schengen-upplýsingakerfisins. Gerðirnar fjalla jafnframt um ákveðin tæknileg grundvallaratriði kerfisins og uppbyggingu þess, sem nauðsynlegt þykir að kveða á um í lögum.
    Öryggi kerfisins og óhindruð starfsemi þess er eitt af helstu markmiðum reglugerðanna þriggja og var um leið meðal helstu atriða til umræðu við mótun reglugerðanna. Ísland, nánar tiltekið fulltrúi dómsmálaráðuneytisins í samvinnu við fulltrúa ríkislögreglustjóra, tók virkan þátt í umræðunum og mótun gerðanna í þar til gerðum vinnu- og sérfræðinganefndum, allt frá framlagningu þeirra til samþykkis.

3.3. Starfsemi SIRENE-skrifstofu.
    Líkt og að framan greinir reka öll þátttökuríki Schengen-samstarfsins sams konar starfrænt gagnasafn, landshluta Schengen-upplýsingakerfisins, sem tengist sameiginlegu upplýsingakerfi á Schengen-svæðinu. Þá starfrækja öll þátttökuríki samstarfsins einnig svokallaða SIRENE-skrifstofu, sem er miðlæg upplýsinga- og þjónustumiðstöð, sem meðal annars annast sendingu viðbótarupplýsinga til annarra SIRENE-skrifstofa, miðlar viðbótarupplýsingum í tengslum við smelli, sér um fyrirgreiðslu á aðgerðum á grundvelli skráninga einstaklinga eða hluta í kjölfar smella og samhæfir og sannprófar gæði upplýsinga sem skráðar eru í upplýsingakerfið. SIRENE-skrifstofan hefur verið starfrækt hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra allt frá því Ísland hóf þátttöku í Schengen-samstarfinu árið 2001.
    Í gerðunum þremur sem lagt er til að verði innleiddar með frumvarpi þessu er sett fram ríkari krafa til starfsemi SIRENE-skrifstofu en áður, nánar tiltekið er öllum þátttökuríkjum Schengen-samstarfsins gert skylt að hafa skrifstofuna starfhæfa allan sólarhringinn, alla daga vikunnar. Það fyrirkomulag hefur hingað til verið tryggt með fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, sem sér um verkefni skrifstofunnar á kvöldin og um helgar og mun verða áfram, enda er með fjarskiptamiðstöðinni opnunartími skrifstofunnar tryggður, allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Innleiðing gerðanna þriggja er líkt og fram hefur komið liður í því að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með þátttöku í Schengen-samstarfinu. Við þá innleiðingu hefur verið gætt að samræmi við stjórnarskrá og má þar nefna skýrar reglur er snúa að persónuvernd. Vernd persónuupplýsinga er þáttur í þeirri einkalífsvernd sem felst í 71. gr. stjórnarskrárinnar, en hugtakinu friðhelgi einkalífs var bætt við þá grein með stjórnarskipunarlögum, nr. 97/1995. Það var gert til að færa greinina til samræmis við 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994, og 17. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1966 um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
    Það að einkalífsrétturinn er stjórnarskrárvarinn felur m.a. í sér að binda þarf í löggjöf skýrar reglur um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Einnig er mikilvægt að í lögum sé kveðið á um rétt einstaklings til aðgangs að persónuupplýsingum um sig sjálfan, sem er gætt í frumvarpi þessu. Um takmarkanir á þeim rétti gilda ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnun og Persónuvernd. Í því samráðsferli var fundað með fulltrúum umræddra stjórnvalda og tekið tillit til athugasemda sem þar komu fram. Að auki var þeim, ásamt Samgöngustofu, Landhelgisgæslu Íslands, tollgæslu og utanríkisráðuneyti, gefinn kostur á að skila inn skriflegum athugasemdum tveimur vikum áður en drög að frumvarpi voru birt í samráðsgátt stjórnvalda. Slíkar athugasemdir bárust frá ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnun og Persónuvernd og var tekið tillit til þeirra, að því leyti sem hægt var, við gerð frumvarpsins.
    Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is hinn 25. febrúar 2020 og var hægt að skila inn umsögn til og með 3. mars 2020, mál S-50/2020. Umsögn barst frá ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun.
    Ríkislögreglustjóri gerði athugasemdir við opnunartíma SIRENE-skrifstofunnar, sem fjallað er um í skýringum við 2. mgr. 5. gr. Ríkislögreglustjóri taldi ekki rétt að með fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra væri stöðug og óhindruð starfsemi kerfisins tryggð allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, m.a. vegna þess að hún sinnir einungis fullnægjandi vöktun og afgreiðslu á kerfinu en einnig mun fleiri verkefnum. Vegna þess hafi verkefni alþjóðadeildar, sem sinnir verkefnum SIRENE-skrifstofunnar mætt afgangi við forgangsröðun verkefna hjá fjarskiptamiðstöð. Til þess að starfsemin sé stöðug og óhindruð þurfi starfsmenn fjarskiptamiðstöðvarinnar einnig að búa yfir sömu kunnáttu, færni og tíma til að takast á við öll verkefni og erindi skrifstofunnar með sama hætti og alþjóðadeild. Það krefjist tíma og kostnaðar fyrir báðar deildir. Yrði núverandi fyrirkomulag til ófyrirséðs tíma þyrfti að formfesta aðkomu og aðstoð alþjóðadeildar utan hefðbundins starfstíma og fjölga starfsmönnum fjarskiptamiðstöðvarinnar svo verkefnin kæmu ekki niður á kjarnastarfsemi fjarskiptamiðstöðvarinnar. Tekið er undir með ríkislögreglustjóra að tryggja þurfi þekkingu allra aðila sem starfa við Schengen-upplýsingakerfið, með reglulegri og fullnægjandi þjálfun sem mikilvægt er að verði tryggð til framtíðar. Sú vinna hefur þegar verið hafin en vísast um það til skýringa við 2. mgr. 5. gr. Með fjarskiptamiðstöðinni er áskilinn opnunartími tryggður og starfsemi kerfisins með vöktun og afgreiðslu erinda, þótt til framtíðar geti verið æskilegt að tryggja fullan opnunartíma skrifstofunnar sjálfrar. Skipuleggja þarf því starfsemina nú til að mæta kröfum frumvarpsins innan núverandi útgjaldaramma, en til framtíðar endurskoða hana með tilliti til verkefna og umfangs, þá sérstaklega með tilkomu nýrra upplýsingakerfa sem rætt hefur verið um hér að framan og þess fjármagns sem þeim fylgir. Núverandi fyrirkomulag kann því að taka breytingum á næstu árum.
    Útlendingastofnun gerði athugasemdir við nokkur ákvæði frumvarpsins sem hún taldi ekki samræmast gildandi lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Athugasemd var gerð við 7. mgr. 7. gr. og 21. gr., sem eftir breytingar á frumvarpinu er núna 30. gr. Af orðalaginu mætti ráða að þeir einstaklingar sem njóti réttarins til frjálsrar farar samkvæmt tilskipun nr. 2004/38/EB, verði ekki skráðir í upplýsingakerfið, þar sem ekki sé mælt fyrir um skráningar þeirra í upplýsingakerfið í XI. kafla laga um útlendinga. Brugðist var við athugasemdum Útlendingastofnunar með því að breyta orðalagi ákvæðisins á þann veg að við skráningu skuli taka mið af réttindum þeirra einstaklinga sem kveðið er á um í XI. kafla laga um útlendinga.
    Útlendingastofnun gerði einnig athugasemd við b-lið 2. mgr. 26. gr., sem eftir breytingar á frumvarpinu er b-liður 2. mgr. 19. gr., þess efnis að ákvörðun um brottvísun væri samkvæmt núgildandi lögum ekki tekin á ytri landamærum og þá gæti slík ákvörðun tæplega komist til framkvæmda þá þegar vegna réttinda einstaklinga samkvæmt lögum um útlendinga og stjórnsýslulaga. Stofnunin taldi einnig að hún gæti ekki skráð upplýsingar sem henni bæri að skrá skv. 3. mgr. 26. gr., sem eftir breytingar er 3. mgr. 19. gr., vegna núgildandi laga um útlendinga, sem heimila aðeins töku ákvörðunar um brottvísun hafi frestur til sjálfviljugrar heimfarar liðið án þess að viðkomandi hafi yfirgefið landið eða tekin hafi verið ákvörðun um að veita ekki frest til sjálfviljugrar heimfarar. Framangreind athugasemd Útlendingastofnunar lýtur m.a. að því að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB um sameiginlega staðla og málsmeðferð í aðildarríkjunum varðandi endursendingu ríkisborgara þriðja ríkis sem dvelja þar ólöglega, hefði mátt innleiða með öðrum hætti í lög um útlendinga. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, þar sem meðal annars er brugðist við þessu, var fyrst lagt fram á 149. löggjafarþingi og endurflutt á 150. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Að hausti 2020 stendur til að leggja aftur fram frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, þar sem brugðist verður við þessu.
    Aðrar athugasemdir Útlendingastofnunar lutu m.a. að þeim breytingum sem verði að eiga sér stað á tölvukerfi Útlendingastofnunar svo að skráningar skv. III. kafla geti farið fram með skilvirkum hætti. Í ljósi framangreinds taldi stofnunin æskilegast að gildistími frumvarpsins yrði ákveðinn með hæfilegum fresti í stað þess að lögin tæku gildi þegar í stað. Til skoðunar kom að fresta gildistöku frumvarpsins, en þar sem það er ekki lagt fram fyrr en að hausti 2020 er talið að hæfilegur frestur hafi þar með gefist til undirbúnings.
    Eins og fram hefur komið hafa framangreind ákvæði tekið breytingum, en einnig önnur ákvæði III. og IV. kafla sem og kaflaheitin sjálf. Breytingar voru gerðar í kjölfar athugasemda Útlendingastofnunar, aukins samráðs við ríkislögreglustjóra við áframhaldandi vinnslu frumvarpsins og til að samræma þau betur Schengen-gerðunum sem verið er að innleiða. Fengu stofnanirnar aftur tækifæri hinn 1. september 2020 til að koma með athugasemdir vegna breytinganna og var tekið tillit til þeirra.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið er sem fyrr greinir liður í því að fara fram með nauðsynlegar lagabreytingar til innleiðingar þriggja gerða Evrópusambandsins um Schengen-upplýsingakerfið sem birtar voru í stjórnartíðindum Evrópusambandsins hinn 28. nóvember 2018 þar sem rík skylda er lögð á íslensk stjórnvöld að uppfylla sett skilyrði.
    Kostnaðaráhrif frumvarpsins og áherslur um verklag snerta að stærstum hluta dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóra og má skipta í nokkra þætti. Í fyrsta lagi fjárfestingakostnað sem leiðir af fjárfestingum í nýjum Schengen-upplýsingakerfum og endurnýjun á núverandi kerfum og nær yfir tímabilið 2020–2025. Fyrir liggur skýrsla dómsmálaráðuneytisins og ríkislögreglustjóra um innleiðingu nýrra gagnakerfa og uppfærslu núverandi kerfa Schengen-samstarfsins – áskoranir, umfang og áhrif. Þar kemur m.a. fram að til að hægt sé að innleiða hin nýju kerfi og framkvæma nauðsynlegar uppfærslur á fyrirliggjandi kerfum þarf að ráðast í fjárfestingar fyrir allt að 2.200 millj. kr. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði að stærstum hluta fjármagnað úr innri öryggissjóði Evrópusambandsins auk fjárveitinga á fjárlögum 2019 og 2020 og mótframlags frá Isavia vegna kostnaðar við sjálfvirknivæðingu landamæraeftirlits á Keflavíkurflugvelli. Fyrir liggur að fjárstreymi úr innri öryggissjóði Evrópusambandsins til að mæta útlögðum kostnaði mun ávallt fara fram talsvert eftir að útgjöld hafa verið innt af hendi. Því er nauðsynlegt að finna leið til þess að brúa það bil þannig að greiðslustreymið í verkefnið verði eðlilegt, reikningar verði greiddir í tíma og innleiðingarferlið fái eðlilega framvindu. Flækjustig verkefnisins er hátt og sérstök áskorun fyrir fámenna íslenska stjórnsýslu. Hins vegar verður að horfa til þess að með innleiðingu á nýjum kerfum og uppfærslu á eldri kerfum mun landamæraeftirlit verða eflt til muna sem eykur aðgerðargetu útlendinga- og löggæsluyfirvalda. Forsendur sem lagðar eru til grundvallar við kostnaðaráætlun eru byggðar á þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir en gera má ráð fyrir því að breytingar verði á þeim eftir því sem verkefninu vindur fram.
    Helstu breytingar á kerfum Schengen-samstarfsins lúta að aukinni notkun á lífkennaupplýsingum en núverandi lífkennakerfi lögreglu uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til vistunar, miðlunar og móttöku á lífkennaupplýsingum. Grundvallarforsenda fyrir innleiðingu breytinga næstu ára, þ.e. uppfærsla á núverandi kerfum og innleiðing á nýjum kerfum, er að tekið verði í notkun nýtt lífkennaupplýsingakerfi sem uppfyllir nútímakröfur. Óvissa er uppi um fjármögnun á nýju lífkennakerfi fyrir lögreglu sem hefur reynst mun dýrara en áætlanir gerðu ráð fyrir og er verið að leita fjármögnunarleiða. Ef það skilar ekki árangri þarf að fara aðrar leiðir.
    Í öðru lagi þarf að huga að kostnaði við rekstur nýju upplýsingakerfanna. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður gæti verið á bilinu 20–30 millj. kr. sem aðallega felst í auknum mannafla en áætlað er að sá kostnaður falli til á árinu 2022 og gert ráð fyrir að hann rúmist innan málaflokksins.
    Í þriðja lagi þarf að huga að þeirri kröfu sem gerð er um að hvert og eitt þátttökuríki Schengen-samstarfsins tryggi stöðuga og óhindraða starfsemi Schengen-upplýsingakerfisins allan sólarhringinn, alla daga vikunnar með SIRENE-skrifstofunni, bæði á landsvísu og tengingu við miðlæga hluta kerfisins, m.a. með öryggisafriti af kerfinu eða viðbótartengingu sem notast megi við ef samband rofnar. Með því að fjölga tegundum upplýsinga sem skráðar eru í kerfið, líkt og gerðirnar þrjár sem hér er lagt til að verði innleiddar kveða á um, fjölgar umtalsvert skráningum almennt í kerfinu og þannig verkefnum notenda. Í dag samanstendur SIRENE-skrifstofan af alþjóðadeild og fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, sem sinnir tölvupósti, síma og símsvörun skrifstofunnar á kvöldin og um helgar. Ekki er gert ráð fyrir að því fyrirkomulagi verði breytt að svo stöddu, en með fjarskiptamiðstöðinni er stöðug starfsemi kerfisins tryggð allan sólarhringinn, alla daga vikunnar. Þannig er gert ráð fyrir að kostnaðarauki rúmist innan málaflokksins.
    Í fjórða lagi þarf að huga að því að Persónuvernd, sem eftirlitsaðili, hafi fullnægjandi fjölda starfsmanna til að sinna lögbundinni eftirlitsskyldu sinni með notkun Schengen-upplýsingakerfisins. Gert er ráð fyrir að kostnaður rúmist innan ramma málaflokksins, en eftirlitshlutverk Persónuverndar mun ekki breytast í verulegum atriðum þó að með auknum skráningum í upplýsingakerfið felist vissulega aukin þörf á virku eftirliti Persónuverndar með starfsemi þess. Allt frá gangsetningu kerfisins hér á landi árið 2000 hefur Persónuvernd haft það hlutverk samkvæmt lögum að sinna frumkvæðiseftirliti með starfsemi kerfisins, sbr. 18. gr. núgildandi laga um Schengen-upplýsingakerfið, nr. 16/2000.
    Til viðbótar er gert ráð fyrir áframhaldandi beinlínutengingu við Schengen-upplýsingakerfið fyrir Útlendingastofnun, lögreglu, ríkissaksóknara, Samgöngustofu og tollgæslu, en með breytingu sem gerð var á núgildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi með lögum nr. 149/2018, var tollgæslu heimilaður beinlínuaðgangur að kerfinu. Þeirri tengingu var komið á fyrr í sumar. Gert er ráð fyrir að auk framangreindra fái héraðssaksóknari, Landhelgisgæsla Íslands og utanríkisráðuneytið beinlínutengingu við ákveðin afmörkuð verkefni. Landhelgisgæslan hefur samkvæmt núgildandi lögum einungis heimild til aðgangs að kerfinu samkvæmt beiðni. Ríkislögreglustjóri, eða nánar tiltekið tölvudeild embættisins, ber ábyrgð á því að koma beinlínutengingum á, að fenginni umsókn frá þar til bæru yfirvaldi. Einnig er gert ráð fyrir að það verði mögulegt að nýta samtengingu og samvirkni íslenskra kerfa við tengingu í Schengen-upplýsingakerfið, til að mynda kerfi Útlendingastofnunar. Einskiptiskostnaður vegna beinlínutengingar og breytinga á kerfi vegna samtengingar og samvirkni við Schengen-upplýsingakerfið er áætlaður 4–5 millj. kr. vegna framangreinds og er gert ráð fyrir að sá kostnaður rúmist innan fjárheimilda viðkomandi málaflokka eða með styrkveitingum utanaðkomandi aðila.
    Ekki er hægt að leggja nákvæmt mat á heildarkostnað við lagasetninguna vegna þeirrar óvissu sem til staðar er um fjárfestingar í upplýsingakerfunum. Miðað við fyrirliggjandi áætlanir er gert ráð fyrir að fjárfesta þurfi fyrir 2.200 millj. kr. í nýjum Schengen-upplýsingakerfum og endurnýjun á þeim eldri og þau verði fjármögnuð úr innri öryggissjóði Evrópusambandsins, með fjárveitingum á fjárlögum 2019 og 2020 og framlögum frá Isavia. Unnið er að fjármögnunarleiðum fyrir nýtt lífkennakerfi. Varanlegur rekstrarkostnaður er áætlaður 20–32 m.kr. til að mæta kostnaði upplýsingatæknideildar ríkislögreglustjóra vegna reksturs upplýsingakerfa frá og með árinu 2022. Áhrif frumvarpsins á starfsemi dómsmálaráðuneytis og landamæradeildar ríkislögreglustjóra vegna fjárfestinga í nýjum Schengen-upplýsingakerfum eru fjármögnuð í fjárlögum 2020 og með styrkjum úr innri öryggissjóði og frá Isavia. Gert er ráð fyrir að fjárhagsáhrifum á upplýsingatæknideild ríkislögreglustjóra verði mætt úr ramma málefnasviðsins í gildandi fjármálaáætlun 2020–2024.
    Hvorki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á fjárhag sveitarfélaganna né á jafnrétti eða stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

I. kafli.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er gildissvið afmarkað en verði frumvarpið óbreytt að lögum, er því ætlað að gilda um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi og persónuvernd við skráningu og meðferð upplýsinga í því kerfi.
    Í 2. mgr. er lýsing á upplýsingakerfinu, nánar tiltekið að átt sé við rafrænt gagnasafn, sem starfrækt sé hér á landi og tengt sameiginlegu upplýsingakerfi á Schengen-svæðinu. Öll þátttökuríki Schengen-samstarfsins reka sams konar landseiningu af upplýsingakerfinu sem tengist sameiginlega kerfinu.
    Frumvarpið tekur einvörðungu til upplýsingakerfisins hér á landi og mælir fyrir um starfrækslu þess í samræmi við þrjár reglugerðir Evrópusambandsins sem teljast þróun á Schengen-regluverkinu og frumvarp þetta innleiðir, reglugerð (ESB) 2018/1860, (ESB) 2018/1861 og (ESB) 2018/1862. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu þau bæði eiga við um skráningu upplýsinga í upplýsingakerfið hér á landi og um notkun upplýsinga úr því, sem skráðar eru af öðru Schengen-ríki, á Íslandi.

Um 2. gr.

    Sams konar ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, en nauðsynlegt þykir að bæta því við. Markmið orðskýringanna er að gera lögin aðgengilegri, verði frumvarpið óbreytt að lögum, og tryggja samræmda framkvæmd. Orðskýringarnar eru fengnar úr öðrum lögum, þar á meðal lögum um útlendinga og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og Schengen-reglugerðunum þremur sem frumvarpi þessu er ætlað að innleiða. Orðin flagg og smellur hafa frá upphafi notkunar upplýsingakerfisins hér á landi verið notuð af SIRENE-skrifstofunni og þeim sem vinna með upplýsingakerfið og hafa því fests í sessi. Um flöggun skráningar er fjallað um í 8. gr., flöggun hefur þann tilgang að koma í veg fyrir að aðgerð sem gripið verður til á grundvelli skráningar verði framkvæmd á yfirráðasvæði þess ríkis sem flaggar skráningu. Smellur kemur hins vegar fyrir í hinum ýmsu ákvæðum frumvarpsins og má sem dæmi nefna að smellur getur fengist á skráningu einstaklings vegna endurkomubanns, ef hann reynir að koma inn á Schengen-svæðið um ytri landamæri Schengen-ríkis.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að ríkislögreglustjóri reki og beri ábyrgð á upplýsingakerfinu á Íslandi. Þá annist hann umsjón með skráningu upplýsinga í kerfið, þar á meðal leggi hann mat á hvort skilyrði til skráningar samkvæmt lögunum séu fyrir hendi. Samkvæmt gildandi lögum hefur ríkislögreglustjóri einn heimild til að skrá upplýsingar í kerfið. Rétt þykir að opna á möguleikann fyrir því að öðrum geti, í ákveðnum afmörkuðum tilvikum, verið heimilt að skrá upplýsingar í kerfið, þá óbeint, nánar tiltekið í gegnum eigið tölvukerfi. Slíku fyrirkomulagi hefur verið komið á hjá Þjóðskrá Íslands þar sem skráð stolin eða týnd íslensk skilríki í vegabréfaskrá Þjóðskrár færast sjálfvirkt inn í Schengen-upplýsingakerfið. Með sama móti væri sem dæmi hægt að tengja lögreglukerfið LÖKE við Schengen-upplýsingakerfið, þannig að ef lögreglumaður skráir t.d. stolna bifreið í lögreglukerfið, færist upplýsingar um bifreiðina sjálfkrafa inn í Schengen-upplýsingakerfið. Ríkislögreglustjóri hefur þó ávallt umsjón með allri skráningu upplýsinga í kerfið en í því felst m.a. eftirlit með því að upplýsingar séu réttar og áreiðanlegar og að fullnægt sé skilyrðum fyrir skráningu, sbr. 2. mgr. Í ábyrgðinni felst einnig umsjón með því að upplýsingar um einstaklinga og hluti sem skrá má í kerfið séu skráðar og kerfið þannig fullnýtt, sbr. 3. mgr. Fullnýting kerfisins er mikilvæg til að stuðla að öryggi á Schengen-svæðinu öllu. Það er mikilvægt að hvert og eitt lögbært yfirvald, t.d. lögregla og tollgæslan átti sig á gagnsemi upplýsingakerfisins og ýmist skrái beint, óbeint (þ.e. sjálfvirkt) eða óski skráningar á þeim upplýsingum sem skrá má í kerfið hverju sinni. Að öðrum kosti verður kerfið ekki fullnýtt. Á hinn bóginn verður utan verkahrings ríkislögreglustjóra að leggja mat á hvort önnur til þess bær yfirvöld hafi farið að lögum við töku þeirra ákvarðana sem geta legið til grundvallar skráningu í upplýsingakerfið, svo sem hvort heimild standi til að gefa út handtökuskipun eða vísa útlendingi úr landi og leggja bann við endurkomu hans, en slíkar ákvarðanir eru á ábyrgð lögbærra yfirvalda. Þá er það almennt utan verkahrings ríkislögreglustjóra að vakta stöðu eða framþróun einstakra mála annarra yfirvalda sem hafa skráð eða beðið um skráningu upplýsinga í kerfið. Það er á ábyrgð þess yfirvalds sem óskar skráningar í kerfið eða skráir í kerfið, hvort sem er beint eða óbeint, að uppfæra, afturkalla eða endurnýja skráningar, allt eftir því sem við á hverju sinni, sbr. 45. og 46. gr. Loks kemur fram í 4. mgr. að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd skráninga í kerfið. Er það fyrst og fremst til að stuðla að fullnýtingu kerfisins svo skráning verði ekki handahófskennd eftir yfirvöldum, gæta verður fyllsta jafnræðis og samræmis við skráningu meðal allra lögbærra aðila.
    Samkvæmt 3. gr. ber ríkislögreglustjóri þannig ábyrgð á gæðum upplýsinga í kerfinu, sem skráðar eru. Gæði upplýsinga hafa ávallt verið mikilvæg þegar kemur að skráningu í kerfið en eitt af meginmarkmiðum frumvarps þessa er að leggja ríkari áherslu á gæði upplýsinga í kerfinu og ítreka ábyrgð stjórnvalda við skráningu í kerfið, að tryggja að upplýsingar séu réttar og áreiðanlegar og skráðar með lögmætum hætti, til samræmis við skilyrði fyrir skráningu.

Um 4. gr.

    Fjallað er almennt um starfsemi Schengen-upplýsingakerfisins og er lögð sérstök áhersla á öryggi upplýsingakerfisins þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að því eða geti haft áhrif á skráningu í það. Hvílir þessi skylda bæði á ríkislögreglustjóra og þeim sem veitir honum tölvuþjónustu. Tekið er fram að öryggi skuli tryggja skipulega og kerfisbundið. Í 57. gr. er síðan gert ráð fyrir að sett verði nánari fyrirmæli í reglugerð um öryggisþætti og innra eftirlit með upplýsingakerfinu, en gert er ráð fyrir að núgildandi reglugerð um sama efni verði uppfærð hið fyrsta. Þá er áréttað í 4. gr. að tryggja skuli að kerfið starfi ávallt greiðlega og án truflana bæði innanlands og í tengingu við miðlæga hluta þess. Það er mjög mikilvægt enda er upplýsingakerfið m.a. hugsað sem hluti af mótvægisaðgerðum gegn afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum aðildarríkjanna. Því er ætlað að tryggja öryggi á Schengen-svæðinu, þar á meðal almannaöryggi og allsherjarreglu, en kerfið treystir eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og greiðir fyrir samvinnu lögregluyfirvalda ríkjanna til að koma í veg fyrir og uppræta brotastarfsemi. Það er því alvarlegt ef kerfið liggur niðri til lengri eða skemmri tíma. Slíkt getur haft áhrif á öryggi allra ríkja innan svæðisins. Ríkislögreglustjóra ber einnig að tryggja að kerfið sé aðgengilegt þeim sem við það starfa og þurfa aðgang til að sinna störfum sínum og uppfylla ákvæði laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Um 5. gr.

    Ákvæðið er byggt á 7. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 2018/1862. Í 5. gr. er fjallað um starfsemi SIRENE-skrifstofu, en öllum þátttökuríkjum Schengen-samstarfsins ber að reka SIRENE-skrifstofu sem er starfrækt allan sólarhringinn, alla daga vikunnar. Skv. d-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, starfrækir ríkislögreglustjóri alþjóðadeild sem annast alþjóðleg boðskipti. Sú deild hefur frá upphafi þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu annast verkefni SIRENE-skrifstofunnar og gert er ráð fyrir að hún geri það áfram. Hlutverk ríkislögreglustjóra þegar kemur að Schengen-upplýsingakerfinu er þannig í raun tvíþætt. Annars vegar rekstur og ábyrgð kerfisins skv. 3. gr. og hins vegar starfræksla SIRENE- skrifstofu sem er miðlæg upplýsinga- og þjónustumiðstöð, sem meðal annars annast sendingu viðbótarupplýsinga til annarra SIRENE-skrifstofa, miðlar viðbótarupplýsingum í tengslum við smelli, greiðir fyrir aðgerðum á grundvelli skráninga um einstaklinga eða hluti í kjölfar smella, samhæfir og sannprófar gæði upplýsinga sem skráðar eru í upplýsingakerfið og annast miðlun upplýsinga innanlands til lögbærra yfirvalda samkvæmt lögunum, verði frumvarpið óbreytt að lögum, sbr. 1. mgr. Aðgerðir á grundvelli skráninga geta verið ýmsar, t.d. eftirlit með leynd, handtaka á grundvelli handtökuskipunar og framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun. SIRENE-skrifstofan þjónar öllum lögregluembættum og öðrum sem vinna við upplýsingakerfið og hefur aðgang að upplýsingum sem eru þeim ekki alltaf aðgengilegar. Hlutverk SIRENE-skrifstofu að greiða fyrir aðgerðum á grundvelli skráninga getur því meðal annars falist í því að miðla slíkum upplýsingum og eiga í samskiptum við skráningarríki. Upptalning í 1. mgr. á verkefnum SIRENE-skrifstofunnar er ekki tæmandi en skrifstofan sinnir fjölmörgum öðrum verkefnum.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að SIRENE-skrifstofan skuli starfa allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862. Í gildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið er ekki samskonar afdráttarlaus krafa um starfsemi skrifstofunnar allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, þótt mælst væri til þess að svo væri á vettvangi samstarfsins. Starfsemi skrifstofunnar hefur undanfarin tíu ár verið á dagvinnutíma en á kvöldin og um helgar sinnir fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra vöktun tölvupósts, síma skrifstofunnar og símsvörun. Auk þess gátar fjarskiptamiðstöðin önnur kerfi lögreglunnar með tilliti til erinda sem eru áríðandi og þola ekki bið og afgreiðir eftir atvikum verkefni sem berast. SIRENE-skrifstofan samanstendur því í dag af alþjóðadeild og fjarskiptamiðstöðinni. Með fjarskiptamiðstöðinni er starfsemi kerfisins tryggð allan sólarhringinn, alla daga vikunnar og verður það fyrirkomulag áfram. Unnið hefur verið að því að þjálfa og auka getu starfsmanna fjarskiptamiðstöðvarinnar til að sinna verkefnum skrifstofunnar utan opnunartíma hennar. Á árinu 2019 var sex starfsmönnum fjarskiptamiðstöðvarinnar til að mynda tryggð fimm daga þjálfun á Schengen-upplýsingakerfið og starfsemina sem var til þess fallin að styrkja þjónustuna. Mikilvægt er að tryggja áfram fullnægjandi og reglulega þjálfun starfsfólks ríkislögreglustjóra sem að kerfinu koma, m.a. tungumálakunnáttu, þekkingu á gildandi lögum og reglum um kerfið, persónuvernd og upplýsingagæði hverju sinni, enda er stefnt að því að auka starfsemi upplýsingakerfisins til muna með frumvarpi þessu, þ.e. fleiri tegundir upplýsinga verða skráðar í kerfið verði frumvarpið óbreytt að lögum. Uppflettingar í Schengen-upplýsingakerfinu munu einnig aukast með tilkomu nýrra upplýsingakerfa sem nú eru í þróun, þá fyrst og fremst komu- og brottfararkerfi og evrópskt kerfi um ferðaheimild, sem fjallað er nánar um í kafla 2 í greinargerð með frumvarpinu. Þau munu óhjákvæmilega fela í sér fleiri smelli og aðgerðir í kjölfarið en umfang þeirra verkefna getur mögulega leitt til breytinga á núgildandi fyrirkomulagi alþjóðadeildar og fjarskiptamiðstöðvarinnar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skilvirkni og öryggi við miðlun viðbótarupplýsinga, en beiðni um viðbótarupplýsingar ber að svara innan 12 klst. frá móttöku, nema beiðni varði hryðjuverk, skráningu einstaklinga til handtöku og afhendingar eða framsals, eða skráningu barns skv. a-lið 3. mgr. 10. gr., en í slíkum tilvikum skal beiðni svarað án tafar, sbr. 3. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að SIRENE-skrifstofan skuli útbúa og gera aðgengilega fyrir lögbær yfirvöld nauðsynlegar upplýsingar um Schengen-upplýsingakerfið, þar á meðal notkunarleiðbeiningar, og annast menntun og þjálfun notenda kerfisins. Þetta er mikilvægur liður í verkefnum SIRENE-skrifstofunnar enda menntun og þjálfun notenda grunnþáttur í fullnýtingu kerfisins og réttri nýtingu þess samkvæmt lögunum.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu segir að skráning í upplýsingakerfið skuli miða að því að tryggja almannaöryggi og allsherjarreglu, þar með talið öryggi ríkisins, en þessi tilgangur upplýsingakerfisins er einnig tilgreindur í gildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið. Til að tryggja persónuvernd er á hinn bóginn nauðsynlegt að gera takmarkanir á skráningu í upplýsingakerfið, en einungis ákveðnar upplýsingar verða skráðar í kerfið í tilteknu skyni og ef nægjanlega brýnt tilefni er til skráningar. Þannig verður einkum heimilt að skrá þær upplýsingar sem um getur í 7., 9., 10., 12., 13., 15., 19., 20., 28., 29., 35. og 36. gr. að því marki sem það er nauðsynlegt með hliðsjón af tilgangi skráningar. Aðrar upplýsingar verða ekki skráðar í kerfið. Athuga skal í hverju tilviki fyrir sig hvort þessum áskilnaði sé fullnægt og tilefni til skráningar nægjanlega brýnt. Það verður því að meta nauðsyn hverrar skráningar og við það mat verður að líta til þess samhengis sem er á milli upplýsinga og tilgangs skráningar. Í þessari grein er einvörðungu fjallað um skráningu upplýsinga en í öðrum greinum er fjallað um takmarkanir sem gilda um notkun slíkra upplýsinga, aðgerðir sem grípa má til á grundvelli skráninga, varðveislutíma upplýsinga og reglulegt endurmat skráninga.

Um II. kafla.

    Í II.–V. kafla er kveðið á um hvaða upplýsingar verða skráðar í upplýsingakerfið og í hvaða tilgangi, annars vegar um einstaklinga (II., III. og IV. kafli) og hins vegar um hluti (V. kafli) og er upptalningin tæmandi. Þótt aðrar upplýsingar en um getur í köflunum verði ekki skráðar í upplýsingakerfið getur SIRENE-skrifstofunni eftir atvikum verið heimilt að koma þeim á framfæri með öðrum hætti, þá í formi viðbótarupplýsinga.

Um 7. gr.

    Ákvæðið fjallar um skráningu upplýsinga um einstaklinga í kerfið og byggist á 20.–23. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.
    Í 1. mgr. er tæmandi upptalning á hvaða upplýsingar um einstaklinga megi skrá í kerfið. Með einstaklingum er hér bæði átt við EES- og EFTA-borgara og ríkisborgara þriðja ríkis. Ákvæði 7. gr. á þó ekki við um skráningar ríkisborgara þriðja ríkis vegna ákvarðana um brottvísanir eða frávísanir og skráningar vegna synjunar um komu og dvöl en um slíkar skráningar gilda ákvæði III. og IV. kafla. Skv. a-lið 1. mgr. er heimilt að skrá kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti. Með fyrri nöfnum er átt við áður notuð nöfn einstaklingsins og með tökuheiti er átt við fölsk nöfn. Skilgreiningu á hryðjuverkasamtökum skv. i-lið 1. mgr. má finna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/541 um baráttu gegn hryðjuverkum.
    Í 2. mgr. 7. gr. er kveðið á um að skilyrði fyrir skráningu upplýsinga um einstakling í upplýsingakerfið er að mál sé til meðferðar hjá íslenskum yfirvöldum sem gefur tilefni til skráningar. Þessi athugun er á ábyrgð þess stjórnvalds sem óskar eftir skráningu hverju sinni, til dæmis saksóknara þegar óskað er eftir eftirlýsingu í upplýsingakerfinu til handtöku og afhendingar á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar. Þá skal einnig ganga úr skugga um að fullnægjandi grundvöllur sé til staðar fyrir hverri og einni skráningu og að skráningin sé til samræmis við ákvæði laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Með þessu er í raun átt við að stjórnvald skuli ekki óska eftir skráningu eða skrá í upplýsingakerfið án þess að fullnægjandi grundvöllur sé til staðar sbr. ákvæði frumvarpsins. Til dæmis verður einstaklingur ekki skráður í kerfið skv. 9. gr. nema til staðar sé handtökuskipun, útgefin af þar til bæru yfirvaldi samkvæmt lögum hér á landi. SIRENE-skrifstofan hefur einnig ákveðnu eftirlitshlutverki að gegna hér enda hefur hún umsjón með allri skráningu í kerfið. Þessar kröfur fyrir skráningu eru eðlilegur liður í persónuvernd einstaklinga og þær eiga einnig við þegar skráning er framlengd. Ef einstaklingur er eftirlýstur vegna hryðjuverka telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar. Í undantekningartilvikum, með vísan til almannaöryggis og allsherjarreglu, er þó heimilt að víkja frá skráningu ef líklegt þykir að skráning hindri eða hafi með öðrum hætti áhrif á rannsókn eða saksókn málsins.
    Til viðbótar verða að liggja fyrir nauðsynlegar lágmarksupplýsingar um einstakling, sbr. 3. mgr. Aðrar upplýsingar sem upptaldar eru í 1. mgr. skal skrá í kerfið ef þær liggja fyrir, þó verða upplýsingar um sérstök varanleg líkamleg einkenni einungis skráðar ef nauðsyn þykir til að bera kennsl á viðkomandi. Það er vegna persónuverndarsjónarmiða.
    Undanþága frá kröfu 3. mgr. um lágmarksupplýsingar má finna í 4. mgr., þ.e. þegar einstaklingur er óþekktur, en eftirlýstur á grundvelli fingrafaragagna sem hafa fundist á vettvangi hryðjuverka eða annarra alvarlegra afbrota sem eru til rannsóknar. Í slíkum tilvikum er heimilt að skrá einungis fingrafaragögn viðkomandi í kerfið, þá fyrst og fremst til auðkenningar finnist einstaklingur. Sterkur líkur verða þó að vera á því að fingrafaragögnin tilheyri þeim sem framdi brotið og að ekki sé hægt að staðfesta auðkenni viðkomandi með leit í innlendum eða alþjóðlegum gagnagrunnum, sbr. 15. gr. Með alvarlegu afbroti er átt við brot sem varðað getur að lögum fangelsi eða annarri frjálsræðissviptingu í a.m.k. þrjú ár. Sem dæmi getur alvarlegt afbrot verið gróft ofbeldisbrot, mansal eða alvarlegt fíkniefnalagabrot. Ýmis fleiri brot geta komið hér til greina án þess að þau verði nánar talin en meta verður í hverju tilviki fyrir sig hvort brot sé svo alvarlegt að skráning geti farið fram.
    Í 5. mgr. er kveðið á um þá meginreglu að einungis sé heimilt að skrá eina skráningu varðandi hvern og einn einstakling í kerfið og skal ganga úr skugga um að ekki sé til staðar skráning í kerfinu um sama einstakling áður en ný skráning er gerð. Í þeim tilgangi skal kanna fingrafaragögn ef þau liggja fyrir. Á þessu geta þó verið undantekningar. Ef talið er nauðsynlegt að bæta við nýrri skráningu varðandi sama einstakling í kerfið er það heimilt, svo lengi sem sú skráning er ekki ósamrýmanleg skráningu um viðkomandi einstakling sem þegar er í kerfinu. Sem dæmi má nefna skráningu um handtöku einstaklings og afhendingu hans og skráningu um upplýsingar um dvalarstað þess einstaklings. Ef ný skráning er hins vegar ósamrýmanleg þeirri sem þegar er í kerfinu ber SIRENE-skrifstofunni að hafa samráð við skráningarríki með skiptum á viðbótarupplýsingum, til að ná samkomulagi, t.d. um að eyða skráningu, áður en ný skráning fer fram, nema mikilvægir þjóðarhagsmunir séu í húfi, sbr. 6. mgr. ákvæðisins. Tvær ósamrýmanlegar skráningar mega þannig ekki vera um sama einstakling í upplýsingakerfinu. Ef ætlunin er sem dæmi að skrá einstakling til handtöku og afhendingar hér á landi en í ljós kemur að viðkomandi er skráður í kerfið vegna endurkomubanns, þarf að hafa samráð við skráningarríkið. Skráningar hafa misjafnan forgang eftir töflu sem SIRENE-skrifstofurnar vinna eftir. Að höfðu samráði skal þeirri skráningu sem hefur minni forgang alla jafna eytt úr kerfinu af skráningarríki, sem í þessu tilviki er skráningin vegna endurkomubanns, áður en ný skráning fer fram.
    Í 7. mgr. er fjallað um skráningu ríkisborgara þriðja ríkis sem nýtur réttarins til frjálsrar farar á Schengen-svæðinu, en það almenna skilyrði er sett að slík skráning skuli taka mið af réttindum hans skv. XI. kafla laga um útlendinga. Með kaflanum eru ákvæði tilskipunar 2004/38/EB um frjálsa för, nánar tiltekið um rétt EES- og EFTA-borgara og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á evrópska efnahagssvæðinu, innleidd.
    Loks kemur fram í 8. mgr. og 9. mgr. að um skráningu upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun gildi ákvæði III. kafla og um skráningu upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl gildi ákvæði IV. kafla. Rétt þykir að hafa ákvæði um skráningu þeirra í sérstökum köflum enda eru ákveðin skilyrði fyrir slíkum skráningum og tilgangurinn sá að tryggja framkvæmd slíkra ákvarðana og koma í veg fyrir misnotkun og endurkomu vegna þeirra.

Um 8. gr.

    Fjallað er um flöggun skráninga sem byggist á 24. og 25. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.
    Í 1. mgr. kemur fram að ef aðgerð sem grípa ber til á grundvelli skráningar skv. 9., 10. og 13. gr. er talin andstæð landslögum, alþjóðlegum skuldbindingum eða grundvallarþjóðarhagsmunum, má SIRENE-skrifstofan óska eftir því að flagg verði sett gagnvart viðkomandi skráningu í þeim tilgangi að aðgerð sem gripið verður til á grundvelli skráningar fari ekki fram á yfirráðasvæði Íslands. Þannig getur SIRENE-skrifstofan svo dæmi sé tekið óskað eftir að flagg verði sett gagnvart skráningu annars ríkis til handtöku og framsals ef íslensk stjórnvöld meta það svo að handtaka og framsal á umræddum einstaklingi myndi brjóta í bága við landslög. Með flagginu er skráning í raun gerð óvirk hér á landi og komið í veg fyrir að aðgerð, sem grípa á til vegna skráningar, í þessu tilviki handtaka og framsal, fari fram á íslensku yfirráðasvæði. Ef um er að ræða skráningu skv. 9. gr. getur skráningarríki þó, þrátt fyrir flöggun SIRENE-skrifstofu, óskað þess að upplýsinga verði aflað um dvalarstað viðkomandi einstaklings er skráning varðar. Þá er ekki aðhafst frekar á grundvelli skráningar en SIRENE-skrifstofan skal miðla upplýsingum um dvalarstað ef einstaklingur finnst á yfirráðasvæði hennar. Að sama skapi á grundvelli 24. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862 getur annað ríki óskað eftir að flagg verði sett gagnvart skráningu sem hefur skráð í kerfið hér á landi og getur SIRENE-skrifstofan hérlendis þá óskað eftir upplýsingum um dvalarstað viðkomandi. Í fleiri ákvæðum frumvarpsins felst gagnkvæmni um heimildir og skyldur yfirvalda.
    Þegar skráðar eru upplýsingar um einstakling skv. 9. gr. skal sjálfkrafa tilkynna um nýja skráningu með sendingu viðbótarupplýsinga til þess að gera Schengen-ríkjum kleift að óska eftir flöggun gagnvart slíkri skráningu, sbr. 2. mgr. Þannig fá ríkin upplýsingar um slíkar skráningar í rauntíma og hafa ráðrúm til að óska eftir flaggi, ef þau telja aðgerð sem grípa á til á grundvelli skráningar andstæða landslögum, alþjóðlegum skuldbindingum eða grundvallarþjóðarhagsmunum.
    Ef um er að ræða sérstaklega áríðandi og alvarlegt tilvik getur skráningarríkið, farið þess á leit við SIRENE-skrifstofuna, sem óskaði eftir flöggun skráningar, að hún dragi flagg til baka og aðgerð verði framkvæmd, sbr. 3. mgr. Ef SIRENE-skrifstofan sér það sér fært skal hún gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að unnt sé að framkvæma aðgerðina sem beðið var um án tafar.
    Ef um er að ræða skráningu til handtöku og afhendingar einstaklings til eða frá Íslandi á grundvelli handtökuskipunar og ríkissaksóknari hefur þegar synjað um framkvæmd á grundvelli skráningar vegna þess að fyrirliggjandi eru ástæður til synjunar samkvæmt lögum nr. 51/2016, skal SIRENE-skrifstofan fara fram á það við skráningarríki að setja flagg gagnvart skráningunni. Skv. 4. mgr. verður skráningin enda ekki framkvæmd vegna fyrirliggjandi synjunar ríkissaksóknara. Lög nr. 51/2016 kveða á um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar. SIRENE-skrifstofan getur einnig farið fram á að flaggi verði bætt við skráninguna ef viðkomandi einstaklingur, sem skráningin varðar, er látinn laus af hálfu lögreglu eða dómsmálayfirvalda í afhendingarferlinu.
    Að fyrirmælum ríkissaksóknara getur SIRENE-skrifstofan þó einnig krafist þess, annaðhvort á grundvelli almennra fyrirmæla eða í einstöku tilviki, að skráningarríkið bæti flaggi við skráningu vegna handtöku með afhendingu í huga ef augljóst er að synja verður um framkvæmd evrópsku handtökuskipunarinnar, sbr. 5. mgr. Í 9. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar er að finna skyldubundnar synjunarástæður um afhendingu á eftirlýstum manni og má sem dæmi nefna að synja yrði um afhendingu einstaklings ef hann getur ekki vegna aldurs borið refsiábyrgð vegna verknaðarins hér á landi.

Um 9. gr.

    Lögð er til heimild til að skrá upplýsingar um einstakling í upplýsingakerfið vegna eftirlýsingar viðkomandi til handtöku og afhendingar eða framsals. Greininni er ætlað að innleiða 26.–30. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.
    Samkvæmt 1. mgr. skulu slíkar skráningar einungis gerðar á grundvelli beiðni lögreglu, nema um sé að ræða evrópska eða norræna handtökuskipun en um slíkar handtökuskipanir gilda lög um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að skráningu til eftirlýsingar til handtöku og afhendingar skuli fylgja afrit af upphaflegri handtökuskipun, einni eða fleiri. Það athugast að hér er ekki átt við alþjóðlegar handtökuskipanir til handtöku og framsals, einungis evrópskar eða norrænar handtökuskipanir til handtöku og afhendingar. Öðrum upplýsingum sem tengjast evrópskri eða norrænni handtökuskipun, sbr. lög nr. 51/2016, skal SIRENE-skrifstofan miðla sem viðbótarupplýsingum.
    Í 3. mgr. er heimild til handa SIRENE-skrifstofunni, í tengslum við yfirstandandi aðgerð, að gera skráningu vegna eftirlýsingar til handtöku og afhendingar tímabundið óaðgengilega ábyrgum yfirvöldum í öðrum löndum sem taka þátt í aðgerðinni. Hér skal tekið fram að SIRENE-skrifstofan getur einungis gert eigin skráningu óaðgengilega, ekki skráningu annarra ríkja, nema hún óski sérstaklega eftir því. Heimildin á við að þremur skilyrðum uppfylltum. Í fyrsta lagi ef tilgangi aðgerðar verður ekki náð með öðrum hætti en að gera skráningu tímabundið óaðgengilega. Í öðru lagi ef samþykkis um að gera skráningu tímabundið óaðgengilega hefur verið aflað fyrir fram frá ríkissaksóknara hér á landi og í þriðja lagi ef öllum þátttökuríkjum í aðgerðinni hefur verið tilkynnt um ákvörðunina um að gera skráninguna tímabundið óaðgengilega, en slík tilkynning er send í formi viðbótarupplýsinga. Skráning gæti sem dæmi verið gerð tímabundið óaðgengileg vegna rannsóknarhagsmuna.
    Samkvæmt 4. mgr. má skráning að jafnaði ekki vera óaðgengileg lengur en í 48 klukkustundir. Ef nauðsyn þykir er þó heimilt að framlengja þann tíma um aðrar 48 klukkustundir.
    Í 5. mgr. er heimild til að skrá ákveðna hluti í kerfið og tengja við skráningu um einstakling vegna eftirlýsingar til handtöku og afhendingar eða framsals, til að finna einstakling, ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi. Hlutirnir sem um getur eru taldir upp í 36. gr. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.
    Í 6. mgr. er kveðið á um upplýsingar sem miðlað skal til annarra Schengen-ríkja í formi viðbótarupplýsinga í tengslum við skráningu vegna eftirlýsingar til handtöku og framsals. Nánar tiltekið skal miðla upplýsingum um yfirvald sem gaf út beiðni um handtöku, hvort fyrir liggur handtökuskipun eða fullnustuhæfur dómur um afplánun fangelsisrefsingar, eðli og heimfærsla afbrots til refsilaga, lýsing á málsatvikum, þar á meðal staður, stund og hlutur viðkomandi í afbrotinu, afleiðingar afbrots eins og mögulegt er og allar aðrar gagnlegar eða nauðsynlegar upplýsingar til að geta gripið til aðgerða á grundvelli skráningar.
    Þegar handtaka eftirlýsts einstaklings til afhendingar eða framsals getur ekki farið fram hér á landi, annaðhvort vegna ástæðna sem greinir í 8. gr. um flöggun eða vegna þess að rannsókn máls er ekki lokið, ber SIRENE-skrifstofunni að miðla upplýsingum um dvalarstað viðkomandi, sbr. 7. mgr. ákvæðisins.

Um 10. gr.

    Í 10. gr. er fjallað um skráningar um horfna einstaklinga eða viðkvæma einstaklinga sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist og er ákvæðið byggt á 32. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862. Í gildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið er heimild til að skrá upplýsingar um horfna einstaklinga, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr., en í frumvarpi þessu er nýmæli að skrá megi upplýsingar um viðkvæma einstaklinga sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist.
    Í 1. mgr. er heimild til skráningar upplýsinga um horfna einstaklinga, á grundvelli ákvörðunar þar til bærra yfirvalda, t.d. ákvörðunar lögreglu, saksóknara eða dómara.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild til að skrá upplýsingar um horfna einstaklinga sem þarf að vernda vegna eigin öryggis eða annarra. Upplýsingar verða einungis skráðar á grundvelli ákvörðunar þar til bærra yfirvalda, t.d. lögreglu, saksóknara eða dómara. Ákvæði 2. mgr. á einkum við um börn eða einstaklinga sem þarf að tryggja vernd með viðeigandi úrræðum.
    Í 3. mgr. er að finna heimild til skráningar upplýsinga um börn og viðkvæma einstaklinga sem koma þarf í veg fyrir að ferðist. Slíkar upplýsingar verða einungis skráðar á grundvelli ákvörðunar þar til bærra yfirvalda, t.d. lögreglu, saksóknara, dómara, sýslumanns eða barnaverndaryfirvalda og einungis í þeim tilvikum sem a–c-liður 3. mgr. greinir. Nánar tiltekið ef um er að ræða börn sem eiga á hættu að vera numin á brott af foreldri, fjölskyldumeðlim eða forráðamanni, börn sem eru í augljósri hættu á að vera numin á brott eða fari frá landinu og verði fórnarlömb mansals, þvinguð í hjónaband, fórnarlömb limlestingar á kynfærum kvenna eða annars konar kynbundins ofbeldis, verði fórnarlömb eða þátttakendur í hryðjuverkum, aðilar að vopnuðum átökum eða þátttakendur í fjandsamlegum aðgerðum eða viðkvæma einstaklinga sem náð hafa lögaldri, vegna eigin öryggis og vegna raunverulegrar og augljósrar hættu á að viðkomandi verði numinn á brott eða fari frá landinu og verði fórnarlamb mansals eða kynbundins ofbeldis. Einungis ætti að færa inn skráningar í kerfið um börn, sem eiga það á hættu að vera numin á brott af foreldri, ef hættan á því er raunveruleg og við afmarkaðar aðstæður. Við mat á því hvort fyrir hendi sé raunveruleg og yfirvofandi hætta á að barn kunni að verða flutt af landinu með ólögmætum hætti skal hafa hliðsjón af persónulegum aðstæðum barnsins. Þá skal líta á einstaklinga sem þurfa á vernd að halda m.a. vegna aldurs, fötlunar eða fjölskylduaðstæðna, sem einstaklinga í viðkvæmri stöðu.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að við skráningu í kerfið skv. 1.–3. mgr. þurfi að koma skýrt fram á hvaða grundvelli skráning er gerð, sbr. q-lið 1. mgr. 7. gr. Þannig þarf að koma fram hvort grundvöllur skráningar um horfinn einstakling er skv. 1. eða 2. mgr. og þá þarf að koma fram á grundvelli hvaða stafliðs 3. mgr. skráning er gerð.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að skráningu skv. 3. mgr. beri að yfirfara reglulega og endurmeta þörfina á að halda upplýsingunum í kerfinu en um vistunartíma og endurmat skráninga er fjallað í 45. gr. Þetta þykir rétt að taka sérstaklega fram í 5. mgr. 10. gr. enda almennt um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða fyrir einstaklinga í viðkvæmri stöðu.
    Í 6. mgr. er heimild til að skrá ákveðna hluti og tengja við skráningu um einstakling skv. 1.–3. mgr., að því gefnu að skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi. Hlutirnir sem um getur eru taldir upp í 36. gr. Heimild til skráningar hluta í þessu skyni getur reynst mikilvæg til að finna einstakling. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.

Um 11. gr.

    Lagðar eru til heimilar aðgerðir á grundvelli skráningar skv. 10. gr., nánar tiltekið skráningar um horfna eða viðkvæma einstaklinga sem þarf að koma í veg fyrir að ferðist. Ákvæðið byggist á 33. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.
    Í 1. mgr. er lagt til að ef einstaklingur sem skráður hefur verið í kerfið á grundvelli 10. gr. er staðsettur hér á landi beri að miðla upplýsingum um viðkomandi til skráningarríkisins. Upplýsingum um staðsetningu verður ekki miðlað til annarra en þar til bærra yfirvalda án samþykkis viðkomandi ef hann er skráður horfinn í kerfinu og hefur náð 18 ára aldri. Í slíkum tilvikum er þó heimilt að greina þeim sem tilkynnti hvarfið frá því að skráningu hafi verið eytt vegna þess að viðkomandi hafi fundist. Hér skal tekið fram að SIRENE-skrifstofan hér á landi getur ekki eytt skráningu annars ríkis, meginreglan er sú að einungis skráningarríki getur eytt skráningu, sbr. 2. mgr. 50. gr.
    Í 2. mgr. er fjallað um ef einstaklingur finnst hér á landi sem er skráður í kerfið skv. 2. eða 3. mgr. 10. gr. og þarf að vernda. Í slíkum tilvikum skal hafa samráð við þar til bær yfirvöld hér á landi og í ríkinu sem skráði viðkomandi í kerfið til að ákvarða til hvaða aðgerða verður gripið. Samráð skal haft með miðlun viðbótarupplýsinga SIRENE-skrifstofa í ríkjunum sem hlut eiga að máli. Til samræmis við gildandi lög hér á landi er þó heimilt að færa viðkomandi á öruggan stað til að koma í veg fyrir að hann ferðist, til dæmis í úrræði á grundvelli barnaverndarlaga þegar um börn er að ræða.
    Sé um að ræða barn undir 18 ára aldri skal ávallt hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ákvarðanir um aðgerðir er varða barn skulu teknar í samráði við barnaverndaryfirvöld og innan 12 klukkustunda frá því barnið var staðsett, sbr. 3. mgr.

Um 12. gr.

    Fjallað er um skráningu um einstaklinga vegna rannsóknar og meðferðar sakamáls. Ákvæðið er byggt á 34. og 35. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.
    Samkvæmt 1. mgr. er heimilt að skrá upplýsingar um einstaklinga í Schengen-upplýsingakerfið vegna eftirgrennslanar um búsetu eða dvalarstað viðkomandi sem vitnis, sakbornings sem hefur verið ákærður og færa þarf fyrir dóm, sakbornings sem birta á dóm í sakamáli eða önnur skjöl í tengslum við meðferð sakamáls til að svara fyrir verknaði sem viðkomandi er ákærður fyrir eða einstaklings sem boða á til afplánunar fangelsisrefsingar. Skráning vitnis í kerfið er heimil við rannsókn máls sem og á dómstigi og er málsgreinin að mestu leyti samhljóða núgildandi d-lið 1. mgr. 6. gr. laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.
    Í 2. mgr. er heimild til að skrá og tengja hluti við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1. mgr., til að finna einstaklinginn, ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi. Hlutirnir sem um getur eru taldir upp í 36. gr. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að upplýsingar sem óskað er eftir á grundvelli 1. mgr. skuli veittar skráningarríki, sem um þær biður, með miðlun viðbótarupplýsinga.

Um 13. gr.

    Lögð er til heimild til að skrá upplýsingar um einstaklinga í kerfið til að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn á viðkomandi sbr. 14. gr. Greinin er byggð á 36. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862 og er mun ítarlegri en gildandi 7. gr. laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi um þær upplýsingar sem heimilt er að skrá. Nánari útskýringar á hvað átt er við með eftirliti með leynd, beinum afskiptum, leit eða líkamsrannsókn er að finna í skýringum við 14. gr. Eftirlit með leynd, leit og líkamsrannsókn er heimil samkvæmt gildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að skrá upplýsingar um einstakling í upplýsingakerfið í þeim tilgangi að höfð séu af honum bein afskipti, einkum til að afla upplýsinga sem skráningarríki er sérstaklega að leita að.
    Upplýsingar um einstaklinga til að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn, verða þó einungis skráðar í kerfið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, koma upp um, rannsaka eða sækja til saka fyrir refsiverð brot, framfylgja ákvörðun um refsingu og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi í einum eða fleiri þeim aðstæðum sem upptaldar eru í a–c-lið 1. mgr.
    Í a-lið 1. mgr. er fjallað um aðstæður þegar skýr vísbending er um að viðkomandi fremji eða muni fremja einhver þau brot sem um getur í 3. mgr. 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016. Sem dæmi um brot sem þar eru talin upp má nefna hryðjuverk, alvarleg ofbeldisbrot, mansal, fjárkúgun, kynferðislega misnotkun barna og barnaklám. Ekki er um tæmandi talningu að ræða. Í 1. og 2. mgr. 2. gr. rammaákvörðunar ráðs Evrópusambandsins 2002/584/DIM frá 13. júní 2002 um evrópsku handtökuskipunina er að finna sömu upptalningu á brotum og í fyrrgreindri 3. mgr. 8. gr. Ísland samdi um aðild að evrópsku handtökuskipuninni með samningi árið 2006 sem hér á landi gildir sem lög nr. 51/2016.
    Í b-lið 1. mgr. er fjallað um aðstæður þegar skráðar upplýsingar um viðkomandi eru nauðsynlegar til þess að framfylgja úrskurði um refsivist eða öryggisráðstöfun gagnvart einstaklingi sem sakfelldur hefur verið fyrir einhver þau brot sem um getur í 3. mgr. 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016.
    Loks er í c-lið 1. mgr. fjallað um aðstæður þegar heildarmat á viðkomandi, einkum á grundvelli fyrri refsiverðra brota, gefur ástæðu til að ætla að viðkomandi muni fremja þau brot sem um getur í 3. mgr. 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016. Þetta þýðir með öðrum orðum að upplýsingar um einstakling verða aðeins skráðar ef um alvarlegt tilvik er að ræða og grunur um að hann muni fremja afbrot studdur haldgóðum rökum. Til að tryggja samræmi skráninga í upplýsingakerfið setur ríkislögreglustjóri viðmið um hvenær skuli skrá einstaklinga í upplýsingakerfið samkvæmt framangreindu.
    Samkvæmt 2. mgr. er í þágu þjóðaröryggis heimilt að skrá upplýsingar um einstaklinga í kerfið til að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn, sbr. 14. gr., að beiðni yfirvalda sem bera ábyrgð á þjóðaröryggi Íslands, sem á Íslandi er lögregla, þegar ótvíræð vísbending er um að skráning sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir að alvarleg ógn stafi af viðkomandi eða til þess að koma í veg fyrir alvarlegar ógnir við innra eða ytra þjóðaröryggi. Tilkynna ber öðrum Schengen-ríkjum um skráninguna.
    Loks er í 3. mgr. heimild til að skrá og tengja hluti, sem um getur í 35. gr., við skráningu um einstakling í kerfinu skv. 1. og 2. mgr. ef skýr vísbending er um að hlutirnir tengist viðkomandi eða þeim tilvikum sem um ræðir í a-c-lið. Um tengingu skráningar fer eftir 40. gr.

Um 14. gr.

    Lagðar eru til heimilar aðgerðir á grundvelli skráninga um einstaklinga skv. 13. gr. Ákvæðið byggist á 37. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.
    Í 1. mgr. er kveðið á um hvaða upplýsingum skuli safna og miðla með viðbótarupplýsingum, eftir því sem unnt er, í þeim tilgangi að bregðast við skráningu vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta af einstaklingi, leit eða líkamsrannsóknar, nánar tiltekið upptalning í stafliðum a–h. Með hlutum skv. 3. mgr. 13. gr. sem kveðið er á um í a-lið 1. mgr. er átt við vélknúin ökutæki, eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, báta, gáma, loftför, skotvopn, óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða eru fölsuð, útgefin persónuskilríki, sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið, verið ógilt eða eru fölsuð og aðrir greiðslumiðlar en reiðufé.
    Í 2. mgr. er heimild til að óska frekari upplýsinga en þeirra sem greinir í 1. mgr., þó með þeim fyrirvara að persónuupplýsingar má einungis fara fram á þegar nauðsyn krefur vegna viðkomandi skráningar og þess afbrots sem er grundvöllur skráningar. Vinnsla persónuupplýsinga skal ávallt vera samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
    Í 3. mgr. kemur fram að um skráningu upplýsinga skv. 1. og 2. mgr. fari samkvæmt íslenskum lögum, þ.e. lögreglan á Íslandi framkvæmir eftirlit með leynd, bein afskipti, leit og líkamsrannsókn og fari við öll störf sín eftir landslögum. Aðrir geta einnig farið með lögregluvald í ákveðnum afmörkuðum tilvikum skv. 9. gr. lögreglulaga, nr. 19/1996, t.d. tollverðir. Rétt er að taka fram að með skráningu í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. 13. gr. er ekki verið að óska eftir rannsókn eða eiginlegu eftirliti annars ríkis með viðkomandi einstaklingi, heldur beiðni um upplýsingaöflun um viðkomandi einstakling, séu höfð af honum afskipti. Upplýsingaöflun getur reynst skráningarríkinu mikilvæg, t.d. upplýsingar um hvaðan einstaklingur hefur ferðast eða hvort hann sé í slagtogi við ákveðinn aðila eða glæpasamtök. Upplýsingar um að höfð hafi verið afskipti af einstaklingi en ekkert hafi bent til framangreinds geta einnig verið mikilvægar fyrir skráningarríki. Lögregla getur þó aldrei gengið lengra í upplýsingaöflun en landslög heimila. Þannig heimilar skráning skv. 1. mgr. 13. gr. ekki sjálfkrafa aðgerðir á grundvelli skráningar. Sem dæmi getur skráning í upplýsingakerfið um leit ekki sjálfkrafa falið í sér að leita skuli á einstaklingi eða í ökutæki hans, heldur einungis að uppfylltum skilyrðum gildandi laga, einkum sakamálalaga og tollalaga. Lögreglu er heldur ekki heimilt að yfirheyra einstakling nema hann sé með stöðu sakbornings og að öðrum ákvæðum sakamálalaga uppfylltum. Lögreglu er hins vegar heimilt að spyrja einstakling ákveðinna spurninga, t.d. á grundvelli lögreglulaga og laga um útlendinga og afla þannig tiltekinna upplýsinga frá honum. Neiti einstaklingur hins vegar að svara almennum spurningum lögreglu sem honum er ekki skylt að svara samkvæmt gildandi lögum, þá situr þar við nema lög heimili annað.
    Í 4.–6. mgr. er að finna nánari útskýringu á framkvæmd eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar og líkamsrannsóknar. Í 4. mgr. er fjallað um eftirlit með leynd, sem felst í upplýsingasöfnun án þess að einstaklingur verði þess var. Við framkvæmd slíks eftirlits ber að afla allra gagna sem unnt er að afla við venjubundna starfsemi lögreglu og upptalin eru í 1. mgr., þó einungis þannig að eftirlitið haldist með leynd og viðkomandi verði ekki var við það. Þannig er ekki um eiginlegt eftirlit lögreglu að ræða með einstaklingi heldur upplýsingaöflun við venjubundna starfsemi lögreglu, svo sem við umferðareftirlit. Við eftirlit með leynd er lögreglu því ekki óheimilt með öllu að hafa afskipti af einstaklingi, viðkomandi getur til að mynda sætt umferðareftirliti lögreglu, en þó einungis þannig að viðkomandi verði ekki var við raunverulegan tilgang afskiptanna. Um framkvæmd eftirlits með leynd fer að öðru leyti eftir gildandi lögum, svo sem lögreglulögum.
    Í 5. mgr. er fjallað um þegar hafa á bein afskipti af einstaklingi. Bein afskipti lögreglu skulu fela í sér öflun upplýsinga eða að beint sé ákveðnum spurningum til viðkomandi sem tengdar eru skráningu ríkis í upplýsingakerfið, sbr. 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Með framangreindu er almennt verið að afla upplýsinga sem skráningarríkið hefur sérstaklega óskað eftir, t.d. upplýsingar um einhver sjáanleg einkenni á viðkomandi, svo sem húðflúr eða augljós tengsl við glæpasamtök en einnig um þau atriði sem talin eru upp í 1. mgr. ákvæðisins, svo sem um stað og tímasetningu afskipta eða upplýsingar um ökutæki viðkomandi. Rétt er að taka fram að hér er ekki verið að auka við heimildir lögreglu til afskipta af borgurum, heldur getur lögregla einungis beitt núgildandi lagaheimildum í þessu skyni, svo sem lögreglulögum, tollalögum, lögum um útlendinga og sakamálalögum. Landslög gilda því um upplýsingaöflun lögreglu á grundvelli 5. mgr.
    Í 6. mgr. er fjallað um leit og líkamsrannsókn. Með leit er einnig átt við líkamsleit. Þar kemur fram að heimilt er að leita á einstaklingum, í ökutækjum, bátum, loftförum, gámum og hlutum sem viðkomandi er með meðferðis við framkvæmd leitar. Um leit fer eftir gildandi landslögum, einkum sakamálalögum og tollalögum. Um líkamsrannsókn fer einnig eftir gildandi lögum, en hún felst í skoðun eða rannsókn sem beinist að líkama manna og þá oftast að einstökum líkamshlutum þeirra. Þannig er heimilt að framkvæma leit eða líkamsrannsókn á viðkomandi til að afla upplýsinga, þó einungis að hún sé í samræmi við tilefni afskiptanna. Hér er því ekki verið að auka við heimildir lögreglu til að framkvæma leit eða líkamsrannsókn á einstaklingum, heldur getur hún aðeins farið fram að uppfylltum skilyrðum gildandi laga. Ef leit eða líkamsrannsókn er ekki heimil samkvæmt landslögum skal aðhafast á grundvelli beinna afskipta af einstaklingi, ef þau eru ekki heimil samkvæmt landslögum skal eftirlit með leynd framkvæmt.

Um 15. gr.

    Ákvæðið, sem er nýmæli, kveður á um skráningu um óþekkta einstaklinga sem lýst er eftir í þeim tilgangi að bera kennsl á þá. Einstaklingarnir eru óþekktir en eftirlýstir á grundvelli fingrafaragagna sem liggja fyrir og heimilar ákvæðið skráningu þeirra, til að bera kennsl á viðkomandi einstakling, ef fingraförin eða lófaförin fundust á vettvangi hryðjuverks eða annars alvarlegs afbrots sem er til rannsóknar. Þetta á einkum við þegar fingrafaragögn finnast á vopni eða öðrum hlut sem var notaður við framkvæmd brotsins. Skráning slíkra fingra- eða lófafara skal þó einungis fara fram ef sterkar líkur eru á að þau tilheyri þeim sem framdi brotið og ekki er hægt að staðfesta auðkenni viðkomandi með leit í innlendum og alþjóðlegum gagnagrunnum, sbr. 40. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862. Það að fingrafaragögn finnist á vettvangi brots ætti þó ekki eitt og sér að teljast sterkar líkur fyrir því að þau tilheyri brotamanni. Með alvarlegu afbroti er átt við brot sem varðað getur að lögum fangelsi eða annarri frjálsræðissviptingu í a.m.k. þrjú ár. Sem dæmi geta alvarleg brot verið gróf ofbeldisbrot, mansal eða alvarleg fíkniefnalagabrot, en ýmis fleiri geta komið hér til greina án þess að þau verði nánar talin. Mat á því þarf að fara fram í hverju tilviki fyrir sig.

Um 16. gr.

    Lagðar eru til heimilar aðgerðir á grundvelli smells vegna skráningar skv. 15. gr. Fáist smellur skal auðkenni viðkomandi staðfest til samræmis við lög um meðferð sakamála. SIRENE-skrifstofan skal í kjölfarið miðla upplýsingum um auðkenni og dvalarstað viðkomandi til ríkisins sem skráði fingrafaragögnin í upplýsingakerfið með viðbótarupplýsingum. Greinin er byggð á 41. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.

Um 17. gr.

    Lagt er til hvernig greina eigi á milli tveggja einstaklinga sem svara til sömu lýsingar í upplýsingakerfinu. Sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi lögum.
    Komi í ljós við nýja skráningu um einstakling í kerfið að þegar er til staðar skráning um einstakling sem svarar til sömu lýsingar og sá sem verið er að skrá í kerfið, og ekki er hægt að staðfesta hvort um sama einstakling er að ræða í báðum tilvikum, skal SIRENE-skrifstofan, með miðlun viðbótarupplýsinga, hafa samband við hitt skráningarríkið innan 12 klukkustunda til að sannreyna hvort um er að ræða tvær skráningar vegna sama einstaklings, sbr. 1. mgr. Tímafresturinn er til samræmis við 46. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 61. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862, sem kveða skýrt á um að hafa verður samband við hitt skráningarríkið innan 12 klukkustunda.
    Í 2. mgr. kemur fram að ef niðurstaða er sú eftir athugun skv. 1. mgr. að um sama einstakling er að ræða í báðum tilvikum skal beita málsmeðferð skv. 6. mgr. 7. gr. Leiði athugun skv. 1. mgr. í ljós að um tvo mismunandi einstaklinga er að ræða skal bæta við skráningu nauðsynlegum upplýsingum til að forðast það að röng kennsl séu borin á einstakling.
    Ákvæði 17. gr. á einnig við um skráningar skv. III. og IV. kafla.

Um 18. gr.

    Í 18. gr. er fjallað um viðbótargögn til að takast á við misnotkun auðkenna og byggist greinin á 47 gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 62. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.
    Í 1. mgr. kemur fram að sé hætta á að upp geti komið ruglingur vegna einstaklings sem skráður er í kerfið og annars einstaklings sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað, má samkvæmt samþykki þess síðarnefnda bæta upplýsingum um viðkomandi við skráningu til að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar þeirra misnotkunar. Einstaklingi sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað er ávallt heimilt að afturkalla samþykki sitt varðandi vinnslu persónuupplýsinga sinna.
    Í 2. mgr. er tæmandi upptalning á þeim tilvikum er nota má upplýsingar um einstakling sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað. Annars vegar til að greina á milli þess einstaklings sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað og annars sem skráður er í upplýsingakerfið og hins vegar til að gera einstaklingi sem hefur orðið fyrir því að auðkenni hans var misnotað kleift að sanna á sér deili og að auðkenni viðkomandi hafi verið misnotað.
    Í a–j-lið 3. mgr. eru svo taldar upp þær upplýsingar sem skrá má í kerfið um einstaklinga sem hafa orðið fyrir því að auðkenni þeirra var misnotað, að fengnu samþykki viðkomandi. Með samþykki í 1. og 3. mgr. er átt við samþykki samkvæmt skilgreiningu persónuverndarlaga, nánar tiltekið óþvinguð, sértæk, upplýst og ótvíræð viljayfirlýsing viðkomandi um að hann samþykki, með yfirlýsingu eða ótvíræðri staðfestingu, að upplýsingum verði bætt við skráningu í upplýsingakerfinu til að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar misnotkunar auðkennis.
    Ákvæði 18. gr. á einnig við um skráningar skv. III. og IV. kafla.

Um III. kafla.

    Í III. kafla er kveðið á um skráningu vegna ákvarðana um brottvísun og frávísun ríkisborgara þriðja ríkis í upplýsingakerfið. Um er að ræða nýjung í lögum um Schengen-upplýsingakerfið en hingað til hefur verið valkvætt fyrir ríki að skrá slíkar upplýsingar í kerfið. Með stórauknum straumi flóttamanna og ólögmætum fólksflutningum til Evrópu undanfarin ár jókst þörfin á aðgerðum til að auka öryggi Schengen-svæðisins í heild. Skyldubundin skráning allra Schengen-ríkjanna um ríkisborgara þriðju ríkja sem ákvörðun hefur verið tekin um að brottvísa eða frávísa vegna ólögmætrar dvalar á Schengen-svæðinu er liður í þessum aðgerðum. Ákvörðun sem tekin er af einu Schengen-ríki gildir raunar á svæðinu öllu. Hins vegar er afar erfitt að framfylgja slíkri ákvörðun utan lögsögu hvers og eins ríkis, nema öll þátttökuríkin hafi aðgang að upplýsingum annarra ríkja um einstaklinga sem sæta slíkri ákvörðun. Með skyldubundinni skráningu í upplýsingakerfið vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun verður yfirsýnin möguleg og framfylgd ákvarðana einfaldari og skilvirkari.
    Æskilegast væri að búa þannig um hnútana tæknilega að þegar Útlendingastofnun tekur ákvörðun um að vísa ríkisborgara þriðja ríkis úr landi og skráir slíka ákvörðun í útlendingakerfið Erlend, muni um leið nauðsynlegar upplýsingar sjálfkrafa vera skráðar í Schengen-upplýsingakerfið. Þannig yrði komið í veg fyrir tvíverknað og misræmi milli skráninga í mismunandi kerfum. Ríkislögreglustjóri hefur þó ávallt umsjón með skráningum líkt og 3. gr. kveður á um og þá fer um vinnslu persónuupplýsinga og persónuvernd eftir IX. kafla.
    Í III. kafla er einnig kveðið á um samráð sem skal fara fram þegar ríkisborgara þriðja ríkis hefur verið veitt eða kann að hafa verið veitt dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun í aðildarríki en annað aðildarríki hyggst skrá eða hefur skráð upplýsingar vegna brottvísunar eða frávísunar þess einstaklings í upplýsingakerfið, sem felur í sér að viðkomandi eigi að yfirgefa Schengen-svæðið. Samráð á að koma í veg fyrir óvissu sem getur skapast við slíkar aðstæður.
    Ákvæði III. kafla eru byggð á reglugerð (ESB) 2018/1860 um notkun Schengen-upplýsingakerfisins við endursendingu ríkisborgara þriðja ríkis sem dvelur ólöglega á Schengen-svæðinu, þ.e. við brottvísun og frávísun. Um endursendingu ríkisborgara þriðja ríkis sem dvelur ólöglega í aðildarríkjunum er fjallað í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB.

Um 19. gr.

    Ákvæðið er byggt á 3. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860 og fjallar um skyldu Schengen-ríkja til að skrá upplýsingar um ríkisborgara þriðja ríkis í upplýsingakerfið ef ákvörðun hefur verið tekin um brottvísun eða frávísun hans.
    Í 1. mgr. 19. gr. er kveðið á um skyldu Schengen-ríkja til að skrá í upplýsingakerfið upplýsingar um ríkisborgara þriðja ríkis sem sætt hefur ákvörðun um brottvísun eða frávísun til að tryggja framfylgd slíkra ákvarðana. Hingað til hefur skráning upplýsinga í kerfið á þeim grundvelli verið valkvæð en það hefur leitt til erfiðrar eftirfylgni og lélegrar yfirsýnar meðal Schengen-ríkjanna um framkvæmd slíkra ákvarðana. Skráning skal fara fram án tafar eftir töku ákvörðunar. Rétt er að taka fram að almennt verður skráning vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ekki skráð í upplýsingakerfið fyrr en eftir að ákvörðun hefur verið birt aðila máls, nema það sé augljóslega óþarft, enda miðast upphafstími réttaráhrifa stjórnvaldsákvörðunar við það þegar ákvörðun er komin til aðila, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar er tilgangurinn með skráningum samkvæmt ákvæði þessu að tryggja að einstaklingar sem hafa ekki heimild til dvalar á Schengen-svæðinu yfirgefi svæðið, enda eiga þeir ekki að geta komið sér undan slíkri ákvörðun.
    Í 2. mgr. er að finna heimildir til undanþágu frá 1. mgr., annars vegar ef viðkomandi ríkisborgari þriðja ríkis er í haldi og bíður framkvæmdar ákvörðunar sem skráð er í kerfið skv. 1. mgr., en sé viðkomandi sleppt án framkvæmdar skal skrá upplýsingar án tafar í upplýsingakerfið, sbr. a-lið 2. mgr. Hins vegar má víkja frá skyldu til skráningar skv. 1. mgr. ef ákvörðun um brottvísun eða frávísun er tekin á ytri landamærum og kemur þegar til framkvæmda, sbr. b-lið 2. mgr. Í framangreindum tilvikum eru taldar litlar líkur á því að einstaklingur komi sér undan ákvörðun.
    Í þeim tilvikum þegar frestur er veittur fyrir ríkisborgara þriðja ríkis til sjálfviljugrar brottfarar í tengslum við ákvörðun um brottvísun eða frávísun skal fresturinn skráður í upplýsingakerfið þegar í stað. Hvers konar framlenging á frestinum skal einnig skráð í kerfið án tafar, sbr. 3. mgr. Skráning á þessum upplýsingum á að koma í veg fyrir að skráning vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun í upplýsingakerfið hafi áhrif á rétt viðkomandi til sjálfviljugrar brottfarar.
    Loks kemur fram í 4. mgr. að allar upplýsingar um frestun réttaráhrifa eða frestun framkvæmdar ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, þar á meðal nýting kæruleiða, skuli skráðar í upplýsingakerfið í tengslum við skráningu skv. 1. mgr.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er byggt á 4. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860.
    Í a–v-lið 1. mgr. 20. gr. er upptalið hvaða upplýsingar um ríkisborgara þriðja ríkis má skrá í kerfið vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun sem skráð hefur verið í kerfið skv. 19. gr. og er upptalningin tæmandi. Skv. a-lið 1. mgr. er heimilt að skrá kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti. Með fyrri nöfnum er átt við áður notuð nöfn einstaklingsins og með tökuheiti er átt við fölsk nöfn. Skilgreiningu á hryðjuverkasamtökum skv. h-lið 1. mgr. má finna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/541 um baráttu gegn hryðjuverkum.
    Í 2. mgr. eru almenn skilyrði fyrir skráningu einstaklings í upplýsingakerfið vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, nánar tiltekið skal, áður en skráning skv. 1. mgr. í upplýsingakerfið fer fram, ákvarða hvort grundvöllur skráningar er fullnægjandi og til samræmis við ákvæði laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Hið sama á við þegar skráning er framlengd. Ef grundvöllur ákvörðunar er tengd hryðjuverkum telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar. Í undantekningartilvikum, með vísan til almannaöryggis eða allsherjarreglu er þó heimilt að víkja frá skráningu ef líklegt þykir að skráning hindri eða hafi með öðrum hætti áhrif á rannsókn eða saksókn málsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um þær lágmarksupplýsingar sem verða að liggja til grundvallar skráningu skv. 1. mgr., nánar tiltekið nafn, fæðingardagur og fæðingarár, ástæða fyrir skráningu, tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar, aðgerðir sem farið er fram á, síðasti dagur til sjálfviljugrar brottfarar þar sem við á og hvort ákvörðun fylgir endurkomubann. Aðrar upplýsingar sem taldar eru upp í 1. mgr. skal skrá í kerfið, ef þær liggja fyrir, þá sérstaklega ljósmyndir, andlitsmyndir, fingrafaragögn og upplýsingar um persónuskilríki viðkomandi. Með notkun ljósmynda, andlitsmynda og fingrafaragagna er hægt að bera kennsl á einstakling á áreiðanlegan hátt og ætti því ávallt að bæta þeim við skráningu ef mögulegt er.
    Áður en upplýsingar um einstakling eru skráðar í kerfið skv. 1. mgr. skal ganga úr skugga um að ekki sé þegar til staðar skráning í kerfinu varðandi sama einstakling. Í þeim tilgangi skal kanna fingrafaragögn ef þau liggja fyrir, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.
    Loks kemur fram í 5. mgr. að einungis er heimilt að skrá eina skráningu varðandi hvern einstakling í kerfið. Heimilt er þó, þegar nauðsyn þykir, að bæta við nýrri skráningu varðandi sama einstakling, svo lengi sem sú skráning er ekki ósamrýmanleg skráningu um viðkomandi einstakling sem þegar er í kerfinu. Sé ný skráning ósamrýmanleg þeirri sem þegar er í kerfinu ber SIRENE-skrifstofunni að hafa samráð við skráningarríki með skiptum á viðbótarupplýsingum, til að ná samkomulagi, t.d. um að eyða skráningu, áður en skráning fer fram, nema mikilvægir þjóðarhagsmunir séu í húfi. Tvær ósamrýmanlegar skráningar mega þannig ekki vera um sama einstakling í upplýsingakerfinu. Skráningar hafa misjafnan forgang eftir töflu sem SIRENE-skrifstofurnar vinna eftir. Að höfðu samráði skal þeirri skráningu sem hefur minni forgang alla jafna eytt úr kerfinu af skráningarríki áður en ný skráning fer fram.

Um 21. gr.

    Í 21. gr. er kveðið á um hvað skuli gera í kjölfar smells á ytri landamærum við brottför ríkisborgara þriðja ríkis. Ef smellur fæst vegna skráningar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis sem er að yfirgefa Schengen-svæðið um ytri landamæri Íslands ber SIRENE-skrifstofunni að miðla eftirfarandi upplýsingum sem viðbótarupplýsingum til skráningarríkis; að viðkomandi einstaklingur hafi verið auðkenndur, staðsetningu og tímasetningu eftirlits, að viðkomandi hafi yfirgefið Schengen-svæðið og hvort viðkomandi hafi sætt framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, ef við á.
    Í 2. mgr. kemur fram að ef ríkisborgari þriðja ríkis sem skráður er í upplýsingakerfið hér á landi vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, fer frá Íslandi um ytri landamæri skuli staðfesting þess efnis send til Útlendingastofnunar og ríkislögreglustjóra. Hér er átt við þá einstaklinga sem Útlendingastofnun eða lögregla hér á landi hefur tekið ákvörðun um að vísa úr landi og skrá í upplýsingakerfið.
    Í 3. mgr. kemur fram að eftir móttöku staðfestingar skv. 1. og 2. mgr. skuli eyða skráningu vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar, enda er ríkisborgari þriðja ríkis farinn af svæðinu og ákvörðun þannig fullnægt. Þar sem við á, skal færa inn skráningu vegna synjunar um komu og dvöl til samræmis við b-lið 1. mgr. 28. gr., þ.e. þegar synja á viðkomandi um komu inn á Schengen-svæðið vegna endurkomubanns sem er í gildi á grundvelli brottvísunar. Ákvæði þetta byggist á 6. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860.

Um 22. gr.

    Í 22. gr. er fjallað um það þegar ríkisborgari þriðja ríkis hefur ekki yfirgefið Schengen-svæðið í samræmi við ákvörðun um brottvísun eða frávísun og smellur fæst á skráninguna, t.d. við landamæraeftirlit. Ef smellur fæst á slíka skráningu ber að hafa samband við skráningarríki þegar í stað til að ákvarða til hvaða aðgerða skuli grípa. Ákvæðið er byggt á 7. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860.

Um 23. gr.

    Ákvæði 23. gr. er byggt á 8. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860 og fjallar um þau tilvik ef smellur fæst á skráningu vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis, sem er að koma inn á Schengen-svæðið um ytri landamæri Íslands.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að ef slík niðurstaða fæst vegna skráningar sem er byggð á ákvörðun um brottvísun, og ákvörðuninni fylgir endurkomubann, skal SIRENE-skrifstofan tilkynna skráningarríki með miðlun viðbótarupplýsinga þegar í stað um komu viðkomandi. Skráningarríkinu ber að eyða skráningu vegna brottvísunar þegar í stað og færa inn skráningu vegna synjunar um komu og dvöl til samræmis við b-lið 1. mgr. 28. gr. Ef ákvörðun um brottvísun fylgir hins vegar ekki endurkomubann eða umrædd skráning í kerfið er vegna ákvörðunar um frávísun skal SIRENE-skrifstofan tilkynna skráningarríkinu um komu viðkomandi þegar í stað svo umrætt ríki geti eytt skráningu úr kerfinu án tafar. Á grundvelli 8. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860 skal SIRENE-skrifstofan að sama skapi eyða skráningu án tafar ef samskonar tilkynning berst frá öðru Schengen-ríki, en færa inn skráningu vegna synjunar um komu og dvöl til samræmis við b-lið 1. mgr. 28. gr. þegar þess er þörf.
    Ákvörðun um komu/landgöngu viðkomandi hingað til lands skal tekin af lögreglu til samræmis við reglugerð um för yfir landamæri, nr. 866/2017, sbr. 2. mgr.

Um 24. gr.

    Ákvæðið byggist á 9. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860.
    Í 1. mgr. er kveðið á um fyrirframsamráð Schengen-ríkja vegna veitingar eða framlengingar dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar til ríkisborgara þriðja ríkis í þeim tilvikum sem viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið skv. 20. gr. ásamt endurkomubanni, vegna ákvörðunar um brottvísun. Skýr tímafrestur eru settur fyrir samráðið. Í slíkum tilvikum ber ríkinu sem íhugar að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun að hafa samráð við skráningarríkið áður en ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er tekin. Hér á landi er það Útlendingastofnun sem tekur ákvörðun um veitingu eða framlengingu dvalarleyfis og langtímavegabréfsáritunar.
    Samkvæmt 2. mgr. ber skráningarríkinu að bregðast við slíkri beiðni um samráð innan 10 daga frá því hún berst, en berist svar við beiðninni ekki innan 10 daga ber að líta svo á að skráningarríkið hreyfi ekki andmælum við því að viðkomandi verði veitt eða framlengt verði dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Við ákvarðanatöku skal taka til greina ástæður þess að viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið, þar á meðal hvort viðkomandi er ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu til að tilkynna skráningarríki um ákvörðun skv. 1. mgr. eftir að hún hefur verið tekin. Endanlegt ákvörðunarvald um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er hjá ríkinu sem metur slíka ákvörðun. Ef tilkynnt er um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber skráningarríki að eyða skráningu í kerfinu vegna brottvísunar.
    Ástæðan fyrir skýrum og snörpum tímafresti er fyrst og fremst sú að skráning vegna ákvörðunar um brottvísun og endurkomubann ríkisborgara þriðja ríkis í upplýsingakerfið er í eðli sínu íþyngjandi fyrir einstaklinginn. Ef til stendur að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun til viðkomandi þykir rétt að óvissa vegna skráningar vari sem styst.
    Í 4. mgr. er hins vegar kveðið á um þau tilvik þegar fyrirhugað er að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ríkisborgara þriðja ríkis en viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið skv. 20. gr. án endurkomubanns. Þá er ekki þörf á samráði heldur skal tilkynna skráningarríki án tafar um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun og skráningarríki ber í kjölfarið að eyða skráningu í kerfinu vegna brottvísunar eða frávísunar án tafar.

Um 25. gr.

    Ákvæðið byggist á 10. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860 og kveður á um skyldu til fyrirframsamráðs þegar ákvörðun hefur verið tekin um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis og til stendur að skrá upplýsingar á þeim grundvelli í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. 20. gr., en viðkomandi er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem útgefin er af öðru Schengen-ríki. Í þeim tilvikum ber að tilkynna ríkinu sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun um ákvörðun um skráningu, þar á meðal um ástæður skráningar. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.
    Í 2. mgr. kemur fram að með vísan til tilkynningar skv. 1. mgr. beri að meta hvort ástæða er til að afturkalla dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Meðal þess sem taka skal til greina við matið eru ástæður þess að til stendur að skrá viðkomandi í upplýsingakerfið, þ.e. upplýsingar um hann, og hvort viðkomandi telst ógn við allsherjarreglu og almannaöryggi. Hér á landi er það Útlendingastofnun sem tekur ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis og langtímavegabréfsáritunar. Tilkynna skal ríkinu sem hyggst skrá einstakling í kerfið um ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar innan 14 daga frá tilkynningu um fyrirhugaða skráningu. Ef ákvörðun liggur ekki fyrir innan 14 daga er heimilt að fara fram á framlengingu í allt að 12 daga. Beiðni um framlengingu skal rökstudd.
    Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun skal ekki skrá viðkomandi í kerfið vegna brottvísunar eða frávísunar, sbr. 3. mgr. Það hefur hins vegar ekki áhrif á ákvörðunina sjálfa um að ríkisborgari þriðja ríkis skuli yfirgefa það ríki sem tók ákvörðun um brottvísun eða frávísun. Viðkomandi verður einfaldlega ekki skráður í því skyni að hann þurfi að yfirgefa allt Schengen-svæðið, enda er hann með dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun í öðru Schengen-ríki.

Um 26. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu Schengen-ríkjanna til samráðs eftir á með miðlun viðbótarupplýsinga ef í ljós kemur að ríki hefur skráð ríkisborgara þriðja ríkis í upplýsingakerfið sem annað Schengen-ríki hefur veitt dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Um samráð fer eftir málsmeðferð 25. gr., þar á meðal varðandi tímafresti. Ef ríkið sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ákveður að afturkalla ekki leyfið eða áritunina ber skráningarríkinu að eyða skráningu vegna brottvísunar eða frávísunar úr kerfinu án tafar. Skráningunni er eytt úr kerfinu vegna þess að viðkomandi skal ekki gert að yfirgefa Schengen-svæðið ef hann er með dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun í öðru Schengen-ríki. Ákvæðið er byggt á 11. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860.

Um 27. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu Schengen-ríkja til samráðs með miðlun viðbótarupplýsinga í kjölfar smells sem fæst á skráningu ríkisborgara þriðja ríkis vegna ákvörðunar um brottvísun eða frávísun, ef viðkomandi er jafnframt handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem útgefin er af öðru Schengen-ríki. Samráðið er þá milli þess ríkis sem fær smell, ríkisins sem gaf út dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun og eftir atvikum skráningarríkis. Um samráð fer eftir málsmeðferð 25. gr. Ríkinu sem veitti dvalarleyfið eða langtímavegabréfsáritunina ber að tilkynna ríkinu sem fékk smell um niðurstöðu að samráði loknu. Ákvæðið er byggt á 12. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860.

Um IV. kafla.

    Í IV. kafla eru lögð til skilyrði fyrir skráningu ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl inn á Schengen-svæðið. Skráningin er ekki af nýjum toga, því í núgildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið er heimilt að skrá upplýsingar um einstakling í upplýsingakerfið þegar synja á viðkomandi um komu inn á Schengen-svæðið vegna endurkomubanns sem er í gildi á grundvelli brottvísunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um Schengen-upplýsingakerfið, nr. 16/2000. Með frumvarpi þessu er lagt til að einnig verði heimilt að skrá ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl, á grundvelli ákvörðunar þar um, ef viðkomandi telst ógn við allsherjarreglu, almannaöryggi eða alþjóðasamskipti ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
    Þá er í IV. kafla kveðið á um samráð sem skal fara fram þegar ríkisborgari þriðja ríkis hefur fengið veitt eða kann að verða veitt dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun í aðildarríki en annað aðildarríki hyggst skrá eða hefur skráð upplýsingar um viðkomandi í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl. Slíkar aðstæður geta valdið landamæravörðum, lögreglu og útlendingayfirvöldum mikilli óvissu og af þeim ástæðum þykir rétt að kveða á um lögboðinn tímaramma fyrir samráð og niðurstöðu úr því samráði til að tryggja að þeir einstaklingar sem hafi rétt til að dvelja á svæðinu geti komið þangað án vandkvæða og koma í veg fyrir komu þeirra einstaklinga sem er það óheimilt.
    Ákvæði IV. kafla eru byggð á reglugerð (ESB) 2018/1861 um notkun Schengen-upplýsingakerfisins við landamæraeftirlit.

Um 28. gr.

    Ákvæðið byggist á 24. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861. Í ákvæðinu er kveðið á um skilyrði fyrir skráningu upplýsinga um ríkisborgara þriðja ríkis í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl, þ.e. þegar viðkomandi skal synjað um komu og dvöl inn á Schengen-svæðið.
    Skilyrðin skv. 1. mgr. eru annars vegar ef ákvörðun hefur verið tekin, á grundvelli persónubundins mats í hverju tilviki fyrir sig, samkvæmt lögum um útlendinga, að synja eigi ríkisborgara þriðja ríkis um komu og dvöl inn á Schengen-svæðið, vegna þess að viðkomandi telst ógn við allsherjarreglu, almannaöryggi eða þjóðaröryggi eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu og hins vegar ef endurkomubann hefur fylgt ákvörðun um brottvísun sem hefur verið tekin til samræmis við ákvæði laga um útlendinga, þ.e. viðkomandi er með endurkomubann í gildi og skal meinað um komu inn á Schengen-svæðið. Í 101. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, er fjallað um endurkomubann vegna brottvísunar ríkisborgara þriðja ríkis, en endurkomubann getur aðeins fylgt ákvörðun um brottvísun en ekki frávísun samkvæmt lögum um útlendinga. Í 118. gr. laga um útlendinga er heimild til að meina útlendingi landgöngu og synja um útgáfu dvalarleyfis og ótímabundins dvalarleyfis eða setja takmarkanir eða skilyrði ef nauðsynlegt þykir vegna utanríkisstefnu ríkisins, öryggis ríkisins eða mikilvægra þjóðarhagsmuna. Ákvarðanir sem þessar eru kæranlegar til kærunefndar útlendingamála.
    Í 2. mgr. 28. gr. er svo kveðið á um að þau tilvik sem greinir í a-lið 1. mgr. eigi við í eftirfarandi þremur tilvikum; ef viðkomandi hefur verið sakfelldur í aðildarríki fyrir afbrot sem varðar frjálsræðissviptingu í eitt ár eða meira; rík ástæða er að ætla að viðkomandi hafi framið alvarlegt afbrot, hryðjuverk eða fyrir liggja skýrar vísbendingar um að viðkomandi hafi ásetning til að fremja slík afbrot á Schengen-svæðinu eða; viðkomandi hefur gerst brotlegur eða gert tilraun til að brjóta gildandi lög um komu og dvöl á Schengen-svæðinu. Með alvarlegu afbroti er átt við brot sem varðað getur fangelsi eða annarri frjálsræðissviptingu í a.m.k. þrjú ár. Sem dæmi getur alvarlegt brot verið gróft ofbeldisbrot, mansal eða alvarlegt fíkniefnalagabrot, en ýmis fleiri geta komið hér til greina án þess að þau verði nánar talin.
    Í 3. mgr. kemur fram að skráning skv. 1. mgr. skuli taka gildi í kerfinu um leið og viðkomandi hefur yfirgefið landið eða eins fljótt og auðið er eftir að ríkislögreglustjóri hefur fengið skýrar vísbendingar þess efnis að viðkomandi hafi yfirgefið landið. Ástæðan fyrir framangreindu er til að koma í veg fyrir endurkomu viðkomandi inn á Schengen-svæðið. Mikilvægt er því að skráning sem felur í sér að viðkomandi skuli neitað um inngöngu inn á Schengen-svæðið taki gildi í kerfinu sem fyrst, líkt og 3. mgr. kveður á um.

Um 29. gr.

    Ákvæðið byggist á 20.–23. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og fjallar um hvaða upplýsingar megi skrá í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið og skilyrði fyrir skráningu.
    Í a–u-lið 1. mgr. 29. gr. er kveðið á um hvaða upplýsingar skrá megi í kerfið vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið skv. 28. gr. og er upptalningin tæmandi. Skv. a-lið 1. mgr. er heimilt að skrá kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn og tökuheiti. Með fyrri nöfnum er átt við áður notuð nöfn einstaklingsins og með tökuheiti er átt við fölsk nöfn. Skilgreiningu á hryðjuverkasamtökum skv. i-lið 1. mgr. má finna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/541 um baráttu gegn hryðjuverkum.
    Í 2. mgr. er almennt skilyrði fyrir skráningu, nánar tiltekið skal, áður en skráning skv. 1. mgr. í upplýsingakerfið fer fram, ákvarða hvort grundvöllur skráningar er fullnægjandi og til samræmis við ákvæði laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Hið sama á við þegar skráning er framlengd. Ef grundvöllur synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið skv. a-lið 1. mgr. 28. gr. er tengdur hryðjuverkum telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar. Í undantekningartilvikum, með vísan til almannaöryggis eða allsherjarreglu, er þó heimilt að víkja frá skráningu ef líklegt þykir að skráning hindri eða hafi með öðrum hætti áhrif á rannsókn eða saksókn málsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að upplýsingar um einstakling verði ekki skráðar í upplýsingakerfið skv. 1. mgr. nema eftirfarandi lágmarksupplýsingar liggi fyrir: nafn, fæðingardagur og fæðingarár, ástæða fyrir skráningu, tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar, aðgerðir sem farið er fram á og á hvaða grundvelli synjun um komu og dvöl er byggð. Hvort hún byggist á fyrri refsidómi, öryggisógn eða því að viðkomandi hefur gerst brotlegur eða gert tilraun til að brjóta gildandi lög um komu og dvöl á Schengen-svæðinu, sbr. a–c-lið 2. mgr. 28. gr., eða endurkomubanni eins og um getur í b-lið 1. mgr. 28. gr. Aðrar upplýsingar sem taldar er upp í 1. mgr. skal skrá í kerfið, ef þær liggja fyrir. Upplýsingar um sérstök varanleg líkamleg einkenni skal þó einungis skrá ef nauðsyn þykir til að bera kennsl á viðkomandi ríkisborgara þriðja ríkis. Það er vegna persónuverndarsjónarmiða.
    Áður en upplýsingar um einstakling eru skráðar í kerfið skv. 1. mgr. skal ganga úr skugga um að ekki sé þegar til staðar skráning í kerfinu varðandi sama einstakling. Í þeim tilgangi skal kanna fingrafaragögn ef þau liggja fyrir, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.
    Loks kemur fram í 5. mgr. að einungis er heimilt að skrá eina skráningu varðandi hvern einstakling í kerfið. Heimilt er þó, þegar nauðsyn þykir, að bæta við nýrri skráningu varðandi sama einstakling, svo lengi sem sú skráning er ekki ósamrýmanleg skráningu um viðkomandi einstakling sem þegar er í kerfinu. Sé ný skráning ósamrýmanleg þeirri sem þegar er í kerfinu ber SIRENE-skrifstofunni að hafa samráð við skráningarríki með skiptum á viðbótarupplýsingum, til að ná samkomulagi, t.d. um að eyða skráningu, áður en skráning fer fram, nema mikilvægir þjóðarhagsmunir séu í húfi. Tvær ósamrýmanlegar skráningar mega þannig ekki vera um sama einstakling í upplýsingakerfinu. Skráningar hafa misjafnan forgang eftir töflu sem SIRENE-skrifstofurnar vinna eftir. Að höfðu samráði skal þeirri skráningu sem hefur minni forgang alla jafna eytt úr kerfinu af skráningarríki áður en ný skráning fer fram.

Um 30. gr.

    Ákvæðið byggist á 26. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861. Í ákvæðinu eru að finna skilyrði fyrir skráningu um ríkisborgara þriðja ríkis í upplýsingakerfið sem nýtur réttarins til frjálsrar farar á Schengen-svæðinu, en það almenna skilyrði er sett í 1. mgr. að slíkar skráningar skuli taka mið af réttindum hans skv. XI. kafla laga um útlendinga, en þar er kveðið á um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Með kaflanum eru ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB frá 29. apríl 2004 um frjálsa för, nánar tiltekið um rétt EES- og EFTA-borgara og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, innleidd.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ef smellur fæst á skráningu skv. 28. gr., það er skráningu vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið, sem nýtur réttarins til frjálsrar farar, skal SIRENE-skrifstofan þegar í stað hafa samband við skráningarríki með miðlun viðbótarupplýsinga til að komast að samkomulagi um aðgerðir sem grípa á til.

Um 31. gr.

    Ákvæðið byggist á 27. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861. Í ákvæðinu er kveðið á um fyrirframsamráð Schengen-ríkjanna vegna veitingar eða framlengingar dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar. Í 1. mgr. kemur fram að ef Schengen-ríki fyrirhugar að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ríkisborgara þriðja ríkis en viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl skv. 29. gr., skal hafa samráð við skráningarríki áður en ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er tekin. Hér á landi er það Útlendingastofnun sem tekur ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi og langtímavegabréfsáritun.
    Samkvæmt 2. mgr. ber skráningarríkinu að bregðast við slíkri beiðni um fyrirframsamráð innan 10 daga frá því hún berst. Ef svar berst ekki innan þess tímaramma ber að líta svo á að skráningarríkið hreyfi ekki andmælum við því að viðkomandi dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun verði veitt eða framlengd. Við ákvarðanatöku skal þó ávallt taka til greina ástæður þess að viðkomandi er skráður í upplýsingakerfið, þar á meðal hvort viðkomandi er ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að tilkynna beri skráningarríki um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun eftir að hún hefur verið tekin, en endanlegt ákvörðunarvald um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun er hjá ríkinu sem metur slíka ákvörðun. Ef tilkynnt er um ákvörðun um að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber skráningarríki að eyða skráningu í kerfinu vegna synjunar um komu og dvöl viðkomandi inn á Schengen-svæðið.
    Ástæðan fyrir skýrum og snörpum tímafresti er fyrst og fremst sú að skráning í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið er í eðli sínu íþyngjandi fyrir einstaklinginn. Ef til stendur að veita eða framlengja dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun til viðkomandi þykir rétt að óvissa vegna skráningar vari sem styst.

Um 32. gr.

    Ákvæðið byggist á 28. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og fjallar um fyrirframsamráð vegna skráninga um synjun um komu og dvöl ríkisborgara þriðja ríkis inn á Schengen-svæðið. Í 1. mgr. er kveðið á um að ef ákvörðun hefur verið tekin um að synja ríkisborgara þriðja ríkis um komu og dvöl skv. 1. mgr. 28. gr. og til stendur að skrá upplýsingar vegna hennar í upplýsingakerfið skv. 29. gr. en viðkomandi er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar, útgefinni af öðru Schengen-ríki, ber að tilkynna ríkinu sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun um ákvörðun um skráningu, þar á meðal um ástæður skráningar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að, að fenginni tilkynningu skv. 1. mgr. beri að meta hvort ástæða er til að afturkalla dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun. Meðal þess sem taka skal til greina við matið eru ástæður þess að til stendur að skrá viðkomandi í upplýsingakerfið, þ.e. upplýsingar um hann, og hvort viðkomandi telst ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi. Hér á landi er það Útlendingastofnun sem tekur ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar. Tilkynna skal ríkinu sem hyggst skrá ríkisborgara þriðja ríkis í kerfið um ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar innan 14 daga frá tilkynningu um fyrirhugaða skráningu. Ef ákvörðun liggur ekki fyrir innan 14 daga er heimilt að fara fram á framlengingu í allt að 12 daga. Beiðni um framlengingu skal rökstudd. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga.
    Í 3. mgr. kemur fram að ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun skuli ekki skrá viðkomandi vegna synjunar um komu og dvöl inn á svæðið. Það hefur hins vegar ekki áhrif á ákvörðunina sjálfa um að viðkomandi skuli neitað um komu og dvöl í því ríki sem tekur slíka ákvörðun.

Um 33. gr.

    Í 33. gr. er kveðið á um samráð Schengen-ríkjanna eftir á þegar ríkisborgari þriðja ríkis hefur verið skráður í upplýsingakerfið vegna synjunar um komu og dvöl. Ef í ljós kemur að ríki hefur skráð ríkisborgara þriðja ríkis í kerfið sem annað Schengen-ríki hefur veitt dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber ríkjunum að hafa samráð samkvæmt málsmeðferð 32. gr. Ef ríki ákveður að afturkalla ekki dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun ber hinu ríkinu að eyða skráningu í upplýsingakerfinu vegna synjunar um komu og dvöl án tafar. Samráð fer fram með miðlun viðbótarupplýsinga. Skráningunni er eytt vegna þess að viðkomandi er með dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun í Schengen-ríki og ætti ekki að vera synjað um komu og dvöl inn á Schengen-svæðið af þeirri ástæðu. Greinin er byggð á 29. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861.

Um 34. gr.

    Ákvæðið byggir á 30. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og kveður á um skyldu Schengen-ríkjanna til samráðs með miðlun viðbótarupplýsinga í kjölfar smells sem fæst á skráningu ríkisborgara þriðja ríkis vegna synjunar um komu og dvöl, ef viðkomandi er handhafi dvalarleyfis eða langtímavegabréfsáritunar sem útgefin er af öðru Schengen-ríki. Nánar tiltekið ber íslenskum stjórnvöldum við slíkar aðstæður að hafa samráð við ríkið sem veitti dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun og skráningarríkið eftir atvikum, ef ekki er um sama ríki að ræða. Um málsmeðferð fer eftir 32. gr.

Um V. kafla.

    Í V. kafla er kveðið á um skráningu hluta í upplýsingakerfið, hvaða hluti má skrá í kerfið, í hvaða tilvikum og að hvaða skilyrðum uppfylltum. Listinn er tæmandi.

Um 35. gr.

    Í greininni, sem er byggð á 1. mgr. 36. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862, er kveðið á um skráningu upplýsinga um hluti í upplýsingakerfið vegna eftirlits með leynd, beinna afskipta, leitar eða líkamsrannsóknar. Listinn er tæmandi.

Um 36. gr.

    Í greininni sem er byggð á 38. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862, er kveðið á um skráningu upplýsinga um hluti í upplýsingakerfið til haldlagningar eða sem sönnunargögn í sakamáli, sbr. a–q-liður 1. mgr. Listinn er tæmandi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð og skilgreina nánar aðra verðmæta hluti en taldir eru upp í 1. mgr. sem hægt er að bera kennsl á og skal skrá í upplýsingakerfið.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ef slíkar upplýsingar eru fyrirliggjandi beri að taka fram við skráningu hluta skv. k-, l- og m-lið hvort um er að ræða stolin, ólöglega seld, horfin, ógild eða fölsuð skilríki eða skjöl.
    Loks kemur fram í 4. mgr. að ef hlutur er eftirlýstur vegna hryðjuverka telst slíkt fullnægjandi grundvöllur til skráningar.

Um 37. gr.

    Ákvæðið fjallar um heimilar aðgerðir á grundvelli skráninga um hluti, nánar tiltekið að ef hlutur finnst við leit skuli hann gerður upptækur og skráningarríki tilkynnt um fundinn með miðlun viðbótarupplýsinga svo hægt sé að komast að samkomulagi um frekari aðgerðir sem grípa ber til, sbr. 1. mgr. Í þessum tilgangi er einnig heimilt að miðla persónuupplýsingum til samræmis við ákvæði laga þessara, verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Um leit skv. 1. mgr. og frekari aðgerðir fer eftir landslögum hvers og eins ríkis, sbr. 2. mgr. 37. gr. Hér á landi er einkum kveðið á um skilyrði fyrir leit í sakamálalögum og tollalögum. Ákvæðið er byggt á 39. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.

Um VI. kafla.

    Í VI. kafla er að finna sérreglur um skráningu lífkennaupplýsinga í upplýsingakerfið, nánar tiltekið skráningu ljósmynda, andlitsmynda, fingrafaragagna og DNA-sniða. Skráningu slíkra upplýsinga eru mjög þröngar skorður settar enda um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða.

Um 38. gr.

    Ákvæðið er byggt á 32. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 42. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862. Í 1. mgr. er kveðið á um að einungis megi skrá ljósmyndir, andlitsmyndir og fingrafaragögn í upplýsingakerfið sem uppfylla lágmarksstaðla um bæði gagna og tækniforskriftir. Slíkar lágmarkskröfur koma í veg fyrir mistök og rangar auðkenningar einstaklinga á grundvelli gagnanna. Þá er kveðið á um að fyrir skráningu gagnanna skuli fara fram gæðakönnun til þess að kanna hvort lágmarksstöðlum um gæði gagna og forskriftir sé fylgt. Reglur um lágmarksstaðla um gæði gagna og forskriftir eru í mótun á vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Gæðakönnun er framkvæmd af sérfræðingi um lífkennaupplýsingar.
    Í 2. mgr. kemur fram að fingrafaragögn sem skráð eru í upplýsingakerfið megi samanstanda af einu til tíu flötum fingraförum og einu til tíu rúlluðum fingraförum. Einnig má skrá allt að tvö lófaför. Þegar um ræðir skráningu fingrafaragagna skv. 1. mgr. 20. gr. mega fingrafaragögnin samanstanda af einu til tíu flötum fingraförum eða einu til tíu rúlluðum fingraförum, einu til tveimur lófaförum ef ekki er hægt að taka fingraför af viðkomandi eða ef ákvörðun sem skráning er byggð á er tekin vegna þess að einstaklingur hefur brotið gegn viðurlögum almennra hegningarlaga eða hefur framið refsivert brot.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að aðeins sé heimilt að bæta DNA-sniði við skráningu í upplýsingakerfinu skv. 2. mgr. 10. gr. og að undanfarinni gæðakönnun til að ganga úr skugga um að lágmarksstöðlum um gæði gagna og tækniforskriftum hafi verið fylgt. Jafnframt er það einungis heimilt þegar ljósmyndir, andlitsmyndir eða fingrafaragögn eru ekki til staðar eða ekki viðeigandi til auðkenningar. Gæðakönnun er framkvæmd af sérfræðingi um DNA-snið. Heimilt er að bæta DNA-sniði eldri ættingja í beinan legg, afkomenda eða systkina einstaklings við skráningu ef skyldmennið veitir samþykki fyrir. Í persónuverndarlögum er með samþykki átt við óþvingaða, sértæka, upplýsta og ótvíræða viljayfirlýsingu viðkomandi um að hann samþykki, með yfirlýsingu eða ótvíræðri staðfestingu, vinnslu persónuupplýsinga um sig, sem í þessu tilviki er þá að DNA-sniði hans verði bætt við skráningu í upplýsingakerfinu. DNA-snið sem bætt er við skráningu skal einungis innihalda lágmarksupplýsingar nauðsynlegar til að bera kennsl á týndan einstakling.

Um 39. gr.

    Ákvæðið er byggt á 33. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 43. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862 og kveður á um notkun ljósmynda, andlitsmynda, fingrafaragagna og DNA-sniða til auðkenningar eða leitar að einstakling, nánar tiltekið að nota skuli ljósmyndir, andlitsmyndir, fingrafaragögn og DNA-snið til að staðfesta auðkenni einstaklings sem fundist hefur í kjölfar leitar í upplýsingakerfinu, sbr. 1 mgr. Tekið skal fram að hér er ekki átt við að nota þurfi allar fyrirliggjandi upplýsingar í kerfinu hverju sinni, ef skráning inniheldur til að mynda ljósmynd og fingrafaragögn einstaklings, en ljósmyndin dugir til auðkenningar, er notkun ljósmyndarinnar nóg. Óþarfi er að kalla til fingrafarasérfræðing til að auðkenna einstakling á grundvelli fingrafaragagna ef aðrar fyrirliggjandi upplýsingar duga.
    Í 2. mgr. er kveðið nánar á um notkun fingrafaragagna en þar segir að heimilt er í öllum tilvikum að leita í fingrafaragögnum í upplýsingakerfinu, enda eru umrædd gögn vel til þess fallin að bera rétt og örugglega kennsl á einstakling. Þó skuli leita í fingrafaragögnum til þess að bera kennsl á einstakling þegar ekki er hægt að staðfesta hver hann er með öðrum hætti.
    Í 3. mgr. kemur fram að heimilt er að leita í fingrafaragögnum sem bætt er við skráningar skv. 9., 10., 13., 15., 19. og 28. gr. með heilum fingraförum eða lófaförum eða hluta fingrafara eða lófafara óþekktra einstaklinga sem fundist hafa á vettvangi hryðjuverka eða annarra alvarlegra afbrota sem eru til rannsóknar og sterkar líkur eru á því að fingrafaragögnin tilheyri þeim sem framdi brotið. Samtímis fari fram leit í fingrafaragrunni lögreglunnar hér á landi. Með alvarlegu afbroti er átt við brot sem varðað getur að lögum fangelsi eða annarri frjálsræðissviptingu í a.m.k. þrjú ár. Sem dæmi getur alvarlegt brot verið gróft ofbeldisbrot, mansal eða alvarlegt fíkniefnalagabrot, en ýmis fleiri geta komið hér til greina án þess að þau verði nánar talin.
    Loks kemur fram í 4. mgr. að heimilt er að nota ljósmyndir og andlitsmyndir sem bætt hefur verið við skráningu í upplýsingakerfinu til að bera kennsl á einstaklinga við för yfir landamæri.

Um VII. kafla.

    Í VII. kafla er fjallað um tengingu skráninga í upplýsingakerfinu og viðbótarupplýsingar, miðlun þeirra, notkun og fleira.

Um 40. gr.

    Kveðið er á um tengingu skráninga og er greinin byggð á 48. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 63. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862. Greinin er ekki nýmæli, en með lögum nr. 21/2015 til breytinga á gildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið var bætt við ákvæði 8. gr. a sem fjallar um tengingar skráninga. Ákvæði 40. gr. er efnislega samhljóða 8. gr. a gildandi laga fyrir utan 4. mgr. 40. gr. frumvarpsins sem bætist nú við.
    Með tengingu skráningar er nánar tiltekið átt við heimild til að tengja saman skráningar sem Schengen-ríkin hafa fært inn í upplýsingakerfið, þegar þess er þörf vegna starfseminnar. Með slíkri tengingu er venslum komið á milli tveggja eða fleiri skráninga, sbr. 1. mgr. Dæmi um algenga tengingu skráninga í upplýsingakerfið er t.d. skráning einstaklings vegna eftirlits með leynd og skráning bifreiðar í sama tilgangi.
    Í 2. mgr. kemur fram að myndun tenginga hefur ekki áhrif á þá tilteknu aðgerð sem mælt er fyrir um að gripið skuli til á grundvelli hverrar og einnar hinna tengdu skráninga eða varðveislutímabil hverrar tengdrar skráningar. Þannig er hver skráning áfram sjálfstæð, þrátt fyrir tengingu. Í 3. mgr. kemur enn fremur fram að myndun tenginga hafi ekki áhrif á réttinn til aðgangs samkvæmt lögunum, þ.e. yfirvöld sem ekki hafa rétt til aðgangs að tilteknum skráningum geta ekki séð tengingu við aðra skráningu sem þau hafa ekki rétt til aðgangs að.
    Loks kemur fram í 4. mgr. að ef tenging tveggja eða fleiri skráninga af hálfu annars ríkis er talin andstæð íslenskum lögum eða alþjóðlegum skuldbindingum er heimilt að loka fyrir aðgang að tengingu innanlands eða aðgangi þar til bærra yfirvalda sem staðsett eru utan yfirráðasvæðis Íslands. Mat á grundvelli þessarar málsgreinar er í höndum ríkislögreglustjóra.

Um 41. gr.

    Í 41. gr. er almennt kveðið á um miðlun og notkun viðbótarupplýsinga. Skv. 1. mgr. veitir ríkislögreglustjóri, nánar tiltekið SIRENE-skrifstofan, þar til bærum yfirvöldum í öðru Schengen-ríki, SIRENE-skrifstofum, nauðsynlegar viðbótarupplýsingar í tengslum við skráningu í upplýsingakerfið, sem og þegar hlutir eða einstaklingar, sem skráðir hafa verið í kerfið, finnast. Beiðni um viðbótarupplýsingar ber að svara svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 12 klukkustundum frá því hún berst, sbr. 3. mgr. 5. gr. Viðbótarupplýsingar verða ekki nýttar í öðrum tilgangi en þær voru sendar nema samþykkis um annað sé aflað fyrir fram frá ríkinu sem sendi gögnin.
    Ef ekki er unnt að framkvæma umbeðna aðgerð eftir smell í kerfinu ber að tilkynna skráningarríki þegar í stað um slíkt með miðlun viðbótarupplýsinga, sbr. 2. mgr. sem byggir á á 58. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.

Um VIII. kafla.

    Í VIII. kafla er fjallað um aðgang að upplýsingakerfinu, nánar tiltekið hvaða stjórnvöld hafa aðgang að því og í hvaða tilgangi, en eðli málsins samkvæmt er aðgangi að kerfinu þröngar skorður settar. Þá er í VIII. kafla kveðið á um endurskoðun og eyðingu skráninga, en um mismunandi skráningar gilda mismunandi reglur um endurskoðun og eyðingu.

Um 42. gr.

    Í 1. mgr. er upptalið hvaða stjórnvöld hér á landi skuli hafa beinlínuaðgang að upplýsingakerfinu og fyrir hvaða afmörkuðu verkefni aðgangurinn er. Upptalningin er tæmandi, bæði hvað varðar stjórnvöld og verkefni. Þannig er stjórnvaldi óheimilt að leita í Schengen-upplýsingakerfinu við framkvæmd annarra verkefna en þeirra sem tilgreind eru sérstaklega í ákvæði þessu, en ákvæðið byggist á 34. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 44.–47. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862. Á sama tíma er gríðarlega mikilvægt að þau stjórnvöld sem hafa beinlínuaðgang að kerfinu fullnýti aðganginn við þau verkefni sem þeim er heimilt. Þannig ber lögreglunni til dæmis við löggæslustörf að fletta einstaklingum upp í kerfinu og kanna hvort smellur fáist vegna skráningar viðkomandi. Hið sama á við um Samgöngustofu við skráningu ökutækja til að kanna hvort umrætt ökutæki er stolið. Án þess að fletta upp í kerfinu fást ekki smellir. Það er á ábyrgð hvers og eins stjórnvalds að stuðla að fullri nýtingu kerfisins og axla þessa ábyrgð enn frekar með nýjum lögum og uppfærðu kerfi. Ríkissaksóknari, lögreglan, tollgæslan, Útlendingastofnun og Samgöngustofa hafa aðgang samkvæmt núgildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið, nr. 16/2000. Til viðbótar við framangreind yfirvöld er nú lagt til að héraðssaksóknari, Landhelgisgæsla Íslands og utanríkisráðuneytið hafi einnig beinlínuaðgang að kerfinu, fyrir ákveðin afmörkuð verkefni.
    Í a-lið 1. mgr. kemur fram að ríkissaksóknari og héraðssaksóknari skuli hafa beinlínuaðgang að upplýsingakerfinu í tengslum við meðferð sakamála.
    Í b-lið 1. mgr. er kveðið á um aðgang lögreglu við landamæraeftirlit og aðra löggæslu, þar á meðal við framkvæmd öryggiseftirlits á ríkisborgara þriðja ríkis sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Í reynd er það svo að allir lögreglumenn á Íslandi hafa aðgang að Schengen-upplýsingakerfinu og ber að fletta upp í því við almenna löggæslu, enda bæði Íslendingar og erlendir ríkisborgarar skráðir í kerfið.
    Í c-lið 1. mgr. er kveðið á um aðgang Landhelgisgæslu Íslands að upplýsingakerfinu við löggæslu á hafi. Samkvæmt núgildandi lögum hefur Landhelgisgæslan einungis aðgang að kerfinu samkvæmt beiðni, en með auknum umsvifum kerfisins, fjölgun upplýsinga sem eru skráðar og þeirri staðreynd að Landhelgisgæslan ber ábyrgð á og sinnir löggæslu á hafi, þykir rétt að hún fái beinlínuaðgang að kerfinu.
    Í d-lið 1. mgr. er kveðið á um aðgang Útlendingastofnunar að upplýsingakerfinu við afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritun, þ.m.t. við ógildingu, afturköllun eða framlengingu vegabréfsáritana, við afgreiðslu landgöngu- eða dvalarleyfa, vegna ákvarðana um frávísanir og brottvísanir og til að sinna öðrum skyldum samkvæmt lögum um útlendinga að því marki sem nauðsynlegt er til að bregðast við upplýsingum sem skráðar eru á grundvelli ákvæða frumvarpsins.
    Í e-lið 1. mgr. er kveðið á um aðgang utanríkisráðuneytisins við afgreiðslu og útgáfu vegabréfsáritana. Tekið skal fram að yfirvöld sem afgreiða umsóknir um vegabréfsáritanir skulu einnig hafa aðgang að upplýsingum um skjöl varðandi einstaklinga sem eru skráð á grundvelli k- og l-liðar 1. mgr. 36. gr.
    Í f-lið 1. mgr. er kveðið á um að Samgöngustofa skuli hafa aðgang að kerfinu við annars vegar skráningu ökutækja til að kanna hvort ökutæki sem óskað er skráningar á hafi verið stolið, selt ólöglega eða horfið. Aðgangurinn takmarkast þó við upplýsingar um ökutæki, eftirvagna, hjólhýsi, skráningarskírteini ökutækja, númeraplötur ökutækja og íhluti vélknúinna ökutækja á grundvelli 1. mgr. 36. gr. Hins vegar skal Samgöngustofa hafa aðgang að upplýsingakerfinu við skráningu og við að tryggja umferðastjórnun báta, bátsvéla, loftfara og hreyfla loftfara í þeim tilgangi að kanna hvort framangreindum hlutum hafi verið stolið, þeir seldir ólöglega, horfið eða þeirra leitað sem sönnunargagna í sakamáli. Aðgangurinn takmarkast þó við upplýsingar um báta, bátsvélar, loftför og hreyfla loftfara.
    Í g-lið 1. mgr. er kveðið á um beinlínuaðgang tollgæslunnar við tollgæslu, við eftirlit á landamærum og þegar hún annast eða aðstoðar við löggæslu. Með lögum nr. 149/2018 um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000, var tollgæslunni heimilaður beinlínuaðgangur að kerfinu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að lögreglan skuli, í tengslum við skráningu skotvopna og veitingu skotvopnaleyfa, hafa aðgang að upplýsingum skráðum á grundvelli 9., 13. og 36. gr., í þeim tilgangi að kanna hvort að einstaklingur sem sækir um skotvopnaleyfi sé eftirlýstur til handtöku og afhendingar eða framsals, skráður í kerfið svo að fram fari eftirlit með leynd, bein afskipti, leit eða líkamsrannsókn, eða hvort skotvopnið sem óskað er skráningar á eða óskað leyfis fyrir er leitað í þeim tilgangi að leggja á það hald eða nota það sem sönnunargagn í sakamáli. Hér er um viðbót að ræða frá núgildandi lögum, hingað til hefur Schengen-upplýsingakerfið ekki verið notað í þessum tilgangi. Ástæða þessarar nýjungar má m.a. rekja til endurtekinna hryðjuverkaárása í Evrópu undanfarin ár, þar sem löglega skráð skotvopn hafa komið við sögu.
    Loks er kveðið á um það í 3. mgr. að til að starfa við upplýsingakerfið skv. 1. og 2. mgr., skuli starfsmaður fá sérstaka heimild ríkislögreglustjóra, enda fullnægi hann settum hæfis- og öryggiskröfum. Viðkomandi starfsmaður skal einungis hafa þann aðgang að kerfinu sem honum er nauðsynlegur til að gegna starfi sínu. Í 57. gr. er gert ráð fyrir að sett verði nánari fyrirmæli í reglugerð um hæfis- og öryggiskröfur sem starfsmenn verða að fullnægja til að starfa við upplýsingakerfið.

Um 43. gr.

    Kveðið er á um aðgang dómsmálaráðuneytisins að upplýsingakerfinu samkvæmt beiðni, þá að því marki sem ráðuneytinu er aðgangur nauðsynlegur við beitingu heimilda sem æðra stjórnvald.

Um 44. gr.

    Ákvæðið er byggt á 11 gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 2018/1862 og kveður á um þagnarskyldu notenda kerfisins. Nánar tiltekið er hverjum sem í starfi sínu fær vitneskju um atriði sem skráð eru í upplýsingakerfið skylt að gæta þess að skráðar upplýsingar berist ekki til óviðkomandi. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi, sbr. 1. mgr.
    Í 2. mgr. sem er nýmæli, þykir rétt að taka skýrt fram að þagnarskylda nái einnig til verktaka en heimilt er að fela verktaka ákveðin afmörkuð verkefni tengd Schengen-upplýsingakerfinu. Ríkislögreglustjóri hefur eftirlit með því að verktaki starfi til samræmis við ákvæði laga þessara, þar á meðal varðandi öryggi, þagnarskyldu og persónuvernd.

Um 45. gr.

    Ákvæðið er byggt á 39. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 53. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862. Í ákvæðinu er kveðið á um vistunartíma og endurskoðun skráninga um einstaklinga.
    Í 1. mgr. er almennt ákvæði þess efnis að upplýsingar um einstaklinga sem skráðar eru í upplýsingakerfið skuli ekki geyma lengur en þörf krefur með hliðsjón af tilgangi skráningar. Það stjórnvald sem biður um skráningu eða skráir í upplýsingakerfið, hvort sem er beint eða óbeint, er ábyrgt fyrir því að uppfæra, afturkalla eða endurnýja skráningu, allt eftir því sem við á hverju sinni. Þess ber að geta að skráningum er sjálfkrafa eytt út úr miðlæga hluta kerfisins að endurmatstíma þeirra liðnum, sjá 2. og 3. mgr. um endurmatstíma, en tilkynning um væntanlega eyðingu skráningar berst fjórum mánuðum áður til SIRENE-skrifstofunnar. Það fellur þá í hlut hennar að minna þann á sem bað um skráningu eða skráði í kerfið að tími sé kominn til endurmats og eftir atvikum endurnýjunar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um endurmat skráninga um einstaklinga sem skráðir eru í kerfið skv. II. kafla, ýmist innan fimm ára, þriggja ára eða eins árs.
    Í 3. mgr. er kveðið á um endurmat skráninga skv. III. og IV. kafla innan þriggja ára nema ákvörðun sem skráning er byggð á kveði á um lengri gildistíma, en þá skal endurskoða skráninguna innan fimm ára.
    Í 4. mgr. kemur fram að þegar tekin er ákvörðun um að skráning upplýsinga skuli standa í upplýsingakerfinu gildir 2. og 3. mgr. um endurmat skráningar á ný. Skrásetja skal allar ákvarðanir um framlengingu skráninga skv. 2. og 3. mgr. sjálfvirkt og halda tölfræði um hversu margar skráningar hafa verið framlengdar.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að skráningum, sem ekki er tekin ákvörðun um að framlengja, skal sjálfkrafa eytt úr upplýsingakerfinu, að tímanum liðnum sem greinir í 2., 3. og 4. mgr.
    Loks kveður 6. mgr. á um að um leið og ljóst þykir að skráning um einstakling hefur þjónað tilgangi sínum og ætti því að eyða skal tilkynna stjórnvaldinu sem óskaði eftir skráningu um það þegar í stað. Umrætt stjórnvald hefur 15 daga frá móttöku tilkynningarinnar til að svara því að skráningunni hafi verið eða muni verða eytt eða greina frá ástæðum fyrir því að skráningin verði varðveitt. Ef ekkert svar berst innan 15 daga tímabilsins skal SIRENE-skrifstofan eyða skráningunni. SIRENE-skrifstofan skal tilkynna eftirlitsyfirvöldum sínum, nánar tiltekið Persónuvernd, um hvers kyns endurtekin vandamál sem hún rekst á þegar hún aðhefst samkvæmt þessari málsgrein.

Um 46. gr.

    Í greininni, sem byggð er á 54. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862, er fjallað um vistunartíma og endurskoðun skráninga um hluti.
    Líkt og í 1. mgr. 45. gr. er í 1. mgr. 46. gr. að finna almennt ákvæði þess efnis að upplýsingar um hluti sem skráðir eru í upplýsingakerfið skuli ekki geyma lengur en þörf krefur með hliðsjón af tilgangi skráningar. Það stjórnvald sem biður um skráningu eða skráir í upplýsingakerfið, hvort sem er beint eða óbeint, er ábyrgt fyrir því að uppfæra, afturkalla eða endurnýja skráningu, allt eftir því sem við á hverju sinni.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að endurmeta skuli nauðsyn skráningar um hluti í upplýsingakerfið sem skráðir eru skv. 35. og 36. gr. innan tíu ára frá skráningu.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að upplýsingar um hluti sem skráðir eru í kerfið á grundvelli 9., 10., 12. og 13. gr. og tengjast skráningu um einstaklinga skal yfirfara og endurmeta til samræmis við 45. gr. Slíkar skráningar má einungis vista í kerfinu jafn lengi og skráning um einstaklinginn.
    Þegar tekin er ákvörðun um að skráning upplýsinga skuli standa í upplýsingakerfinu gildir 2. mgr. um endurmat skráningar á ný, sbr. 4. mgr.

Um 47. gr.

    Kveðið er á um skyldu til eyðingar skráninga í upplýsingakerfinu og er ákvæðinu ætlað að innleiða 14. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860, 40. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 55. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862. Í ákvæðinu er með ítarlegum hætti kveðið á um hvenær skráningu í kerfinu skuli eytt og þarfnast það ekki frekari skýringa.

Um IX. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um vinnslu persónuupplýsinga og persónuvernd.

Um 48. gr.

    Í 48. gr. er kveðið á um gildandi reglur varðandi skráningu og vinnslu persónuupplýsinga. Skv. 1. mgr. gilda lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Um aðra skráningu og vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli laga þessara fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sbr. 2. mgr.

Um 49. gr.

    Ákvæðið er byggt á 41. og 42. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 56. og 57. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862 og fjallar um nýtingu skráðra upplýsinga.
    Í 1. mgr. er kveðið skýrt á um að upplýsingar sem skráðar eru í upplýsingakerfið verða ekki nýttar á annan veg en leiðir af tilgangi skráningar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Þá verður aðgangur að kerfinu ekki veittur öðrum en þeim sem greinir í 42. gr. til að sinna þeim verkefnum sem þar eru skilgreind.
    Í 2. mgr. kemur fram að upplýsingar úr kerfinu verða ekki afritaðar nema í tæknilegum tilgangi og þá einungis ef afrit er nauðsynlegt svo að stjórnvöld sem eru beinlínutengd kerfinu samkvæmt lögum þessum geti leitað í afritinu. Með upplýsingum er hér bæði átt við skráningar um einstaklinga, hluti og viðbótargögn. Afrit skal ekki geymt lengur en í 48 klukkustundir. Óheimilt er að afrita upplýsingar sem annað ríki skráði í kerfið og færa inn í önnur íslensk tölvukerfi. Halda skal skrá um öll afrit sem tekin eru af kerfinu og afhenda Persónuvernd óski stofnunin eftir því. Tekið skal fram að 2. mgr. hefur ekki áhrif á rétt íslenskra stjórnvalda til að vista upplýsingar sem fást úr Schengen-upplýsingakerfinu í landsgrunna í tengslum við vinnslu máls hér á landi, þ.e. vegna eigin skráninga eða skráninga sem tengjast aðgerðum sem gripið hefur verið til hér á landi, sbr. 3. mgr. Það er einungis óheimilt að afrita heilu og hálfu skráningarnar og afrita yfir í landsgrunna. Óþarfi er að halda skrá um slíka vinnslu upplýsinga, einungis er gerð krafa skv. 2. mgr. að halda skrá um tæknileg afrit sem tekin eru úr kerfinu, þ.e. þegar heilar skráningar eru afritaðar eða jafnvel allur grunnur kerfisins afritaður með töku svokallaðs landsafrits. Nauðsynlegt er að halda skýra skrá um öll slík afrit og afhenda eftirlitsaðilum ef þeir óska.
    Samkvæmt 4. mgr. er hins vegar ekki öllum stjórnvöldum heimilt að leita í afriti af kerfinu því stjórnvöldum sem gefa út vegabréfsáritanir er aðeins heimilt að notast við afrit úr upplýsingakerfinu með þeim skilyrðum að kerfið hafi legið niðri lengur en 24 klukkustundir og þannig sé um neyðartilvik að ræða. Með nýjum tæknilegum kröfum og öryggisatriðum á það ekki að gerast að kerfið liggi niðri svo lengi en það er aldrei hægt að útiloka slík tilvik.
    Í 5. mgr. er að finna undanþágu frá 1. mgr., en undanþágan verður einungis veitt með samþykki ríkis sem skráð hefur upplýsingar og þegar aðstæður a–c-liðar 5. mgr. eiga við, nánar tiltekið til að koma í veg fyrir alvarlega og bráða ógn við almannaöryggi og allsherjarreglu, ef mikilvægir öryggishagsmunir ríkisins mæla með því eða til að koma í veg fyrir alvarleg afbrot.
    Loks kemur fram í 6. mgr. að notkun upplýsinga úr kerfinu sem ekki er í samræmi við 1.–5. mgr. er óheimil og varðar refsingu skv. 136. eða 139. gr. almennra hegningarlaga.

Um 50. gr.

    Ákvæði 50. gr. er byggt á 44. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 1.–6. mgr. 59. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862 og fjallar um gæði skráðra upplýsinga í upplýsingakerfinu.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að tryggja þurfi að upplýsingar séu áreiðanlegar, skráðar, uppfærðar og geymdar í upplýsingakerfinu á lögmætan hátt. Það er á ábyrgð skráningarríkis.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að einungis skráningarríki hefur heimild til að breyta, bæta við, leiðrétta, uppfæra eða eyða upplýsingum sem það hefur skráð í kerfið. Þannig er öðrum ríkjum óheimilt að breyta eða eyða skráningum sem íslensk stjórnvöld hafa fært í kerfið og öfugt.
    Í 3. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar skráðar hafa verið í upplýsingakerfið rangar, villandi eða ófullkomnar upplýsingar eða ef skráðar hafa verið upplýsingar án tilskilinnar heimildar. Er hér átt við ef innlend stjórnvöld hafa skráð í kerfið. Í slíkum tilvikum skal SIRENE-skrifstofan eftir beiðni eða að eigin frumkvæði sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þær afmáðar eða við þær aukið. Hafi slíkum upplýsingum verið miðlað eða þær notaðar ber ríkislögreglustjóra eða, eftir atvikum, öðrum ábyrgum stjórnvöldum, eftir því sem frekast er unnt að hindra að það hafi áhrif á hagsmuni hins skráða. Þessi ábyrgð ríkislögreglustjóra er einnig tilgreind í 3. gr. Rétt þykir jafnframt að kveða á um ábyrgð stjórnvalda í þessu tilliti, sérstaklega í ljósi þess að með frumvarpi þessu er verið að opna fyrir möguleikann á því að stjórnvöld geti skráð upplýsingar í kerfið óbeint í gegnum eigið tölvukerfi.
    Í 4. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar upplýsingar sem um ræðir í 3. mgr. hafa verið skráðar í upplýsingakerfið af öðru ríki. Í slíkum tilvikum ber SIRENE-skrifstofunni að tilkynna umræddu ríki eins fljótt og auðið er með miðlun viðbótarupplýsinga, og eigi síðar en tveimur dögum eftir að upplýsingar berast til vitundar ríkislögreglustjóra, um annmarka með ósk um viðeigandi breytingar. SIRENE-skrifstofan getur í þessu skyni miðlað viðbótargögnum eða upplýsingum um breytt gögn til skráningarríkis.
    Að sama skapi ber ríkislögreglustjóra að taka afstöðu til sams konar beiðni sem honum kann að berast án tafar eða innan tveggja daga, sbr. 5. mgr. Bregðist Schengen-ríki ekki við beiðni um leiðréttingu, afmáningu eða viðauka ber ríkislögreglustjóra að leggja málið fyrir eftirlitsaðila sína, sem eru Persónuvernd og Evrópska persónuverndarstofnunin, sbr. 6. mgr.

Um 51. gr.

    Ákvæðið, sem er byggt á 52. og 53. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861, 7. mgr. 59. gr. og 67. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862, kveður á um rétt hins skráða til aðgangs að skráðum upplýsingum um sig, leiðréttingar ónákvæmra upplýsinga og eyðingar upplýsinga sem geymdar eru í kerfinu ólöglega.
    Í 1. mgr. kemur fram að einstaklingar sem skráðir eru í upplýsingakerfið njóta réttar skv. III. kafla laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og IV. kafla laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ef einstaklingur óski eftir vitneskju um upplýsingar um sig sem skráðar eru af öðru ríki skuli gefa umræddu skráningarríki kost á að gera athugasemdir áður en fallist er á þá beiðni.
    Í 3. mgr. kemur fram að um takmarkanir á rétti hins skráða til að fá vitneskju skv. 1. mgr. gildi ákvæði III. kafla laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og IV. kafla laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Um kærurétt hins skráða vegna synjunar gilda sömu lög.
    Samkvæmt 4. mgr. ber SIRENE-skrifstofunni að halda skrá um efnislegar og lagalegar ástæður þess að ákvörðun er tekin um að veita hinum skráða ekki aðgang að skráðum upplýsingum um sig skv. 3. mgr. og skal SIRENE-skrifstofan afhenda skrána til Persónuverndar sem eftirlitsaðila, óski stofnunin eftir því.
    Ef kvörtun berst frá einstaklingi þess eðlis að viðkomandi sé ekki rétt viðfang skráningar skal miðla upplýsingum um kvörtun til annarra Schengen-ríkja í formi viðbótarupplýsinga, sbr. 5. mgr. Reynist kvörtun einstaklings á rökum reist og viðkomandi hefur verið ranglega skráður í kerfið ber að upplýsa viðkomandi um niðurstöðuna og rétt hans samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
    Loks kemur fram í 6. mgr. að beiðni samkvæmt ákvæðinu skuli beint til ríkislögreglustjóra sem skuli án ástæðulauss dráttar taka afstöðu til hennar. Ákvörðun ríkislögreglustjóra skal vera rökstudd að því marki sem það er unnt án þess að greint verði frá nokkru sem leynt á að fara. Slíkri ákvörðun má skjóta til Persónuverndar skv. 54. gr. Sé ekki kveðið á um annað í persónuverndarlögum gilda ákvæði stjórnsýslulaga um tímafrestinn sem ríkislögreglustjóri hefur til svara erindum skv. 6. mgr.

Um 52. gr.

    Í ákvæðinu, sem er byggt á 49. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 64. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862, er fjallað um tilgang og varðveislu viðbótarupplýsinga.
    Samkvæmt 1. mgr. ber SIRENE-skrifstofunni að geyma tilvísanir í ákvarðanir sem eru grundvöllur skráningar í upplýsingakerfið í þeim tilgangi að styrkja miðlun viðbótarupplýsinga.
    Í 2. mgr. kemur fram að persónuupplýsingar sem geymdar eru hjá SIRENE-skrifstofunni í tengslum við upplýsingaskipti skal einungis geyma í þann tíma sem nauðsynlegur er til að uppfylla tilgang öflunar þeirra. Þá er það skilyrði sett að þeim skuli í síðasta lagi eyða einu ári eftir að viðkomandi skráningu hefur verið eytt úr upplýsingakerfinu.
    Í 3. mgr. kemur fram að takmarkanir skv. 2. mgr. hafa þó ekki áhrif á rétt stjórnvalda til að vista í upplýsingakerfum sínum upplýsingar úr kerfinu vegna eigin skráninga eða skráninga sem tengjast aðgerðum sem gripið hefur verið til hér á landi.

Um 53. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um miðlun persónuupplýsinga til þriðja aðila en skv. 1. mgr. er meginreglan sú að slík miðlun til þriðju-ríkja eða alþjóðlegra stofnana er óheimil, sbr. 50. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 65. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862. Heimilt er þó skv. 2. mgr. að miðla upplýsingum um kenninöfn, eiginnöfn, nöfn við fæðingu, fyrri nöfn, tökuheiti, fæðingarstað, fæðingardag og fæðingarár, kyn, ríkisfang eða ríkisföng, tegund persónuskilríkja viðkomandi, hvaða ríki gaf persónuskilríki út, númer persónuskilríkja og útgáfudagsetningu, ljósmyndir, andlitsmyndir, fingrafaragögn og afrit af persónuskilríkjum viðkomandi, í lit ef mögulegt, sem skráðar hafa verið í kerfið skv. 1. mgr. 19. gr. í tengslum við ákvörðun um brottvísun eða frávísun ríkisborgara þriðja ríkis og tengdum viðbótarupplýsingum til þriðju ríkja. Slík miðlun fer þó einungis fram að fengnu samþykki skráningarríkis og í þeim tilgangi að bera kennsl á og gefa út persónuskilríki eða ferðaskilríki fyrir ríkisborgara þriðja ríkis sem dvelur ólöglega á Schengen-svæðinu í því skyni að framkvæma ákvörðun um brottvísun eða frávísun. Þá skal upplýsa viðkomandi ríkisborgara þriðja ríkis um að persónuupplýsingum hans og viðbótarupplýsingum kunni að vera deilt með yfirvöldum þriðja ríkis, sbr. 15. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1860.
    Samkvæmt 3. mgr. skal miðlun upplýsinga til þriðja ríkis skv. 2. mgr. ekki hafa áhrif á rétt ríkisborgara þriðja ríkis sem umsækjandi um alþjóðlega vernd, með öðrum orðum þá verður upplýsingum ekki miðlað til þriðja ríkis fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að einstaklingur sé ekki ofsóttur af umræddu ríki og sé þess vegna á flótta og að sækja um alþjóðlega vernd hér á landi.
    Loks kemur fram í 4. mgr. að ekki skuli miðla upplýsingum til þriðja ríkis skv. 2. mgr. ef ákvörðun um brottvísun eða frávísun kemst ekki til framkvæmda að svo stöddu eða hefur verið frestað tímabundið, þar á meðal vegna kæru ákvörðunarinnar, með vísan til þess að slík brottvísun eða frávísun myndi brjóta í bága við meginregluna um að vísa einstaklingi ekki aftur þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu. Með frestun ákvörðunar er átt við þau tilvik sem fjallað er um í 103. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, þ.e. framkvæmd ákvörðunar er frestað um hæfilegan tíma ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu. T.d. þegar barn fæðist hér á landi og þarf að útvega ferðaskilríki.

Um 54. gr.

    Lögð er til kæruheimild, nánar tiltekið að bera megi ákvarðanir ríkislögreglustjóra sem teknar eru á grundvelli 50. og 51. gr. undir úrskurð Persónuverndar.

Um 55. gr.

    Kveðið er á um rétt til skaðabóta en ákvæðið er að mestu samhljóða 16. gr. gildandi laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi en 3. mgr. þess ákvæðis, sem kveður á um að bótakrafa fyrnist á tveimur árum eftir að tjónþoli fékk vitneskju um skráningu í upplýsingakerfið, er tekin út þar sem réttast er að almennar reglur skaðabótaréttar taki á fyrningu bótakrafna. Ákvæðið er byggt á 58. gr. reglugerðar (ESB) nr. 2018/1861 og 72. gr. reglugerðar (ESB) nr. 2018/1862.

Um 56. gr.

    Ákvæðið er að mestu leyti samhljóða gildandi 18. gr. laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Þær minniháttar breytingar sem gerðar eru á ákvæðinu eru til þess að mæta athugasemdum sem Ísland fékk frá föstu eftirlitsnefndinni með Schengen-samstarfinu árið 2017.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að Persónuvernd skuli hafa eftirlit með því að skráning og meðferð persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu sé í samræmi við lög þessi, verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Persónuvernd skal einnig hafa eftirlit með því að öryggi upplýsingakerfisins sé tryggt þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að því eða geti haft áhrif á skráningu í það.
    Í 2. mgr. kemur fram að Persónuvernd hefur aðgang að skráðum upplýsingum og öðrum nauðsynlegum gögnum til að sinna eftirliti með upplýsingakerfinu skv. 1. mgr. Er hér um allsherjaraðgang að ræða enda slíkur aðgangur nauðsynlegur svo Persónuvernd geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.
    Nú gerir Persónuvernd athugasemdir við starfrækslu upplýsingakerfisins og skal hún þá koma þeim og fyrirmælum um úrbætur á framfæri við ríkislögreglustjóra og ráðuneytið, sbr. 3. mgr. Telji Persónuvernd meðferð persónuupplýsinga í andstöðu við ákvæði laga þessara getur stofnunin mælt fyrir um að skráningu upplýsinga verði hætt eða sæti skilyrðum. Ríkislögreglustjóra ber að fara að athugasemdum og fyrirmælum Persónuverndar um úrbætur innan þess frests sem Persónuvernd ákveður.

Um 57. gr.

    Í ákvæðinu felst reglugerðarheimild.
    Samkvæmt 1. mgr. er ráðherra skylt að setja reglugerð um framkvæmd skráninga, öryggisþætti upplýsingakerfisins og innra eftirlit á því auk reglugerðar um hæfiskröfur sem starfsmenn þurfa að fullnægja til að starfa við kerfið. Í gildi er reglugerð nr. 112/2001 um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi en hana þarf að uppfæra. Við setningu reglugerðar skal sérstök hliðsjón höfð af ákvæðum 10.–14. gr. reglugerða (ESB) 2018/1861 og (ESB) 2018/1862, 45. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1861 og 60. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1862.
    Samkvæmt 2. mgr. er ráðherra heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, verði frumvarpið óbreytt að lögum, þar með talið skilgreina aðra verðmæta hluti, sbr. 36. gr. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki útskýringa.

Um 58. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.