Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 297  —  180.
mál.Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um viðskiptahætti útgerða í þróunarlöndum.


     1.      Hver er staðan á úttekt Alþjóðamatvælastofnunarinnar (FAO) á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndum, sem ráðherra hafði frumkvæði að og var meðal aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti haustið 2019 til að auka traust á íslensku atvinnulífi?
    Samkomulag hefur náðst við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) um að vinna úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir í þróunarríkjum. Verkefnið mun skiptast í fjóra áfanga og framhaldið mun byggjast á niðurstöðu næsta áfanga á undan. Þannig verður annar áfangi útfærður nánar þegar þeim fyrsta er lokið og svo koll af kolli.
    Fyrsti áfangi af þessum fjórum er kortlagning á þeim fiskveiðisamningum sem um er að ræða. Þetta verður ekki upptalning á slíkum samningum heldur greining á því hvernig slíkir samningar eru: hvað þeir eigi sameiginlegt og hvað sé ólíkt meðal þeirra, með svæðisbundinni áherslu sem tekur tillit til mismunandi aðstæðna og skoðar hver séu helstu efnisatriði slíkra samninga.
    FAO telur að ekki sé til úttekt á þessu og því sé það mikilvæg forsenda fyrir frekara starfi í þessu sambandi að skýra viðfangsefnið frekar með því að skoða mismunandi gerðir og eðli samninga og mismunandi stöðu milli hinna ýmsu svæða heimsins hvað það varðar. Úttekt samkvæmt fyrsta áfanga ætti því að vera til mikilla bóta, ekki bara vegna næstu áfanga í þessu samstarfsverkefni Íslands og FAO heldur ætti það að nýtast öðrum sem vinna að málum tengdum samskiptum þróunarríkja við erlendar útgerðir.
    Samkomulag hefur náðst við FAO um bæði efnisatriði og form verkefnisins. Vegna covid-19, og áhrifa faraldursins á starf FAO og forgangsröðun vinnu innan stofnunarinnar hafa orðið nokkrar tafir á frágangi formsatriða í þessu sambandi og hefur verið reynt að sýna því skilning en jafnframt reynt eftir fremsta megni að þrýsta á hraða afgreiðslu málsins. Ráðuneytið hefur starfað náið með utanríkisráðuneytinu í þessu máli. Vonir standa til að samningur verði undirritaður um miðjan nóvembermánuð.

     2.      Hefur ráðherra fullvissu fyrir því að FAO hafi fjárhagslegt bolmagn til að sinna þessari úttekt? Hefur Ísland lagt fjármagn til þeirrar vinnu?
    Ísland mun fjármagna vinnu FAO við gerð þessarar úttektar, a.m.k. umræddan fyrsta áfanga, í samræmi við samning þar um.

     3.      Af hverju leitaði ráðherra til FAO með slíka úttekt frekar en til fíkniefna- og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC) sem hefur barist gegn spillingu og alvarlegri glæpastarfsemi innan fiskveiðigeirans á heimsvísu?
    FAO er vissulega ekki eina alþjóðastofnunin sem sinnir starfi tengdu þessum málefnum. Varðandi þetta ákveðna verkefni var niðurstaðan sú að FAO væri sú stofnun sem hefði bestu sérfæðiþekkinguna. Jafnframt er stefnt að því að nýta niðurstöður FAO í vinnu á vettvangi annarra alþjóðastofnana. Eins og segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 19. nóvember 2019: „FAO er stærsta alþjóðlega stofnunin sem sinnir reglubundnu starfi hvað varðar aðgerðir til að bæta stjórn fiskveiða og þróun sjávarútvegs á heimsvísu. Á vettvangi stofnunarinnar hafa verið gerðir alþjóðasamningar m.a. til að takast á við ólöglegar veiðar og bæta stjórn og upplýsingagjöf með fiskveiðum. Verkefnið fellur því vel að hlutverki stofnunarinnar.“

     4.      Var Ísland frá upphafi aðili að svokallaðri Kaupmannahafnaryfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 2018 um skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi í fiskiðnaði? Ef ekki, af hverju ekki? Hefur Ísland síðar gerst aðili að yfirlýsingunni? Ef svo er, hvenær og hvers vegna?
    Hvorki allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna né undirstofnanir þess hafa gefið út sérstaka yfirlýsingu um hvernig verjast skuli skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi í fiskiðnaði. Þess skal þó getið að á árunum eftir 2010 hófst vinna innan INTERPOL í þá átt að berjast gegn glæpum sem tengjast fiskveiðum (Interpol International Fisheries Enforcement Crime Conference – Project SCALE). Noregur og fleiri ríki hafa ítrekað síðan árið 2012 borið upp tillögur um að þetta starf verði viðurkennt í árlegri fiskveiðiályktun allsherjarþingsins, en viðræður um efni hennar fara fram árlega í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur stutt þetta og jafnvel gerst meðflytjandi tillögunnar, sem þó hefur ekki náðst samstaða um vegna mótmæla annarra ríkja.
    Með bréfi dags. 4. maí 2018 bauð Per Sandberg, fv. sjávarútvegsráðherra Noregs, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands til þátttöku á ráðstefnu um glæpastarfsemi í fiskveiðum sem nefndist The 4th International Symposium on Fisheries Crime (FishCrime 2018) og fram fór í UN City í Kaupmannahöfn 15. og 16. október sama ár. Ráðstefnan var að verulegu leyti fjármögnuð af fjárlögum nefndar háttsettra norrænna embættismanna á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, EK-FISK, sem Ísland á sæti í. Sú sameiginlega áhersla var í góðu samræmi við að í Álasundi í Noregi, sumarið 2017, undirrituðu norrænu sjávarútvegsráðherrarnir samstarfsyfirlýsingu um baráttu gegn fiskveiðiglæpum. Á ráðstefnunni 2018 var hliðarviðburður á vegum m.a. Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, sem varðaði uppbyggingu tæknilegrar færni í fiskveiðum í smáum eyjaríkjum, en það er samstarfsverkefni sem hófst fyrir tilstuðlan Íslendinga og Færeyinga árið 2014. Tóku Íslendingar því virkan þátt í undirbúningi þessarar ráðstefnu.
    Á ráðstefnunni árið 2018 var ekki aðeins rætt um svonefndar ólögmætar og óskráða veiðar (e. IUU fisheries) heldur einnig afbrot sem tengjast fiskveiðistarfsemi eða fiskiskipum með einum eða öðrum hætti, t.d. þrælahald, fíkniefnasmygl og tollasmygl. Ráðherra var ekki fært að mæta á ráðstefnuna vegna anna við önnur störf, en aðalfulltrúi Íslands á henni var yfirmaður veiðieftirlitssviðs Fiskistofu sem var á sama tíma fulltrúi Íslands í NA-FIG (e. North Atlantic Fisheries Intellegence Group) sem er vinnuhópur um samstarf gegn afbrotum í fiskveiðum. Á ráðstefnunni undirrituðu sjávarútvegsráðherrar níu landa þá yfirlýsingu sem spurt er hér um, en um er að ræða óbindandi yfirlýsingu ráðherra (e. non-legally binding declaration). Þeir ráðherranna sem voru frá Kyrrahafseyjum komu til Íslands í framhaldi þess að ráðstefnunni lauk til að vera m.a. við Hringborð norðursins (Arctic Circle) og bauð sjávarútvegsráðherra þeim til kvöldverðar við það tilefni þar sem rædd voru sameiginleg viðfangsefni.
    Þar sem ráðherra var ekki á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn undirritaði hann ekki yfirlýsinguna. Yfirlýsingin er mjög áþekk samstarfsyfirlýsingu norrænu sjávarútvegsráðherranna frá 2017. Hún byggist, m.a. hvað fiskveiðar snertir, á sömu hugsun og finna má í samningi FAO um hafnríkisaðgerðir, sem Ísland hefur með ýmsum hætti stutt, þar sem horft er til þess að við fiskveiðistjórnun verði upprættur efnahagslegur ábati af ólögmætum fiskveiðum. Í framhaldi af ráðstefnunni hafa nokkur ríki lýst yfir stuðningi við yfirlýsinguna. Meðal þeirra er Ísland sem lýsti formlega yfir stuðningi við hana og gerðist því aðili að henni með ráðherrabréfi til vörsluaðila, dags. 27. nóvember 2019.