Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 311  —  182. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um breytingar á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður vinnu við frumvarp til laga um breytingar á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, sem leggja átti fram innan árs frá gildistöku laganna, sbr. ákvæði til bráðabirgða? Hvenær hyggst ráðherra leggja fram slíkt frumvarp?

    Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, tóku gildi 1. september 2018. Lögin gilda um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Samkvæmt 5. gr. laganna annast Jafnréttisstofa framkvæmd þeirra og skal 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, gilda eftir því sem við getur átt, þar á meðal ákvæði 5.–11. mgr. um dagsektir. Þá er í 6. gr. laganna enn fremur kveðið á um kæruheimild til kærunefndar jafnréttismála og að ákvæði 5.–7. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, gildi í því sambandi eftir því sem við getur átt.
    Við þinglega meðferð frumvarps til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna komu fram sjónarmið í allsherjar- og menntamálanefnd um að víkka mætti gildissvið laganna og bæta við fleiri mismununarástæðum til samræmis við gildissvið laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Var eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða bætt við lögin samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar: „Ráðherra skal innan árs frá gildistöku laga þessara leggja fram á Alþingi frumvarp þar sem kveðið verði á um að lögunum verði breytt þannig að þau gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.“
    Í nefndaráliti með breytingartillögunni er m.a. vísað til þeirrar vinnu sem þá stóð fyrir dyrum og unnin hefur verið síðustu misseri um endurskoðun á jafnréttislöggjöfinni. Afrakstur þeirrar vinnu eru tvö frumvörp sem forsætisráðherra mælti nýverið fyrir á Alþingi, annars vegar frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og hins vegar frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála. Frumvörpin fela í sér mikilvægar umbætur í málaflokki jafnréttismála hér á landi.
    Með tilkomu laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, var Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála falið það hlutverk að fara með jafnréttismál í víðari skilningi en áður hafði tíðkast hér á landi. Þannig ber Jafnréttisstofu og kærunefnd jafnréttismála í störfum sínum ekki eingöngu að fjalla um jafnrétti kynjanna heldur einnig jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, innan sem utan vinnumarkaðar, sem og meginregluna um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Í frumvarpi til laga um stjórnsýslu jafnréttismála eru ekki lagðar til breytingar á þessu hlutverki Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála. Hins vegar er með frumvarpinu lögð til sú grundvallarbreyting að fjallað verði um skipulag stjórnsýslu jafnréttismála í sérlögum en ekki í lögum um jafnrétti kynjanna líkt og nú er gert. Með fyrirkomulaginu er gerð skýrari grein fyrir hlutverki Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála og skipulagi þeirrar stjórnsýslu sem lögð er til að gildi um jafnréttismál á því sviði sem frumvarp til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, taka til. Þá er í 16. gr. frumvarps til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. og 3. tölul. 2. gr., lagt til það nýmæli að vísun í fjölþætta mismunun verði bætt við almennt ákvæði laganna um bann við mismunun. Með fjölþættri mismunun er átt við þegar einstaklingi er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Slík mismunun getur þá annars vegar verið samtvinnuð þannig að tvær eða fleiri mismununarbreytur skapi sérstakan grundvöll mismununar eða hins vegar tvöföld/ margföld þannig að mismununin sé vegna tveggja eða fleiri sjálfstæðra mismununarástæðna.
    Í framangreindri umbótavinnu á sviði jafnréttismála var unnið út frá þeirri meginforsendu að skipta vinnunni upp í áfanga og styrkja fyrst grunnstoðir málaflokksins með þeim breytingum sem boðaðar eru í frumvarpi til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna annars vegar og frumvarpi til laga um stjórnsýslu jafnréttismála hins vegar. Er nú unnið af fullum krafti við þann áfanga vinnunnar er lýtur að endurskoðun laga nr. 85/2018, í samræmi við þær áherslur Alþingis sem fram koma í fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði laganna, og er sú vinna í rökréttu framhaldi af þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin í málaflokki jafnréttismála og lýst er að framan. Ráðgert er að frumvarp til laga um breytingu á lögunum verði birt í samráðsgátt stjórnvalda næsta sumar og lagt fram í lok 151. löggjafarþings.