Ferill 281. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 314  —  281. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skipun starfshóps um merkingu kolefnisspors matvæla.


Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp sem móti tillögur um hvernig tilgreina megi kolefnisspor matvæla. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar Bændasamtakanna, Samtaka verslunar og þjónustu, Neytendasamtakanna, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. september 2021.

Greinargerð.

    Fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þessarar beindi fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á 149. löggjafarþingi um kolefnismerkingar matvæla (þskj. 1100, 599. mál). Þar var spurt hvort ráðherra hefði áform um að vinna frekari vinnu á því sviði, eða hvort vinna væri hafin í ráðuneyti hans. Í svarinu (þskj. 1182) kom fram að starfshópur um merkingar matvæla væri að störfum sem ætti m.a. að skoða þennan þátt. Starfshópurinn skilaði ítarlegri skýrslu 9. september 2020. Í skýrslunni kemur fram í níundu tillögu að mikilvægt sé að halda áfram að hvetja til merkinga og að aðilum tengdum stjórnvöldum verði skylt að merkja vörur með þessum hætti. Einnig kemur fram að áfram þurfi að hvetja til merkinga og skapa jákvæða hvata. Þá er einnig bent á samhengið við áform stjórnvalda um kolefnishlutleysi og hvernig slíkar merkingar geti hjálpað neytendum að taka upplýstar ákvarðanir í samræmi við þau markmið. Af skýrslunni er ljóst að þegar eru til staðar aðferðir til að meta kolefnisspor matvæla, þótt ófullkomnar séu. Slíkar merkingar geta þó verið mikilvægar vísbendingar fyrir neytendur. Mikilvægt er að hið opinbera stígi inn á þetta svið og setji reglur því að annars er hætta á því að upp spretti hinar ýmsu merkingar sem jafnvel gruggi vatnið með grænþvotti. Sérstaklega er þetta mikilvægt vegna þess að aðferðirnar eru ekki fullkomnar og því forsendum háð hvaða niðurstaða gæti verið birt.
    Merkingar eins og þessar geta líka verið mikilvægar fyrir innlenda framleiðslu í samkeppni við innfluttar vörur en oftast má gera ráð fyrir að kolefnisspor matvæla sem hafa verið flutt til landsins um langan veg sé meira en innlendra. Þá geta slíkar merkingar einnig hjálpað neytendum að beina vali sínu í „kolefnisvænni“ átt og smátt og smátt hjálpað fólki að hafa stjórn á neyslu sinni í þessu tilliti.
    Þegar er hafin vinna innan Bændasamtakanna í þá átt að gera landbúnaðarframleiðslu eða hluta hennar kolefnishlutlausa. Þessi vinna er mörkuð í nýlegum búvörusamningum við kúabændur, sauðfjárbændur og garðyrkjubændur. Breyting eins og þessi gæti stutt þá vegferð og jafnvel gefið innlendri landbúnaðarframleiðslu forskot í samkeppni. Þá er einnig mikilvægt fyrir Ísland sem ferðamannaland að sýna með áþreifanlegum hætti að þetta verkefni, eins og önnur sem snúa að loftslagsmarkmiðum, sé tekið alvarlega. Það er næsta víst að á næstu árum og áratugum verði lögð meiri áhersla á að minnka kolefnisspor matvæla. Dragi ekki úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu matvæla samfara neyslu sem hefur aukist hröðum skrefum á heimsvísu er ógjörningur að ná markmiðum Parísarsáttmálans um að takmarka hlýnun við 1,5–2°C. Fjölþættra aðgerða er þörf til að ná árangri og val neytenda skiptir nokkru máli í þessum efnum.
    Málið er lagt fram sem þingsályktunartillaga þar sem ætla má að nokkra vinnu þurfi til að finna út með hvaða hætti er best að haga slíkum merkingum. Þær gætu t.d. verið í formi einkunnagjafar, stigagjafar eða litakóða. Aðalatriðið er að merkingar verði með þeim hætti að neytandinn geti í sjónhendingu áttað sig á kolefnisspori vöru og þannig hjálpað til við að taka upplýsta ákvörðun í innkaupum. Frumvarp um efnið yrði unnið í samvinnu við matvælaframleiðendur, söluaðila og innflytjendur auk fulltrúa neytenda.
    Með samþykkt tillögunnar yrði stigið mikilvægt skref í þá átt að styðja við loftslagsmarkmið stjórnvalda um leið og íslenskir neytendur, framleiðendur og söluaðilar fengju í hendur tæki til að taka þátt í að ná þeim markmiðum.