Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 349  —  313. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um skipagjald.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


1. gr.
Fjárhæð og álagning.

    Eigandi skips skal greiða árlega í ríkissjóð skipagjald af hverju skipi sem skráð er á aðalskipaskrá eins og hér segir:
Skráningarlengd skips Árlegt gjald (í kr.)
< 8 metrar 10.940
8–15 metrar 19.600
15–24 metrar 43.750
24–45 metrar 86.800
45–60 metrar 143.300
> 60 metrar 189.700
    Samgöngustofa fer með álagningu skipagjalds.
    Gjöldin skulu miðuð við skráningu 1. janúar ár hvert og er gjalddagi 1. apríl og eindagi 15. maí ár hvert. Við eigendaskipti ber fyrri eigandi ábyrgð á gjaldinu þar til umskráning hefur farið fram.
    Við afskráningu skips skal endurgreiða eða fella niður skipagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af yfirstandandi gjaldtímabili.

2. gr.
Lögveð.

    Gjöldum samkvæmt lögum þessum fylgir lögveð í skipi í tvö ár frá því er gjald var kræft.

3. gr.
Umsjón innheimtu.

    Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu skipagjalds. Innheimtumenn skulu skila gjöldum sem þeir innheimta skv. 1. gr. í ríkissjóð. Heimilt er að senda eiganda skips tilkynningu um álagningu skipagjalds rafrænt.

4. gr.
Kæruheimild.

    Greiðanda skipagjalds er heimilt að skjóta álagningu skipagjalds til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

5. gr.
Dráttarvextir.

    Hafi skipagjald ekki verið greitt á eindaga skal greiða dráttarvexti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.

6. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið, Skattinn, Fjársýsluna og Samgöngustofu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Skipagjald er skattur sem lagður er á eigendur skipa árlega skv. 28. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Í frumvarpi til skipalaga sem lagt hefur verið fram á Alþingi, sbr. 208. mál, þskj. 209, er ekki ákvæði um skipagjald. Í greinargerð með því frumvarpi segir að talið hafi verið við samningu frumvarpsins að ákvæði um skipagjald eigi betur heima í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
    Lagt er til í frumvarpi þessu að ákvæði um skipagjald verði í nýjum lögum um skipagjald. Ekki er talið að ákvæði um skipagjald eigi heima í lögum um aukatekjur ríkissjóðs þar sem skipagjald er eðlisólíkt þeim gjöldum sem kveðið er á um í þeim lögum og ber þannig til að mynda dráttarvexti sé gjaldið ekki greitt á gjalddaga líkt og aðrir skattar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Kveðið er á um fjárhæð skipagjalds eftir stærðarflokkum skipa og umsjón með álagningu, sem verður í höndum Samgöngustofu eins og áður hefur verið enda heldur stofnunin utan um aðalskipaskrá.
    Nokkrar efnisbreytingar er að finna um skipagjald í frumvarpi þessu frá 28. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Þannig er lagt til að eindagi verði ekki sá sami og gjalddagi heldur 15. maí og að dráttarvextir reiknist frá gjalddaga en ekki degi eftir gjalddaga. Þá er horfið frá ákvæði um haldlagningarrétt Samgöngustofu á haffærisskírteinum, sbr. 5. mgr. 28. gr. laganna, þar sem ljóst þykir að heimildinni hafi aldrei verið beitt í reynd. Einnig er kveðið á um að lögveð vegna vangoldins gjalds skuli vara í tvö ár í stað eins árs en innheimtumenn telja eitt ár allt of skamman tíma til að ljúka innheimtu. Þá er jafnframt skýrt kveðið á um hver annast álagningu gjaldsins, innheimtu þess og kæruleið gjaldanda.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt sérstaklega við undirbúning frumvarpsins að orðalag væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Við vinnslu þess var haft samráð við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Skattinn, Fjársýsluna og Samgöngustofu. Áform um efni frumvarpsins voru kynnt sem hluti af öðru frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 6.–13. október sl. (mál nr. S-211/2020). Ein umsögn barst frá Samtökum atvinnulífsins sem varðaði ekki efni þessa frumvarps. Efni frumvarpsins var kynnt almenningi sem hluti af öðru frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda dagana 29. október til 10. nóvember (mál nr. S-231/2020). Þrjár umsagnir bárust en ekki þótti tilefni til breytinga á frumvarpi þessu þeirra vegna.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið mun ekki hafa áhrif til breytinga á stjórnsýslu ríkisins eða hagsmunaaðila, þ.e. gjaldendur skipagjalds. Þó mun lenging á lögveði úr einu ári í tvö ár, vegna vangoldins skipagjalds, hafa áhrif í þá veru að auka líkur á árangursríkari innheimtu gjaldsins.
    Frumvarpið mun ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum. Um er að ræða nauðsynlegar leiðréttingar og aðrar breytingar sem munu leiða til þess að viðkomandi löggjöf á sviði skattamála verði skýrari.