Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 361  —  321. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um Tækniþróunarsjóð.

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.1. gr.
Hlutverk.

    Tækniþróunarsjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir ráðherra. Fagleg umsýsla Tækniþróunarsjóðs skal falin óháðum aðila samkvæmt samningi.
    Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Tækniþróunarsjóði er heimilt að fjármagna nýsköpunarverkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs með því að:
     a.      styrkja tækniþróun og tengdar rannsóknir í þágu nýsköpunar atvinnulífsins, m.a. í samstarfi við stofnanir, háskóla, fyrirtæki og erlenda sjóði,
     b.      styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar,
     c.      fjármagna átaksverkefni og markáætlanir á einstökum tæknisviðum til að treysta tæknilegar undirstöður atvinnuvega, einstakar greinar þeirra eða þvert á greinaskiptingu þeirra,
     d.      styrkja lítil verkefni á vegum einstaklinga og smáfyrirtækja sem eru líkleg til að verða atvinnu- og tekjuskapandi og arðbær þrátt fyrir áhættu í upphafi,
     e.      greiða kostnað við greiningu á stöðu nýsköpunar og gerð áætlana til styrktar henni.

2. gr.
Tekjur.

    Tekjur Tækniþróunarsjóðs eru:
     a.      fjárveitingar í fjárlögum,
     b.      tekjur af sölu hlutdeildar í sprotafyrirtækjum sem sjóðurinn hefur eignast aðild að,
     c.      framlög frá innlendum og erlendum samstarfsaðilum,
     d.      önnur framlög.

3. gr.
Stjórn.

    Í stjórn Tækniþróunarsjóðs sitja sex menn sem ráðherra skipar til tveggja ára, þ.m.t. formaður og varaformaður. Stjórnarmönnum er einungis heimilt að sitja tvö tímabil í senn. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn samkvæmt tilnefningu tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, einn sem tilnefndur er af ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins og ráðherra skipar einn án tilnefningar.
    Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Ráðherra velur formann og varaformann sjóðstjórnar úr hópi stjórnarmanna.

4. gr.
Hlutverk stjórnar og fagráða.

    Stjórn Tækniþróunarsjóðs ákveður áherslur sjóðsins samkvæmt skilgreindu hlutverki hans, sbr. 1. gr. Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr sjóðnum að fengnum umsögnum fagráða sem tækninefnd Vísinda- og tækniráðs skipar til tveggja ára í senn. Fagráðin eru ráðgefandi um fagleg málefni við úthlutanir úr Tækniþróunarsjóði. Jafnframt eru fagráðin ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess eftir því sem óskað er.
    Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins geta veitt ef þurfa þykir. Þeir sem skipaðir eru í fagráð skulu hafa víðtæka reynslu af tækniþróun og nýsköpun. Þeir skulu hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né í stjórn Tækniþróunarsjóðs.
    Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Tækniþróunarsjóðs og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
    Kostnaður við mat á umsóknum og rekstur sjóðsins skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé hans.
    Ákvarðanir sem teknar eru um að veita styrki úr Tækniþróunarsjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

5. gr.
Úthlutunarreglur.

    Úthlutunarstefna Tækniþróunarsjóðs skal fylgja áherslum Vísinda- og tækniráðs. Stjórn Tækniþróunarsjóðs setur reglur um umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð. Þar skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.

6. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra getur með reglugerð mælt nánar fyrir um starfsemi og rekstur Tækniþróunarsjóðs og framkvæmd laga þessara.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti áform um endurskipulagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í febrúar 2020. Sú endurskipulagning felst í því að áformað er að fella brott lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, leggja stofnunina niður og finna verkefnum hennar annan farveg.
    II. kafli fyrrgreindra laga fjallar um sjóðinn og þar sem nauðsynlegt er að Tækniþróunarsjóður starfi á grundvelli laga er hér lagt fram frumvarp að nýjum sérlögum um Tækniþróunarsjóð.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Samkeppnissjóðir á sviði nýsköpunar hafa verið efldir á síðustu árum. Þar ber hæst Tækniþróunarsjóður en framlög í sjóðinn meira en tvöfölduðust á árunum 2014–2016 og nýir styrkflokkar bættust við, þar á meðal flokkur undir heitinu Fræ sem hefur það markmið að styðja við hugmyndir og verkefni á frumstigi. Í apríl 2020 var samþykkt 700 millj. kr. aukafjármögnun fyrir Tækniþróunarsjóð sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19-faraldursins og í takt við stefnu Vísinda- og tækniráðs er gert ráð fyrir 50% aukningu framlaga í sjóðinn á árinu 2021. Tækniþróunarsjóður byggir úthlutunarreglur sínar fyrst og fremst á gæðum umsókna, óháð því hvaðan þær koma. Samfara auknum framlögum í sjóðinn á undanförnum árum hefur umfang sjóðsins einnig stækkað og umsóknum fjölgað. Árið 2019 var árangurshlutfall umsókna í Tækniþróunarsjóð 12% en árið 2020 hafa 15% umsókna fengið styrk og munar þar mestu um fjölgun styrkja í styrkflokknum Fræ.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja að um Tækniþróunarsjóð sé kveðið í lögum og þannig tryggð samfella í starfsemi hans í ljósi áforma um brottfall þeirra laga sem kveða á um starfsemi hans. Mögulegt hefði verið að halda kafla um Tækniþróunarsjóð eftir í lögum nr. 75/2007 og fella önnur ákvæði þeirra brott, en skýrara þótti að setja sérlög um sjóðinn.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðum II. kafla laga nr. 75/2007 að undanskilinni viðbót í ákvæði a-liðar 2. mgr. 1. gr. Þar er skýrlega tekið fram að Tækniþróunarsjóði sé heimilt að styrkja rannsóknir og tækniþróun í samstarfi við erlenda sjóði einnig en í a-lið 2. mgr. 10. gr. laganna á það einungis við um tilteknar stofnanir, háskóla og fyrirtæki sem samstarfsaðila.
    Aðaltilgangur frumvarpsins er að flytja ákvæði um sjóðinn í sérlöggjöf svo að tryggður sé lagagrundvöllur fyrir starfsemi hans.
    Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun þar sem lög nr. 75/2007 eru felld brott. Í frumvarpi því er kveðið á um starfsemi Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins og framtíðarfyrirkomulag byggingar- og mannvirkjarannsókna. Stjórnvöld leggja mikla áherslu á mikilvægi þess að viðhalda öflugum rannsóknum og tækniþróun á sviði mannvirkjagerðar og byggingariðnaðar. Stofnaður verður sérstakur rannsóknarsjóður af hálfu félags- og barnamálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem vistaður verður hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Sjóðurinn skal sinna því hlutverki að styrkja þjóðhagslega mikilvægar rannsóknir í byggingariðnaði. Upphaflega var gert ráð fyrir slíkum sjóði sem hluta af Tækniþróunarsjóði og þar af leiðandi sem hluta af frumvarpi þessu en þau áform tóku breytingum eftir að frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var samráð haft við félagsmálaráðuneytið, stjórn Tækniþróunarsjóðs og Rannís sem annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs. Verði frumvarpið samþykkt mun sjóðurinn fá nýja lagastoð í sérlögum. Nauðsynlegt verður því að uppfæra hinar ýmsu upplýsingar um starfsemi sjóðsins.
    Samráð vegna frumvarps þessa tengist að öðru leyti endurskipulagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eins og fram kemur í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggur fram samhliða frumvarpi þessu. Umfjöllun um samráðið má lesa í nefndu frumvarpi.
    Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-201/2020) á tímabilinu 28. september til 9. október sl. en ekki gafst færi á að birta áformaskjöl um frumvarp þetta í samráðsgátt eins og samþykkt ríkisstjórnar gerir ráð fyrir. Í samráðsgáttina bárust átta umsagnir, frá Landsvirkjun, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Arkitektafélagi Íslands, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Samorku og sameiginleg umsögn frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins sem og ein umsögn frá einstaklingi.
    Eins og fjallað hefur verið um í 3. kafla tók frumvarp þetta breytingum frá birtingu þess í samráðsgátt en fellt hefur verið brott ákvæði til bráðabirgða um sérstakan styrkjaflokk byggingarrannsókna og sérstakt fagráð um byggingarannsóknir. Í staðinn er ráðgert að sérstakur sjóður verði settur á fót í samstarfi ráðuneytanna tveggja og að hann verði vistaður og honum stýrt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Umsagnir um frumvarpið fjalla, eðli máls samkvæmt, um slíkan sérstakan styrkjaflokk byggingarrannsókna sem síðan var ákveðið að hafa ekki í frumvarpinu.
    Landsvirkjun fagnaði frumvarpinu og þeirri viðbót sem lítur að því að heimilt verði sjóðnum að styrkja tækniþróun og rannsóknir í samstarfi við erlenda sjóði til viðbótar við þá aðila sem áður voru taldir upp, þ.e. stofnanir, háskóla og fyrirtæki. Samstarf við erlenda sjóði geti gefið verkefnum slagkraft og stuðlað að aukinni verðmætasköpun á breiðum grunni.
Samtök verslunar og þjónustu telja að þörf sé á endurskoðun og útvíkkun á hlutverki og verksviði Tækniþróunarsjóðs ásamt því að samtökin telja að finna þurfi sjóðnum nýtt nafn sem endurspegli betur breiðari stuðning við nýsköpun en stuðning sem aðeins beinst að tækniþróun. Það er mat samtakanna að nýsköpun eigi sér ekki eingöngu stað á sviði tækniþróunar heldur einnig á fjölmörgum öðrum sviðum, svo sem á sviði viðskipta og á sviði menntunar og skapandi greina.
    Samtök ferðaþjónustunnar benda á tækniþróun sem orðið hefur í íslenskri ferðaþjónustu á síðastliðnum áratug, svo sem með bókunar-, sölu- og flotastýringarkerfum sem byggjast að stóru leyti á íslensku hugviti. Samtökin benda jafnframt á að hlutur ferðaþjónustunnar í úthlutunum, stjórn og fagráðum innan Tækniþróunarsjóðs sé í engu samhengi við stærð atvinnugreinarinnar á landsvísu. Samtökin telja því að stjórn sjóðsins ætti að vera skipuð miðað við hlutfallslega stærð atvinnugreina á landsvísu og að horft verði til vaxandi atvinnugreina bæði þegar kemur að skipun í stjórn og fagráð.
    Arkitektafélag Íslands fagnar áformum um sérstakan samkeppnissjóð um byggingar- og mannvirkjarannsóknir en bendir á að niðurstöður rannsóknanna þurfi að vera aðgengilegar og þeim þurfi að miðla. Félagið telur að til staðar þurfi að vera miðlægur staður til að tryggja að rannsóknir séu samfelldar, aðgengilegar og til að styðja undir það mikilvæga markmið að búa til betri byggingar. Þá telur félagið að samráð um frumvarpið hafi mátt ná til breiðari hóps fagaðila.
    Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hvetur til þess að svið hönnunar og arkitektúrs falli undir skilgreiningar Tækniþróunarsjóðs á nýsköpun í íslensku atvinnulífi og að Miðstöðin fái rödd í vísinda- og tækninefnd með því að fá fulltrúa í tækninefnd og vísindanefnd enda sé þverfagleg nálgun lykill að þróun og árangri í þessum efnum. Þá fagnar Miðstöðin áformum um sérstakan samkeppnissjóð um byggingar- og mannvirkjarannsóknir en tekur undir áhyggjur Arkitektafélagsins af miðlun rannsóknarniðurstaðna og þörf á miðlægum stað til að tryggja að rannsóknir séu samfelldar og aðgengilegar. Jafnframt gagnrýnir Miðstöðin að samráð um frumvarpið hafi ekki ná til breiðari hóps fagaðila.
    Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins fagna aukinni áherslu á nýsköpun í byggingariðnaði og samkeppnissjóði um rannsóknir í byggingariðnaði en benda á að atvinnulífið sé best til þess fallið að koma auga á og meta samfélagslegar áskoranir í byggingariðnaði hverju sinni. Því telji Samtök iðnaðarins mikilvægt að samtökin eigi fulltrúa í fagráði því sem setja átti upp á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í frumvarpi þessu en horfið var frá.
    Samorka fagnar stofnun samkeppnissjóðs um rannsóknir í byggingariðnaði og minnir á það mikilvæga hlutverk sem endurnýjanleg húshitun gegnir í að takmarka kolefnisfótspor vegna mannvirkja á Íslandi. Það er því mat Samorku að við úthlutanir úr sjóðnum verði mögulegt að sækja um styrki sem snúa að þessum þætti. Samtökin benda á að nú standi yfir 3. orkuskiptin á Íslandi sem fela í sér að skipta út jarðefnaeldsneyti, m.a. í byggingariðnaði, fyrir endurnýjanlega orkugjafa. Hluti kolefnisfótspors mannvirkja komi til vegna notkunar jarðefnaeldsneytis við byggingaframkvæmdir og því sé mikilvægt að horft sé til þeirra þróunar við úthlutanir úr sjóðnum. Jafnframt hvetur Samorka til þess að fagráð um byggingarannsóknir, sem var að finna í ákvæði til bráðabirgða, verði skipað sérfræðingum sem hafa innsýn í tengsl orku- og veitustarfsemi við samfélagslegar áskoranir í byggingariðnaði.
    Þá sendu Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna umsögn um frumvarpið. Þar kemur fram gagnrýni á heimild sjóðsins til þess að styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar, bent er á að mikilvægt sé að mótaður verði sérstakur sjóður með sérstaka fjárveitingu og sérstaka stjórn um stuðning við frumkvöðlaverkefni á byrjunarstigi ásamt því að gagnrýnt er fyrirkomulag á vali stjórnar Tækniþróunarsjóðs og skipun Vísinda- og tækniráðs í fagráða. Jafnframt er ákvæði til bráðabirgða um samkeppnissjóð um byggingarrannsóknir gagnrýnt og lagt til að um slíkan sjóð verði sett sérstök lög.
    Hvað varðar athugasemdir við afmörkun hlutverks Tækniþróunarsjóðs, skipan stjórnar og fagráða skal bent á að í tengslum við endurskoðun á lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs verður einnig hugað að framtíðarskipulagi samkeppnissjóðsins sem og metin þörf á breytingum á hlutverki, skipulagi og aðkomu aðila að stjórn Tækniþróunarsjóðs. Þá hefur umræða um heiti sjóðsins einnig komið upp reglulega og mun áfram verða unnið að því í framtíðarstefnumótun að finna sjóðnum víðtækara heiti.
    Ábendingar um tengsl orku og mannvirkjamála voru teknar til greina ásamt öðrum ábendingum.
    Þá voru athugasemdir vegna samkeppnissjóðs um byggingarrannsóknir teknar til greina og bráðabirgðaákvæði um sérstakan styrkjaflokk byggingarannsókna tekið úr frumvarpinu. Samkeppnissjóður um byggingarrannsóknir verður settur á fót á grundvelli laga um mannvirki, nr. 160/2010, og verður hann í vörslu og umsýslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en fjármagnaður sameiginlega af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu. Með þessari breytingu er stefnt að því að tryggja miðlun niðurstaðna úr rannsóknum og tengsl sjóðsins við stjórnsýslu byggingarmála. Um samkeppnissjóðinn er nánar fjallað í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið varðar helst Tækniþróunarsjóð og Rannís sem fer með umsýslu sjóðsins. Þar sem frumvarpið felur ekki í sér miklar efnislegar breytingar mun það ekki hafa veruleg áhrif á umsækjendur eða styrkþega.
    Þar sem í frumvarpinu felast ekki nýjar efnisreglur um Tækniþróunarsjóð hefur það ekki áhrif á áætlaðar fjárheimildir.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um hlutverk Tækniþróunarsjóðs.
    Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að fela óháðum aðila faglega umsýslu sjóðsins á grundvelli samnings. Varsla sjóðsins, umsýsla og rekstur er í nú hjá Rannís.
    Hlutverk sjóðsins er að drífa áfram þær aðgerðir sem leiða af markmiðum frumvarps þessa. Hann kemur að þróunar-, rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum í samræmi við þá meginstefnu sem mótuð er á vegum Vísinda- og tækniráðs.
    Í fyrsta lagi er Tækniþróunarsjóði ætlað að taka þátt í fjármögnun tækniþróunar og nýsköpunarverkefna sem byggjast á nýrri þekkingu. Vísindaleg þekking sem til verður í háskólum og stofnunum nær oft og tíðum ekki að verða að söluhæfum afurðum eða þjónustu vegna þess að ekki er til farvegur til að fjármagna lokarannsóknir og tækniþróun þeirra.
    Í öðru lagi mun sjóðurinn hafa kost á að styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og þannig eignast aðild að fyrirtækjum á frumstigi nýsköpunar. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn geti komið að fjármögnun sprotafyrirtækja á grundvelli álitlegra viðskiptahugmynda. Margar góðar hugmyndir ná ekki þroska vegna vanmáttar frumkvöðla til að kosta gerð viðskiptaáætlana og fjármagna aðra nauðsynlega frumvinnu.
    Í þriðja lagi er mikilvægt að unnt sé að fjármagna sérstök átaksverkefni. Þetta geta verið verkefni er tengjast aukinni framleiðni fyrirtækja, umhverfisstjórnun fyrirtækja eða endurbótum á innri gerð þeirra og geta einnig tengst samfélagslega mikilvægum verkefnum.
Í fjórða lagi verður unnt að styrkja lítil verkefni einstaklinga og smáfyrirtækja sem eru líkleg til að vera atvinnu- og tekjuskapandi. Komið hefur í ljós að veruleg þörf er á því að styðja við slík verkefni sem mörg hver eru tengd landsbyggðinni.
    Í fimmta lagi er heimild fyrir kostun greininga á stöðu nýsköpunar og gerð áætlana til að styrkja hana. Hér er um að ræða grunnvinnu sem skapar forsendur fyrir stöðugum endurbótum á starfsemi sjóðsins og getur gefið mikilvægar upplýsingar um árangur af stefnumótun stjórnvalda í nýsköpun.

Um 2. gr.

    Til að standa undir þeim verkefnum og rekstri sjóðsins er gert ráð fyrir að Tækniþróunarsjóður njóti árlegra fjárveitinga úr ríkissjóði. Slíkar fjárveitingar verða, eðli máls samkvæmt, í samræmi við áherslur Vísinda- og tækniráðs hverju sinni. Gert er ráð fyrir að einnig geti orðið til tekjur vegna sölu eignarhluta í sprotafyrirtækjum sem stutt var við bakið á þegar þau voru á mótunarstigi. Þá er reiknað með að Tækniþróunarsjóður geti tekið þátt í innlendum og erlendum samstarfsverkefnum sem gætu notið fjármögnunar frá samstarfsaðilum, t.d. erlendum.

Um 3. gr.

    Uppbygging stjórnar sjóðsins verður í grundvallaratriðum þannig að hún hafi sterk tengsl við nánasta faglega umhverfi sitt og hafi þekkingarlega breidd, sbr. 12. gr. laga nr. 75/2007 þar sem kveðið er á um stjórn sjóðsins.
    Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er fjallað um hlutverk stjórnar og fagráða Tækniþróunarsjóðs.
    Í meginatriðum tekur sex manna stjórn Tækniþróunarsjóðs ákvarðanir um fjárveitingar úr sjóðnum en áður hafa umsóknir verið metnar af fagráðum sem veita umsagnir um þær. Gert er ráð fyrir að tækninefnd Vísinda- og tækniráðs skipi fagráð, eitt eða fleiri, til tveggja ára í senn og setji því erindisbréf. Mikilvægt er að leggja áherslu á að fagráðin eru aðeins ráðgefandi um fagleg málefni við úthlutanir úr sjóðnum en ákvarðanir þar að lútandi eru alfarið hjá stjórninni. Þar sem Tækniþróunarsjóður fjármagnar fyrst og fremst verkefni sem tengjast hagnýtingu og standa nærri markaði þarf að gæta sérstaklega að þessum viðmiðum í fagráðunum. Kveðið er á um að þeir sem skipaðir eru í fagráð skuli hafa víðtæka reynslu af tækniþróun og nýsköpun. Til þess að tryggja hlutleysi skulu þeir hvorki sitja í ráðinu né í stjórn sjóðsins.
    Ákvarðanir stjórnar Tækniþróunarsjóðs eru endanlegar og verður þeim ekki áfrýjað til ráðherra.

Um 5. gr.

    Áherslur Vísinda- og tækniráðs marka alla þætti þessa frumvarps og gildir það einnig um úthlutunarstefnu Tækniþróunarsjóðs. Stjórn sjóðsins setur aftur á móti reglur um umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð og annað er lýtur að umsýslu sjóðsins.

Um 6. og 7. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.