Ferill 215. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 363  —  215. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um endursendingu flóttafólks til Grikklands.


     1.      Hve margir einstaklingar, sem þegar höfðu hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi, hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi það sem af er þessu ári?
    Af 596 umsækjendum um alþjóðlega vernd á fyrstu 10 mánuðum ársins 2020 eru 293 einstaklingar skráðir með vernd í öðru ríki, þar af 221 með vernd í Grikklandi.

     2.      Hve margir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa verið endursendir til Grikklands frá Íslandi á þessu ári vegna þess að þeim hafði verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi?
    Sex umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem var synjað um efnislega meðferð á grundvelli þess að hafa þegar hlotið vernd í Grikklandi, hafa snúið aftur til Grikklands það sem af er þessu ári. Tveir voru fluttir í fylgd stoðdeildar ríkislögreglustjóra, fjórir fóru sjálfviljugir. Allir fóru á fyrstu tveimur mánuðum ársins.

     3.      Hve mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur Útlendingastofnun synjað um efnismeðferð umsókna á þessu ári, með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, vegna þess að þeir höfðu þegar hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi?
    Á fyrstu 10 mánuðum ársins synjaði Útlendingastofnun 46 umsækjendum um alþjóðlega vernd um efnislega meðferð umsókna vegna þess að þeir höfðu þegar hlotið alþjóðlega vernd, þar af höfðu 34 hlotið vernd í Grikklandi.
    Í 26 tilvikum af 34 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar afturkallaðar vegna breytts mats í kjölfar COVID-19-faraldurs og umsóknirnar teknar til efnislegrar meðferðar, ein umsókn var þar að auki send til efnislegrar meðferðar af kærunefnd útlendingamála. Fimm umsóknir eru í kæruferli og tveir umsækjendur hafa yfirgefið landið.

     4.      Hyggst ríkisstjórnin halda áfram að endursenda flóttafólk, sem hlotið hefur alþjóðlega vernd í Grikklandi, aftur til Grikklands þrátt fyrir ástandið þar, sem m.a. var tilefni þess að ríkisstjórnin ákvað nýlega að taka á móti 15 flóttamönnum þaðan?
    Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn laga um útlendinga, nr. 80/2016, og hefur almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir yfir Útlendingastofnun. Þrátt fyrir það gera gildandi lög hvorki ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið gefi stofnuninni né kærunefnd útlendingamála almenn tilmæli eða sérstök fyrirmæli um úrlausn einstakra mála. Þá er það ekki ráðuneytisins að meta hvort aðstæður í einstökum ríkjum séu slíkar að óforsvaranlegt sé að vísa fólki þangað. Það mat er í höndum fyrrgreindra stjórnvalda sem annast framkvæmd laganna og er ávallt reist á nýjustu landaupplýsingum sem liggja fyrir um aðstæður í viðtökuríki, svo sem skýrslum alþjóðlegra samtaka, frjálsra félagasamtaka og annarra ríkja. Í framkvæmd hafa Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, sem og systurstofnanir þeirra í öðrum Evrópuríkjum, ekki talið að aðstæður flóttafólks í Grikklandi, þ.e. þeirra sem hafa fengið viðurkennda stöðu sína sem flóttamenn þar í landi, séu þannig að þær samrýmist skilgreiningu á ofsóknum í skilningi flóttamannahugtaksins eða jafnist á við ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu. Áréttað er að flóttamannakerfið er neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi, og er ekki hugsað fyrir þá sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki.

     5.      Er tekið tillit til þess hvort karlar sem eru einir á ferð hér á landi eigi fjölskyldu sem dvelst við slæmar aðstæður í Grikklandi þegar ákvörðun er tekin um hvort endursenda á þá til Grikklands?
    Allir umsækjendur um vernd mæta í viðtal hjá Útlendingstofnun þar sem þeir eru spurðir út í nánustu fjölskyldu, hvar hún sé stödd og hvort umsækjandi telji hana örugga. Eru þessar upplýsingar m.a. hafðar til hliðsjónar óski umsækjandi eftir fjölskyldusameiningu eftir að hafa hlotið alþjóðlega vernd. Við ákvarðanatöku er byggt á viðtali við umsækjanda auk fleiri gagna og heimilda um aðstæður hans. Komi umsækjandi einn til landsins er umsókn hans skoðuð á þeim grundvelli og ekki fjallað sérstaklega um aðstæður maka og/eða barna enda þurfa þau að vera stödd á landinu til að sækja um vernd, sbr. 24. gr. laga um útlendinga.
    Handhafar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi hafa 90 daga ferðafrelsi innan Schengen-
svæðisins. Fjölskylda umsækjanda sem hefur þegar hlotið vernd á Grikklandi hefur því sömu möguleika og umsækjandi á því að sækja um vernd í öðrum löndum innan svæðisins.