Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 374  —  202. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016.

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Annar minni hluti styður framgöngu málsins en getur ekki fallist á að beðið sé með hækkun endurgreiðsluhlutfalls.
    Annar minni hluti bendir í þessu samhengi á að tónlistariðnaðinn má telja falla undir nýsköpunar- og sprotageirann sem mikilvægt er að ýta undir um þessar mundir en öflugir sprotar geta skapað atvinnutækifæri, tekjur og verðmæti fyrir þjóðarbúið. Í þessum efnum skiptir einnig miklu að vera í lifandi sambandi við erlenda aðila á sviði tónlistarflutnings og hljóðritunar. Tónlistin er vaxtarsproti sem þegar hefur sýnt kraft og mátt til vaxtar. 2. minni hluti telur ástæðu til að nýta þetta tækifæri til að ýta undir tónlistarflutning og hljóðritun, enda séu lágar fjárhæðir undir af hálfu ríkissjóðs í málinu líkt og komið hefur fram.
    Annar minni hluti telur því mikilvægt að komið sé enn frekar til móts við vaxandi atvinnugrein í færum til að skapa verðmæti og vel launuð störf en þar geti hækkun endurgreiðsluhlutfalls úr 25% í 35% skipt miklu.
    Að framangreindu virtu leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögu sem lögð er til á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 16. nóvember 2020.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Sigurður Páll Jónsson.