Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 413  —  252. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um fjölda innlagna á Landspítala vegna valaðgerða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margir einstaklingar lögðust inn á Landspítala árið 2019 og það sem af er ári 2020 vegna valaðgerða á einkareknum stofum:
     a.      vegna mjaðmaaðgerða,
     b.      vegna hnéaðgerða,
     c.      vegna aðgerða á öxl,
     d.      vegna annarra tiltekinna valaðgerða?


    Í fyrirspurninni er spurt um fjölda innlagna. Því miður reyndist illmögulegt að ná fram þeim gögnum þar sem skráning í sjúkraskrárkerfi er ekki afmörkuð skýrt við annaðhvort innlagnir eða komur sem tengjast fylgikvillum aðgerða/inngripa á stofum. Sjúklingar geta leitað á bráðamóttöku, legið á svokallaðri skammverueiningu eða legudeildum vegna sýkinga, verkja eða liðhlaupa í kjölfar aðgerða án þess að það sé skráð sérstaklega hvaðan þeir koma.
    Vegna þessa vanda við að svara fyrirspurninni var farin sú leið að reyna að meta fjölda skurðaðgerða sem tengjast fylgikvillum aðgerða á stofum sem og á öðrum heilbrigðisstofnunum, innan lands sem og erlendis. Með tilliti til þess að hér er spurt sérstaklega um aðgerðir sem eru innan sérgreinar bæklunarlækninga var öll skráning innan þeirrar sérgreinar sl. tvö ár einnig skoðuð. Það skal engu að síður ítrekað að hér er einvörðungu um að ræða þau sem þurftu á aðgerð að halda en ekki þau sem fengu aðra meðferð, t.d. sýklalyfjameðferð. Eftirfarandi tafla sýnir því einungis bæklunaraðgerðir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mikilvægt er að geta þess að sjúklingur með sýktan gervilið getur þurft á allt að sex vikna innlögn að halda og oft tveimur eða fleiri skurðaðgerðum. Liðsýkingar eftir speglanir þurfa einnig langa innlögn og stundum eina til tvær skurðaðgerðir. Hér er því oft um flókna og langa meðferð að ræða. Í vissum tilvikum fær sjúklingur einungis lyfjameðferð sem, eins og að framan greinir, getur tekið margar vikur. Slíkar innlagnir eru ekki hluti af þessum tölum. Aðrar mögulegar aðgerðir en bæklunaraðgerðir eru heldur ekki hluti af tölunum.
    Nýlega var reynt að meta álag af skurðaðgerðum á Landspítala í kjölfar aðgerða sem framkvæmdar eru á sjálfstætt reknum stofum og/eða á öðrum heilbrigðisstofnunum. Var fengið mat yfirlækna helstu sérgreina skurðlækninga en einnig var reynt að meta umfangið eftir tiltekinni leit í skráningu í sjúkraskrá. Báðar aðferðir skiluðu nokkuð álíka niðurstöðu. Þar kom fram að gera megi ráð fyrir allt að 100 aðgerðum á Landspítala á ári vegna fylgikvilla aðgerða á stofu eða á annarri heilbrigðisstofnun og um það bil fimm legum á gjörgæsludeild. Í þeim tilvikum er um afar veika einstaklinga að ræða sem oftar en ekki þurfa margra vikna legu á Landspítala. Ekki var unnt að meta fjölda koma á bráðamóttöku í Fossvogi en þar má búast við þreföldum þessum fjölda í það minnsta.